Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

SKÓLA- OG FRÍSTUNDARÁÐ

Ár 2012, 15. febrúar, var haldinn 11. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn var haldinn í Hofi, Höfðatorgi í Reykjavík og hófst kl. 10.10. Fundinn sátu Oddný Sturludóttir formaður, Eva Einarsdóttir, Hilmar Sigurðsson, Kjartan Magnússon, Líf Magneudóttir, Marta Guðjónsdóttir og Óttarr Ólafur Proppé. Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Helga Sigfúsdóttir, starfsmenn í leikskólum; Bryndís Jónsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum; Fanný Heimisdóttir, skólastjórar í leikskólum; Helgi Eiríksson, stjórnendur frístundamiðstöðva; Rósa Steingríms-dóttir, foreldrar barna í leikskólum; S. Ingibjörg Jósefsdóttir, skólastjórar í grunnskólum og Þorgerður L. Diðriksdóttir, kennarar í grunnskólum. Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson sviðsstjóri, Eygló Traustadóttir, Guðrún Edda Bentsdóttir, Hildur Skarp-héðinsdóttir, Kristín Egilsdóttir, Soffía Pálsdóttir og Valgerður Janusdóttir.
Fundarritari var Guðrún Sigtryggsdóttir.

Þetta gerðist:

1. Blíð byrjun. Lögð fram skýrsla starfshóps Blíð byrjun, dags. í janúar 2012. Sigríður Marteinsdóttir, verkefnastjóri á leikskólaskrifstofu skóla- og frístundasviðs, kynnti og svaraði fyrirspurnum. SFS2012020055
Bókun skóla- og frístundaráðs:
Skóla- og frístundaráð fagnar og jafnframt þakkar starfshópi um Blíða byrjun, sem leggur fram tillögur að bættri þjónustu við yngstu börnin í borginni og fjölskyldur þeirra. Í skýrslunni eru að finna greinargóðar upplýsingar um hvernig þjónusta við yngstu börnin í borginni getur þróast á næstu árum.
Áheyrnarfulltrúar skólastjóra í leikskólum, foreldra barna í leikskólum og starfsmanna í leikskólum óskuðu bókað:
Við fögnum skýrslunni og þeim hugmyndum sem lagðar eru fram í verkefninu „blíð byrjun“. Við hlökkum til að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér um þær metnaðarfullu tillögur sem þar eru settar fram.

2. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingarinnar:
Skóla- og frístundaráð í samvinnu við íþrótta- og tómstundaráð, samþykkir að fela sviðsstjórum skóla- og frístundasviðs og íþrótta- og tómstundasviðs að skipa starfshóp sem vinni að samstarfssamningi á milli Fjölskyldu- og húsdýragarðsins og skóla- og frístundasviðs. Starfshópurinn skilgreini samstarfsfleti Fjölskyldu- og húsdýragarðsins og skóla- og frístundasviðs, fræðsluhlutverk garðsins og sóknarfæri í aukinni fræðslu til barna og ungmenna, sem og kennara í Reykjavík. Starfshópurinn skoði einnig með hvaða hætti hægt er að nýta einstakt umhverfi garðsins og tækifæri til fræðslu og upplifunar í skóla- og frístundastarfi. Sambærileg tillaga verður lögð fram í íþrótta- og tómstundaráði en í samþykktri starfsáætlun íþrótta- og tómstundasviðs er að finna skref um mótun slíks samnings.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt.

3. Lögð fram umsögn stjórnar íbúasamtaka Norðlingaholts, dags. 9. febrúar 2012, ályktun foreldraráðs og stjórnar foreldrafélags Rauðhóls, dags. 8. febrúar 2012 og umsögn skólaráðs Norðlingaskóla, dags. 8. febrúar 2012, varðandi fyrirkomulag stjórnunar leikskóla í Norðlingaholti. Lögð fram að nýju umsögn hverfisráðs Árbæjar, dags. 26. janúar 2012, varðandi sama mál. SFS2011100191

Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga Besta flokksins og Samfylkingarinnar:
Skóla- og frístundaráð samþykkir að leikskólabyggingin við Norðlingaskóla í Norðlingaholti verði hluti af leikskólanum Rauðhól og lúti stjórn leikskólastjórans þar. Jafnframt verði stjórnendum Rauðhóls og Norðlingaskóla falið að gera með sér samstarfssamning um hvernig þeir hyggjast efla og skipuleggja samstarf milli skólastiganna, samþætta bæði leik- og grunnskólastarf við frístundastarf og brydda upp á nýbreytni í þróun frístunda- og skólastarfs. Sviðstjóra skóla- og frístundasviðs verði falið að meta samstarfið með reglulegu millibili svo nýta megi þær niðurstöður til framþróunar í öllu skóla- og frístundastarfi í Reykjavík.
Greinargerð fylgdi.
Samþykkt með 4 atkvæðum.
Áheyrnarfulltrúi skólastjóra í grunnskólum og kennara í grunnskólum óskuðu bókað: Fulltrúar kennara og skólastjórnenda taka undir bókun skólaráðs Norðlingaskóla dags 8.febrúar 2012 og undrast að ekki skuli hafa verið haft samband við stjórnendur, starfsmenn og skólaráð Norðlingaskóla strax og þær óskir komu fram frá foreldrum leikskólabarna að leikskóladeild sem staðsett er í Norðlingaskóla verði undir stjórn leikskólans. Eins og fram kemur í greinargerð frá 2006 var stjórnunarform Norðlingaskóla ekki ákveðið og er óásættanlegt að þegar svo stórar ákvarðanir eru teknar um skólastarf að ekki sé rætt frá upphafi við alla aðila sem hlut eiga að máli.
Áheyrnarfulltrúar skólastjóra í leikskólum, foreldra barna í leikskólum og starfsmanna í leikskólum óskuðu bókað:
Við fögnum þeirri ákvörðun að leikskólahluti Norðlingaskóla verði undir stjórn leikskólakennara. Þeir hafa sérþekkingu á menntun og námi barna á leikskólaaldri og geta best tryggt faglegt leikskólastarf.

- Kl. 12.15 vék S. Ingibjörg Jósefsdóttir af fundi.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskuðu bókað:
Enn einu sinni lendir meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins í vandræðum vegna óvandaðra vinnubragða í máli, sem líklegt er að hefði verið leitt farsællega til lykta ef kappkostað hefði verið frá upphafi að eiga raunverulegt samráð við alla hagsmunaaðila. Tillaga meirihlutans um að leikskólahluti Norðlingaskóla verði hluti af leikskólanum Rauðhóli og lúti stjórn leikskólastjórans þar, var lögð fram í skóla- og frístundaráði 7. desember sl. Á þeim fundi töldu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins mikilvægt að leitað yrði víðtæks samráðs um málið og lögðu því til að umræddri tillögu yrði vísað til umsagnar hverfisráðs Árbæjar, Íbúasamtaka Norðlingaholts sem og til foreldra- og kennarafélaganna í viðkomandi skólum í Norðlingaholti. Meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins ákvað á fundinum í desember að fella tillögu Sjálfstæðisflokksins um samráð við þessa aðila en vísa málinu einungis til umsagnar hverfisráðs Árbæjar. Eftir að sú umsögn barst og var rædd á fundi ráðsins 1. febrúar sl., féllst meirihlutinn loks á það sjónarmið að leita bæri víðtækara samráðs í málinu. Sú töf, sem orðið hefur á afgreiðslu málsins er því alfarið á ábyrgð meirihlutans. Nú liggja umsagnir flestra aðila fyrir en harmað skal að ekki var leitað eftir umsögn frá foreldrafélagi Norðlingaskóla eins og óskað var eftir. Í fyrirliggjandi umsögnum koma fram ágætar ábendingar um kosti og galla fyrirliggjandi tillögu. Athygli vekur að í umsögn skólaráðs Norðlingaskóla segir að auðsýnt sé að þegar hafi verið tekin ákvörðun í málinu. ,,Skólaráð telur því umsögn nú ekki þjóna neinum tilgangi en hefði gjarnan viljað koma inn í mótunar- og ákvarðanaferlið á fyrri stigum, þar sem kostir og gallar mismunandi rekstrarforma hefðu verið skoðaðir og ákvörðun tekin með lýðræðislegri hætti en raun ber vitni“ segir í umsögn skólaráðsins. Tekið skal undir það sjónarmið að þegar stórar ákvarðanir séu teknar um skólastarf, sé mikilvægt að ræða við alla aðila, sem hlut eiga að máli og þeim gefinn kostur á að veita umsögn. Þar sem það var ekki gert í þessu tilviki, sitja fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hjá við afgreiðslu málsins.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar óskuðu bókað:
Rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun að leikskólastarf í nýrri byggingu Norðlingaskóla haldi áfram er að finna í greinargerð og byggir á mörgum þáttum. Ljóst er að ákvörðun um stjórnun í hinni nýju byggingu Norðlingaskóla var ekki tekin á þeim tíma sem skólinn var hannaður og því hægt að velja á milli fjölbreyttra kosta í þeim efnum. Allir eru þeir spennandi en skóla- og frístundaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar telja farsælast að halda áfram á sömu braut, enda er ætlunin að fara hægt af stað í samrekstur leik- og grunnskóla.

4. Lögð fram hugmynd sem skóla- og frístundaráð fékk til umfjöllunar af samráðsvefnum Betri Reykjavík, dags. 31. janúar 2012, merkta auknu hlutfalli skapandi greina í grunnskól-um. Lagt er til að nota skapandi aðferðir við kennslu bóklegra greina sem og í list- og verk-greinum með það að markmiði að örva fróðleiksfýsn, ímyndunarafl og sköpunargleði nem-enda. Jafnframt er hvatt til þess að nemendur fái fjölbreyttar leiðir við að skila verkefnum. Í umsögn sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 10. febrúar 2012, kemur fram að skóla- og frístundasvið þakkar ábendinguna og tekur undir mikilvægi þess að auka hlutfall
skapandi greina og kennsluaðferða í grunnskólum. Sköpun er einn af grunnþáttum menntunar samkvæmt nýrri aðalnámskrá grunnskóla, almennum hluta, frá 2011. Sköpun á að vera gegnumgangandi þáttur í allri menntun og ná til alls náms og starfs í grunnskólum.
Skapandi skólastarf hefur verið eitt af áhersluatriðum í stefnu og starfsáætlun fyrir grunnskóla Reykjavíkur síðastliðin ár. Hvatt hefur verið til samstarfs list- og verkgreinakennara m.a. með samráðsfundum og námskeiðum. Í grunnskólum Reykjavíkur er verið að taka ýmis skref í því að samþætta list- og verkgreinar við aðrar greinar. Á árinu 2012 mun skóla- og frístundasvið einnig leggja áherslu á tækifæri til að vinna að nýsköpun, aukna þekkingu á listum og menningu og færni til sköpunar, m.a. með því að hvetja til þátttöku í nýsköpunarkeppnum, veita þeim skólum sem skara fram úr á sviði lista og menningar Menningarfánann, sjá www.menningarfani.is, bjóða kennurum á námskeið til að kynnast vinnuaðferðum Biophilia verkefnis Bjarkar Guðmundsdóttur og kynningu á hönnun og nýsköpun fyrir nemendur í 5. bekk. Þessari mikilvægu hugmynd um aukið hlutfall skapandi greina í grunnskólum er nú þegar verið að hrinda í framkvæmd. SFS2012020031
Umsögn sviðsstjóra samþykkt með 6 atkvæðum.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:
Fulltrúar Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks óska eftir upplýsingum um afdrif tillögu um könnun á því hvort skólar nái að fullnægja kröfum námskrár um kennslutíma í list- og verkgreinum, sem lögð var fram í menntaráði Reykjavíkur 28. september sl. og samþykkt af skóla- og frístundaráði á 2. fundi þess 19. október sl.

5. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 13. febrúar 2012, þar sem gerð er tillaga um afturköllun rekstrarleyfis Vinaminnis en breytt rekstrarleyfi var samþykkt á fundi skóla- og frístundaráðs 1. febrúar 2012. Einnig lagt fram á fundinum bréf Vinaminnis, dags. 13. febrúar 2012, og minnisblað sviðsstjóra, dags. 15. febrúar 2012 og drög að rekstrarleyfi fyrir Vinaminni. SFS2011100234
Samþykkt að rekstrarleyfi Vinaminnis sem samþykkt var á fundi skóla- og frístundaráðs þann 1. febrúar 2012 verði afturkallað með vísan til 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með síðari breytingum.
Rekstrarleyfi fyrir Vinaminni samþykkt með 6 atkvæðum.

Áheyrnarfulltrúar skólastjóra í leikskólum, foreldra barna í leikskólum og starfsmanna í leikskólum óskuðu bókað:
Með vísan í bókun okkar frá 1. febrúar sl., ítrekum við áhyggjur okkar af ákvörðun um að stækkun leikskólans þrengi bæði að börnum og starfsfólki og hvetjum borgina til að setja sér viðmið í samvinnu við foreldra, starfsfólk og leikskólastjóra um lágmarks heildarrými á barn, leikrými á barn og viðmið um starfsmannaaðstöðu í leikskólum. Fyrri viðmið gerðu ráð fyrir að lágmarki 7 fermetrum í heildarrými og leikrými upp á 3 fermetra fyrir hvert barn, ítrekum við að ekki er ásættanlegt að fara niður fyrir þessi viðmið og heldur þyrfti að auka rými á hvert barn til að tryggja vellíðan bæði barna og starfsfólks í leikskólanum til að tryggja faglegt starf.

6. Lagðar fram tillögur verkefnahóps um menntamál og sérfræðiþjónustu í skólum auk bréfs, dags. 24. október sl., frá framkvæmdastjóra Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Einnig lagt fram bréf, dags. 3. nóvember 2011, frá skrifstofu borgarstjóra þar sem óskað er umsagnar um tillögurnar. SFS2011110079

- Kl. 13.35 vék Eygló Traustadóttir af fundi og Guðrún Hjartardóttir tók þar sæti.

Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingarinnar að umsögn skóla- og frístundaráðs:
Skóla- og frístundaráð Reykjavíkurborgar fagnar því að Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hafi haft frumkvæði að því að greina þau tækifæri sem liggja í samstarfi sveitarfélaganna um menntamál og sérfræðiþjónustu í skólum. Ráðið tekur undir tillögur framtíðarhópsins lið A) nr. 1 og 2 þar sem annars vegar er lögð áhersla á fræðslu og símenntun en hinsvegar á rafrænan gagnabanka. Má í fljótu bragði sjá að þessar tvær tillögur hafa í för með sér margvíslegan ávinning fyrir sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og er ráðið meðmælt því að framkvæmdastjórn skóla- og frístundasviðs tilnefni fulltrúa sviðsins í þá vinnu nú þegar. Hvað 3. lið tillögu A) varðar telur ráðið að um mun umfangsmeira verkefni sé að ræða sem krefjist samstarfs við fleiri aðila en sveitarfélögin og þá sérstaklega fræðasamfélagið. Ráðið er sammála því að stofnaður verði faghópur en leggur til að sá hópur leiti eftir víðtækara samstarfi s.s. eins og við Háskóla Íslands og þá sérstaklega Rannsóknarstofu um þroska, mál og læsi, RannUng (Rannsóknarstofu í menntunarfræðum ungra barna) og RIKK (Rannsóknarstofu í kvenna- og kynjafræðum). Einnig að leitað verði til Borgarbókasafnsins sem leiðandi aðila í uppbyggingu verkefnisins „Reykjavík, bókmenntaborg Unesco“ og skoðaðir mögulegir fletir á uppbyggingu þekkingarseturs um mál og læsi í stærra samhengi. Hvað aðrar tillögur varðar er ljóst að þær eru fjölbreyttar og yfirgripsmiklar, sumar eru einfaldar í framkvæmd á meðan aðrar eru flóknari og kostnaðarsamari í útfærslu. Ráðið telur mikilvægt að framkvæmdastjórn skóla- og frístundasviðs greini hvaða tillögur er raunhæft að hrinda í framkvæmd af hálfu sviðsins og tilnefni tengilið sviðsins við Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Tengiliðurinn tæki jafnframt sæti í starfshóp eða verkefnastjórn sem bæri ábyrgð á að gera aðgerðaráætlun um útfærslu og innleiðingu á þeim leiðum sem verða fyrir valinu eins og kemur fram í lið B) í yfirliti yfir tillögur. Skóla- og frístundasvið Reykjavíkur hefur vegna stærðar og umfangs, ótvíræðu forystuhlutverki að gegna í málefnum leikskóla, grunnskóla og frístundamiðstöðva og hefur með höndum veigamikla ábyrgð á stefnumótun í menntamálum og sérfræðiþjónustu stærsta sveitarfélagsins á landinu. Á skóla- og frístundasviði hefur verið lögð áhersla á að byggja upp sérþekkingu í ákveðnum málaflokkum sem tvímælalaust getur nýst öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Á sama hátt telur ráðið að mikilvæg þekking hafi orðið til hjá sérfræðingum annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Samvinna og samstarf á milli þessara aðila getur leitt af sér uppbyggingu á bestu mögulegu þekkingu í menntamálum og sérfræðiþjónustu í skólum sem ætti að vera keppikefli Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Markmiðið með slíku samstarfi væri auk þess að bæta og samræma aðgengi allra barna, fjölskyldna og skólasamfélagsins í heild að víðtækri þjónustu og þekkingu í menntamálum. Slíkt felur í sér forvarnargildi sem til lengri tíma litið gefur af sér samfélagslegan auð.
Samþykkt.

7. Lagt fram yfirlit, dags. í desember 2011, yfir framkvæmd markmiða í starfsáætlun menntasviðs, leikskólasviðs og tómstundahluta íþrótta- og tómstundasviðs fyrir árið 2011. SFS2011100138

8. Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs dags. 6. febrúar 2012, um embættis-afgreiðslu erindis sem borist hefur skóla- og frístundaráði, eitt mál. SFS2011100054

9. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram tillögu í ráðinu hinn 14. desember sl. um að útikennslustofur í Reykjavík verði kortlagðar og að gert verði átak í að kynna þær fyrir leik-og grunnskólum borgarinnar með það að markmiði að hvetja til notkunar þeirra. Hefur vinna að þessu verkefni hafist og hver er staða þess?

10. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Vinstri grænna lagði fram svohljóðandi fyrirspurn:
Fulltrúi Vinstri grænna vill vita afdrif tillögu frá 23. júní 2010 um að minnihlutinn verði boðaður á undirbúningsfundi skóla- og frístundaráðs (þá Menntaráðs) eins og ýmis önnur ráð hafa gert og var í anda boðaðra nýrra vinnubragða meirihlutans við upphaf kjörtímabilsins.

Fundi slitið kl. 14.00

Oddný Sturludóttir
Eva Einarsdóttir Hilmar Sigurðsson
Kjartan Magnússon Líf Magneudóttir
Marta Guðjónsdóttir Óttarr Ólafur Proppé