Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

SKÓLA- OG FRÍSTUNDARÁÐ

Ár 2011, 28. september, var haldinn 1. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn var haldinn í Höfðatorgi í Reykjavík og hófst kl. 12:40. Fundinn sátu Oddný Sturludóttir formaður, Eva Einarsdóttir, Hilmar Sigurðsson, Kjartan Magnússon, Líf Magneudóttir, Óttarr Ólafur Proppé og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir. Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Helga Sigfúsdóttir, starfsmanna í leikskólum; Bryndís Jónsdóttir, foreldra barna í grunnskólum; Helgi Eiríksson, stjórnenda frístundamiðstöðva; Rósa Steingrímsdóttir, foreldra barna í leikskólum; S. Ingibjörg Jósefsdóttir, skólastjóra í grunnskólum; Þorgerður L. Diðriksdóttir, kennara í grunnskólum og Þórunn Gyða Björnsdóttir, skólastjóra í leikskólum. Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson sviðsstjóri, Auður Árný Stefánsdóttir, Guðrún Sigtryggsdóttir, Hildur Skarphéðinsdóttir, Ingunn Gísladóttir, Ragnheiður Stefánsdóttir, Soffía Pálsdóttir og Valgerður Janúsdóttir.
Fundarritari var Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir.

Þetta gerðist:

1. Lagt fram bréf frá borgarstjóranum í Reykjavík, dags. 21. september sl., þar sem greint er frá því að á fundi borgarstjórnar 20. september sl. hafi eftirtaldir fulltrúar verið kosnir í skóla- og frístundaráð:

Oddný Sturludóttir
Hilmar Sigurðsson
Óttarr Ólafur Proppé
Eva Einarsdóttir
Kjartan Magnússon
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir
Líf Magneudóttir

Til vara:
Erna Ástþórsdóttir
Pétur Magnússon
Ingi Bogi Bogason
Kristín Erna Arnardóttir
Marta Guðjónsdóttir
Rúna Malmquist
Sigríður Pétursdóttir

Formaður var kjörinn án atkvæðagreiðslu Oddný Sturludóttir.
SFS2011090132

2. Óttarr Ólafur Proppé var kosinn varaformaður skóla- og frístundaráðs með 6 atkvæðum.

3. Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík, dags. 21. september sl., þar sem greint er frá því að á fundi borgarstjórnar 20. september sl., hafi verið samþykktar samþykktir fyrir skóla- og frístundaráð og íþrótta- og tómstundaráð. Samþykktir ráðanna lagðar fram. SFS2011090148

4. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 26. september sl., um tilnefningu eftirtalinna áheyrnarfulltrúa í skóla- og frístundaráð:

Anna Helga Sigfúsdóttir, leikskólakennari á Austurborg, fulltrúi starfsmanna í leikskólum.
Bryndís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri SAMFOK, fulltrúi foreldra barna í grunnskólum.
Helgi Eiríksson, forstöðumaður frístundamiðstöðvarinnar Miðbergs, fulltrúi stjórnenda frístundamiðstöðva.
S. Ingibjörg Jósefsdóttir, skólastjóri í Hagaskóla og formaður Félags skólastjórnenda í Reykjavík, fulltrúi skólastjóra í grunnskólum.
Rósa Steingrímsdóttir, formaður stjórnar Barnanna okkar, fulltrúi foreldra barna í leikskólum.
Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, formaður Kennarafélags Reykjavíkur, fulltrúi kennara í grunnskólum.
Þórunn Gyða Björnsdóttir, leikskólastjóri Rofaborgar, fulltrúi skólastjóra í leikskólum.
SFS2011090132

5. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra, dags. 26. september sl., yfirlit yfir fundi skóla- og frístundaráðs frá október til desember 2011, gerður var fyrivari um breytingar. Ráðið mun funda 1. og 3. miðvikudag í mánuði kl. 10:00 til 14:00. SFS2011090180

6. Lögð fram Skýrsla starfshóps um námsárangur drengja, dags. í september 2011. Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, formaður starfshópsins, kynnti og svaraði fyrirspurnum. SFS2011090170

Bókun skóla- og frístundaráðs:
Skóla- og frístundaráð þakkar starfshópi um námsárangur drengja fyrir vandaða vinnu og metnaðarfulla tillögugerð.

Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingarinnar:
Sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs verði falið að skipa starfshóp sem rýni sérstaklega líðan stúlkna í skólum, samanber tillögu 1 í tillögum starfshóps.
Samþykkt með 6 atkvæðum.

Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingarinnar:
Starfshópur um námsárangur drengja starfi áfram sem eftirfylgnihópur og að sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs verði falið að hrinda tillögum 2, 3, 4, 5, 7 og 10 í framkvæmd.
Samþykkt með 6 atkvæðum.

Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingarinnar:
Sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs verði falið að koma á samstarfi sviðsins og menningar- og ferðamálasviðs um tillögur 6, 8 og 9 sem allar taka á lestri barna. Unnið verði að framkvæmd þeirra tillagna í samhengi við nýfengna viðurkenningu Reykjavíkurborgar sem einnar af bókmenntarborgum UNESCO.
Samþykkt.

Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingarinnar:
Starfshópurinn beri ábyrgð á öllum tillögunum og framgangi þessa mikilvæga stefnumáls til vorsins 2014 og tengi jafnframt samspil frístundastarfs við líðan barna og ungmenna inn í vinnuna. Skóla- og frístundaráð verði upplýst um gang mála með reglulegu millibili.
Samþykkt.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Vinstri grænna óskaði bókað:
Fulltrúi Vinstri grænna þakkar fyrir ágæta skýrslu sem leiðir margt forvitnilegt í ljós. Fulltrúinn vill árétta fyrri afstöðu sína til málsins og brýnir mikilvægi þess að uppræta staðlaðar kynjamyndir í samfélaginu. Ættu stjórnvöld að sjá sóma sinn í að gera það m.a. í leik- og grunnskólum. Börn eiga að vera hvött til þess að þroska með sér hæfileika og áhugamál óhað hefðbundnum kynhlutverkum því staðalmyndir kynjanna eru heftandi fyrir börn, tækifæri þeirra og námsþroska. Það þarf að ræða við börn, kennara, tómstundafræðinga, skólastjórnendur og annað starfsfólk í uppeldisstéttum - á öllum skólastigum - og sjá til þess að allir fái fræðslu svo unnt sé að brjóta niður þá tálma sem hefðbundin kynhlutverk og staðalmyndir kynjanna setja okkur. Kyn kennara getur ekki verið marktæk breyta fyrir námsárangur nemenda. Fleiri áhrifaþættir skipta þar máli eins reynsla kennara, fjölbreytileg og góð námsgögn, bekkjarstærðir og - samsetning, tækjakostur og fleira. Meira máli skiptir hvern mann kennarinn hefur að geyma - hvort hann sé skipulagður, nærgætinn, faglegur, umhyggjusamur og svo framvegis. Það er hins vegar æskilegt að í leik- og grunnskólum Reykjavíkur séu kynjahlutföll starfsmanna nokkuð jöfn eins og annars staðar í samfélaginu. Hins vegar hafa staðalmyndir kynjanna áhrif á starfsval margra og við því þarf að bregðast.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar óskuðu bókað:
Fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar taka undir þakkir fulltrúa VG fyrir góða skýrslu og starf starfshópsins. Þá er tekið undir það sjónarmið að mikilvægt er að „brjóta niður þá tálma sem hefðbundin kynhlutverk og staðalmyndir kynjanna setja okkur”. Þá er því fagnað að skóla- og frístundaráð skuli hafa samþykkt að vinna frekar með tillögur starfshópsins með það að leiðarljósi að þetta starf opni á möguleika til að bæta árangur og ánægju, ekki bara drengja heldur allra nemenda.

7. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 25. september sl., um stöðuna á vinnu stýrihópa um sameiningar grunnskóla, grunnskóla/leikskóla og um breytt fyrirkomulag skólahalds. Jafnfram lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 26. september sl., varðandi vinnu við sameiningar ellefu leikskóla. SFS2011090186

- Kl. 14:05 vék Auður Árný Stefánsdóttir af fundi.

Áheyrnarfulltrúi skólastjóra í leikskólum lagði fram svohljóðandi fyrirspurn:
Hve mörg pláss eru ónýtt í leikskólum Reykjavíkurborgar, þegar tekið er tillit til fjölda plássa sem fyrir eru í hverjum skóla, að viðbættum þeim plássum sem verið er að fjölga hausið 2011. Óskað er eftir svari fyrir hvert hverfi Reykjavíkur.

8. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingarinnar:
Skóla- og frístundaráð felur sviðsstjóra að stofna þverfaglegan starfshóp sem vinnur að tillögum sem miða að því að tengja saman ólíkan aldur barna og ungmenna sem taka þátt í starfsemi á vegum skóla- og frístundasviðs. Markmiðið með tillögunum er að efla samstarf, virkni, lýðræðislega þátttöku og samfélagslega vitund barna og ungmenna.
Greinargerð fylgdi.
Samþykkt.

9. Liður 8 í útsendri dagskrá felldur úr dagskránni. SFS2011090171

10. Lögð fram tillaga nafnanefndar leikskólanna Furuborgar og Skógarborgar, dags. 19. september sl., um að sameinaður leikskóli Furuborgar og Skógarborgar fái nafnið Furuskógur. SFS2011090127
Samþykkt með 4 atkvæðum.

11. Lögð fram könnun á raundvalartíma barna í leikskólum Reykjavíkurborgar. Hildur Björk Svavarsdóttir, deildarstjóri tölfræði- og rannsóknaþjónustu skóla- og frístundasviðs, kynnti og svaraði fyrirspurnum. SFS2011090182

12. Lögð fram skýrsla Menntasviðs um Framkvæmd almennrar sérkennslu í grunnskólum, dags. í ágúst 2011. Hildur Björk Svavarsdóttir, deildarstjóri tölfræði og rannsóknaþjónustu skóla- og frístundasviðs kynnti og svaraði fyrirspurnum. SFS2011090174

13. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 23. september 2011, um samstarf frístundamiðstöðva, grunnskóla og leikskóla um vinsamlegt samfélag. Eygló Rúnarsdóttir, verkefnisstjóri á skrifstofu tómastundamála, Nanna K. Christiansen verkefnastjóri á grunnskólaskrifstofu og Auður Jónsdóttir, mannauðsráðgjafi, skóla- og frístundasviði, kynntu og svöruðu fyrirspurnum. SFS2011090158

- Kl. 15:50 vék Rósa Steingrímsdóttir af fundi.

Bókun skóla- og frístundaráðs:
Skóla- og frístundaráð fagnar samstarfi frístundamiðstöðva, grunnskóla og leikskóla um vinsamlegt samfélag án eineltis. Ráðið leggur áherslu á þátttöku foreldra sem er gríðarlega mikilvægur hluti þess að mynda góðan anda í lífi barnsins.

14. Lagt fram bréf mennta- og menningarmálaráðuneytis, dags. 6. september 2011, auk skýrslu um málumhverfi og lestrarnám barna í tíu leikskólum. LEIK2011030064

15. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 26. september 2011, um stöðu frístundaheimila. SFS2011090187

16. Lagt fram yfirlit yfir kaup Leikskólasviðs og Menntasviðs yfir 1 milljón króna, tímabilið janúar til júní 2011. Kristín Egilsdóttir og Jón Ingi Einarsson, fjármálastjórar sviðsins svöruðu fyrirspurnum. SFS2011090188

17. Lagður fram úrskurður mennta- og menningarmálaráðuneytisins í stjórnsýslumáli, dags. 20. júlí 2011, um stjórnsýslukæru vegna synjunar á leikskólavist. SFS2011090085

18. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 26. september sl., við fyrirspurn menntaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna frá fundi menntaráðs 24. ágúst sl., varðandi viðbrögð við hugmyndum um heimakennslu og afnám skólaskyldu. SFS2011090189

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna óskuðu bókað:
Á minnisblaði frá Menntasviði kemur fram svar við fyrirspurn um stefnumótandi áherslur borgarstjóra í skólamálum varðandi fræðsluskyldu, heimanám og miklu meira listnám í skólum. Svarið er ekki skýrt en lítið er um skýr stefnumið í svarinu. Þó er ljóst að ekki er tekið undir illa ígrundaðar hugmyndir borgarstjóra sem vakið hafa upp hörð viðbrögð í samfélaginu. Sérstaklega er áhugavert að fram kemur í samhengi við list- og verkgreinakennslu að ekki er sérstaklega haldið utan um fjármagn sem varið er til kennslu einstakra greina í grunnskólum en sérhver grunnskóli í Reykjavik fær úthlutað ákveðinni fjárupphæð til reksturs sem er skilyrt við fjölda nemenda. Mikilvægt er að menntaráð sinni eftirlitshlutverki sínu í auknu mæli í þessu ljósi á tímum hagræðingar og fylgist beint með hvort fjármunir nægi til að uppfylla markmið námsskráa.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að gerð sé könnun á því hvort skólar ná að uppfylla kröfur námskrár um kennslutíma í list- og verkgreinum.
Frestað.

19. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 26. september sl., við fyrirspurn menntaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá fundi ráðsins 2. september sl., varðandi skólalóð og byggingaframkvæmdir við Norðlingaskóla. SFS2011090190

20. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Fulltrúar Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks óska eftir því að könnun verði gerð meðal foreldra og starfsmanna leikskóla sem voru sameinaðir í ár. Kanna ætti þætti eins og samskipti starfsmanna og foreldra, hvernig tilhögun sameiningar kemur við foreldra, börn og starfsfólk, hvort foreldrar hafi fengið áætlanir um skipulagsbreytingar, hvort sameining hafi haft áhrif á þjónustuna og svo framvegis.
Frestað.

21. Áheyrnarfulltrúi kennara í grunnskólum lagði fram svohljóðandi tillögu:
Fulltrúi kennara í skóla- og frístundaráði leggur til að kennarar sem sitja í stýrihópi um sameiningar Borgarskóla/Engjaskóla, Álftamýrarskóla/Hvassaleitisskóla, Korpuskóla/ Víkurskóla og um heildstæðan safnskóla á unglingastigi í suðurhluta Grafarvogs auk hóps um framtíðarskipan skólahalds í Vesturbæ, fái greitt fyrir fundarsetu og fyrir þá vinnu sem sérfræðiþekking kennara felur í sér.
Frestað.

Fundi slitið kl. 16:20

Oddný Sturludóttir
Eva Einarsdóttir Hilmar Sigurðsson
Kjartan Magnússon Líf Magneudóttir
Óttarr Ólafur Proppé Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir