No translated content text
Skóla- og frístundaráð
Fundargerð s
Ár 2012, 15. ágúst, var haldinn 22. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn var haldinn í Hofi, Höfðatorgi í Reykjavík og hófst kl. 10.03. Fundinn sátu Oddný Sturludóttir formaður, Kjartan Magnússon, Kristín Erna Arnardóttir, Líf Magneudóttir, Margrét Kristín Blöndal, Óttarr Ólafur Proppé og Rúna Malmquist. Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Helga Sigfúsdóttir, starfsmenn í leikskólum; Bryndís Jónsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum; Helgi Eiríksson, stjórnendur frístundamiðstöðva; Rósa Ingvarsdóttir, kennarar í grunnskólum; S. Ingibjörg Jósefsdóttir, skólastjórar í grunnskólum; Rósa Steingrímsdóttir, foreldrar barna í leikskólum og Þórunn Gyða Björnsdóttir, skólastjórar í leikskólum. Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Auður Árný Stefánsdóttir, Hildur Skarphéðinsdóttir, Ragnheiður E. Stefánsdóttir og Sigrún Sveinbjörnsdóttir. Fundarritari var Guðrún Sigtryggsdóttir.
Þetta gerðist:
1. Lagt fram yfirlit yfir fundi skóla- og frístundaráðs í ágúst til desember 2012 með fyrirvara um breytingar. SFS2011090180
2. Lögð fram umsögn skólaráðs Fellaskóla, dags. 7. ágúst 2012, varðandi tilraunaverkefni í 1. og 2. bekk Fellaskóla.
Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingarinnar sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 12. júlí sl.:
Skóla- og frístundaráð samþykkir að frá og með upphafi skólaárs 2012-2013 verði farið í tveggja ára tilraunaverkefni þar sem skóladagur barna í 1. og 2. bekk í Fellaskóla verði lengdur úr 30 kennslustundum í 34 kennslustundir á viku og um leið verði skóla- og frístundastarf samþætt frá kl. 8:00 – 15:40. Stóraukin áhersla verður lögð á málþroska og læsi, hvetjandi námsumhverfi, félagsfærni og samskipti. Tilraunaverkefnið gerir ekki ráð fyrir gjaldtöku frá foreldrum, en frá kl. 15:40-17:15 stendur börnum til boða frístundastarf gegn gjaldi eins og annars staðar í borginni.
Greinargerð fylgdi. SFS2012070054
Samþykkt og vísað til borgarráðs.
3. Lagðar fram umsagnir skólaráða Hólabrekkuskóla, ódags. og Fellaskóla, dags. 7. ágúst 2012, varðandi safnfrístund fyrir nemendur í 3. og 4. bekk Fellaskóla og Hólabrekkuskóla.
Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingarinnar sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 12. júlí sl.:
Skóla- og frístundaráð samþykkir að frá og með upphafi skólaársins 2012-2013 verði starfrækt safnfrístund fyrir börn í 3. og 4. bekk í Fellaskóla og Hólabrekkuskóla í húsnæði Reykjavíkurborgar að Hraunbergi 12. Frístundamiðstöðin Miðberg mun bera ábyrgð á starfseminni sem byggir á góðri reynslu Frostheima í Vesturbænum. Lögð verði áhersla á að koma til móts við getu og þarfir átta og níu ára gamalla barna með krefjandi viðfangsefnum og klúbbastarfi og allra leiða verður leitað til að auka þátttöku barna á þessum aldri í skipulögðu tómstundastarfi í hverfinu, sem lengi hefur verið ívið minni en í öðrum hverfum. Stjórnendur frístundastarfs kynni foreldrum og börnum í 3. og 4. bekk skólanna kosti safnfrístundar í byrjun ágúst og sett verði á laggirnar sérstakt foreldraráð sem taki virkan þátt í að móta starfið.
