Skóla- og frístundaráð
MENNTARÁÐ
Ár 2010, 17. nóvember var haldinn 133. fundur menntaráðs. Fundurinn var haldinn í sal Miðbæjarskólans að Fríkirkjuvegi 1 í Reykjavík og hófst kl. 12.40. Fundinn sátu Oddný Sturludóttir formaður, Erna Ástþórsdóttir, Kjartan Magnússon, Líf Magneudóttir, Óttarr Ólafur Proppé, Stefán Benediktsson og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir. Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Helga Sigfúsdóttir, starfsfólk í leikskólum; Bryndís Jónsdóttir, SAMFOK; Edda Björk Þórðardóttir, Börnin okkar; S. Ingibjörg Jósefsdóttir, Félag skólastjórnenda í Reykjavík; Þorgerður L. Diðriksdóttir, Kennarafélag Reykjavíkur og Þórunn Gyða Björnsdóttir, leikskólastjórar í Reykjavík. Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson fræðslustjóri, Ragnhildur Erla Bjarnadóttir, sviðsstjóri Leikskólasviðs, Auður Árný Stefánsdóttir, Guðrún Hjartardóttir, Hildur Skarphéðinsdóttir, Ingunn Gísladóttir, Jón Ingi Einarsson, Kristín Egilsdóttir og Valgerður Janusdóttir.
Fundarritari var Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir.
Þetta gerðist:
Formaður bauð Eddu Björk Þórðardóttur velkomna á sinn fyrsta fund í menntaráði.
1. Lagt fram bréf Önnu Kristinsdóttur mannréttindastjóra Reykjavíkurborgar, dags. 4. nóv. sl., þar sem mannréttindaráð Reykjavíkur vísar til umsagnar menntaráðs tillögu fulltrúa Besta flokks, Samfylkingar og Vinstri grænna, um samskipti leik- og grunnskóla og trúar- og lífsskoðunarhópa. Anna Kristinsdóttir kynnti málið og svaraði fyrirspurnum.
2. Lögð fram og kynnt drög að starfs- og fjárhagsáætlun Menntasviðs 2011 og drög að starfs- og fjárhagsáætlun Leikskólasviðs 2011.
Lögð fram ályktun fundar Félags stjórnenda leikskóla 1. svæðadeildar, sem haldinn var 15. nóvember 2010.
- Kl. 15:50 viku Kjartan Magnússon og Ragnar Þorsteinsson af fundi.
Lögð fram ályktun aðalfundar Félags skólastjórnenda í Reykjavík, sem haldinn var 12. nóv. 2010.
Fulltrúi Sjálfstæðisflokks óskaði bókað:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í menntaráði þakka starfsmönnum Leikskólasviðs og Menntasviðs mikla vinnu og ágætt samráð um hugmyndir vegna hagræðingakröfu borgarstjórnar. Nú þegar tillögur liggja fyrir um niðurskurð á leik- og grunnskólasviði er mikilvægt að ítreka að þessir lögbundnu málaflokkar eru nú þegar búnir að skera niður mjög mikið og að þær tillögur sem liggja fyrir eru sumar afar erfiðar þó aðrar feli í sér tækifæri. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í menntaráði ítreka fyrri orð sín að betur hefði þurft að standa að undirbúningsvinnu vegna fjárhagsáætlunar eigi hún að skila borgarbúum góðum og farsælum lausnum. Sú staðreynd að skýra forgangsröðun skortir, engin aðgerðaráætlun er í gildi, og fundir aðgerðarhóps tilviljanakenndir gerir það að verkum að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins geta ekki stutt áætlanir þegar engin yfirsýn liggur fyrir. Ekki er ljóst enn hvernig hagræðingin leggst misjafnlega á svið borgarinnar né hvernig álögur leggjast á barnafjölskyldur og þjónustu við þær. Varðandi sérstakar tillögur í menntaráði er gagnrýnivert hversu óljósir sumir þættir eru þrátt fyrir mikla vinnu sviðsins. Þetta skýrist fyrst og fremst vegna þess að vinna við fjárhagsáætlun hefur verið allt of sein á ferðinni og eins og áður sagði að skýr stefnumörkun hefur ekki verið lögð fram fyrir