Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

SKÓLA- OG FRÍSTUNDARÁÐ

Ár 2012, 7. mars, var haldinn 12. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn var haldinn í Hofi, Höfðatorgi í Reykjavík og hófst kl. 10.13. Fundinn sátu Oddný Sturludóttir formaður, Eva Einarsdóttir, Kjartan Magnússon, Kristín Erna Arnardóttir, Líf Magneudóttir og Óttarr Ólafur Proppé. Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Helga Sigfúsdóttir, starfsmenn í leikskólum; Bryndís Jónsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum; Helgi Eiríksson, stjórnendur frístundamiðstöðva; S. Ingibjörg Jósefsdóttir, skólastjórar í grunnskólum; Þórunn Gyða Björnsdóttir, skólastjórar í leikskólum og Þorgerður L. Diðriksdóttir, kennarar í grunnskólum. Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson sviðsstjóri, Auður Árný Stefánsdóttir, Guðrún Sigtryggsdóttir, Hildur Skarphéðinsdóttir, Kristín Egilsdóttir og Soffía Pálsdóttir.
Fundarritari var Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram drög að starfsáætlun skóla- og frístundasviðs. Ragnar Þorsteinsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs og Sigrún Sveinbjörnsdóttir, formaður ritnefndar starfsáætlunar, kynntu og svöruðu fyrirspurnum auk Kolbrúnar Vigfúsdóttur, leikskólaskrifstofu og Hildar Bjarkar Svavarsdóttur, deildarstjóra tölfræði og rannsóknaþjónustu, skóla- og frístundasviði. Auk þess sat dagskrárliðinn Þorvaldur Guðjónsson nemi í tómstunda- og félagsmálafræði í Háskóla Íslands. SFS2011100272
- Kl. 10.50 tók Geir Sveinsson sæti á fundinum.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar óskuðu bókað:
Fyrsta starfsáætlun nýs skóla- og frístundasviðs hefur nú litið dagsins ljós. Fulltrúarnir fagna metnaðarfullri starfsáætlun og vilja af því tilefni færa ritstjórn og starfsfólki sviðsins mikla þakkir fyrir góða og faglega vinnu. Eins er þeim fjölmörgu starfsmönnum úr leikskólum, grunnskólum og frístund sem komu að gerð hennar þakkað fyrir þeirra framlag. Starfsáætlunin lýsir vel þeim faglega metnaði sem starfsfólk skóla- og frístundasviðs ber fyrir skóla- og frístundastarfi reykvískra barna, velferð þeirra, og félagslegs þroska.
Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra í skóla- og frístundaráði óskaði bókað:
Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra fagnar glæsilegri starfsáætlun skóla- og frístundaráðs. Starfsáætlunin inniheldur metnaðarfulla stefnumótun og samstarfsverkefni um nám, vellíðan og velferð barna á báðum skólastigunum, hjá dagforeldrum og í frístund. Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá stefnumótun fyrir allra yngstu börnin í borginni með verkefninu Blíð byrjun.
Áheyrnarfulltrúi kennara í grunnskólum í skóla og frístundaráði óskaði bókað :
„Dagur barnsins? er hugtak sem kemur fyrir í stefnu og starfsáætlun skóla og frístundasviðs 2012. Hugtakinu fylgir tilraun sem farin er af stað í Norðlingaskóla og Klapparholti og starfshópur sem Borgarstjóri skipaði í 1. mars 2011. Í starfsáætluninni er gert ráð fyrir að tilraunin verði metin. Fulltrúi kennara telur það skjóta skökku við að ekki liggi fyrir markmið með tilraun sem þessari og undrast því hvað eigi að meta. Jafnframt telur fulltrúi kennara þessa tilraun ekki hafa fengið faglega umræðu hjá grunnskólafólki og kennurum í skólum borgarinnar.

Áheyrnarfulltrúi skólastjóra í grunnskólum óskaði bókað:
Fulltrúi skólastjóra fagnar kynningu á metnaðarfullri fyrstu stefnu- og starfsáætlun skóla- og frístundasviðs 2012. Fulltrúinn lagði fram fjölda spurninga til formanns og ritstjórnar. Flestum þeirra var svarað, aðrar þarf að skoða betur.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins óskuðu bókað:
Hægt er að taka undir margt í bókun meirihlutans. Við hefðum þó kosið að í fyrirliggjandi starfsáætlun kæmi fram skýrari sýn á það hvernig almennt eigi að bæta menntun, líðan og námsárangur reykvískra nemenda. Í hana vantar einnig skýrari sýn á nokkra þætti sem við teljum þörf á að bæta í reykvísku skólastarfi og skal þar helst nefna auknar forvarnir, eflingu verknáms og markvissari íþróttakennslu og hreyfingu.

