Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

M E N N T A R Á Ð

Ár 2010, 24. mars var haldinn 118. fundur menntaráðs. Fundurinn var haldinn í fundarherbergi ráðsins að Fríkirkjuvegi 1 í Reykjavík og hófst kl. 10:05. Fundinn sátu Kjartan Magnússon formaður, Anna Margrét Ólafsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, Oddný Sturludóttir, Sigrún Elsa Smáradóttir og Sigríður Pétursdóttir. Auk þeirra sátu fundinn Bryndís Jónsdóttir, áheyrnarfulltrúi SAMFOK, Hreiðar Sigtryggsson, áheyrnarfulltrúi Skólastjórafélags Reykjavíkur og Þorgerður L. Diðriksdóttir, áheyrnarfulltrúi Kennarafélags Reykjavíkur. Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson, fræðslustjóri, Auður Árný Stefánsdóttir, Jón Ingi Einarsson og Valgerður Janusdóttir.
Fundarritari var Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir.

Þetta gerðist:

1. Reykjavík – fjölmenningarborg barna. Nanna K. Christiansen, verkefnastjóri á grunnskólaskrifstofu og Lilja Dögg Alfreðsdóttir, formaður starfshóps sem fylgir eftir tillögum sem samþykkar voru á fundi menntaráðs 4. júni 2007 um málefni barna af erlendum uppruna í grunnskólum Reykjavíkurborgar, kynntu stöðu mála við framkvæmd tillagnanna og hugmyndir að næstu skrefum.
Lögð fram handbók Móttaka innflytjenda í grunnskóla Reykjavíkur, dags. í maí 2008 og bæklingur Hvar má fá upplýsingar um kennslu nemenda með annað móðurmál en íslensku?

Bókun menntaráðs:
Menntaráð þakkar starfshópi, sem fjallað hefur um málefni barna af erlendum uppruna í grunnskólum Reykjavíkur fyrir vel unnin störf og fagnar þeim góða árangri sem náðst hefur í málaflokknum á kjörtímabilinu. Menntaráð mun áfram leggja áherslu á að bæta stöðu barna af erlendum uppruna í grunnskólunum. Í upphafi kjörtímabilsins var skipaður starfshópur til að gera úttekt á stöðu þessara barna. Í kjölfarið var ráðist í að efla einkum tvo veigamikla þætti; annars vegar íslensku og móðurmálskennslu og hins vegar móttöku og innritun. Móðurmálskennsla hefur verið efld, m.a. með því að pólska er nú kennd við Tungumálaverið í Laugalækjarskóla. Auk þess sem Tungumálaverið hefur verið í samstarfi við kennara af erlendum uppruna með það að leiðarljósi að bæta þjónustu við börn af erlendum uppruna. Móttökuáætlun er til í öllum grunnskólum og hefur verið uppfærð á kjörtímabilinu. Einnig hefur verið bætt við fagráðgjafa með sérþekkingu á málefnum innflytjenda í Þjónustumiðstöð Breiðholts. Þá hefur verið lögð mikil áhersla á að virkja betur foreldra af erlendum uppruna í samvinnu við SAMFOK. Liður í þessu hefur verið að auka allt upplýsingastreymi til forelda og skólasamfélagsins. Menntaráð þakkar jafnframt þeim starfsmönnum, sem unnið hafa að verkefninu, og telur mikilvægt að unnið verði áfram á þessari braut.

2. Lögð fram ársskýrsla Náttúruskóla Reykjavíkur fyrir árið 2009 og stundatafla fyrir vorið 2010. Helena Óladóttir verkefnisstjóri Náttúruskólans kynnti starfsemi skólans og svaraði fyrirspurnum.
Bókun menntaráðs:
Menntaráð þakkar Helenu Óladóttur verkefnisstjóra Náttúruskóla Reykjavíkur fyrir upplýsandi kynningu á starfi skólans. Það er afar ánægjulegt að sjá hvernig fræðslustarf Náttúruskólans hefur vaxið síðustu ár. Efling umhverfisvitundar er mikilvæg og menntaráð hvetur skólastjóra grunnskóla til að nýta sér áfram þá þekkingu sem er í boði í Náttúruskólanum.

3. Ráðning skólastjóra í skóla í Úlfarsárdal.
Lögð fram:
a) auglýsing um stöðu skólastjóra við nýjan skóla í Úlfarsárdal
b) yfirlit yfir umsækjendur
c) viðmið menntaráðs við val á milli umsækjenda um skólastjórastöður í grunnskólum Reykjavíkurborgar
d) greinargerð fræðslustjóra, dags. 22. mars sl., vegna ráðningar í stöðu skólastjóra í Úlfarsárdal
Þrjátíu umsóknir bárust um stöðuna.
Lagt er til að Hildur Jóhannesdóttir verði ráðin í stöðu skólastjóra í Úlfarsárdal.
Samþykkt.

- Kl. 11:25 vék Lilja Dögg Alfreðsdóttir af fundi.

4. Lagt fram á ný yfirlit, dags. í desember 2009, yfir framkvæmd markmiða í starfsáætlun Menntasviðs 2009, sem var lagt fram á fundi menntaráðs 10. febr. sl.

Fulltrúi Vinstri grænna óskaði bókað:
Framkvæmd markmiða í starfsáætlun 2009 sýnir að á Menntasviði fer fram öflugt starf. Fulltrúi VG í menntaráði telur mikilvægt að starfsáætlunin endurspegli betur öflugt samráð og samstarf við kenara og annað fagfólk í grunnskólum borgarinnar. Kennarar bera uppi skólastarf og því er nauðsynlegt að þau skilaboð séu skýr frá fræðsluyfirvöldum að kennarar eru sérfræðingar á sviði menntunar og í því að skipuleggja skólastarf.

5. Lagðar fram tillögur starfshópsins Börnin í borginni og Aðgerðateymis Velferðarsviðs dags. 15. des. sl., á úrræðum fyrir börn og unglinga í Reykjavík. Ragnar Þorsteinsson, fræðslustjóri gerði grein fyrir málinu.

6. Kynning á niðurstöðum úr Skólapúlsinum, vefkerfi sem miðar að því að veita skólastjórnendum stöðugan aðgang að nýjum upplýsingum sem aflað er mánaðarlega um þætti sem tengjast virkni nemenda og líðan þeirra í skólanum og um skóla- og bekkjaranda. Hildur Björk Svavarsdóttir, deildarstjóri tölfræði- og rannsóknaþjónustu gerði grein fyrir málinu og svaraði fyrirspurnum.

7. Fulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Menntaráð samþykki að fela fræðslustjóra að vinna með grunnskólum Reykjavíkur að því að bæta aðgengi foreldra barna með sérþarfir að upplýsingum og auka gagnsæi þegar kemur að úthlutun fjármagns til barna með fötlun. Í því skyni verði lagt mat á:
1. Sérkennsluáætlun hvers skóla og lögð drög að því að hvert barn fái einstaklingsáætlun sem foreldrar komi að, rétt eins og segir í reglugerð frá árinu 1996.
2. Hvort heimasíða Menntasviðs og aðgengi að bestu mögulegu upplýsingum um þjónustu grunnskólanna við börn með fötlun sé fullnægjandi, og tillögur til úrbóta lagðar fram í kjölfarið.
Frestað.

Fundi slitið kl. 12:22

Kjartan Magnússon

Anna Margrét Ólafsdóttir Marta Guðjónsdóttir
Oddný Sturludóttir Sigrún Elsa Smáradóttir
Sigríður Pétursdóttir