No translated content text
Skóla- og frístundaráð
SKÓLA- OG FRÍSTUNDARÁÐ
Ár 2012, 18. janúar, var haldinn 9. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn var haldinn í Hofi, Höfðatorgi í Reykjavík og hófst kl. 10.05. Fundinn sátu Oddný Sturludóttir formaður, Eva Einarsdóttir, Hilmar Sigurðsson, Kjartan Magnússon, Líf Magneudóttir, Marta Guðjónsdóttir og Óttarr Ólafur Proppé. Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Helgi Eiríksson, stjórnendur frístundamiðstöðva; Rósa Steingrímsdóttir, foreldrar barna í leikskólum; S. Ingibjörg Jósefsdóttir, skólastjórar í grunnskólum; Stella Marteinsdóttir, starfsmenn í leikskólum og Þórunn Gyða Björnsdóttir, skólastjórar í leikskólum. Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Hildur Skarphéðinsdóttir, Kristín Egilsdóttir, Soffía Pálsdóttir og Valgerður Janusdóttir.
Fundarritari var Guðrún Sigtryggsdóttir.
Þetta gerðist:
1. Svohljóðandi tillaga samþykkt:
Skóla- og frístundaráð samþykkir að fela sviðsstjóra að setja af stað starfshóp sem skoðar kosti og galla þess að bjóða börnum sem eru að hefja grunnskólagöngu upp á frístundatilboð að loknu sumarleyfi leikskólanna. Markmiðið væri að skapa meiri samfellu milli leikskólagöngu og upphafs grunnskólagöngu og gefa væntanlegum grunnskólanemendum tækifæri til að kynnast starfsemi frístundaheimila áður en skólahald hefst í 1. bekk. Starfshópurinn meti einnig fjárhagsleg áhrif tillögunnar. Sumarfrístund fyrir leikskólabörn er lýðsprottin hugmynd, tekin af samráðsvef borgarinnar Betri Reykjavík.
Greinargerð fylgdi. SFS2012010156
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Vinstri grænna óskaði bókað:
Fulltrúi Vinstri grænna samþykkir tillöguna með þeim fyrirvara að sníða þurfi námskeiðin að þörfum og getu þessa aldurshóps, enda er munurinn á þroska, orku, getu og úthaldi krakka fyrir og eftir fyrsta árið í grunnskóla, mjög mikill.
- Kl. 10.30 tók Þorgerður L. Diðriksdóttir sæti á fundinum.
2. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingarinnar:
Skóla- og frístundaráð felur sviðsstjóra að setja af stað starfshóp sem vinnur að þróun og innleiðingu innra mats á frístundastarfi á frístundamiðstöðvum sviðsins. Innra matið nái til starfsemi frístundaheimila, félagsmiðstöðva og til annars starfs með börnum og ungmennum. Byggt verði á þeirri þekkingu sem er til staðar á sviðinu er kemur að innra og ytra mati og stefnt verði að því að nýta þau tæki og tól sem eru til staðar. Starfshópurinn leiti álits hjá fagfólki í frítímaþjónustu og hjá fræðimönnum á Menntavísindasviði Háskóla Íslands.
Greinargerð fylgdi. SFS2012010157
Samþykkt.
3. Lögð fram hugmynd sem skóla- og frístundaráð fékk til umfjöllunar af samráðvefnum Betri Reykjavík, dags. 30. nóvember 2011, merkta Skólaþingi Vesturbæjar um að áætlun um aukna hollustu skapi vellíðan. Lagt er til að boðin verði hollari kostur til sölu innan veggja skólans. Að opnunartími sjoppu innan skólans verði aukinn, valin inn í hana hollari vara og að haft verði samstarf við hverfabúðir um hollustu. Í umsögnum um tillöguna er lagt til að grænmeti og ávextir verði í boði á nestistímum og að hollur matur verði tryggður í mötuneytum leik – og grunnskóla. Jafnframt lögð fram umsögn sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 13. janúar sl., um hugmyndina þar sem fram kemur að skóla- og frístundaráð þakkar ábendinguna og tekur undir mikilvægi þess að nemendum í grunnskólum sé tryggður aðgangur að hollum mat. Það er skilgreint hlutverk skólayfirvalda samkvæmt aðalnámskrá að stuðla að jákvæðu viðhorfi barna og unglinga til hollustu og hreyfingar. Hverfabúðir eru ákaflega misjafnar og borgin hefur ekki bein áhrif á framboð þar. Haft verður samband við skóla sem reka sjoppur og skólastjórar minntir á að matvæli sem seld eru í sjoppum skólans séu holl og næringarrík. Bent er á að starfshópur um endurskipulagningu mötuneyta á vegum Reykjavíkurborgar hefur nýlega skilað skýrslu þar sem lögð er fram tillaga um þjónustustaðal fyrir mötuneytisþjónustu á vegum borgarinnar. Skýrslan bíði nú afgreiðslu borgarstjórnar. SFS201210135
Umsögn sviðsstjóra samþykkt.