2. Lögð fram skýrsla starfshóps, Sérdeild fyrir einhverfa nemendur í Hamraskóla og flutningur unglingastigs yfir í Foldaskóla, dags. í febrúar 2012. Hrund Logadóttir, verkefnastjóri sérkennslu grunnskóla á skóla- og frístundasviði kynnti og svaraði fyrirspurnum. SFS2012020214
Kristinn Breiðfjörð Guðmundsson, skólastjóri í Foldaskóla, sat fundinn undir þessum lið og svaraði einnig fyrirspurnum.
- Kl. 12:45 vék Geir Sveinsson af fundi.
- Kl. 12:50 vék Kristín Egilsdóttir af fundi.
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar óskuðu bókað:
Skóla- og frístundaráð þakkar starfshópi um sérhæfða sérdeild fyrir einhverfa nemendur í sunnanverðum Grafarvogi fyrir greinargóða skýrslu. Í henni eru tíundaðir kostir þess að flytja öll aldursstig deildarinnar í Foldaskóla en þeir eru m.a. meiri sveigjanleiki í starfi með nemendum, fleiri kostir varðandi kennslu- og námsskipulag, meiri möguleikar á flæði nemenda milli aldursstiga, meiri möguleikar á sveigjanleika og flæði þegar misræmi verður á nemendafjölda eftir aldursstigum, meiri mannauður á einum stað til hagsbóta fyrir alla nemendur, meiri möguleikar á flæði starfsfólks milli aldursstiga og betri nýting kennslugagna. Rýmisþörfum sérdeildar er mun betur mætt í Foldaskóla en Hamraskóla og brýnt er að staðsetja deildina með tilliti til heildarskólastarfs og með tilliti til skipulags aldursstiga innan skólans. Nemendur í sérdeild eiga að hafa rík tækifæri til þess að vera í sem mestum tengslum við jafnaldra sína og til að njóta sín á því aldursstigi sem þeir eru. Áhyggjur foreldra barna í sérdeild eru eðlilegar en þess verður í alla staði gætt að undirbúningur gangi áfram vel og að þörfum nemenda í sérdeild verði mætt jafn vel, ef ekki betur í Foldaskóla.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna óskuðu bókað:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna átelja harðlega vinnubrögð meirihluta Samfylkingar og Besta flokksins vegna fyrirhugaðs flutnings Hamraseturs, sérdeildar fyrir einhverfa, úr Hamraskóla í Foldaskóla. Rétt hefði verið að tíunda ekki einungis kostina við fyrirhugaðan flutning í umræddri skýrslu heldur fjalla einnig um hugsanlega galla og sjónarmið aðstandenda nemenda deildarinnar vegna hans. Ljóst er að foreldrar umræddra nemenda eru andvígir slíkum flutningi og telja að aðstæður og hagsmunir barnanna hafi ekki verið höfð að leiðarljósi í þeirri vinnu, sem fram hefur farið vegna umræddra breytinga. Til að mynda hafi ekki farið fram úttekt á því hvaða áhrif slíkur flutningur gæti haft á hópinn og einstaklinga innan hans, s.s. hvað varðar stöðugleika, framfarir, félagsfærni og aðlögunartíma. Foreldrar og fagaðilar eru sammála um að Hamrasetur skili góðu starfi en benda á að sá árangur hefur náðst með markvissri uppbyggingu á löngum tíma. Miðað við hvernig meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins hefur kosið að standa að málinu er ljóst að mikil óvissa mun skapast um starfsemi Hamraseturs með umræddum flutningi og enn er fjölmörgum spurningum ósvarað. Hafa t.d. ekki fengist fullnægjandi svör við því hve langan tíma muni taka að byggja upp starfsemi Hamraseturs á nýjum stað.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Besta flokks og Samfylkingarinnar óskuðu bókað:
Það er ekki rétt að aðstæður og hagsmunir barna í Hamrasetri hafi ekki verið hafðir að leiðarljósi í undirbúningi breytinga á skólagerð í sunnanverðum Grafarvogi, eins og sjá má á greinargóðri skýrslu starfshóps. Frábært starfsfólk Hamraseturs heldur áfram að vinna að uppbyggingu skólastarfsins með nemendum í sérdeild og með starfsfólkinu slær hjartað í skólastarfi sérdeildarinnar. Eins og fram kemur í bókun meirihlutans bendir ekkert til annars en að skólastarfið og aðbúnaður sérdeildar í Foldaskóla verði áfram til fyrirmyndar.

