Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

MENNTARÁÐ

Ár 2011, 6. apríl, var haldinn 142. fundur menntaráðs. Fundurinn var haldinn í Hofi í Höfðatorgi í Reykjavík og hófst kl. 12.36. Fundinn sátu Oddný Sturludóttir formaður, Eva Einarsdóttir, Líf Magneudóttir, Óttarr Ólafur Proppé, Stefán Benediktsson og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir. Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Bryndís Jónsdóttir, SAMFOK; Ingibjörg Jósefsdóttir, Félag skólastjórnenda í Reykjavík; Rósa Steingrímsdóttir, Börnin okkar, samtök foreldra leikskólabarna í Reykjavík; Stella Marteinsdóttir, starfsfólk í leikskólum og Þórunn Gyða Björnsdóttir, leikskólastjórar í Reykjavík. Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson fræðslustjóri, Ragnhildur Erla Bjarnadóttir, sviðsstjóri Leikskólasviðs, Auður Árný Stefánsdóttir, Guðrún Sigtryggsdóttir, Hildur Skarphéðinsdóttir, Ingunn Gísladóttir, Jón Ingi Einarsson, Kristín Egilsdóttir og Valgerður Janusdóttir.
Fundarritari var Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir.

Þetta gerðist:

1. Lagðar fram umsagnir skólaráða, foreldraráða, hverfisráða, ungmennaráða, sérfræðinga og stofnana um tillögur í skýrslu starfshóps, Greining tækifæra til samrekstrar og/eða sameiningar leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila, dags. í febrúar 2011.

Jón Torfi Jónasson, forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands kynnti umsögn sviðsins og svaraði fyrirspurnum.

- Kl. 12.53 tók Kjartan Magnússon sæti á fundinum.
- Kl. 13.11 tók Guðjón Ragnar Jónsson sæti á fundinum.

Sigríður Lára Ásbergsdóttir, deildarstjóri leik- og grunnskólaskrifstofu mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Jón Vilberg Guðjónsson, skrifstofustjóri lögfræðisviðs kynntu umsögn ráðuneytisins og svöruðu fyrirspurnum.
Hildur Björk Svavarsdóttir, deildarstjóri tölfræði- og rannsóknarþjónustu Mennta- og Leikskólasviðs kynnti umsagnir foreldraráða og skólaráða og svaraði fyrirspurnum.
Birgir Björn Sigurjónsson, fjármálastjóri Reykjavíkurborgar kynnti umsögn fjármálaskrifstofu og svaraði fyrirspurnum ásamt Halldóru Káradóttur, skrifstofustjóra fjármála.
Hrólfur Jónsson, sviðsstjóri Framkvæmda- og eignasviðs kynnti umsögn sviðsins og svaraði fyrirspurnum.

Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra í Reykjavík óskaði bókað:
Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra í Reykjavík þakkar fyrir góðar umsagnir um tillögur starfshóps á vegum borgarráðs er lúta að sameiningum og hagræðingu í skólastarfi. Í umsagnarskýrslum sérfræðinga er bent á marga þætti sem huga þarf sérstaklega að við breytingar í skólastarfi. Þar kemur fram að viðamiklar breytingar á starfi skóla þurfa að gerast með varkárni og í þokkalegri sátt við starfsmenn og foreldra, svo að vel til takist. Það er einnig bent á að breytingaferlið er vandasamt og kostar aukið fjármagn. Grunnforsenda fyrir gæðum í leikskólastarfi er menntun þeirra sem vinna með börnum og sterk fagleg forysta sem er í nálægð við fólkið í stofnuninni. Sá raunveruleiki sem blasir við í leikskólum í dag, skortur á fagmenntuðu fólki og mikil eftirspurn eftir leikskólaplássum, gefur enn meira tilefni til að stíga varlega til jarðar þegar kemur að sameiningum skóla. Áheyrnarfulltrúa leikskólastjóra í Reykjavík finnst full ástæða til að íhuga varnarorð sérfræðinga á sviði skólamála og taka lítil skref í einu, svo ekki þurfi að bíta úr nálinni seinna.

