Skóla- og frístundaráð
SKÓLA- OG FRÍSTUNDARÁÐ
Ár 2012, 30. maí, var haldinn 18. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn var haldinn í Kerhólum, Höfðatorgi í Reykjavík og hófst kl. 10.08. Fundinn sátu Oddný Sturludóttir formaður, Eva Einarsdóttir, Hilmar Sigurðsson, Kjartan Magnússon, Líf Magneudóttir, Marta Guðjónsdóttir og Óttarr Ólafur Proppé. Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Helga Sigfúsdóttir, starfsmenn í leikskólum; Fanný Heimisdóttir, skólastjórar í leikskólum; Helgi Eiríksson, stjórnendur frístundamiðstöðva og S. Ingibjörg Jósefsdóttir, skólastjórar í grunnskólum. Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson sviðsstjóri, Auður Árný Stefánsdóttir, Hildur Skarphéðinsdóttir, Kristín Egilsdóttir, Laufey Ólafsdóttir, Soffía Pálsdóttir og Valgerður Janusdóttir. Fundarritari var Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingarinnar, sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 23. maí 2012:
Skóla- og frístundaráð samþykkir breytt fyrirkomulag úthlutunar fjármagns til tónlistarskóla. Í stað nemendaígilda verði úthlutað nemendastundum til tónlistarskóla. Reglum um þjónustusamninga við tónlistarskóla verði breytt í samræmi við breytt fyrirkomulag úthlutunar auk þess sem aðrar nauðsynlegar uppfærslur verði gerðar á þeim.
Greinargerð fylgdi.
Auk þess lögð fram drög að breytingum á reglum um þjónustusamninga Reykjavíkurborgar við tónlistarskóla, dags. 29. maí 2012. SFS2012050132
Samþykkt og vísað til borgarráðs.
- Kl. 10.17 vék Laufey Ólafsdóttir af fundi.
2. Drög að fjárhagsáætlun skóla- og frístundasviðs 2013-2017. Ragnar Þorsteinsson sviðsstjóri og Kristín Egilsdóttir fjármálastjóri skóla- og frístundasviðs kynntu og svöruðu fyrirspurnum.
- Kl. 10.34 tók Bryndís Jónsdóttir sæti á fundinum.
3. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:
Á 7. fundi skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur, 21. desember 2011 óskuðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna eftir upplýsingum um fjölda þeirra starfsmanna, sem sagt hefur verið upp störfum í skólakerfi Reykjavíkurborgar á yfirstandandi kjörtímabili, sem og upplýsingum um starfsmenn, sem orðið hafa fyrir skerðingu á starfshlutfalli. Rúmir fimm mánuðir eru nú liðnir síðan óskað var eftir umræddum upplýsingum og er yfirstandandi skólaár senn á enda runnið. Sá dráttur, sem orðið hefur á því að svara þessari skýru fyrirspurn er óviðunandi. Minnt er á að réttur fulltrúa í skóla- og frístundaráði til upplýsinga er ríkur og slíkum fyrirspurnum ber því að svara eins fljótt og auðið er. Hvenær má búast við því að þessar löngu umbeðnu upplýsingar verði lagðar fyrir ráðið?
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar óskuðu bókað:
Svarið verður lagt fram á næsta fundi ráðsins, 6. júní nk.
Fundi slitið kl. 11.33
Oddný Sturludóttir
Eva Einarsdóttir Hilmar Sigurðsson
Kjartan Magnússon Líf Magneudóttir
Marta Guðjónsdóttir Óttarr Ólafur Proppé