No translated content text
Skóla- og frístundaráð
SKÓLA- OG FRÍSTUNDARÁÐ
Ár 2012, 6. júní, var haldinn 19. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn var haldinn í Hofi, Höfðatorgi í Reykjavík og hófst kl. 10:05. Fundinn sátu Oddný Sturludóttir formaður, Eva Einarsdóttir, Hilmar Sigurðsson, Kjartan Magnússon, Líf Magneudóttir, Marta Guðjónsdóttir og Óttarr Ólafur Proppé. Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Helga Sigfúsdóttir, starfsmenn í leikskólum; Bryndís Jónsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum; Helgi Eiríksson, stjórnendur frístundamiðstöðva; Rósa Ingvarsdóttir, kennarar í grunnskólum; Rósa Steingrímsdóttir, foreldrar barna í leikskólum og Þórunn Gyða Björnsdóttir, skólastjórar í leikskólum. Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Auður Árný Stefánsdóttir, Hildur Skarphéðinsdóttir, Soffía Pálsdóttir og Valgerður Janusdóttir.
Fundarritari var Guðrún Sigtryggsdóttir.
Þetta gerðist:
- Kl. 10:05 tóku Hannah Bryndís Proppé Bailey, Emelía Madeleine Heenen og Eygló Rúnarsdóttir verkefnastjóri á fagskrifstofu tómstundamála á skóla- og frístundasviði, sæti á fundinum.
1. Lagt fram bréf frá skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. 25. apríl 2012, þar sem vísað er til skóla- og frístundaráðs svohljóðandi tillögu Hönnuh Bryndísar Proppé Bailey:
Hugmyndin okkar er um það að fá „Ungmennakennslustund“, tíma þar sem börn og unglingar fá að læra um og fá að segja sína skoðun á og ræða mikilvæg málefni samfélagsins einsog einelti, kynjamismunun, fordóma, fjármálafræðslu, geðheilsu, stjórnmál, umhverfisfræði og það verður líka meiri áhersla á hópeflingu. Þessi tími getur verið settur inn í lífsleiknitíma, en hugmyndin er hugsuð sem endurhugsun á lífsleikni, samt viljum við að það sé meira en einn tími á viku svo það sé nægur tími til að tala um þetta allt. Það er oft talað við fullorðna í gegnum sjónvarp og annað um þessi mikilvægu málefni samfélagsins en ég spyr ykkur: Eigum við ekki sem ungmenni skilið að læra um þetta líka?
Jafnframt lagt fram, minnisblað sviðsstjóra, dags. 31. maí 2012 vegna tillögu Hönnuh Bryndísar. SFS2012040221
Hannah Bryndís Proppé Bailey mælti fyrir tillögunni.
Frestað.
2. Lagt fram bréf frá skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. 25. apríl 2012, þar sem vísað er til skóla- og frístundaráðs svohljóðandi tillögu Emelíu Madeleine Heenen:
Það er borgarleg skylda hvers og eins að reyna að bjarga mannslífi eða lina augljósar þjáningar. Ungmennaráð Vesturbæjar setur fram tillögu um að skyndihjálp verði kennd í grunnskólum. Við í Ungmennaráðinu ræddum um það hvað okkur fyndist vanta í skólum borgarinnar og vorum sammála um að það vantar kennslu í skyndihjálp. Okkur finnst að allir ættu að kunna skyndihjálp og því teljum við mikilvægt að hún verði kennd í skólum að minnsta kosti 2 sinnum á ári frá 5. bekk. Okkur finnst mikilvægt að kennslan byrji í 5. bekk vegna þess að því fyrr sem maður byrjar að læra hlutina því betra, þá fer það í langtímaminnið og viðbrögðin koma af sjálfum sér.
Jafnframt lagt fram minnisblað sviðsstjóra, dags. 31. maí 2012, vegna tillögu Emelíu Madeleine. SFS2012040222
Emelía Madeleine Heenen mælti fyrir tillögunni.
Frestað.
- Kl: 10:50 viku Hanna Bryndís Proppé Bailey, Emelía Madeleine Heenen og Eygló Rúnarsdóttir af fundi.
3. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 16. maí sl.:
Skóla- og frístundaráð beinir því til framkvæmda- og eignasviðs að lagfæra og fegra sem fyrst lóð frístundaheimilisins Stjörnulands við Ingunnarskóla, sem starfrækt er við Kirkjustétt 2-6. Núverandi leiksvæði frístundaheimilisins er óviðunandi en þar er einungis opið grassvæði og moldarsvað, sem verður að aurbleytu í rigningum. Fyrir kemur að svæðið sé þakið glerbrotum og öðru rusli þar sem vínveitingastaður er í næsta húsi. Afmarka þarf leiksvæði fyrir frístundaheimilið og koma leiktækjum fyrir. Þá þarf að helluleggja gangstíg sem liggur á milli skólans og frístundaheimilisins. Einnig þarf að huga að hljóðvist í frístundaheimilinu en þar eru nú um eitt hundrað börn.
SFS2012050209
Tillagan svo breytt samþykkt og vísað til framkvæmda og eignasviðs:
Skóla- og frístundaráð beinir því til framkvæmda- og eignasviðs að lagfæra og fegra sem fyrst lóð frístundaheimilisins Stjörnulands við Ingunnarskóla, sem starfrækt er við Kirkjustétt 2-6. Núverandi leiksvæði frístundaheimilisins er óviðunandi en þar er einungis opið grassvæði og moldarsvað, sem verður að aurbleytu í rigningum.
Einnig þarf að huga að hljóðvist í frístundaheimilinu en þar eru nú um eitt hundrað börn.
4. Lagt fram yfirlit verkefna sem tilnefnd voru til hvatningarverðlauna skóla- og frístundaráðs til leikskóla 2011/2012 og tillaga starfshóps um hvatningarverðlaun skóla- og frístundaráðs. Einnig lagðar fram reglur um hvatningarverðlaun leikskólaráðs nú skóla- og frístundaráðs. SFS2011120012
Tillaga starfshóps um að eftirfarandi verkefni/leikskólar hljóti hvatningarverðlaun skóla- og frístundaráðs 2011/2012:
1. Leikskólinn Laufskálar fyrir verkefnið, Þema verkefni eldri barna.
2. Leikskólinn Rauðaborg fyrir verkefnið, Jógaiðkun barna.
3. Leikskólinn Sólborg fyrir, Daglegt starf með fötluðum og ófötluðum og vinnu með
táknmál.
4. Leikskólinn Sæborg fyrir verkefnið, Mín leið.
5. Leikskólinn Ægisborg fyrir verkefnið, Sérkennsla í Ægisborg.
6. Rakel G. Magnúsdóttir í leikskólanum Bakkabergi fyrir frumkvöðlavinnu upp-lýsingatækni með leikskólabörnum.
Tillaga starfshóps samþykkt.
- Kl. 11:25 tók Kristín Egilsdóttir sæti á fundinum.
5. Lögð fram viðbót við drög að fjárhagsáætlun skóla- og frístundasviðs 2013-2017 sem kynnt voru á fundi skóla- og frístundaráðs 30. júní sl. Kristín Egilsdóttir fjármálastjóri skóla- og frístundasviðs kynnti.
- Kl. 11:30 vék Kristín Egilsdóttir af fundi.
6. Lagt fram svar við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna, frá 21. desember 2011, varðandi starfsmannamál. SFS2012040052
- Kl. 12:00 vék Kjartan Magnússon af fundi.