Áheyrnarfulltrúi Barnanna okkar óskaði bókað:
Börnin okkar vara við því að fara út í svo stórtækar og víðtækar breytingar, sem snerta fjölmarga leikskóla fyrir lítinn og óljósan fjárhagslegan ávinning. Við tökum undir umsögn mennta- og menningarmálaráðuneytis um að það halli á faglega umfjöllun. Ekki er tryggt í tillögunum að staðið verði vörð um faglegt starf og mikið skortir á að faglegur ávinningur sé skilgreindur í tillögunum eins og leikskólalög nr. 90/2008 gera ráð fyrir. Með fækkun leikskólastjóra verður færra fagfólk á leikskólunum. Bent er á það í umsögn Menntavísindasviðs HÍ að nú þegar mæti hlutfall leikskólakennara í leikskólum borgarinnar ekki því 70#PR viðmiði sem kveðið er á um í lögum því aðeins eru 35#PR starfsmanna leikskóla borgarinnar með leikskólakennaramenntun. Næstum allar umsagnir foreldraráða leikskóla eru neikvæðar og hafna sameiningar-tillögum. Nánast samhljóma álit þeirra er að fjárhagslegar forsendur séu óljósar og að stefnt sé að litlum ávinningi. Samráð við foreldra og fagfólk er gagnrýnt og augljóslega ekki upplifun foreldra að samráð hafi verið haft um þær tillögur sem voru lagðar fram. Við fögnum því að menntamálaráðuneytið fer fram á rökstuðning um hvernig tekið verði tillit til hverrar umsagnar, í hverju sameiningartilviki fyrir sig, og óskum við eftir að þær upplýsingar verði gerðar opinberar. Við tökum undir varnarorð í umsögn ráðuneytisins þar sem hvatt er til þess að farið verði hægar í breytingarnar, gætt verði að áfanga- og hverfaskiptingu og ávinningur metinn áður en lengra er haldið. Börnin okkar taka undir helstu atriðin sem gagnrýnd eru í umsögnunum og leggja áherslu á að það er mjög gagnrýnivert að fara út í sameiningar sem snerta 32 leikskóla samtímis í miklum andbyr nærsamfélagsins.

Áheyrnarfulltrúi starfsfólks leikskóla óskaði bókað:
Áheyrnarfulltrúi starfsfólks leikskóla tekur undir þá gagnrýni og þau varnaðarorð sem fram hafa komið varðandi sameiningartillögur starfshóps borgarinnar á undanförnum vikum. Þar má t.a.m. benda á umsagnir frá aðildarfélagum Kennarasambands Íslands, samtökum foreldra, Umboðsmanni barna, Menntavísinda-sviði Háskóla Íslands og mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Áheyrnarfulltrúi starfsfólks leikskóla áréttar nauðsyn þess að Reykjavíkurborg móti framtíðarsýn í skólamálum, setji fram skýr markmið með sameiningum/samrekstri skóla og skilgreini námkvæmlega hvaða ávinningi stefnt skuli að með tillögunum. Þetta sjónarmið kemur m.a. skýrt fram í leiðbeiningum Sambands íslenskra sveitarfélaga um samrekstur skóla. Áheyrnarfulltrúi starfsfólks leikskóla ítrekar að jafn afdrifaríkar ákvarðanir um framtíð skólastarfs og hér um ræðir þarf að taka að vel ígrunduðu máli og í góðri samvinnu við fagfólk og foreldra eigi þær að skila tilætluðum árangri. Við slíkar ákvarðanir eiga hagsmunir barna að ganga framar fjárhagslegum hagsmunum sveitarfélaga. Áheyrnarfulltrúi starfsfólks leikskóla varar því borgarfulltrúa í Reykjavík eindregið við að hrinda í framkvæmd framkomnum tillögum starfshóps um greiningu tærkifæra til samrekstrar og/eða sameiningar leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila og hvetur þá til að draga þær nú þegar til baka.