borgina í heild. Til að mynda er óútfært hvernig haga eigi lækkun kennslumagns frá hausti 2011 og óljóst hvort þær útfærslur skerða nám barna. Þetta er afar slæmt - enda samhljóma raddir í samfélaginu að verja grunnþjónustu. Ljóst er að á báðum sviðum hafa verið talsverðar framúrkeyrslur vegna sérkennslu (185 m.kr. samtals 2010) sem verða aðeins að hluta bættar auk þess sem að langtímaveikindi eru dýrari en áætlað er. Í þessu samhengi er mikilvægt að nefna að sú hagræðingartala sem miðað er við í niðurskurði í borginni, 4,5 ma.kr., er aðeins að litlum hluta tekjutap borgarinnar sem er 700 m.kr. Þetta gefur tilefni til að huga að öllum þeim viðbótarrekstri sem áætlað er að falli til á nýju ári og á kjörtímabilinu hjá Reykjavíkurborg. Að lokum telja fulltrúar Sjálfstæðisflokksins vera ranga nálgun, nú þegar að fjölgun yngstu barna er gríðarlega mikil, að afnema þjónustutryggingu sem þann kost að styðja foreldra að finna sér sjálf úrræði fyrir yngstu börnin. Að auki telja fulltrúar Sjálfstæðisflokksins að umræðu skorti áþreifanlega bæði í menntaráði og við foreldra og kennara um ólíkar og ódýrari lausnir við að leysa aukna kröfu um miklu meiri þörf á þjónustu við yngstu börnin. Fyrir liggur að tryggja börnum dýrasta úrræðið, leikskólavist, sem hefur bein áhrif á kröfu um niðurskurð annarra þátta á skólasviðunum.
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins lagði fram svohljóðandi fyrirspurn:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska eftir að á fundi menntaráðs verði ítarlega farið yfir skipulag og reiknilíkan innri leigu grunnskóla og leikskóla, og hvernig leigugreiðslum er háttað á Mennta- og Leikskólasviði. Sjálfstæðisflokkurinn óskar eftir útreikningi á því hvað raunniðurskurður er mikill sundurliðað fyrir hvern skóla með og án innri leigu.
Fulltrúi Vinstri grænna óskaði bókað:
Fulltrúi Vinstri grænna getur ekki séð að meirihlutinn forgangsraði í þágu barna, ungmenna og velferðar við gerð fjárhagsáætlunarinnar, þrátt fyrir slíkar yfirlýsingar. Fyrirhugaður niðurskurður á Leikskóla- og Menntasviði hleypur á hundruðum milljóna. Fulltrúi Vinstri grænna telur ólíklegt að skera megi meira niður á þessum sviðum án þess að það bitni á faglegu starfi þeirra lykilstofnana samfélagsins sem leik- og grunnskólar eru. Niðurskurðurinn mun bitna á faglegu starfi leik- og grunnskóla, gæðum alls skólastarfs og auka álag á starfsmenn þeirra. Þá hefur hann í för með sér uppsagnir, kjaraskerðingu og launalækkun þeirra sem teljast til láglaunastétta í landinu. Það er staðreynd að flest störf í grunn- og leiksskólum Reykjavíkur eru enn unnin af konum. Lítið hefur þokast áfram í að leiðrétta launamun kynjanna á undanförnum árum og eru tillögurnar til þess fallnar að auka enn á þennan launamun.
Grunnstoð hvers samfélags er menntun. Dragi úr gæðum hennar getur það haft áhrif um ókomna tíð á velferð þeirrar kynslóðar sem nú vex úr grasi. Fulltrúi Vinstri grænna telur að niðursveiflan í íslensku efnahagslífi eigi alls ekki að bitna á börnum og ungmennum og að stjórnmálamenn eigi að beita sér í hvívetna til að hlífa þeim við niðurskurði. Fulltrúanum finnst meirihlutann í borgarstjórn skorta skýra pólitíska sýn í málaflokkum sem varðar börn og ungmenni. Meirihlutinn hyggst ná fram hluta niðurskurðarins með skipulagsbreytingum á borð við sameiningar. Fulltrúi Vinstri grænna geldur varhug við þeim áformum. Það er vel þekkt að sameiningar spara alls ekki alltaf fé. Þvert á móti getur stærðin valdið ýmsum vandkvæðum sem kalla á meiri kostnað. En það er ekki einungis á grundvelli þess að sameiningar í leik- og grunnskólum kunni að vera kostnaðarsamar sem fulltrúinn hefur efasemdir. Áhrif þeirra á gæði náms og þjónustu grunn- og leiksskóla eru allsendis óljós. Rannsóknir hafa sýnt fram á mikilvægi sýnileika stjórnenda grunn- og leikskóla fyrir faglegt starf og félagsanda og gæti samnýting skólastjóra dregið úr sýnileika hans. Vinstri græn hafa lagt áherslu á að fullnýta útsvarið. Með því móti má fá verulegar tekjur sem draga úr hagræðingarþörf og gjaldskrárhækkunum. Ljóst er að umtalsverðar hækkanir á gjaldskrám á Mennta- og Leikskólasviði falla alfarið á barnafjölskyldur. Útgjöld þeirra eiga eftir að aukast um hundruðir þúsunda á komandi ári. Vinstri græn telja að mikilvæg grunnþjónusta á borð við leikskóla eigi að vera gjaldfrjáls. Fjárhagur Reykjavíkurborgar leyfir ekki um þessar mundir að tekin séu skref í þá átt. Að því leyti sem nauðsynlegt kann að vera að hækka gjaldskrár telur fulltrúi Vinstri grænna í menntaráði rétt að haga hækkunum þannig að þær lendi einvörðungu á þeim sem geta staðið undir frekari álögum. Að lokum er það fulltrúa Vinstri grænna bæði ljúft og skylt að þakka öllu starfsfólki Mennta- og Leikskólasviðs fyrir mikla og góða vinnu við gerð starfs- og fjárhagsáætlunar á erfiðum tímum sársaukafulls niðurskurðar.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram svohljóðandi fyrirspurn:
1. Má ætla að fjárhagsáætlanir Mennta- og Leikskólasviðs hafi í för með sér fækkun á fastráðnu starfsfólki sviðanna og ef svo er, hversu mikla og um hvaða störf er að ræða?
2. Má ætla að fjárhagsáætlun sviðanna hafi í för með sér að tímabundnir ráðningarsamningar verði ekki endurnýjaðir og ef svo er, hversu margir og um hvaða störf er að ræða?
3. Má ætla að fjárhagsáætlun sviðanna hafi í för með sér fækkun á sumarstörfum og ef svo er, hversu mikla og um hvaða störf er að ræða?
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram svohljóðandi fyrirspurn:
1. Hversu margir einkareknir grunnskólar eru í Reykjavík?
2. Hve margir nemendur eru í hverjum þeirra og hve margir eiga lögheimili í öðru sveitarfélagi?
3. Hversu margir kennarar og hversu margir aðrir starfsmenn eru í hverjum þeirra?
4. Hver er kostnaður Reykjavíkurborgar af hverjum þessara skóla fyrir sig og hvert er framlag borgarinnar á hvern nemanda?
5. Kæmust allir reykvískir nemendur sem eru nú í einkaskólum fyrir í grunnskólum borgarinnar og hver væri kostnaðurinn af því
6. Eru uppsagnarákvæði í samningum á milli Reykjavíkurborgar og einkareknu grunnskólanna í Reykjavík og ef svo er, hvernig eru þau varðandi hvern skóla fyrir sig?
Áheyrnarfulltrúi SAMFOK óskaði bókað.
Menntun er hornsteinninn að uppbyggingu samfélagsins. Fyrirhugaður niðurskurður á Menntasviði Reykjavíkur þriðja árið í röð eru mikil vonbrigði fyrir foreldra. Öllum aðilum á að vera ljóst að aukin skerðing í málaflokknum mun koma niður á gæðum skólastarfs. Samfok hefur þungar áhyggjur af því að skólarnir munu með engu móti geta sinnt lögbundnu hlutverki sínu á fullnægjandi hátt komi til fyrirhugaðs niðurskurðar. Það verður aldrei of oft sagt að börnin eiga bara eina æsku og það sem tekið er af þeim núna verður varla bætt upp síðar.