7. Lögð fram skýrslan Viðhorf foreldra til frístundastarfs í Reykjavík, lykiltölur og undirbúningur könnunar haustið 2012, dags. í maí 2012. Hildur Björk Svavarsdóttir, deildarstjóri tölfræði- og rannsóknaþjónustu skóla- og frístundasviðs kynnti og svaraði fyrirspurnum. SFS2012060002
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins óskuðu bókað:
Fulltrúarnir fagna niðurstöðum úr viðhorfskönnun foreldra til frístundaheimila, félagsmiðstöðva og 10-12 ára frístundastarfs. Ánægja með frístundaheimili helst stöðug og telja tæp 90#PR foreldra að barni þeirra líði vel í frístundaheimilinu og 83#PR foreldra telja dvöl í frístundaheimili hafa jákvæð áhrif á félagsfærni barnsins. Eins má fagna því að frístundaheimilum vex fiskur um hrygg því nú nýta 70#PR foreldra sér frístundaheimili sem kost fyrir sitt barn, það hlutfall var 58#PR árið 2010. Mikil tækifæri liggja í 10-12 ára frístundastarfi skóla- og frístundasviðs en ekki hefur áður verið spurt um það í foreldrakönnun. Um þriðjungur foreldra vildi sjá aukna þjónustu fyrir þennan aldurshóp og minnihluti taldi sig þekkja þá þjónustu sem er til staðar. Það eru mikilvæg skilaboð í vinnu við stefnumótun um frístundastarf fyrir 10-12 ára Reykvíkinga sem skóla- og frístundaráð samþykkti nýverið. Ánægja foreldra með líðan unglinga í félagsmiðstöð er mikil og um 94#PR foreldra töldu þátttökuna hafa jákvæð áhrif á félagsfærni unga fólksins. Viðhorfskönnunin er gríðarlega mikilvægt tæki nú þegar fyrir liggur að móta gæðaviðmið um metnaðarfullt frístundastarf fyrir börn og unglinga í Reykjavík. Þessi kortlagning er mikilvæg sem undirbúningur fyrir umfangsmeiri könnun á frístundastarfi sem fyrirhuguð er á haustönn 2012.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Vinstri grænna óskaði bókað:
Fulltrúi Vinstri grænna í skóla- og frístundaráði ætlar að bíða eftir viðameiri könnun á frístundastarfi grunnskólabarna sem birt verður í haust áður en hann tjáir sig almennt um frístundastarf í borginni að þessu sinni. Hins vegar þykir honum afar mikilvægt að kanna hvers kyns skóla- og frístundastarf, m.a. líðan barna, framvindu og ástundun og hug foreldra til starfsins, og fagnar því starfi sem fram fer á sviðinu að þessu leyti.
8. Niðurstöður Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur árið 2011 í leikskólum og grunnskólum. Rósa Magnúsdóttir, deildarstjóri Umhverfiseftirlits, umhverfis- og samgöngusviði Reykjavíkurborgar kynnti og svaraði fyrirspurnum.
- Kl. 12:45 vék Þórunn Gyða Björnsdóttir af fundi.
9. Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 31. maí sl., um embættisafgreiðslu erindis sem borist hefur skóla- og frístundaráði, eitt mál. SFS2011100054
10. Tölulið 10 í útsendri dagskrá frestað.
11. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska eftir upplýsingum um hvort til séu verkferlar sem kennarar og starfsfólk leikskóla, grunnskóla og frístundamiðstöðva ber að fara eftir þegar nemendur slasast eða verða fyrir óhappi í skólanum eða í vettvangsferðum. Þá er jafnframt óskað upplýsinga um hvort slys á nemendum séu skráð.
12. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska eftir upplýsingum um hvernig staðið var að ráðningum í yfirmannsstöður og helstu stöður á nýtt sameinað svið Skóla- og frístundamála og hvort þær voru auglýstar lausar til umsóknar.
13. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Vinstri grænna lagði fram svohljóðandi tillögu:
Skóla- og frístundaráð samþykkir að vísa til borgarráðs tillögu skóla- og frístundaráðsfulltrúa Vinstri grænna um að veita foreldrafélögum/ráðum leikskóla fjárframlög sem miðast við 1000 krónur á hvert skráð barn í borgarreknum leikskólum. Á upphæðin að nýtast börnum, foreldrum og starfsfólki leikskólanna til að efla og glæða innra starf leikskólanna með þeim hætti sem foreldrafélagið/ráðið telur ákjósanlegast.
Greinargerð fylgdi.
Frestað.
Fundi slitið kl. 13:05
Oddný Sturludóttir
Eva Einarsdóttir Hilmar Sigurðsson
Líf Magneudóttir Marta Guðjónsdóttir
Óttarr Ólafur Proppé