4. Lögð fram hugmynd sem skóla- og frístundaráð fékk til umfjöllunar af samráðsvefnum Betri Reykjavík, dags. 30. desember 2011, merkta Sumarvindar. Leggur viðkomandi til að horft sé til þroska barna við inntöku á leikskóla borgarinnar og að börn sem eru fædd í byrjun árs 2010 séu tekin inn strax í janúar 2012 því óverjandi sé að bíða með það til sumars því þá missi þau verulega af fyrsta skólastiginu. Jafnframt lögð fram umsögn sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 13. janúar sl., þar sem fram kemur að hugmyndin er um tveggja mánaða gömul þegar skóla- og frístundaráð fær hana til umfjöllunar í lok desember. Innritun barna sem fædd eru árið 2010 og sótt hefur verið um leikskólapláss fyrir í leikskólum Reykjavíkurborgar, hófst síðari hluta nóvember 2011. Öllum börnum sem fædd eru í janúar 2010 og helmingi barna sem fædd eru í febrúar 2010 hefurverið boðin vistun í leikskólum borgarinnar. Börnum sem fædd eru árið 2010 eða fyrr verðurboðin vistun eftir því sem pláss losna. Fyrirséð er að flest börn verða innrituð í haust þegar elsti árangur leikskólans fer í grunnskóla. Gert er ráð fyrir að öll börn fædd árið 2010 verði komin með leikskólapláss fyrir lok ársins 2012 í samræmi við reglur um leikskólaþjónustu, þar sem miðað er við að börn geti hafið leikskóladvöl á því ári sem þau verða tveggja ára. Hugmyndinni hafi nú þegar verið hrint í framkvæmd.
Umsögn sviðsstjóra samþykkt með 4 atkvæðum.
5. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra, dags. 13. janúar sl., um tillögu um breytingu á reglum um úthlutun á stuðningstímum til barna í leikskólum hjá Reykjavíkurborg. Jafnframt lagðar fram reglurnar með breytingu auk skýrslu um endurskoðun úthlutunar sérkennslu, dags. í ágúst 2011. SFS2011090087
Breyting á reglum um úthlutun á stuðningstímum til barna í leikskólum hjá Reykjavíkurborg samþykkt og vísað til borgarráðs.
6. Lagðar fram tillögur verkefnahóps um menntamál og sérfræðiþjónustu í skólum auk bréfs, dags. 24. október sl., frá framkvæmdastjóra Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Einnig lagt fram bréf, dags. 3. nóvember 2011, frá skrifstofu borgarstjóra þar sem óskað er umsagnar um tillögurnar. Einnig lögð fram tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingarinnar að umsögn skóla- og frístundaráðs.
Frestað.
7. Lagðar fram reglur um gerð fjárhagsáætlunar hjá Reykjavíkurborg auk bréfs, dags. 12. janúar sl., frá borgarstjóranum í Reykjavík. Birgir Björn Sigurjónsson, fjármálastjóri Reykjavíkurborgar, kynnti og svaraði fyrirspurnum. SFS2012010153
8. Kynjuð fjárhags- og starfsáætlunargerð hjá Reykjavíkurborg. Birgir Björn Sigurjónsson, fjármálastjóri Reykjavíkurborgar, kynnti og svaraði fyrirspurnum.
- Kl. 11.50 vék Marta Guðjónsdóttir af fundinum.
- Hlé gert á fundinum frá kl. 12.00 til 12.25
- Kl. 12.25 tók Geir Sveinsson sæti á fundinum.
9. Staðan í vinnu við stefnmótun í málefnum ungs fólks. Eva Einarsdóttir, formaður stefnumótunarhópsins, kynnti og svaraði fyrirspurnum.
10. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa skólastjóra í leikskólum sem frestað var á fundi ráðsins 4. janúar sl.:
Fulltrúi leikskólastjóra í skóla- og frístundarráði gerir tillögu um að settur verði af stað starfshópur sem fær það verkefni að gera lestrarstefnu fyrir leikskóla Reykjavíkur. Í stefnunni væru skilgreindar námsáherslur fyrir hvern aldurshóp í leikskólanum, sem eru mikilvægar fyrir færni barna í lestri síðar meir. Margt gott starf er verið að vinna í leikskólum borgarinnar í ritmáls- og lestrarörvun sem bæði er hluti af frjálsum leik barnanna og sem afmörkuð verkefni í formi leiks. Það er mjög þarft að móta stefnu í anda aðalnámskrár leikskóla sem væri leiðarvísir fyrir leikskóla, sem grunnur að lestrarnámi barna.
Áheyrnarfulltrúi skólastjóra í leikskólum leggur fram svohljóðandi breytingartillögu:
Fulltrúi leikskólastjóra í skóla- og frístundarráði gerir tillögu um að settur verði af stað starfshópur sem fær það verkefni að gera læsisstefnu fyrir leikskóla Reykjavíkur. Í leikskólum er læsi notað í víðu samhengi um margvíslega færniþætti í námi barna. Áherslur tiltekinnar læsisstefnu verði á málörvun, ritmál, tjáningu og leik en það eru þættir sem leggja grunn að hæfni barna í lestri síðar meir.
Breytingartillagan samþykkt.
Tillagan svo breytt samþykkt.
11. Lagt fram bréf nafnanefndar, dags. 5. janúar sl., um að sameinaður leikskóli Foldaborgar, Foldakots og Funaborgar fái nafnið Sunnufold. SFS2011090127
Samþykkt með 4 atkvæðum.
12. Staða sameiningarmála í leikskólum. Lögð fram yfirlit, dags. í desember 2011, yfir stöðu sameiningarmála í leikskólunum Björtuhlíð, Borg, Dvergasteini/Drafnarborg, Folda-borg/Foldkakoti/Funaborg, Furuskógi, Hálsakógi, Hlíð, Langholti, Laugasól, Miðborg og Sunnuási. Hildur Skarphéðinsdóttir, skrifstofustjóri leikskólaskrifstofu skóla- og frístundasviðs, kynnti og svaraði fyrirspurnum. SFS2011120167
- Kl. 14.05 vék Ragnar Þorsteinsson af fundi.
- Kl. 14.15 viku Kristín Egilsdóttir, Geir Sveinsson og S. Ingibjörg Jósefsdóttir af fundi.
- Kl. 14.17 vék Helgi Eiríksson og Hilmar Sigurðsson af fundi.
13. Lagt fram minnisblað, dags. 11. janúar sl., með yfirliti yfir fundi skóla- og frístundaráðs í janúar til júní 2012 með fyrirvara um breytingar. SFS2011090180
14. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Skóla- og frístundaráð samþykkir að kjörnir fulltrúar í ráðinu hafi seturétt á fundum fræðslustjóra með skólastjórum. Þar fer fram lifandi umræða um skólamál og þau málefni líðandi stundar, sem skóla- og frístundaráðsfulltrúum ber skylda til að vera vel heima í. Því er mikilvægt að kjörnir fulltrúar hafi aðgang að þeim faglega vettvangi.
Greinargerð fylgdi.
Frestað.
- Kl. 14.25 viku Rósa Steingrímsdóttir og Hildur Skarphéðinsdóttir af fundi.
15. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:
Formaður skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur hefur, samkvæmt fréttum fjölmiðla í dag, neitað boði foreldra í Hamrahverfi um að koma á fund þeirra til að svara spurningum vegna breytinga á skólahaldi í hverfinu. Eru foreldrar í hverfinu afar óánægðir með fyrirhugaðan flutning unglingastigs Hamraskóla í Foldaskóla næsta haust. Hafa umræddir foreldrar ítrekað en árangurslaust óskað eftir skýrum svörum frá formanni skóla- og frístundaráðs um sameininguna og hvaða ávinningi hún muni skila. Áhyggjur eru einnig ríkjandi meðal margra starfsmanna umræddra skóla, sem finnst verulega skorta á að þeir hafi fengið fullnægjandi skýringar á breytingunum og hvernig verður staðið að þeim. Er fáheyrt ef ekki einsdæmi að formaður opinbers ráðs hjá Reykjavíkurborg hafni slíkri beiðni um að koma á slíkan fund almennra borgara til að svara spurningum varðandi þá stefnumótun, sem hann ber höfuðábyrgð á. Umrædd neitun kemur í kjölfar þess að í desember sl. felldi meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins í skóla- og frístundaráði þá tillögu Sjálfstæðisflokksins að efnt yrði til opins fundar ráðsins til að miðla upplýsingum til foreldra og eiga samráð við þá vegna yfirstandandi breytinga. Spurt er: Hvernig hyggjast borgarfulltrúar Samfylkingar og Besta flokksins standa að upplýsingagjöf og samráði við foreldra og starfsmenn í grunnskólum Reykjavíkur vegna yfirstandandi breytinga á skólahaldi, fyrst þeir treysta sér ekki til þess að eiga beint samráð við þessa hópa eins og reynslan sýnir?
Fundi slitið kl. 14.30
Oddný Sturludóttir
Eva Einarsdóttir Kjartan Magnússon
Líf Magneudóttir Óttarr Ólafur Proppé