Áheyrnarfulltrúi SAMFOK óskaði bókað:
SAMFOK hvatti foreldra til að skoða tillögur starfshópsins með opnum huga og hafa skólaráð nú lagt fram umsagnir sínar um þær. Nokkur þeirra treysta sér ekki til að taka afstöðu vegna skorts á upplýsingum. Einhver sjá sóknarfæri í hugmyndum eða setja sig ekki upp á móti þeim en telja gjarnan fyrirvara of skamman og/eða undirbúning ekki nægan. Nokkur buðu fram krafta sína við að leggjast yfir hagræðingarhugmyndir sem sátt gæti náðst um. Flestar umsagnirnar eiga þó sammerkt að skólaráðin hafna tillögunum, telja rökstuðningi ábótavant og gagnrýna lélegt upplýsingaflæði og skort á framtíðarsýn og stefnu. Ráðin nefna einnig að of margir óvissuþættir séu enn til staðar, ekki hafi verið haft samráð við foreldra og að fjárhagslegur og faglegur ávinningur sé lítill eða enginn. Í undangengnu kynningarferli hefur SAMFOK gagnrýnt að tillögurnar hafi verið til umræðu sem einn heildarpakki eða knippi af tillögum á hverfavísu. Okkar mat er að betur fari á því að ræða hverja tillögu við starfsfólk og foreldra innan þeirra stofnana sem hún snertir. Í umsögn Menntavísindasviðs má sjá rökstuddar vangaveltur í svipaða veru.
Í umsögnum skólaráðanna má nú sjá afstöðu þeirra til hverrar tillögu fyrir sig. SAMFOK varar við því að farið verði út í kostnaðarsamar og tímafrekar sameiningar í andstöðu við foreldra og starfsfólk. SAMFOK telur umsagnir skólaráðanna sýna að mistekist hafi að miklu leyti að undirbúa jarðveginn og vinna tillögunum nægilegt fylgi sem er forsenda þess að vel megi til takast. SAMFOK hvetur til þess að horft verði til afstöðu skólaráðanna í framhaldinu og óskar eftir því að gert verði opinbert að hvaða marki það er gert, í samræmi við tilmæli mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Áheyrnarfulltrúi Félags skólastjórnenda í Reykjavík óskaði bókað:
Áheyrnarfulltrúi Félags skólastjórnenda í Reykjavík hvetur borgaryfirvöld til að taka mark á framkomnum umsögnum og staldra við. Ef breytingar á skólamálum í Reykjavík eru óumflýjanlegar verður að vinna að þeim á faglegan hátt í samvinnu við nemendur, foreldra og starfsmenn skólanna. Það mun taka tíma og þann tíma verður að gefa ekki síst í ljósi þeirrar viðurkenndu staðreyndar að árangursríkar breytingar eru unnar í sameiningu.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska eftir viðbótarupplýsingum við umsögn fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar frá Mennta- og/eða Leikskólasviði. Óskað er eftir að tafla á bls. 9 í skýrslu um samrekstur og sameiningar sé sérstaklega metin m.t.t. réttmæti útreikninga á þeim liðum er kallast innri leiga vegna bygginga, hagræðing vegna breytinga á frístundastarfi og hagkvæmari bekkjardeilda út frá markmiðum starfshópsins. Að auki er óskað eftir upplýsingum um áætlanir um þann fjárfestingarkostnað sem til fellur vegna þeirra sameiningarkosta sem lagðir eru til varðandi húsnæðiskost og þann áætlaða viðbótarkostnað sem fellur til vegna þeirrar vinnu sem hefst miðlægt hjá Mennta- og Leikskólasviði þegar sameiningarferli hefjast. Þarf að ráða fólk eða auka starfshlutfall eða bæta við yfirvinnukostnaði? Á að óska eftir samstarfi við þriðja aðila til að leiða þessar breytingar og ef svo er hvað er áætlað að það kosti? Að lokum er óskað eftir upplýsingum um hvernig sviðin sjá fyrir sér að fylgja eftir þeim tölum sem áætlað er að spara í þessum aðgerðum, t.d. er áætlað að 2014 eigi að sparast við sameiningu Fossvogsskóla og Kvistaborgar um 18 milljónir á ári. Á þessum árum sem innleiðingin tekur breytast tölur mjög mikið vegna verðlags og kjaramála og breytinga hjá starfsfólki og afar erfitt að greina með einhverjum áreiðanlegum hætti hver fjárhagslegur ávinningur er og því er spurt hvernig sannfæra eigi foreldra og starfsmenn um að um sé að ræða raunverulega hagræðingu. Óskað er eftir þessum upplýsingum, enda liggja þær allar fyrir, áður en umsögn menntaráðs verður afgreidd í næstu viku.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins óskuðu bókað:
Þakkað er fyrir góðar umsagnir og sérstaklega er forseta Menntavísindasviðs Háskóla Íslands og fulltrúum mennta- og menningarmálaráðuneytis þakkað fyrir komuna í menntaráð til að fylgja eftir umsögnum sínum. Nú undirbýr meirihluti menntaráðs næstu skref í málinu sem er að vinna umsögn byggða á öllum gögnum málsins, þar sem tekið verður tillit til fjárhagslegrar stöðu borgarinnar, þeirra fjölmörgu umsagna sem borist hafa og þeirrar faglegu vinnu sem átt hefur sér stað á vettvangi borgarinnar undanfarna mánuði við endurskipulagningu skóla- og frístundastarfs. Umsögnin verður svo send borgarráði til endanlegrar afgreiðslu.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna óskuðuð bókað:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna þakka foreldrum og öðrum umsagnaraðilum fyrir einstaklega vel unnar umsagnir og málefnalegar. Það er mikilvægt að borgarfulltrúar lesi þær og taki tillit til þeirra. Samhljómur er í umsögnunum um ýmsa þætti er varðar upplýsingagjöf, skort á samráði og flestir hafna þeim tillögum sem lagðar eru fram. Langflestir eru sammála um að fara hægar í sakirnar og fá foreldra og stjórnendur með í breytingarnar.

2. Lögð fram innkomin erindi vegna hagræðingar í leikskólum Reykjavíkurborgar (10 erindi) og grunnskólum Reykjavíkurborgar (13 erindi).

3. Lagt fram bréf sviðsstjóra Leikskólasviðs, dags. 28. mars 2011, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa menntaráði, 5 mál.

Fundi slitið kl. 16.30

Oddný Sturludóttir

Eva Einarsdóttir Kjartan Magnússon Líf Magneudóttir Óttarr Ólafur Proppé Stefán Benediktsson Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir