Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

Leikskólaráð

Ár 2007, 28. nóvember kl. 12:00 var haldinn 25. fundur leikskólaráðs í fundarherbergi ráðsins að Fríkirkjuvegi 1. Fundinn sátu Sigrún Elsa Smáradóttir formaður, Fanný Gunnarsdóttir, Helga Björg Ragnarsdóttir, Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir, Áslaug Friðriksdóttir, Helga Kristín Auðunsdóttir og Ragnar Sær Ragnarsson. Auk þeirra sátu fundinn Anna Sigríður Ólafsdóttir áheyrnarfulltrúi F- lista, Ingibjörg Kristleifsdóttir, fulltrúi leikskólastjóra og Ingibjörg Gunnlaugsdóttir, fulltrúi starfsmanna í leikskólum. Jafnframt sátu fundinn Ragnhildur Erla Bjarnadóttir sviðsstjóri, Hildur Skarphéðinsdóttir, Ingunn Gísladóttir og Kristín Egilsdóttir.
Fundargerð ritaði Laura Bergs.


Þetta gerðist:

1. Lagt fram bréf frá skrifstofu borgarstjóra dags. 5. nóvember sl., þar sem tilkynnt er að Anna Sigríður Ólafsdóttir verði áheyrnarfulltrúi F- lista í leikskólaráði og til vara Egill Örn Jóhannesson.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:
Það er einsdæmi að meirihluti þurfi að fara fram á áheyrnarfulltrúa í ráðum borgarinnar. Á sínum tíma var veitt samþykki fyrir áheyrnarfulltrúum fyrir þá flokka sem ekki áttu sæti í borgarráði. Það er augljóst að núverandi meirihluti hefur ekki getað komið sér saman um skiptingu í ráð og nefndir. Í tíð meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks var fullt jafnræði í nefndum en greinilegt er að svo er ekki hjá núverandi meirihluta.
Fulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna, Framsóknarflokks og F- lista óskuðu bókað:
Ágætt samkomulag er um skiptingu í ráð og nefndir hjá nýjum meirihluta.

2. Lagt fram yfirlit yfir stöðu starfsmannamála og fjölda biðviðstaðra barna í leikskólum borgarinnar 1. nóvember sl. Formaður og starfsmannastjóri gerðu nánar grein fyrir stöðunni.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:
Ljóst er að mannekluvandamál leikskóla er gríðarlegt. Þann 1. nóvember sl. vantaði 118 stöðugildi í leikskóla Reykjavíkurborgar en á sama tíma á síðasta ári vantaði tæp 70 stöðugildi. Þær aðgerðir, sem nýr meirihluti í Reykjavík hefur kynnt, virðast hafa haft lítil áhrif á þróun mála hingað til. Líklegt er að þær aðgerðir muni hins vegar geta haft þær afleiðingar að starfsmenn grunnskólanna færist til leikskólanna, t.d. vegna forgangs barna starfsmanna leikskólanna að vistun fyrir börn sín, sem tæpast hefur verið markmið aðgerðanna. Mikilvægt er að skoða þessi mál á heildstæðari hátt en nýr meirihluti virðist tilbúinn til. Opna þarf umræðu um sveigjanlegra rekstrarumhverfi leiksskólastjórnenda en jafnframt kanna möguleika og vilja bæði starfsfólks og foreldra til breytinga frá því umhverfi sem nú er við lýði. Athyglisvert væri t.d. í þessu samhengi að skoða af hverju mannekla sækir síður að einkareknum leikskólum í borginni en þeim borgarreknu.
Fulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna, Framsóknarflokks og F- lista óskuðu bókað:
Aðgerðir nýs meirihluta tóku gildi 1. nóvember sl. þannig að úttekt á stöðu starfsmannamála þann sama dag segir eðli málsins samkvæmt ekki mikið um áhrif þeirra aðgerða og því er bráðræði af minnihlutanum að afskrifa jákvæð áhrif þeirra aðgerða strax. Ríkur vilji er hjá meirihluta leikskólaráðs til að bregðast við ástandi í starfsmannamálum leikskólanna. Í því sambandi er m.a. bent á stofnun starfshóps sem hefur það markmið að skilgreina störfin í leikskólum og greina hvar möguleikar í starfsmannamálum liggja, sbr. næsta dagskrárlið fundarins.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að stofnaður verði vinnuhópur sem hafi það að markmiði að kanna mat stjórnenda borgarrekinna og einkarekinna leikskóla á kostum og göllum í rekstrarumhverfi þeirra. Mikið er rætt um hvernig rekstri leikskóla er best komið og margt uppi um kosti og galla ólíkra rekstrarforma. Hópurinn hefði það að markmiði að skoða hvernig stjórnendur hafa brugðist við manneklu, hversu vel þeim hefur fundist takast til og hvaða hugmyndir og framtíðarsýn þeir hafa í starfsmannamálum leikskólanna.

Samþykkt með 4 atkvæðum gegn 3 að vísa tillögunni frá.

Fulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna, Framsóknarflokks og F- lista lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Leikskólaráð samþykkir að fela sviðsstjóra Leikskólasviðs að leita eftir því við einkarekna leikskóla að þeir veiti sviðinu upplýsingar um starfsmannamál; fjölda stöðugilda, menntun starfsmanna, starfsmannaveltu og fjölda barna á hvern starfsmann. Einnig verði leitað eftir upplýsingum um hvaða leiðar einkareknir leikskólar fara við ráðningar starfsmanna og hvort stjórnendur skólanna telji að rekstrarform þeirra nýtist þeim í ráðningarmálum og þá hvernig – kostir og gallar rekstrarformsins.
Tillagan samþykkt samhljóða.

3. Fulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna, Framsóknarflokks og F- lista lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að stofnaður verði starfshópur sem hafi það hlutverk að skoða hvernig verkaskiptingu er háttað í leikskólum, yfirfara starfsheiti og starfslýsingar og greina möguleika starfsmanna á starfsþróun og endurmenntun. Hópurinn hafi víðtækt samráð við hagsmunaaðila, s.s. stéttarfélög starfsmanna. Markmið með stofnun starfshópsins er að skilgreina störfin í leikskólunum og greina hvar möguleikar í starfsmannamálum liggja.
Tillagan samþykkt samhljóða.

Drög að erindisbréfi starfshópsins voru lögð fram og samþykkt.

4. Lagt fram yfirlit yfir stöðu og framkvæmd markmiða í starfsáætlun Menntasviðs 2007.

5. Formaður minnti fundarmenn á fyrsta fund BRÚAR – umræðuvettvangs um skólamál, sem haldinn verður í dag kl. 16:00.

6. Sviðsstjóri bauð fulltrúum í leikskólaráði til jólafundar leikskólastjóra sem haldinn verður föstudaginn 7. desember kl. 16:00 – 18:00.

7. Næsti fundur leikskólaráðs verður í leikskólanum Jöklaborg miðvikudaginn 5. desember. Sameiginlegur fundur leikskólaráðs og menntaráðs verður haldinn mánudaginn 17. desember kl. 14:00 – 16:00 og er það síðasti fundur ráðsins fyrir jól. Fyrsti fundur leikskólaráðs á nýju ári verður 16. janúar 2008.

8. Forstöðumaður upplýsingatækniþjónustu kynnti stöðu tölvumála í leikskólum Reykjavíkurborgar og svaraði fyrirspurnum.

- Kl. 13:45 vék Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir af fundi.

9. Formaður greindi frá því að í bréfi skrifstofu borgarstjórnar dags. 21. nóvember sl. kemur fram að Ólöf Halldóra Þórarinsdóttir taki sæti varamanns í leikskólaráði í stað Evu Kamillu Einarsdóttur.


Fundi slitið kl. 14:10


Sigrún Elsa Smáradóttir
Fanný Gunnarsdóttir Helga Björg Ragnarsdóttir
Áslaug Friðriksdóttir Helga Kristín Auðunsdóttir
Ragnar Sær Ragnarsson