Greinargerð fylgdi. SFS2012070056
Samþykkt og vísað til borgarráðs.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskuðu bókað:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja rétt að tilraunaverkefni um safnfrístund Fellaskóla og Hólabrekkuskóla verði metið í ljósi reynslunnar í lok skólaársins 2012-13. Þá ítrekum við bókun okkar vegna vinnubragða meirihlutans, sem lögð var fram á 21. fundi skóla- og frístundaráðs.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar óskuðu bókað:
Fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar telja einnig rétt að tilraunaverkefni um safnfrístund Fellaskóla og Hólabrekkuskóla verði metið í ljósi reynslunnar í lok skólaársins 2012-13. Þá ítrekum við gagnbókun okkar við bókun Sjálfstæðisflokksins, sem lögð var fram á 21. fundi skóla- og frístundaráðs.
4. Svohljóðandi tillaga samþykkt:
Skóla- og frístundaráð samþykkir að standa fyrir málþingi á haustönn í tilefni af nýrri rannsókn Dr. Gerðar G. Óskarsdóttur um skólastarf á mörkum skólastiga, sem hún hefur unnið að síðastliðin ár fyrir Reykjavíkurborg. Á málþinginu mun Dr. Gerður kynna ítarlega niðurstöður rannsóknarinnar og fá viðbrögð frá fulltrúum leikskólans, grunnskólans og framhaldsskólans. Í kjölfarið muni skóla- og frístundaráð gera tillögur að því hvernig niðurstöður rannsóknarinnar verði nýttar til framdráttar fyrir leikskóla- og grunnskóla í Reykjavík.
SFS2012080026
5. Ráðning skólastjóra við Selásskóla. SFS2012080027
Lögð fram:
a) Greinargerð sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 9. ágúst 2012, vegna ráðningar í stöðu skólastjóra við Selásskóla.
b) Yfirlit yfir umsækjendur um stöðu skólastjóra við Selásskóla.
c) Auglýsing um stöðu skólastjóra við Selásskóla.
d) Viðmið skóla- og frístundaráðs vegna ráðninga skólastjóra við grunnskóla Reykjavíkurborgar, samþykkt á 153. fundi menntaráðs 24. ágúst 2011.
Tólf umsóknir bárust um stöðuna.
Sviðsstjóri leggur til að Sigfús Grétarsson verði ráðinn í stöðu skólastjóra við Selásskóla.
Samþykkt með 4 atkvæðum, Kjartan Magnússon, Rúna Malmquist og Líf Magneudóttur sátu hjá.
Áheyrnarfulltrúi skólastjóra í grunnskólum óskaði bókað:
Fulltrúi skólastjóra í skóla- og frístundaráði gagnrýnir að ekki skuli hafa verið haft samband við alla meðmælendur umsækjenda um stöðu skólastjóra við Selásskóla.
Í viðmiði vegna ráðninga skólastjóra grunnskóla í Reykjavík kemur fram að leita skuli eftir upplýsingum um m.a. almenna starfshæfni, hæfni í stjórnun og mannlegum samskiptum. Umsækjendur tilgreina meðmælendur sem þekkja vel til þeirra starfa og er það eðlileg krafa að haft sé samband við alla meðmælendur.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar óskuðu bókað:
Allir umsækjendur um skólastjórastöðu í Selásskóla gáfu upp nöfn umsagnaraðila vegna fyrri starfa þeirra þó ekki sé gerð krafa um það í auglýsingum um skólastjórastöður. Til upplýsinga skal tekið fram að haft var samband við a.m.k. einn umsagnaraðila hvers umsækjanda sem tekinn var í viðtal vegna umræddrar skólastjórastöðu. Þegar ákvörðun er tekin um ráðningu eru umsagnir þessara aðila hafðar til hliðsjónar við mat á hæfni umsækjenda.
6. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 20. júní sl.:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til að samdar verði samræmdar verklagsreglur fyrir leikskóla, grunnskóla og frístundastarf um hvernig bregðast eigi við slysum á börnum á skólatíma og í vettvangsferðum. Jafnframt er lagt til að slysaskráning verði samræmd. SFS2012080021
Samþykkt.
7. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 20. júní sl.:
Skóla- og frístundaráð Reykjavíkur felur fræðslustjóra að semja tillögu um breytingar á samþykkt fyrir skóla- og frístundaráð Reykjavíkurborgar, sem miði að því að taka upp virkt samráð við foreldrafélög í borginni við ráðningar skólastjóra. Slíkt samráð feli í sér að í skóla, þar sem ráðning skólastjóra stendur fyrir dyrum, skuli gefa stjórn viðkomandi foreldrafélags kost á að kynna sér helstu upplýsingar og hitta þá að máli til að kynnast sýn þeirra á starfið. Ef því verður við komið, verði stjórn foreldrafélags heimilt að efna til fundar, sem opinn verði öllum foreldrum viðkomandi skóla, þar sem umsækjendum, sem fullnægja kröfum til starfsins verði gefinn kostur á að kynna sig og stefnumál sín. Í framhaldi af slíkum fundi sé stjórn foreldrafélags heimilt að skila umsögn til skóla- og frístundaráðs með áliti um hver sé hæfastur til að gegna viðkomandi starfi. Stjórn foreldrafélagsins verði einnig heimilt að skila umsögn til ráðsins án þess að mælt sé með ákveðnum umsækjanda en með ábendingum um hvaða atriði sé æskilegt að leggja áherslu á þegar ráðið verður í stöðuna með tilliti til vilja foreldra og aðstæðna í umræddum skóla. Eftir sem áður annist skóla- og frístundaráð ráðningar í stöður skólastjóra og beri ábyrgð á þeim eins og kveðið er á um í samþykktum ráðsins. Lagt er til að fræðslustjóri leggi umrædda tillögu fyrir skóla- og frístundaráð, sem samþykki hana fyrir sitt leyti, áður en henni verður vísað til borgarstjórnar. SFS2012040185
Frestað.
8. Lagt fram skóladagatal Barnaskóla Hjallastefnunnar í Reykjavík fyrir 6 ára börn skólaárið 2012-2013 auk bréfs sviðsstjóra, dags. 10. ágúst 2012. SFS2012010272
Samþykkt.
9. Lögð fram drög að viðauka við samning um framlag skóla- og frístundasviðs til Hjallastefnunnar ehf. frá 19. maí 2010 vegna vistunar reykvískra barna í leikskólanum Öskju, Hlíðarfæti 7, Reykjavík. SFS2012010152
Samþykkt með 6 atkvæðum og vísað til borgarráðs, Líf Magneudóttir sat hjá.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Vinstri grænna óskaði bókað:
Meirihluti Besta flokks og Samfylkingarinnar virðist vera áfjáður í að auka einkarekstur á fyrsta skólastiginu. Þykir skóla- og frístundaráðsfulltrúa Vinstri grænna það skjóta skökku við að annálaður og yfirlýstur jafnaðarmannaflokkur skuli ekki átta sig á því að leikskólar í Reykjavík eru grunnþjónusta en ekki viðskiptatækifæri. Gæti orsökin legið í metnaðarleysi meirihlutans fyrir borgarreknum leikskólum, eins og framganga þeirra gagnvart þeim á kjörtímabilinu hefur sýnt, en fjölbreytni í rekstrarformi er ekki sammerkt fjölbreytni í leikskólastarfi. Kannski er það marklaus stefna og virðingarleysi meirihlutans fyrir borgarreknum leikskólum sem rekur foreldra og forráðamenn leikskólabarna til að leita annað með vistun barna sinna en fulltrúi Vinstri grænna styður ekki aukinn einkarekstur í borgarkerfinu og vill leggja metnað og alúð við borgarrekna