3. Staða mála í vinnu stýrihóps um nýjan safnskóla fyrir unglinga í Grafarvogi. Kristinn Breiðfjörð Guðmundsson, skólastjóri Foldaskóla og formaður stýrihópsins, kynnti og svaraði fyrirspurnum.
4. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingarinnar:
Skóla- og frístundaráð samþykkir að sérdeild fyrir nemendur með einhverfu í Hamraskóla, Hamrasetur, flytjist samhliða flutningi unglingastigs Hamraskóla yfir í Foldaskóla. Sérdeildinni verði búin aðstaða í Foldaskóla í samræmi við tillögur og skýrslu starfshóps um sérhæfða sérdeild fyrir nemendur með einhverfu í Hamraskóla.
Greinargerð fylgdi.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar lögðu fram svo-hljóðandi málsmeðferðartillögu:
Skóla- og frístundaráð vísar tillögu um flutning sérdeildar Hamraskóla í Foldaskóla til umsagnar skólaráða og foreldrafélaga Hamraskóla og Foldaskóla.
Málsmeðferðartillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingarinnar samþykkt með 6 atkvæðum.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins lagði fram svohljóðandi fyrirspurn:
Óskað er eftir sundurliðuðum upplýsingum um áætlaðan kostnað við flutning Hamraseturs, sérdeildar fyrir einhverfa. M.a. komi fram kostnaður við innanhússframkvæmdir vegna umræddra breytinga, bæði í Foldaskóla og Hamraskóla.
Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum í skóla- og frístundaráði óskaði bókað:
Fulltrúi foreldra lýsir yfir áhyggjum af ágreiningi borgaryfirvalda við meirihluta foreldra í Hamra- og Húsaskóla. Allir foreldrar barna í Hamrasetri, deild fyrir einhverfa, hafa lagt fram undirskriftarlista til að mótmæla flutningi deildarinnar í Foldaskóla. Mikill meirihluti foreldra í báðum skólum hefur einnig lýst sig mótfallinn flutningum unglingadeilda í Foldaskóla í könnunum sem gerðar voru í skólanum. Foreldrar telja að ekki hafi verið sýnt fram á fjárhagslegan eða faglegan ávinning með óyggjandi hætti. Spurningum og gagnrýni foreldra í stýrihópum vegna þessara breytinga hefur ekki verið svarað að sögn fulltrúa sem hafa síðan sagt sig úr þessum stýrihópum. Fulltrúi foreldra telur ekki líklegt til árangurs að fara út í svo viðamiklar breytingar í andstöðu við meirihluta foreldra.
5. Lögð fram að nýju skýrsla starfshóps Blíð byrjun, dags. í janúar 2012. SFS2012020055
Lagðar fram svohljóðandi tillögur skóla- og frístundaráðsfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingarinnar:

1. Að fela framkvæmdastjórn skóla- og frístundasviðs að kostnaðarmeta tillögur skýrslunnar.
Samþykkt.

2. Að stofnaður verði eftirfylgnihópur sem ýti verkefnum úr vör og annist samskipti við önnur svið og tryggi kynningu á efni skýrslunnar.
Samþykkt.

Tillaga eitt um uppbyggingu yngri barna leikskólastarfs er þegar komin í farveg með samtali milli Reykjavíkurborgar og RannUng um þróun leikskólastarfs fyrir yngri börn leikskólanna. Mikilvægt er að tengja þá vinnu við skref í starfsáætlun um innleiðingu stefnu um aðbúnað og námsumhverfi yngstu barnanna.
Samþykkt.

