Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

MENNTARÁÐ

Ár 2010, 10. febrúar var haldinn 115. fundur menntaráðs. Fundurinn var haldinn í fundarherbergi ráðsins að Fríkirkjuvegi 1 í Reykjavík og hófst kl. 10.05. Fundinn sátu Kjartan Magnússon formaður, Anna Margrét Ólafsdóttir, Eva Kamilla Einarsdóttir, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Oddný Sturludóttir og Sigríður Pétursdóttir. Auk þeirra sátu fundinn Kjartan Eggertsson, áheyrnarfulltrúi F-lista, Guðrún Valdimarsdóttir, áheyrnarfulltrúi SAMFOK, Hreiðar Sigtryggsson, áheyrnarfulltrúi Skólastjórafélags Reykjavíkur og Þorgerður L. Diðriksdóttir, áheyrnarfulltrúi Kennarafélags Reykjavíkur. Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson, fræðslustjóri, Auður Árný Stefánsdóttir, Jón Ingi Einarsson og Valgerður Janusdóttir.
Fundarritari var Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir.


Þetta gerðist:

1. Lagt fram minnisblað, dags. 10. febrúar 2010 um samstarf í hverfum Reykjavíkur, aukna samfellu og samþættingu í skóla- og frístundastarfi; minnisblað, dags. 10. febrúar 2010 um samstarf frístundaheimila við tómstundaaðila í hverfum; minnisblað, dags. 4. febrúar 2010 um frístundasamgöngur; og samantekt, dags. 10. febrúar 2010 um notkun frístundakortsins árin 2008 og 2009. Ómar Einarsson framkvæmdastjóri, Gísli Á. Eggertsson skrifstofustjóri, Soffía Pálsdóttir, skrifstofustjóri tómstundamála og Sigrún Sveinbjörnsdóttir, verkefnastjóri barnastarfs frá Íþrótta- og tómstundasviði fóru yfir stöðuna og svöruðu fyrirspurnum.
Jafnframt lagt fram bréf frá borgarráði, dags. 7. janúar 2010, þar sem vísað er til menntaráðs tillögum framkvæmdastjóra ÍTR og fræðslustjóra frá 17. des. sl. varðandi rekstur frístundaheimila.
Bókun menntaráðs:
Menntaráð Reykjavíkur lýsir yfir ánægju sinni með þá miklu og árangursríku vinnu, sem starfsfólk Íþrótta- og tómstundasviðs, Menntasviðs og Framkvæmda- og eignasviðs borgarinnar, hefur innt af hendi á undanförnum árum við að bæta og samræma skóla- og frístundastarf í borginni. Á nokkrum árum hefur það markmið náðst að veita öllum börnum í 1. – 4. bekk grunnskóla, sem þess óska, vist á frístundaheimili að loknum skóladegi. Með skýrri áherslu á lausnir, gott samstarf milli sviða og þjónustulund gagnvart börnum, hefur margvíslegum hindrunum verið rutt úr vegi fyrir metnaðarfulla uppbyggingu á þjónustu frístundaheimilanna. Mikil aðsókn á frístundaheimili ásamt jákvæðum niðurstöðum úr þjónustukönnunum sýnir svo ekki verður um villst að mikil og almenn ánægja ríkir með starfsemi þeirra. Nýjungar eins og safnfrístund í Vesturbæ lofa góðu fyrir áframhaldandi þróun frístundaheimila. Átak hefur verið gert í húsnæðismálum frístundaheimila sem hefur skilað þeim árangri að húsnæðisaðstaða er víðast hvar góð eða vel viðunandi. Þrátt fyrir góðan árangur er ástæða til að setja markið hærra og stefna að enn frekari samþættingu skóla og frístunda barna, m.a. með ríkari samvinnu Menntasviðs og Íþrótta- og tómstundasviðs og auknu samstarfi við íþróttafélög, önnur æskulýðssamtök og tónlistarskóla. Í þessu skyni tekur menntaráð heils hugar undir bréf framkvæmdastjóra ÍTR og fræðslustjóra frá 17. desember sl. þar sem fjallað er um ýmsar aðgerðir, sem nú þegar hefur verið hrint í framkvæmd, ásamt hugmyndum, sem miða að því að efla samstarf sviðanna enn frekar við rekstur frístundaheimila. Sem fyrr verður stefnt að samþættum vinnudegi skóla og frístundaheimila þannig að skólastarf, hvíld, tómstundir, frístundaheimili, íþróttir og tónlist myndi samfelldan vinnudag hjá börnum í 1. – 4. bekk. Áhersla verði lögð á að leita leiða til að finna frístundastarfinu stað innan samfellds skóladags í stað þess að koma í lok vinnudags. Íþrótta- og tómstundasvið og Menntasvið vinni sameiginlega að þessu markmiði.

2. Lagt fram bréf Katrínar Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, dags. 19. janúar sl. um fyrirkomulag innritunar nýnema í framhaldsskóla vorið 2010. Einnig lagðar fram almennar upplýsingar um innritunina og samantekt, dags. 4. febrúar sl. um forgangsröðun grunnskólanemenda í framhaldsskóla. Þórir Ólafsson og Sölvi Sveinsson frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu kynntu málið og svöruðu fyrirspurnum.

- Kl. 12:20 vék Kjartan Eggertsson af fundi.

3. Kynnt drög að þriggja ára fjárhagsáætlun Menntasviðs. Jón Ingi Einarsson, fjármálastjóri Menntasviðs gerði grein fyrir málinu og svaraði fyrirspurnum.

4. Lögð fram á ný svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem frestað var á fundi menntaráðs 13. jan. sl.:
Áformað er að skólalóð Breiðholtsskóla verði endurgerð samhliða því að byggt verði við skólann. Þar sem viðbyggingunni hefur verið frestað, óskar menntaráð eftir því við Framkvæmda- og eignasvið að skoðað verði hvort unnt sé að vinna að lagfæringum á lóðinni á komandi sumri og hefja e.t.v. endurgerð á hluta hennar.
Samþykkt.
Bókun menntaráðs:
Menntaráð undirstrikar mikilvægi skólalóða sem hluta af námsumhverfi nemenda í grunnskólum borgarinnar. Einnig er mikilvægt að skólalóðir styðji vel við hreyfingu og hollustu nemenda í frístundum þeirra. Því telur menntaráð mikilvægt að það hafi heildaryfirsýn yfir ástand, skipulag og framkvæmdir við skólalóðir borgarinnar.

5. Lögð fram á ný svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem frestað var á fundi menntaráðs 13. jan. sl.
Menntaráð óskar eftir því við Skipulags- og byggingarsvið og Framkvæmda- og eignasvið að skólalóð Melaskóla verði deiliskipulögð og þar verði m.a. gert ráð fyrir gervigrasvelli. Rétt er að nemendum og foreldrum þeirra, sem og starfsmönnum skólans og frístundaheimilisins, verði gefinn kostur á að taka þátt í þeirri vinnu til að mæta ólíkum þörfum barna.
Samþykkt.

6. Lagt fram erindi frá stjórn foreldrafélags Melaskóla, dags. 26. janúar sl. um deiliskipulagsgerð við skólann.
Bókun menntaráðs:
Menntaráð tekur undir erindi foreldrafélags Melaskóla um deiliskipulagsgerð í nágrenni skólans, enda er hún heildstæð og í anda samfellu í skóla- og frístundastarfi sem og eflingu félagsauðs. Menntaráð vísar erindi foreldrafélags Melaskóla til skipulagsráðs.

7. Lagt fram yfirlit, dags. í desember 2009, yfir framkvæmd markmiða starfsáætlunar Menntasviðs 2009.

8. Lögð fram ályktun skólaráðs Seljaskóla frá 20. jan. sl. varðandi rekstur skólans.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna óskuðu bókað:
Fulltrúarnir þakka skólaráði Seljaskóla fyrir ályktun varðandi hagræðingar-aðgerðir í grunnskólum dags. 20. janúar 2010. Það er fagnaðarefni að skólastarf hafi gengið áfallalítið í Seljaskóla og ljóst er að því ber að þakka starfsfólki, foreldrum og nemendum. Við fjárhagsáætlunargerð Reykjavíkurborgar hefur verið forgangasraðað í þágu barna og velferðarmála. Hagræðingarkrafan á þau svið sem þjóna börnum hefur verið umtalsvert lægri en á önnur svið. Fulltrúarnir taka heils hugar undir með skólaráði Seljaskóla um mikilvægi málaflokksins og mun beita sér áfram fyrir því að standa vörð um menntun barnanna í borginni.
Fulltrúar Samfylkingarinnar óskuðu bókað:
Fulltrúar Samfylkingarinnar taka undir með skólaráði Seljaskóla um mikilvægi skólastarfs og deila þeim áhyggjum sem fram koma í ályktun skólaráðsins. Það er afar mikilvægt að fylgjast vel með áhrifum hagræðingaraðgerða á nám og líðan barna í Reykjavík. Í því skyni er mikilvægt að nýta til þess öll tæki sem fræðsluyfirvöld búa yfir, m.a. Skólapúlsinn. Því er fagnað að Skólapúlsinn sé vel útbreiddur í skólum borgarinnar og í því skyni óska fulltrúar Samfylkingarinnar eftir því að fræðslustjóri kynni fyrir menntaráði helstu niðurstöður úr nemendakönnunum vetrarins sem gerðar eru í gegnum Skólapúlsinn. Horfa skal helst á þrjár breytur: Líðan nemenda, nám nemenda og virkni nemenda. Þess er óskað að menntaráð fái kynningu í síðasta lagi á fyrri fundi menntaráðs í apríl og eftirleiðis hið minnsta þrisvar á ári.
Áheyrnarfulltrúi SAMFOK óskaði bókað:
Samfok, samtök foreldra grunnskólabarna í Reykjavík, fagna ályktun skólaráðs Seljaskóla og taka heils hugar undir þær áhyggjur sem þar koma fram. Enn fremur tekur stjórn Samfok undir þá hvatningu til fræðsluyfirvalda að ganga ekki nær grunnskólunum en orðið er með frekari hagræðingarkröfu. Stjórn Samfok deilir áhyggjum skólaráðs Seljaskóla af þeim afleiðingum sem niðurskurður hefur á skólastarf, menntun grunnskólabarna og framtíðar-uppbyggingu þessa lands. Stjórn Samfok minnir á og vill ítreka mikilvægi þess að ávallt sé haft samráð við skólaráðin um allar áætlanir er varða skólastarfið, þar með talið rekstaráætlanir, og að þær séu kynntar fyrir öllum foreldrum eins og lög um grunnskóla kveða á um.

9. Lagt fram svar, dags. 10. febrúar 2010, við fyrirspurnum fulltrúa Samfylkingarinnar og Vinstri grænna frá fundi menntaráðs 13. janúar sl. varðandi húsnæðiskostnað.

10. Lagður fram undirskriftalisti, dags. 9. febrúar sl., frá starfsmönnum Austurbæjarskóla þar sem mótmælt er notkun á stimpilklukku/viðverukerfinu Vinnustund.

11. Lögð fram dagskrá Öskudagsráðstefnu Menntasviðs Reykjavíkur, Kennarafélags Reykjavíkur og Skólastjórafélags Reykjavíkur sem verður í Ingunnarskóla 17. febrúar nk. kl. 13.00 – 17.00.


Fundi slitið kl. 13.10

Kjartan Magnússon

Anna Margrét Ólafsdóttir Eva Kamilla Einarsdóttir
Lilja Dögg Alfreðsdóttir Marta Guðjónsdóttir
Oddný Sturludóttir Sigríður Pétursdóttir