Áheyrnarfulltrúi Kennarafélags Reykjavíkur óskaði bókað:
Íslenskt menntakerfi byggir á þremur megin stoðum: grunnskólalögum, aðalnámskrá og hefðum. Menntakerfið er þó langt frá því að vera staðnað bákn. Það hefur frá fyrstu tíð verið í stöðugri framþróun og endurskoðun. Fræðsluyfirvöld og starfsmenn menntastofnana hafa lagt sig fram um að hlúa að menntun, faglegu innra starfi og þróun kennsluhátta. Mótmælum kennara um frekari niðurskurð er snúið upp í það að kennarar séu í hagsmunabaráttu um starfskjör og starfsöryggi og markvisst þaggað niður í okkur. Enginn virðist telja að mótmæli okkar um niðurskurð til menntamála snúi að því að standa vörð um fagvitund okkar og menntun nemenda. Á tímum sem þessum þarf að horfa til reynslu annarra landa sem gengið hafa í gegnum þrengingar og skoða hvaða afleiðingar ákvarðanir um stórfenglegar breytingar höfðu á menntun og líðan nemenda. Menntun er hornsteinn samfélagsins. Um gildi og mikilvægi menntunar var íslenska þjóðin sammála á þjóðfundi 2009. Sé niðurskurður óumflýjanlegur, þarf að tryggja að nemendur menntakerfisins, börnin okkar, og framtíð þeirra sé höfð í fyrirrúmi.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins óskuðu bókað:
Starfs- og fjárhagsáætlun fyrir Reykjavíkurborg er unnin við afar flóknar aðstæður. Starfsfólk leik- og grunnskóla hefur af útsjónarsemi og alúð fyrir skólastarfi og velferð barna velt við hverjum steini í hagræðingarskyni undanfarin ár. Þó má sjá í starfsáætlun beggja sviða metnaðarfullar og faglegar áherslur til að auðga skólastarfið enn frekar. Í áherslum nýs meirihluta er lögð mikil áhersla á aukið samstarf skólasviðanna með samþættingu fjölmargra þátta er varða uppeldi og menntun barnanna í borginni. Veruleg endurskipulagning og uppstokkun á skipulagi skólamála í Reykjavík er nauðsynleg, með faglegan og fjárhagslegan ávinning í huga. Greina þarf tækifæri í hverfum borgarinnar til aukins samstarfs. Það er krefjandi verkefni sem í felast mikil tækifæri og kappkostað verður að vinna af fagmennsku og kalla eftir ábendingum og samvinnu við starfsfólk og foreldra. Minni hagræðingarkrafa er gerð til Menntasviðs og Leikskólasviðs en ,,harðra“ sviða hjá borginni. Leikskólasvið fær viðbætur í sinn ramma upp á 658 m.kr. vegna fjölgunar barna undir skólaskyldualdri og aukins kostnaðar við sérkennslu. Markmið menntaráðs eru að ná hagræðingu með samrekstri og sameiningu skóla, sem og endurskipulagningu mötuneyta í allri borginni, til að hlífa megi sem mest innra starfi skólanna. Kennslumagn í grunnskólum verður samkvæmt áætluninni minnkað um tæplega 3#PR. Það verður krefjandi verkefni fyrir skólastjórnendur en allt kapp verður lagt á að rýra ekki gæði kennslunnar þó einhverjar breytingar verði óhjákvæmilegar eins og staðan í fjármálum borgarinnar er nú. Reykjavíkurborg mun líta til viðræðna menntamálaráðherra við Samband íslenskra sveitarfélaga um mögulegar breytingar á grunnskólalögum, sem fjalla um styttingu lögboðins námstíma.
Nýting á húsnæði borgarinnar er í endurskoðun og leitað verður leiða til að samnýta húsnæði leik- og grunnskóla meðal annars til að koma til móts við fjölgun leikskólabarna. Fyrirkomulagi sérkennslu á báðum skólastigum verður endurskoðað og sérstaklega verður rýnt hvernig þjónusta borgarinnar við börn með sérþarfir helst í hendur við úthlutun fjármagns. Hafinn verður undirbúningur að breyttri ráðstöfun þeirra fjármuna sem Reykjavíkurborg hefur veitt til tónlistarskóla á grundvelli þjónustusamninga. Þjónustukaup Reykjavíkurborgar verða byggð á faglegri stefnu menntaráðs um tónlistarfræðslu sem nú er í vinnslu. Tillögur menntaráðs til borgarráðs kveða á um hóflega hækkun gjaldskráa og samræmingu á gjaldskrá Leikskólasviðs sem þarfnast endurskoðunar við í ljósi sílækkandi námsgjalds undanfarin ár.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins þakka starfsfólki beggja sviða fyrir mikla og faglega vinnu við gerð starfs- og fjárhagsáætlunar, öllum kjörnum fulltrúum fyrir gott samstarf og áheyrnarfulltrúum fyrir góðar ábendingar og varðstöðu um faglegt skólastarf.
Drögum að starfs- og fjárhagsáætlun Menntasviðs 2011 og drögum að starfs- og fjárhags-áætlun Leikskólasviðs 2011 vísað til borgarráðs.
Fundi slitið kl. 16.30
Oddný Sturludóttir
Erna Ástþórsdóttir Líf Magneudóttir
Óttarr Ólafur Proppé Stefán Benediktsson
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir