No translated content text
Skóla- og frístundaráð
SKÓLA- OG FRÍSTUNDARÁÐ
Ár 2012, 12. júlí, var haldinn 21. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn var haldinn á Völlum, Höfðatorgi í Reykjavík og hófst kl. 16.35. Fundinn sátu Oddný Sturludóttir formaður, Erna Ástþórsdóttir, Hilmar Sigurðsson, Kjartan Magnússon, Kristín Soffía Jónsdóttir og Marta Guðjónsdóttir. Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Bryndís Jónsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum; Helgi Eiríksson, stjórnendur frístundamiðstöðva; Rósa Ingvarsdóttir, kennarar í grunnskólum; S. Ingibjörg Jósefsdóttir, skólastjórar í grunnskólum og Þórunn Gyða Björnsdóttir, skólastjórar í leikskólum. Jafnframt sátu fundinn Valgerður Janusdóttir, staðgengill sviðsstjóra og Eygló Rúnarsdóttir.
Fundarritari var Eygló Traustadóttir.
Þetta gerðist:
- Kl. 16.35 tók Kristín Jóhannesdóttir, skólastjóri Fellaskóla sæti á fundinum.
1. Hugmyndir um tilraunaverkefni í 1. og 2. bekk Fellaskóla. Kristín Jóhannesdóttir, skólastjóri
Fellaskóla kynnti og svaraði fyrirspurnum.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Skóla- og frístundaráð samþykkir að frá og með upphafi skólaárs 2012-2013 verði farið í tveggja ára tilraunaverkefni þar sem skóladagur barna í 1. og 2. bekk í Fellaskóla verði lengdur úr 30 kennslustundum í 34 kennslustundir á viku og um leið verði skóla- og frístundastarf samþætt frá kl. 8:00 – 15:40. Stóraukin áhersla verður lögð á málþroska og læsi, hvetjandi námsumhverfi, félagsfærni og samskipti. Tilraunaverkefnið gerir ekki ráð fyrir gjaldtöku frá foreldrum, en frá kl. 15:40-17:15 stendur börnum til boða frístundastarf gegn gjaldi eins og annars staðar í borginni.
Greinargerð fylgdi. SFS2012070054
Svohljóðandi málsmeðferðartillaga samþykkt:
Skóla- og frístundaráð vísar til umsagnar skólaráðs Fellaskóla og stjórnar foreldrafélags Fellaskóla tillögu um tilraunaverkefni í 1. og 2. bekk Fellaskóla, fjölgun vikulegra kennslustunda, samþættingu skóla- og frístundastarfs og aukna áherslu á málþroska og læsi, hvetjandi námsumhverfi, félagsfærni og samskipti.
2. Hugmyndir um safnfrístund fyrir nemendur í 3. og 4. bekk í Fellaskóla og Hólabrekkuskóla. Helgi Eiríksson, forstöðumaður frístundamiðstöðvarinnar Miðbergs kynnti og svaraði fyrirspurnum.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Skóla- og frístundaráð samþykkir að frá og með upphafi skólaársins 2012-2013 verði starfrækt safnfrístund fyrir börn í 3. og 4. bekk í Fellaskóla og Hólabrekkuskóla í húsnæði Reykjavíkurborgar að Hraunbergi 12. Frístundamiðstöðin Miðberg mun bera ábyrgð á starfseminni sem byggir á góðri reynslu Frostheima í Vesturbænum. Lögð verði áhersla á að koma til móts við getu og þarfir átta og níu ára gamalla barna með krefjandi viðfangsefnum og klúbbastarfi og allra leiða verður leitað til að auka þátttöku barna á þessum aldri í skipulögðu tómstundastarfi í hverfinu, sem lengi hefur verið ívið minni en í öðrum hverfum. Stjórnendur frístundastarfs kynni foreldrum og börnum í 3. og 4. bekk skólanna kosti safnfrístundar í byrjun ágúst og sett verði á laggirnar sérstakt foreldraráð sem taki virkan þátt í að móta starfið.
Greinargerð fylgdi. SFS2012070056
Svohljóðandi málsmeðferðartillaga samþykkt:
Skóla- og frístundaráð vísar tillögu um safnfrístund fyrir nemendur í 3. og 4. bekk í Fellaskóla og Hólabrekkuskóla til umfjöllunar skólaráða Fellaskóla og Hólabrekkuskóla og stjórna foreldrafélaga Fellaskóla og Hólabrekkuskóla.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskuðu bókað:
Starfsmönnum skóla- og frístundasviðs er þakkað fyrir góða vinnu við mótun þeirra tillagna, sem hér liggja fyrir. Er sjálfsagt að vísa tillögunum til umsagnar viðkomandi skólaráða og stjórna foreldrafélaga. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins átelja hins vegar þau vinnubrögð, sem meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins hefur viðhaft við undirbúning þessara mála. Í ljósi eðlis þeirra og umfangs hefði verið rétt að standa mun betur að undirbúningi en gert hefur verið og taka þau til eðlilegrar umfjöllunar á vettvangi skóla- og frístundaráðs áður en það fór í sumarleyfi fyrir þremur vikum. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem gefnar hafa verið hér á fundinum, hófst vinna að umræddum verkefnum eftir að ráðið fór í sumarleyfi en stefnt er að því að hefja kennslu samkvæmt þeim við byrjun skólaárs eftir rúman mánuð. Því er ráðið nú kallað úr sumarleyfi í skyndingu til að funda um þessi mál án sviðstjóra, án skólastjóra Hólabrekkuskóla og að viðstöddum aðeins fjórum af sjö aðalmönnum í ráðinu. Þá er augljóst að það er vissum vandkvæðum bundið að vísa slíkum tillögum til umsagnar á miðju sumri þegar skólastarf liggur niðri. Er slíkt verklag óviðunandi en sýnir vel slælega verkstjórn og hroðvirknisleg vinnubrögð sem viðgangast í skóla- og frístundamálum í Reykjavík undir meirihluta Samfylkingar og Besta flokksins. Vonandi mun slíkt verklag ekki hafa neikvæð áhrif á málið og er starfsmönnum skóla- og frístundasviðs óskað góðs gengis við frekari undirbúning þess og framvindu. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja mikla áherslu á að í umræddum verkefnum verði gott samstarf haft við íþróttafélög og tónlistarskóla hverfisins og að samþættingin nái til starfsemi þeirra eins og kostur er.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar óskuðu bókað:
Tilraunaverkefni um samþættan skóla- og frístundadag og aukna áherslu á lestur í Fellaskóla er sérstaklega ánægjulegt og vel undirbúið verkefni af stjórnendum og starfsfólki í skóla og frístundastarfi í Fellahverfi. Hugmyndir um samþættan skóla- og frístundadag hófust fyrir mörgum árum og eru í þróun um alla borg, m.a. í Dalskóla, Klébergsskóla, Norðlingaskóla og Ártúnsholti. Hugmyndirnar hafa verið í gerjun í hverfinu um hríð, þær tilheyra þróun skóla- og frístundastarfs og eiga sér stoð í starfsáætlun og stefnu skóla- og frístundasviðs. Í skóla- og frístundaráði hefur verið einhugur um að leita leiða til að bjóða upp á safnfrístund í fleiri hverfum þar sem reynsla af því er sérstaklega góð. Verkefnin tvö lýsa frábærum samstarfsanda stjórnenda í 111 Reykjavík og fulltrúum Besta flokksins og Samfylkingarinnar er heiður að því að koma um hábjargræðistímann og samþykkja slíka metnaðarfulla þróun í þágu barna í Breiðholti sem engin ástæða er til að bíða með, svo vel ígrunduð eru þau. Það er miður að svo góð verkefni fái í veganesti fýlubombu frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins á þessum sólríka degi.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskuðu bókað:
Það er miður að fulltrúar Samfylkingar og Besta flokksins skelli skollaeyrum við eðlilegri gagnrýni á slæleg vinnubrögð í skóla- og frístundamálum og reyni að gera lítið úr slíkri gagnrýni í ljósi veðurblíðu. Hafi málið verið í gerjun um tíma og formlegur undirbúningur þess hafinn eins og gefið er í skyn í bókun meirihlutans, átti að sjálfsögðu að taka málið fyrir á reglulegum fundi ráðsins fyrir sumarleyfi.
Fundi slitið kl. 18.08
Oddný Sturludóttir
Erna Ástþórsdóttir Hilmar Sigurðsson
Kjartan Magnússon Kristín Soffía Jónsdóttir
Marta Guðjónsdóttir