Skóla- og frístundaráð
Leikskólaráð
Ár 2008, 13. febrúar kl. 13:00 var haldinn 29. fundur leikskólaráðs í fundarherbergi ráðsins að Fríkirkjuvegi 1. Fundinn sátu Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir formaður, Áslaug Friðriksdóttir, Ragnar Sær Ragnarsson, Sigurlaug Sveinbjörnsdóttir, Sigrún Elsa Smáradóttir, Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir og Sóley Tómasdóttir. Auk þeirra sátu fundinn Fanný Gunnarsdóttir, áheyrnarfulltrúi Framsóknarflokks, Ingibjörg Kristleifsdóttir, áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra og Ingibjörg Gunnlaugsdóttir, áheyrnarfulltrúi starfsmanna í leikskólum. Jafnframt sátu fundinn Hildur Skarphéðinsdóttir, Ingunn Gísladóttir og Kristín Egilsdóttir.
Fundargerð ritaði Laura Bergs.
Þetta gerðist:
1. Formaður greindi frá því að Ragnhildur Erla Bjarnadóttir sviðsstjóri er nú í veikindaleyfi og mun ekki sitja fundi leikskólaráðs í febrúarmánuði.
2. Lagt fram bréf frá skrifstofu borgarstjórnar dags. 25. janúar sl. þar sem greint er frá því að á fundi borgarstjórnar 24. janúar sl. hafi eftirtaldir fulltrúar verið kosnir í leikskólaráð til loka kjörtímabilsins:
Aðalmenn: Varamenn:
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir Helga Kristín Auðunsdóttir
Áslaug Friðriksdóttir Guðrún Pálína Ólafsdóttir
Ragnar Sær Ragnarsson Fanney Birna Jónsdóttir
Egill Örn Jóhannesson Anna Sigríður Ólafsdóttir
Sigrún Elsa Smáradóttir Agnar Freyr Helgason
Bryndís Ísfold Hlöversdóttir Eva Kamilla Einarsdóttir
Sóley Tómasdóttir Helga Björg Ragnarsdóttir
Formaður var kjörinn Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir.
Lagt fram bréf frá skrifstofu borgarstjórnar dags. 5. febrúar sl. þar sem tilkynnt er að Sigurlaug Sveinbjörnsdóttir taki sæti í leikskólaráði í stað Egils Arnar Jóhannessonar.
3. Kosning varaformanns leikskólaráðs.
Formaður lagði til að Sigurlaug Sveinbjörnsdóttir yrði kjörin varaformaður ráðsins.
Samþykkt.
4. Lagt fram bréf frá skrifstofu borgarstjórnar dags. 25. janúar sl. þar sem tilkynnt er að Fanný Gunnarsdóttir verði áheyrnarfulltrúi Framsóknarflokks í leikskólaráði og Ingvar Mar Jónsson til vara.
5. Páll Halldórsson, forstöðumaður ráðgjafarsviðs hjá FOCAL kynnti gæðastjórnunarkerfi sem verið er að innleiða á aðalskrifstofu Leikskólasviðs.
6. Ráðning leikskólastjóra við leikskólann Berg.
Lögð fram greinargerð skrifstofustjóra leikskólaskrifstofu vegna ráðningar í stöðu leikskólastjóra við Berg. Einn umsækjandi var um stöðuna.
Lagt til að Tatiana K. Dimitrova verði ráðin í stöðu leikskólastjóra við leikskólann Berg.
Samþykkt.
Leikskólaráð þakkar fráfarandi leikskólastjóra við leikskólann Berg farsæl störf og óskar nýjum leikskólastjóra velfarnaðar í starfi.
7. Lagt fram yfirlit yfir stöðu starfsmannamála hjá leikskólum Reykjavíkurborgar.
Starfsmannastjóri gerði nánar grein fyrir stöðunni og svaraði fyrirspurnum.
Bókun leikskólaráðs:
Ánægjulegt er að sjá þann árangur sem náðst hefur í ráðningarmálum, starfsfólk Leikskólasviðs og leikskólastjórar hafa lagt mikið á sig til þess að ná þessum árangri og ber að þakka fyrir það. Þar sem enn eru ómönnuð 75 stöðugildi í leikskólum borgarinnar er mikilvægt að leikskólaráð og borgarstjórn standi áfram þétt að baki leikskólunum í þessu sameiginlega verkefni okkar. Ljóst er að þær aðgerðir í starfsmannamálum sem samþykktar voru í október hafa skilað árangri.
8. Þriggja ára áætlun.
Frestað.
Fulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks óskuðu bókað:
Í tengslum við vinnu þriggja ára áætlunar vann síðasti meirihluti, sem F- listi átti aðild að, meðal annars að tillögum sem höfðu það að leiðarljósi að jafna greiðslur foreldra barna óháð því hver veiti þjónustuna, borgarreknir leikskólar, einkareknir leikskólar eða dagforeldrar. Fyrsta skrefið átti að vera að jafna greiðslur barna 18 mánaða og eldri og miða þá við gjaldskrá borgarrekinna leikskóla en miða að því að jafna greiðslur í áföngum allt að lokum fæðingarorlofs. Fulltrúar minnihlutans hvetja nýjan meirihluta til að halda þessari vinnu áfram.
9. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks um sveigjanleika skólaskila á milli leikskóla og grunnskóla sem vísað var til leikskólaráðs á fundi borgarstjórnar 6. nóvember sl.:
Borgarstjórn telur að auka beri sveigjanleika skólaskila á milli leikskóla og grunnskóla. Menntasviði er falið að hefja vinnu sem hefur það að markmiði að tryggja aukið val að þessu leyti strax næsta haust. Valdir verði fjórir grunnskólar, einn úr hverju skólahverfi, sem taki þátt í undirbúningi og framkvæmd fimm ára deilda. Við skipulag og námsfyrirkomulag verði stuðst við þá reynslu sem þegar hefur fengist af áratugastarfi sjálfstætt rekinna grunnskóla, tilraunaverkefni leikskólans Hamra og Víkurskóla, Varmárskóla í Mosfellsbæ, Hjallastefnunnar o.fl. Fimm ára bekkur sameini kosti elsta stigs leikskólans og yngsta stigs grunnskólans.
Greinargerð fylgdi tillögunni.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og F–lista lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Fræðslustjóra og sviðsstjóra Leikskólasviðs er falið að kanna möguleika á því að koma á fót fimm ára deildum næstkomandi haust samkvæmt tillögu Sjálfstæðisflokks þar um. Jafnframt verði metinn kostnaður við framkvæmdina. Óskað er eftir því að niðurstöður liggi fyrir í apríl og verði þá lagðar fram í menntaráði og leikskólaráði.
Tillagan samþykkt með 4 atkvæðum gegn 3.
Fulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks óskuðu bókað:
Á vettvangi leikskólaráðs Reykjavíkur hefur umræðan um fimm ára deildir í grunnskólum borgarinnar margoft sprottið upp. Rökin sem hníga á móti þeim hafa m.a. verið þau að ánægja foreldra er gríðarlega mikil með leikskólana, sem gefur til kynna að þörfum barnanna er þar vel mætt. Í maí 2006 skilaði starfshópur um leik- og grunnskóla þverpólitískri niðurstöðu, en eitt af hlutverkum hans var að skoða aldursskiptingu milli leik- og grunnskóla og skoða möguleika á bættri þjónustu hvað það varðar. Í niðurstöðum hópsins kemur fram að fyrst og fremst þurfi að stuðla að samfléttun náms á báðum skólastigum við núverandi aldursskiptingu. Á Íslandi og í Evrópu hefur átt sér stað mikil umræða meðal fræðimanna sem í yfirgnæfandi meirihluta vara við því að hefðbundið bóknám færist neðar. Með samþykkt þessarar tillögu væri þó verið að stíga skref í þá átt. Þar sem nauðsynlegt er að samráðsvettvangur milli starfsfólks og foreldra barna í leik- og grunnskólum sé til staðar hafði fyrrum meirihluti skipulagt opna umræðu á vettvangi Brúarinnar. Í kjölfar meirihlutaskipta var fundur sem skipulagður hafði verið um samfellu milli leik- og grunnskóla blásinn af, en fulltrúar minnihlutans ítreka mikilvægi þess að af honum verði sem fyrst.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og F- lista óskuðu bókað:
Meirihluti leikskólaráðs lýsir yfir furðu sinni á viðbrögðum minnihlutans og bendir á að þau eru mjög á skjön við það sem fram kom hjá sömu flokkum í borgarstjórn. Tillaga meirihlutans lýsir tilraunaverkefni sem gefur tækifæri til að kanna möguleika á útfærslu aukins sveigjanleika milli skólastiga samhliða mörgum öðrum verkefnum sem stuðla að auknum samskiptum skólastiganna. Hvergi eru hugmyndir uppi um að leikurinn verði minni þáttur hjá fimm ára börnum en nú er og því er ekkert til í þeirri gagnrýni að tillagan sé skref í þá átt. Meirihlutinn mun hvetja framkvæmdaraðila til að leita eftir samráði við fagaðila og telur á þessu stigi bæði ótímabært og ófaglegt að lýsa yfir andstöðu við tillöguna. Að sjálfsögðu er takmarkið að finna leið sem bæði foreldrar og börn verða ánægð með en ánægja með eitt kerfi getur ekki verið ástæða fyrir því að nýjungum sé hafnað.
Fulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks óskuðu bókað:
Afstaða fulltrúa minnihlutans til 5 ára deilda í grunnskólum hefur verið skýr og í fullkomnu samræmi við fyrri bókun. Afstaðan kristallast m.a. í niðurstöðu starfshóps um samstarf leik- og grunnskóla sem vísað var til í okkar fyrri bókun.
Áheyrnarfulltrúi Framsóknarflokks lagði fram svohljóðandi bókun:
Haldi meirihlutinn því til streitu að fara af stað með tilraunaverkefni með 5 ára deildir við einhverja grunnskóla borgarinnar leggur áheyrnarfulltrúi Framsóknarflokksins áherslu á að tryggja þurfi að bæði leik- og grunnskólakennarar komi að því starfi. Markvisst þarf að tryggja að skilin milli skólastiga verði með þeim hætti að breytingar á kennsluháttum verði vægar, að einsleitt bóklegt nám taki ekki sjálfkrafa við af þeirri aðferð að læra í gegnum leikinn. Jafnframt þarf að vinna gegn því bókreki sem er til staðar í grunnskólum og jafnvel leikskólum. Einnig er vert að kanna möguleika á því að taka inn nemendur tvisvar yfir skólaárið, að hausti og um áramót. Á sama hátt þarf að skoða að 5 ára börnum standi til boða að dvelja lengur í leikskóla.
10. Lagðar fram tillögur starfshóps um endurskoðun á úthlutunarreglum vegna sérkennslu í leikskólum. Formaður starfshópsins gerði grein fyrir tillögunum og svaraði fyrirspurnum.
Reglurnar samþykktar samhljóða.
Bókun leikskólaráðs:
Leikskólaráð þakkar fyrir þá tímabæru vinnu sem unnin hefur verið á sviðinu við endurskilgreiningar á úthlutun fjár vegna sérkennslu leikskólabarna. Það er von leikskólaráðs að Reykjavíkurborg verði eftir sem áður í fararbroddi í þjónustu við börn með sérþarfir í leikskólum.
11. Lögð fram samþykkt borgarstjórnar frá 7. feb. sl. um aðgerðir í starfsmannamálum. Starfsmannastjóri gerði grein fyrir málinu.
12. Lagt fram minnisblað frá mannauðsráðgjafa þar sem fram koma tillögur nefndar um útfærslu samþykktar borgarráðs um forgang að leikskólum og frístundaheimilum fyrir börn starfsmanna þeirra stofnana. Umfjöllun frestað.
13. Fundarmönnum var afhent starfsáætlun Leikskólasviðs 2008.
14. Lögð fram skýrsla um ferð leikskólaráðs og starfsmanna á Leikskólasviði til Kaupmannahafnar og Stokkhólms í maí 2007. Umfjöllun frestað.
15. Greint var frá því að árshátíð starfsfólks leikskóla væri fyrirhuguð 14. mars og voru fulltrúar í leikskólaráði hvattir til þess að mæta á árshátíðina.
16. Ákveðið að framvegis verði fundir leikskólaráðs haldnir 2. og 4 miðvikudag hvers mánaðar kl. 14:00 – 16:00.
Fundi slitið kl. 15:30
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir
Áslaug Friðriksdóttir Ragnar Sær Ragnarsson
Sigurlaug Sveinbjörnsdóttir Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir
Sigrún Elsa Smáradóttir Sóley Tómasdóttir