Tillaga tvö um daggæslu í heimahúsum er þríþætt;
a) Fyrsta lið er að finna sem skref í starfsáætlun um stofnun starfshóps í samstarfi við Velferðarráðuneyti sem endurskoðar reglugerð um daggæslu í heimahúsum.
b) Öðrum lið um tilraunaverkefni um daggæslu barna í heimahúsum að fyrirmynd verkefnisins Giv dit barn en stressfri start í Kaupmannahöfn er vísað til framkvæmdastjórnar skóla- og frístundasviðs og henni falið að hvetja eitt þjónustuhverfi til að vinna með dagforeldrum í hverfinu að slíku fyrirkomulagi.
c) Þriðja lið um tilraunaverkefni um aukið samstarf dagforeldra og leikskóla er vísað til leikskólaskrifstofu sem kannar hvort áhugi sé á slíku samstarfi þar sem fjarlægðir eru heppilegar.
Samþykkt.

Tillögu þrjú um fjölskyldumiðstöð í anda blíðrar byrjunar og Pen Green er vísað til hverfisstjóra Breiðholts og skóla- og frístundasviði falið að annast kynningu á hugmyndafræðinni fyrir nýstofnuðum stýrihópi borgarstjóra um heildstæða þjónustu í Breiðholti.
Samþykkt með 5 atkvæðum, Líf Magneudóttir sat hjá.

Tillögu fjögur um fjölbreytta notkun á almenningsgörðum í hverfum borgarinnar er vísað til vinnu um leiksvæðastefnu á vegum umhverfis- og samgöngusviðs sem nú er í mótun.
Samþykkt.

Tillögu fimm um alhliða vefsíðu um börn og fjölskyldur er vísað til framkvæmdahóps um Foreldragátt sem er í vinnslu og tekur nú þegar mið af börnum á öllum aldri. Gæta verður að samræmingu upplýsingagjafar til foreldra því fleiri aðilar koma að slíkri upplýsingagjöf, t.d. heilsugæslan.
Samþykkt með 5 atkvæðum, Líf Magneudóttir sat hjá.

Tillögu sex um aðkomu borgarinnar að sjónvarpsþáttum um allt sem snýr að börnum og fjölskyldum þeirra er vísað til framkvæmdahóps um Foreldragátt. Skoða mætti fjölbreyttari og ódýrari lausnir varðandi miðlun upplýsinga, t.d. ,,PodCast“.
Samþykkt með 5 atkvæðum, Líf Magneudóttir sat hjá.

Tillögu sjö um gerð bæklinga, segla og póstkorta með upplýsingum um uppeldi og umönnun barna er vísað til upplýsingadeildar borgarinnar og kallað eftir hugmyndum þaðan.
Samþykkt með 5 atkvæðum, Líf Magneudóttir sat hjá.

Tillögu átta um sjálfboðaliðastarf í samstarfi við Rauða krossinn er vísað til stýrihóps borgarstjóra um heildstæða þjónustu í Breiðholti og hverfisstjórans þar.
Samþykkt með 5 atkvæðum, Líf Magneudóttir sat hjá.

Tillögu níu um endurmat verkefna sem er að finna í skýrslunni er samþykkt og eftirfylgnihópi falið að fylgja verkefnunum eftir.
Samþykkt.

6. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna sem frestað var á fundi ráðsins 18. janúar 2012:
Skóla- og frístundaráð samþykkir að kjörnir fulltrúar í ráðinu hafi seturétt á fundum fræðslustjóra með skólastjórum. Þar fer fram lifandi umræða um skólamál og þau málefni líðandi stundar, sem skóla- og frístundaráðsfulltrúum ber skylda til að vera vel heima í. Því er mikilvægt að kjörnir fulltrúar hafi aðgang að þeim faglega vettvangi.
Greinargerð fylgdi.
Tillagan felld með 4 atkvæðum gegn 2.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar óskuðu bókað:
Fundir stjórnenda starfsstöðva hjá Reykjavíkurborg með sínum yfirmönnum eru samstarfsvettvangur þeirra um fagleg og rekstrarleg málefni á grundvelli stefnumótunar og fjárhagsáætlunar. Þessir stjórnendafundir eru mikilvægir í innra starfi skóla- og frístundasviðs og algjörlega á embættismannastigi. Ekki er venjan á fagsviðum borgarinnar að pólitískt kjörnir fulltrúar fagráða sitji slíka fundi. Samþykkt hefur verið að ráðsfólk úr skóla- og frístundaráði sitji tvo fundi með stjórnendum á ári og það er mat skóla- og frístundaráðsfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingarinnar að það dugi til að styrkja tengslin milli kjörinna fulltrúa og stjórnenda á skóla- og frístundasviði. Auk þess eiga fulltrúar allra stjórnendahópa áheyrnarfulltrúa í ráðinu sem eru mikilvægir til að styrkja þessi tengsl og hafa jákvæð áhrif á stefnumótunar- og eftirlitshlutverk ráðsins.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna óskuðu bókað:
Sú tillaga, sem fulltrúar meirihluta Samfylkingar og Besta flokksins felldu, er samhljóða tillögu, sem núverandi formaður ráðsins flutti árið 2009. Þá fannst henni rétt og mikilvægt að kjörnir fulltrúar hefðu seturétt á fundum fræðslustjóra með skólastjórum enda færi þar fram ,,lifandi umræða um skólamál og þau málefni líðandi stundar, sem menntaráðsfulltrúum ber skylda til að vera vel heima í. Því er mikilvægt að kjörnir fulltrúar hafi aðgang að þeim faglega vettvangi,#GL eins og segir í tillögunni frá 2009.
Greinilegt er að eftir að flytjandi tillögunnar frá 2009 komst í meirihluta og varð formaður ráðsins, telur hún ekki lengur mikilvægt að kjörnir fulltrúar, fyrir utan hana sjálfa, hafi aðgang að umræddum fundum. Slík sinnaskipti bera vott um tvískinnung og sýna að fyrri yfirlýsingar núverandi formanns ráðsins um mikilvægi aðgangs allra kjörinn fulltrúa ráðsins að þessum faglega vettvangi, voru innantómar og merkingarlausar.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar óskuðu bókað:
Af því að sagnfræði er minnihlutanum svo kær þá er ljúft og skylt að upplýsa um að þegar málið var til umræðu á sínum tíma lagði upprunalegur tillöguflytjandi til að meta bæri reynsluna af setu kjörinna fulltrúa að ári liðnu. Sá tími er liðinn og gott betur og ekki er talin þörf á því að breyta frekar fyrirkomulagi funda stjórnenda á skóla- og frístundasviði með sínum yfirmönnum.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna óskuðu bókað:
Rétt er að á sínum tíma bókaði upprunalegur tillöguflytjandi að reynslan skyldi metin að ári liðnu en skýrt kom þá fram að sú endurskoðun myndi fela í sér aukið aðgengi fyrir kjörna fulltrúa. Áskildi hann sér þannig sérstakan rétt til þess í fundargerð að leggja síðar til við menntaráð að allir fundir skólastjóra yrðu opnir kjörnum fulltrúum.

7. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna sem frestað var á fundi ráðsins 23. júní 2010:
Fulltrúi Vinstri grænna leggur til að minnihlutinn verði boðaður á undirbúningsfundi menntaráðs, nú skóla- og frístundaráðs, eins og til stendur að gera meðal annars í skipulags- og samgönguráði í anda boðaðra nýrra vinnubragða meirihlutans.
Frestað.

8. Lagðar fram niðurstöður Talnalykils, stærðfræðiskimunar í 3. bekk í grunnskólum Reykjavíkur haustið 2011. Jafnframt lagt fram minnisblað um sama mál, dags. 1. mars 2012. Ásgeir Björgvinsson, sérfræðingur hjá tölfræði- og rannsóknaþjónustu og Guðrún Edda Bentsdóttir, verkefnastjóri grunnskólamála á skóla- og frístundasviði kynntu og svöruðu fyrirspurnum. SFS2011110077
- Kl. 14.20 vék Anna Helga Sigfúsdóttir af fundi.

Bókun skóla- og frístundaráðs:
Skimunarprófið Talnalykill sem lagt var fyrir nemendur í 3. bekk í nóvember 2011 sýnir bestu niðurstöðu reykvískra grunnskólanemenda frá upphafi mælinga, eða í átta ár. Einungis 6,3#PR nemenda eru líkleg til að þurfa stuðning í stærðfræði. Niðurstöður hvers skóla eru mikilvægar fyrir viðkomandi skóla til að bæta skólastarfið enn frekar. Skóla- og frístundaráð telur brýnt að unnið verði sérstaklega með þeim skólum sem koma lakast út, sem og lærdómur dreginn af vinnubrögðum þeirra skóla sem bæta sig verulega á milli ára. Skóla- og frístundaráð felur sviðsstjóra að óska eftir því við skólastjóra að þeir kynni niðurstöður Talnalykils fyrir foreldrum og stuðla þannig að því að upplýsingar um framfarir og stöðu nemenda séu sem aðgengilegastar á hverjum tíma. Þess ber að geta að ánægjuleg þróun kemur fram í nýafstaðinni könnun meðal foreldra grunnskólabarna en þar kom fram að um 82#PR foreldra barna í 3. og 4. bekk segjast hafa fengið kynningu á niðurstöðum þeirra barns í skimunum í síðasta foreldraviðtali.

- Kl. 14.40 vék Þorgerður Diðriksdóttir af fundi.

9. Lagt fram svar formanns skóla- og frístundaráðs, dags. 28. febrúar 2012, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá fundi skóla- og frístundaráðs þann 15. febrúar 2012, um fund með foreldrum í Hamrahverfi. SFS2012020098
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskuðu bókað:
Formaður skóla- og frístundaráðs heldur því fram í framlögðu svari að hann hafi aldrei neitað fundi með foreldrum í Hamrahverfi. Af því tilefni verður ekki hjá því komist að taka fram eftirfarandi: Í svarbréfi Oddnýjar Sturludóttur, formanns skóla- og frístundaráðs, til foreldra í Hamraskóla frá 12. janúar, kemur skýrt fram að hún hafnar beiðni foreldra um að koma á opinn fund með þeim og vísar til þess að fundur hafi verið haldinn 13. desember þar sem verkefni stýrihópsins hafi verið reifuð. Orðrétt segir formaðurinn í bréfinu: ,,Í ljósi þess að verk- og tímaáætlun stýrihóps hefur verið framfylgt, og að höfðu samráði við þá sem koma að málum í Hamraskóla tel ég ekki þörf á öðrum opnum fundi um sameiningarmál Hamraskóla.“ Af örlæti sínu bauð formaðurinn hins vegar þremur fulltrúum foreldra að koma til fundar við sig í skrifstofu borgarfulltrúa við Tjarnargötu. Rétt er að fram komi að á fundinum 13. desember, sem formaðurinn vísar til, var enginn kjörinn fulltrúi til svars. Ástæða þess að foreldrar í Hamraskóla boðuðu formann skóla- og frístundaráðs á sérstakan fund var sú að þeir töldu sig ekki fá fullnægjandi svör frá þeim starfsmönnum skóla- og frístundasviðs, sem voru á fundinum 13. desember. Í svarpósti formannsins til foreldranna frá 12. janúar er alveg skýrt að hún hafnar beiðni foreldra um fund og því er ótrúlegt að hún skuli nú halda öðru fram. Hitt er svo annað mál að eftir að formaðurinn hafði hlotið mikla gagnrýni fyrir þessa afstöðu sína frá foreldrum í Grafarvogi, frá fulltrúum Sjálfstæðismanna og Vinstri grænna á vettvangi skóla- og frístundaráðs, sem og í fjölmiðlum, sá hún að sér og féllst á að koma á opinn fund foreldra í Hamraskóla og ber að hrósa henni fyrir þau sinnaskipti.

10. Lögð fram ályktun fundar foreldra og íbúa í Hamra- og Bryggjuhverfi, dags. 1. febrúar 2012 og ályktun fundar foreldra og íbúa í Húsahverfi, dags. 15. febrúar 2012, varðandi flutning unglingadeildar Hamraskóla í safnskóla í Foldaskóla.
11. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 28. febrúar 2012, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá fundi skóla- og frístundaráðs 15. febrúar 2012, um kortlagningu útikennslustofa í Reykjavík. SFS2011120106
12. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 1. mars 2012, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins frá fundi skóla- og frístundaráðs 15. febrúar 2012, um afdrif tillögu um könnun á kennslutíma í list- og verkgreinum. SFS2012030017

Fundi slitið kl. 15.10

Oddný Sturludóttir

Eva Einarsdóttir Kjartan Magnússon
Kristín Erna Arnardóttir Líf Magneudóttir
Óttarr Ólafur Proppé