leikskóla og auka fjármagn til þeirra. Það er ekkert því til fyrirstöðu að auka enn á fjölbreytni og metnað á því sviði og sé það vilji meirihlutans, þá ætti hann að beita sér fyrir því, en ekki fela öðrum að reka þessa mikilvægu þjónustu. Situr fulltrúinn hjá við afgreiðslu þessa máls.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar óskuðu bókað:
Sjálfstætt starfandi leikskólar hafa starfað í Reykjavík síðan á áttunda áratug síðustu aldar og eru hluti af leikskólaflóru borgarinnar. Þeir eru 19 talsins og þar eru rúmlega 1000 reykvísk börn við nám. Samningar við þá byggja á því að skólagjöld taki mið af gjaldskrá leikskóla í Reykjavík svo erfitt er að rökstyðja að tilvist þeirra vinni gegn jöfnuði í borgarsamfélaginu. Fulltrúa VG til upplýsingar blómstrar fjölbreytni og gróska í leikskólastarfi borgarinnar, jafnt í borgarreknum leikskólum sem og sjálfstætt starfandi.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Vinstri grænna óskaði bókað:
Rekstur borgarrekinna leikskóla snýst um grundvallarhugmyndafræði, grunnþjónustu og samábyrgð. Öll börn eiga að sitja við sama borð, óháð fjárhag foreldra. Meirihlutinn hefur látið reka á reiðanum í málefnum leikskóla Reykjavíkur og kemur pólitískri ábyrgð yfir á einkaaðila sem geta farið fram á hærri gjöld fyrir þjónustu sem við Vinstri græn teljum að eigi að vera gjaldfrjáls. Að auka umsvif einkareksturs í menntakerfinu hlýtur að vera á kostnað borgarrekinna leikskóla. Getur fulltrúi VG ekki samþykkt slíkt.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar óskuðu bókað:
Fjölgun plássa í Öskju sem skóla- og frístundaráð samþykkti í dag nemur um 28 plássum. Hins vegar hefur leikskólabörnum í borgarreknum leikskólum fjölgað um 400 síðastliðin tvö ár. Það er til marks um skýra forgangsröðun meirihlutans í leikskólamálum.
10. Lagt fram á fundinum minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 14. ágúst 2012, varðandi beiðni sjálfstætt starfandi leikskóla Hjallastefnunnar ehf. um breytingu á rekstrarleyfi fyrir leikskólann Öskju, Hlíðarfæti 7, Reykjavík. Auk þess lögð fram drög að rekstrarleyfi fyrir Öskju. SFS2012010152
Rekstrarleyfi fyrir leikskóla Hjallastefnunnar Öskju, Hlíðarfæti 7, Reykjavík, samþykkt með 6 atkvæðum, Líf Magneudóttir sat hjá.
11. Lögð fram tillaga sem skóla- og frístundaráð fékk til umfjöllunar af samráðsvefnum Betri Reykjavík, dags. 29. júní 2012, merkta meiri útikennslu í skólum/ skólar taki sér græn svæði. Jafnframt lagt fram minnisblað sviðsstjóra, dags. 10. ágúst sl., með upplýsingum um ýmis þau verkefni sem nú þegar er verið að vinna að á þessu sviði. SFS2012070026
Svohljóðandi tillaga samþykkt:
Skóla- og frístundaráð samþykkir að nýleg kortlagning á útinámssvæðum í Reykjavík verði sett á vefinn Betri Reykjavík, til upplýsingar.
Ráðið tekur undir með tillögu flytjanda að mikilvægt er að auka hlut útikennslu í skólum og frístundastarfi og vísar í samþykkta stefnu og starfsáætlun skóla- og frístundasviðs þar sem margar leiðir að markmiðum er að finna.
12. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra, dags. 13. ágúst 2012, um heildarmat í grunnskólum. Birna Sigurjónsdóttir, verkefnisstjóri heildarmats skóla- og frístundasviðs kynnti heildarmat sem fram fór skólaárið 2011-2012 í Álftamýrarskóla, Hamraskóla, unglingadeild Húsaskóla, Laugarnesskóla, Laugalækjarskóla og Ölduselsskóla og svaraði fyrirspurnum. SFS2012080029
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar óskuðu bókað:
Við kynningu á heildarmati grunnskóla í Reykjavík kemur í ljós að sú markvissa vinna með grunnskólum til aukinna gæða í skólastarfi er að skila sér. Heildarmat grunnskóla er samstarfsverkefni grunnskóla og skóla- og frístundasviðs. Auk þess hefur skóla- og frístundasvið staðið að þróunarverkefni um gæði kennslu með fulltingi enska skólastjórans John Morris. Þess ber að geta að í sumar var John Morris útnefndur skólastjóri ársins í London og hefur ráðgjöf hans til grunnskóla í Reykjavík verið óeigingjörn og ómetanleg og fyrir hana ber að þakka. Skólar leggi kapp á að gera niðurstöður heildarmats aðgengilegar foreldrum. Brýnt er að ytra mat sem tekur mið af heildarmati grunnskóla verði innleitt í leikskóla borgarinnar, sem og í frístundastarf.
13. Lögð fram skýrslan Lesskimun 2012 – niðurstöður úr lesskimun í 2. bekk í grunnskólum Reykjavíkur vorið 2012, dags. í ágúst 2012. Auk þess lagt fram minnisblað sviðsstjóra, dags. 7. ágúst 2012. Hildur Björk Svavarsdóttir, deildarstjóri tölfræði- og rannsóknaþjónustu skóla- og frístundasviðs kynnti niðurstöðurnar og svaraði fyrirspurnum. SFS2012030087
- Kl. 11:45 vék Þórunn Gyða Björnsdóttir af fundinum.
Bókun skóla- og frístundaráðs:
Skóla- og frístundaráð telur lesskimun mikilvægt umbótatæki fyrir skólastarf í Reykjavík, sem og mikilvægt tæki til að móta viðmið um hvaða nemendur þurfa stuðning í lestri. Árangurinn í ár er ekki jafn góður og síðasta ár en þó annar besti árangur frá upphafi mælinga. Niðurstöðurnar í ár eru í takti við meðaltal síðustu fimm ára. Brýnt er að foreldrar séu upplýstir um niðurstöður skimunarinnar og að upplýsingar um stöðu skóla þeirra barns séu ávallt aðgengilegar.
Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum óskaði bókað:
Fulltrúi foreldra lýsir yfir ánægju með kynningu á niðurstöðum lesskimunar og telur skimunina afar mikilvægt tæki til að bregðast snemma við vandkvæðum sem nemendur mæta í námi sínu. Einnig er lýst yfir ánægju með mikið og gott starf skóla- og frístundasviðs varðandi mat á hinum ýmsu þáttum skólastarfs. Mikilvægt er að nota þær niðurstöður sem fást til umbóta og væri ekki úr vegi að hampa þeim skólum sem koma vel út og jafnvel fá forsvarsmenn þeirra til að sitja fyrir svörum skólastjórnenda varðandi starfsaðferðir sínar og leiðir til árangurs.
- Kl. 12:10 vék S. Ingibjörg Jósefsdóttir af fundi.
- Kl. 12:10 til 12:55 var gert hlé á fundi.
14. Lögð fram áfangaskýrsla starfshóps um börn og fjölmenningu, skólaárið 2011-2012, ódags.
SFS2011090024
Óttarr Ólafur Proppé, formaður starfshópsins, Dagbjört Ásbjörnsdóttir fulltrúi frístundamiðstöðva, Fríða Bjarney Jónsdóttir og Nanna K. Christiansen verkefnastjórar á fagskrifstofu skóla- og frístundasviðs kynntu og svöruðu fyrirspurnum.
15. Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 2. júlí sl., um embættisafgreiðslu erindis sem borist hefur skóla- og frístundaráði, eitt mál. SFS201260006
16. Lagt fram svar, dags. 9. ágúst 2012, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 20. júní sl. um breytingar á húsnæðismálum Laugarnesskóla. SFS2012060163
Fundi slitið kl. 13.45
Oddný Sturludóttir
Kjartan Magnússon Kristín Erna Arnardóttir
Líf Magneudóttir Margrét Kristín Blöndal
Óttarr Ólafur Proppé Rúna Malmquist.