Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

SKÓLA- OG FRÍSTUNDARÁÐ

Ár 2011, 16. nóvember, var haldinn 4. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn var haldinn í Höfðatorgi í Reykjavík og hófst kl. 10.05. Fundinn sátu Oddný Sturludóttir formaður, Erna Ástþórsdóttir, Eva Einarsdóttir, Hilmar Sigurðsson, Líf Magneudóttir og Marta Guðjónsdóttir.
Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Bryndís Jónsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum; Helgi Eiríksson, stjórnendur frístundamiðstöðva; S. Ingibjörg Jósefsdóttir, skólastjórar í grunnskólum; Þorgerður L. Diðriksdóttir, kennarar í grunnskólum og Þórunn Gyða Björnsdóttir, skólastjórar í leikskólum. Jafnframt sátu fundinn Valgerður Janusdóttir, staðgengill sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, Guðrún Edda Bentsdóttir, Guðrún Sigtryggsdóttir, Hildur Skarphéðinsdóttir, Jón Ingi Einarsson, Kristín Egilsdóttir, Ragnheiður Stefánsdóttir og Soffía Pálsdóttir.
Fundarritari var Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir.

Þetta gerðist:


1. Lögð fram skýrsla starfshóps Aukið samstarf leikskóla og grunnskóla um eflingu málþroska og læsis, dags. í september 2011. Fríða Bjarney Jónsdóttir og Guðrún Edda Bentsdóttir, verkefnastjórar á skóla- og frístundasviði kynntu og svöruðu fyrirspurnum. SFS2011110160

- Kl. 10.26 tók Kjartan Magnússon sæti á fundinum.
- Kl. 10.40 vék Marta Guðjónsdóttir af fundinum.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Skóla- og frístundaráð samþykkir að fela sviðsstjóra að skipa verkefnastjórn á skóla- og frístundasviði sem haldi utan um og fylgist með þróun samstarfs um mál-þroska og læsi á báðum skólastigum, sem og í frístund. Jafnframt samþykkir skóla- og frístundaráð tillögur starfshóps um samstarf leik- og grunnskóla um eflingu málþroska og læsis og felur verkefnastjórn að forgangsraða tillögunum og hrinda í framkvæmd á næstu árum. Ráðið verði upplýst um stöðu mála árlega.
Samþykkt með 6 atkvæðum.

Áheyrnarfulltrúi skólastjóra í leikskólum óskaði bókað:
Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra í Reykjavík beinir því til skóla- og frístundasviðs að myndarlega verði staðið að því á komandi árum að styðja við leikskóla borgarinnar til að vinnu að eflingu málþroska og læsis í leikskólum borgarinnar. Sá stuðningur getur verið í formi námskeiða fyrir leikskólakennara og með því að úthluta styrkjum til þróunarverkefna. Það er löngu vitað að grunnurinn að lestrarkennslu barna er lagður í leikskólanum og öll vinna sem unnin er til eflingar íslensku og málþroska í gegnum leik í leikskólanum skilar öflugri nemendum inn í grunnskólann.

2. Lagt fram bréf nafnanefndar Ásborgar og Hlíðarenda, dags. 10. nóvember 2011, um að sameinaður leikskóli Ásborgar og Hlíðarenda fái nafnið Sunnuás. SFS2011110129
Samþykkt með 4 atkvæðum.

3. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Skóla- og frístundaráð samþykkir að fela sviðsstjóra að útfæra verkefni sem miðar að því að kynna fyrir börnum í frístundaheimilum kosti almenningsbókasafna í þeirra hverfi. Verkefnið gangi út á að börn í frístund eignist bókasafnskort, nýti sér safnkost og læri hvernig auðveldlega megi komast á fæti eða í strætó að bókasafni í þeirra hverfi. Sviðsstjóra er einnig falið að formgera samstarf milli Borgarbókasafns og frístundaheimila með það í huga að nýta bókakost bókasafna frístundaheimilum til góða.
Samþykkt með 6 atkvæðum.

4. Fjórði liður útsendrar dagskrár felldur af dagskrá.

- Kl. 11.20 tók Marta Guðjónsdóttir sæti á ný á fundinum.

5. Lögð fram á ný svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Vinstri grænna sem frestað var á fundi ráðsins 2. nóvember sl.:
Fulltrúi Vinstri grænna leggur til að meirihluti skóla- og frístundaráðs leyfi þeim leikskólum sem geta tekið inn börn fædd 2010 að gera það. Fulltrúi Vinstri grænna telur jafnframt að leita ætti leiða til þess að taka megi fleiri börn inn í leikskóla en nú er gert. Börn fædd í upphafi ársins 2010 verða orðin nálægt því tveggja ára gömul þegar þau verða tekin inn í leikskóla ef framtíðarsýn meirihlutans gengur eftir. Vinstri græn telja það metnaðarlítið.
Tillagan felld með 4 atkvæðum gegn 3.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar óskuðu bókað:
Ljóst er að ítarlegri fjárhagsleg rýni verður að eiga sér stað áður en fyrirheit um inntöku barna fædd 2010 eru gefin. Sú rýni er í fullum gangi í tengslum við framlagningu fjárhagsáætlana sviðsins í gær og niðurstöður munu liggja fyrir innan skamms tíma.

Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra óskaði bókað:
Leikskólastjórar í Reykjavík virða þá ákvörðun meirihluta skóla- og frístundaráðs að fullnýta ekki það húsnæði sem nú þegar er til staðar í borginni fyrir leikskólapláss fyrir yngstu nemendur borgarinnar. Það er ljóst að sú ákvörðun er tekin á fjárhagslegum forsendum, þar sem hvert leikskólapláss kostar mikla peninga. Það vekur hins vegar undrun, að svo virðist sem farið sé með umræðuna um laus pláss í leikskólum Reykjavíkur sem feimnismál.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Vinstri grænna óskaði bókað:
Ljóst er að afkoma ársins 2011 verður mun betri en áætlað hafði verið og það svigrúm hefði átt að nýta til að taka inn yngri börn. Það er því miður að meirihluti Besta flokks og Samfylkingar láti sér mikilvægt tækifæri renna úr greipum í að efla þjónustu við börn og foreldra þeirra.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskuðu bókað:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja rétt að nýta laus leikskólarými, sem tiltæk eru, og styðja því tillöguna með fyrirvara um fjárheimildir.

6. Niðurstöður haustmælinga Skólapúlsins ásamt helstu niðurstöðum úr könnun Rannsókna og greiningar um hagi og líðan í 5.-7. bekk sem lögð var fyrir í febrúar 2011. Hildur Björk Svavarsdóttir, deildarstjóri tölfræði- og rannsóknaþjónustu skóla- og frístundasviðs kynnti og svaraði fyrirspurnum. SFS2011110143
Bókun skóla- og frístundaráðs:
Skóla- og frístundaráð fagnar jákvæðum niðurstöðum úr Skólapúlsinum og leggur áherslu á mikilvægi þess að niðurstöðurnar nýtist börnum og unglingum til heilla. Skóla- og frístundaráð leggur áherslu á mikilvægi þess að viðhorf nemenda í 6. - 10. bekk til félagsmiðstöðvastarfs sé einnig kannað og að frístundamiðstöðvar fái aðgengi að upplýsingum um líðan og hagi barna og unglinga í sínu hverfi.

7. Sjöundi liður útsendrar dagskrár felldur af dagskrá.

8. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 16. nóvember 2011, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, frá fundi skóla og frístundaráðs 2. nóvember sl., um fjölda barna á biðlista í leikskóla og inntöku. SFS2011110147

9. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 11. nóvember 2011, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Vinstri grænna, frá fundi menntaráðs 24. ágúst sl., um málefni sjálfstætt rekinna leik- og grunnskóla. SFS2011110141

10. Lagt fram erindi Umboðsmanns Alþingis, dags. 8. nóvember 2011, varðandi samskipti skóla- og frístundasviðs og leikskólastjóra í Reykjavík varðandi laus leikskólapláss í Reykjavík. SFS2011110121
Samþykkt að vísa erindinu til borgarlögmanns til afgreiðslu.

11. Staða húsnæðismála grunnskóla Reykjavíkur. Rætt um stöðu Vesturbæjarskóla og Breiðagerðisskóla.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Skóla- og frístundaráð samþykkir að leita leiða til að komast hjá því að þörf Vesturbæjarskóla fyrir aukið húsnæði verði leyst á kostnað leikaðstöðu skólabarna með því að raða þremur færanlegum kennslustofum eftir endilöngu leiksvæði skólalóðarinnar, sem er með hinum minnstu í borginni. Áður en aðstaða skólabarna til leikja og íþrótta verður stórlega skert með þeim hætti skulu aðrir kostir skoðaðir til þrautar. T.d. skal skoða þann kost betur að koma umræddum stofum tímabundið fyrir í göturými Vesturvallagötu eða annars staðar í nágrenninu. Einnig má skoða tiltæka kosti á leiguhúsnæði í nágrenninu, megi það verða til þess að ekki þurfi að skerða leiksvæði skólans frekar.
Frestað.

Fundi slitið kl. 13.30

Oddný Sturludóttir

Erna Ástþórsdóttir Eva Einarsdóttir
Hilmar Sigurðsson Kjartan Magnússon
Líf Magneudóttir Marta Guðjónsdóttir