Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

SKÓLA- OG FRÍSTUNDARÁÐ

Ár 2011, 7. desember, var haldinn 5. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn var haldinn í Höfðatorgi í Reykjavík og hófst kl. 10:22. Fundinn sátu Óttarr Ólafur Proppé varaformaður, Eva Einarsdóttir, Hilmar Sigurðsson, Kjartan Magnússon og Sigríður Pétursdóttir. Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Helga Sigfúsdóttir, starfsmenn í leikskólum; Bryndís Jónsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum; Börkur Vígþórsson, skólastjórar í grunnskólum; Helgi Eiríksson, stjórnendur frístundamiðstöðva; Rósa Steingrímsdóttir, foreldrar barna í leikskólum; Þorgerður L. Diðriksdóttir, kennarar í grunnskólum og Þórunn Gyða Björnsdóttir, skólastjórar í leikskólum. Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson sviðsstjóri, Auður Árný Stefánsdóttir, Eygló Traustadóttir, Hildur Skarphéðinsdóttir, Soffía Pálsdóttir og Valgerður Janusdóttir.
Fundarritari var Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir.

Þetta gerðist:

Varaformaður bauð Börk Vígþórsson velkominn til síns fyrsta fundar í skóla- og frístunda-ráði.

1. Lögð fram skýrslan Viðhorfskönnun frístundaheimila ÍTR – Könnun lögð fyrir foreldra barna á frístundaheimilum ÍTR veturinn 2010-2011, dags. í ágúst 2011. SFS2011120019 Soffía Pálsdóttir kynnti skýrsluna og svaraði fyrirspurnum.

Bókun skóla- og frístundaráðs:
Skóla- og frístundaráð fagnar niðurstöðum úr viðhorfskönnun foreldra til frístundaheimila í borginni. Það vekur sérstaka eftirtekt og gleði hversu margir foreldrar telja börn sín ánægð, hversu margir foreldrar eru ánægðir með frístundaheimilið og ánægjulegt að sjá að almennt telja foreldrar framkomu starfsfólks mjög/frekar góða. Eins telja foreldrar að börnunum mæti hlýja og nærgætni sem er mikilvægt og að dvölin hafi jákvæð félagsleg áhrif á barnið. Þó margar niðurstöðurnar séu mjög ánægjulegar og jákvæðar í garð þjónustunnar, og betri en síðustu ár, er mikilvægt að skóla- og frístundasvið rýni hvað betur má fara til að þróa og bæta gott starf sem er keppikefli okkar nú sem hingað til.

2. Lögð fram tillaga af vefsvæðinu Betri Reykjavík, dags. 31. október 2011, varðandi vettvangsferðir grunnskólabarna. Jafnframt lögð fram umsögn sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 2. desember 2011, um tillöguna. SFS2011120017
Í umsögninni er lagt til að víkka út tillöguna svo hún henti börnum og unglingum í leikskólum, grunnskólum og öllu frístundastarfi á vegum skóla- og frístundasviðs. Jafnframt að ýta úr vör eftirfarandi verkefnum:
• Að kortleggja vettvangsferðir leikskóla, grunnskóla og frístundastarfs. Þar gætu leynst gullmolar sem nýtast öðrum innan sviðsins.
• Að útfæra möguleika hvers borgarhluta til vettvangsferða. Til eru frábær hverfaverkefni eins og vefsvæðið Ævintýri á heimaslóðum og handbókin Ævintýri á gönguför sem hægt er að nýta sem grunn.
• Taka saman upplýsingar um almenn fræðslutilboð innan Reykjavíkur, svo sem frá Náttúruskóla Reykjavíkur, Fjölskyldu- og húsdýragarðinum, Skógrækt ríkisins o.fl. og upplýsingar um áhugaverða og skemmtilega staði s.s. Gufunesbæinn og Laugardalinn.
• Að skoða þá hugmynd að safna saman slíkum hugmyndum í hugmyndabanka á heimasíðu sviðsins.
• Að kanna áhuga og tillögur barna og unglinga á ferðum og heimsóknum á starfsstöðum sviðsins þ.e. leikskólum, grunnskólum og frístundamiðstöðvum. Einnig er lagt til að kalla eftir hugmyndum frá Reykjavíkurráði ungmenna.
• Senda bréf til Samtaka iðnaðarins og óska eftir samstarfi, þ.e. hvort þau geti haft milligöngu um að fá barnvæn fyrirtæki til að taka á móti barnahópum.
• Skoða þarf betur samgöngur innan borgarinnar til að auðvelda hópum barna og unglinga að fara í fleiri vettvangsferðir. Skóla- og frístundasvið mun senda bréf til Strætó og koma með tillögur að bættum samgöngum á þessa staði.
Umsögn sviðsstjóra samþykkt.

- Kl. 10.58 tók S. Björn Blöndal sæti á fundinum.

3. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Skóla- og frístundaráð samþykkir að leikskólabyggingin við Norðlingaskóla í Norðlingaholti verði hluti af leikskólanum Rauðhól og lúti stjórn leikskólastjórans þar. Jafnframt verði stjórnendum Rauðhóls og Norðlingaskóla falið að gera með sér samstarfssamning um hvernig þeir hyggjast efla og skipuleggja samstarf milli skólastiganna, samþætta bæði leik- og grunnskólastarf við frístundastarf og brydda upp á nýbreytni í þróun frístunda- og skólastarfs. Sviðstjóra skóla- og frístundasviðs verði falið að meta samstarfið með reglulegu millibili svo nýta megi þær niðurstöður til framþróunar í öllu skóla- og frístundastarfi í Reykjavík.
Greinargerð fylgir.

Einnig lagður fram undirskriftalisti frá foreldrum leikskólabarna í Norðlingaholti, dags. 10. október 2011, þar sem þau koma á framfæri vilja sínum til þess að stjórnendum Rauðhóls verði falið að stýra nýjum leikskóla í hverfinu. SFS2011100191.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar lögðu fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:
Skóla- og frístundaráð vísar tillögu um fyrirkomulag stjórnunar leikskóla í Norðlingaholti til umsagnar hverfisráðs Árbæjar.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins lagði fram svohljóðandi breytingatillögu:
Skóla- og frístundaráð vísar tillögu um fyrirkomulag stjórnunar leikskóla í Norðlingaholti til umsagnar hverfisráðs Árbæjar, Íbúasamtaka Norðlingaholts sem og til foreldra- og kennarafélaganna í viðkomandi skólum í Norðlingaholti.
Tillagan felld með 4 atkvæðum gegn 1.

Málsmeðferðartillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingar-innar samþykkt með 4 atkvæðum.

- Kl. 11.04 tók Kristín Egilsdóttir sæti á fundinum.
- Kl. 11.08 tók Jón Ingi Einarsson sæti á fundinum.

4. Lagt fram bréf nafnanefndar Hamraborgar og Sólbakka, dags. 18. nóvember 2011, um að sameinaður leikskóli Hamraborgar og Sólbakka fái nafnið Bjartahlíð. SFS2011090127
Samþykkt með 4 atkvæðum.

5. Lagt fram bréf nafnanefndar Arnarborgar og Fálkaborgar, dags. 22. nóvember 2011, um að sameinaður leikskóli Arnarborgar og Fálkaborgar fái nafnið Borg. SFS2011090127
Samþykkt með 4 atkvæðum.

6. Lagt fram bréf nafnanefndar Hálsakots og Hálsaborgar, dags. 24. nóvember 2011, um að sameinaður leikskóli Hálsakots og Hálsaborgar fái nafnið Hálsaskógur. SFS2011090127
Samþykkt með 4 atkvæðum.

7. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 2. desember 2011, varðandi staðfestingu skóladagatals og starfsáætlunar Klettaskóla skólaárið 2011 – 2012. SFS2011120016
Samþykkt.

8. Lagt fram níu mánaða uppgjör leikskólasviðs, menntasviðs og frístundahluta íþrótta- og tómstundasviðs. SFS2011120018
Kristín Egilsdóttir, Jón Ingi Einarsson og Bragi Þór Bjarnason fjármálastjórar kynntu og svöruðu fyrirspurnum.

9. Lögð fram á ný svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi ráðsins 2. nóvember sl.:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja til að haldinn verði opinn fundur í skóla- og frístundaráði sem allra fyrst vegna þeirra veigamiklu breytinga sem eiga munu sér stað við sameiningar skóla og vegna reglna um inntöku barna í leikskóla. Tímabært er að halda slíkan fund enda samræmist það 8. gr. samþykktar ráðsins þar sem kveðið er á um að ráðið beri ábyrgð á upplýsingamiðlun og samráði við foreldra, íbúa, félagasamtök og aðra hagsmunaaðila sem tengjast verkefnum ráðsins.
Tillagan felld með 4 atkvæðum gegn 2.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar óskuðu bókað:
Á næstu vorönn er áætlað að halda opinn fund skóla- og frístundaráðs þar sem stefnumótun og starfsáætlun hins nýja sviðs verða kynnt. Vegna sameiningar grunnskóla er rétt að ítreka að markvisst samráð við foreldra fer fram með vinnu í stýrihópum hvers skóla þar sem fulltrúar foreldra sitja sem og á upplýsingafundum sem öllum foreldrum er boðið að sitja. Ekki er talin ástæða til að halda fund um reglur vegna inntöku barna í leikskóla þar sem þær eru óbreyttar frá árinu 2008.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna óskuðu bókað:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna harma að meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins skuli fella tillögu um að halda opinn fund skóla- og frístundaráðs með foreldrum vegna hinna veigamiklu breytinga, sem nú eiga sér stað á skólahaldi í borginni, vegna sameiningar skóla og inntöku barna í leikskóla. Fjölmargar ábendingar hafa borist frá foreldrum og kennurum um að upplýsingar skorti og stefnumótun sé ábótavant hjá skóla- og frístundaráði vegna sameiningar skóla og inntöku barna í leikskóla. Umfjöllun um áhyggjur foreldra að þessu leyti hefur verið áberandi í fjölmiðlum að undanförnu. Mikilvægt er að bregðast strax við slíkum ábendingum með því að halda opinn fund um þessi mikilvægu mál til að koma upplýsingum á framfæri og gefa foreldrum kost á milliliðalausu samtali við æðstu stjórnendur skólamála í Reykjavík. Þess í stað kjósa fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar að halda samráði við foreldra í lágmarki og fresta því fram á vormisseri að halda slíkan fund. Enn kemur í ljós að fyrirheit Samfylkingar- og Besta flokksins um ýtarlegt samráð við foreldra og starfsfólk skóla vegna skólamála eru innantóm og merkingarlaus.

- Kl. 12.28 tók Rúnar Gunnarsson, arkitekt á framkvæmda- og eignasviði sæti á fundinum.

10. Lögð fram á ný svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi ráðsins 16. nóvember sl.:
Skóla- og frístundaráð samþykkir að leita leiða til að komast hjá því að þörf Vesturbæjarskóla fyrir aukið húsnæði verði leyst á kostnað leikaðstöðu skólabarna með því að raða þremur færanlegum kennslustofum eftir endilöngu leiksvæði skólalóðarinnar, sem er með hinum minnstu í borginni. Áður en aðstaða skólabarna til leikja og íþrótta verður stórlega skert með þeim hætti skulu aðrir kostir skoðaðir til þrautar. T.d. skal skoða þann kost betur að koma umræddum stofum tímabundið fyrir í göturými Vesturvallagötu eða annars staðar í nágrenninu. Einnig má skoða tiltæka kosti á leiguhúsnæði í nágrenninu, megi það verða til þess að ekki þurfi að skerða leiksvæði skólans frekar.
Tillagan felld með 4 atkvæðum gegn 1.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar óskuðu bókað:
Síðan í júní hefur stýrihópur skipaður fulltrúum skóla- og frístundasviðs og foreldrum og starfsfólki Vesturbæjarskóla grandskoðað alla kosti sem mögulegir eru vegna þrengsla í Vesturbæjarskóla. Sameiginleg niðurstaða hópsins er sú að besti kosturinn í stöðunni er að setja niður þrjár færanlegar kennslustofur á skólalóðina. Þær stofur mæta brýnni þörf Vesturbæjarskóla fyrir meira rými og það strax. Skipulagsyfirvöld hafa tekið neikvætt í þann kost að nýta göturými Vesturvallagötu og ljóst er að sá reitur rúmar ekki þær þrjár stofur sem Vesturbæjarskóli þarf á að halda.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins óskaði bókað:
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins harmar að meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins skuli ekki ætla að leita leiða til að komast hjá því að þörf Vesturbæjarskóla fyrir aukið húsnæði verði leyst með því að skerða leikaðstöðu skólabarna. Ekki er um það deilt að Vesturbæjarskóli er í brýnni þörf fyrir aukið húsnæði en það er óviðunandi að þrjár færanlegar skólastofur verði settar yfir íþróttavöll nemenda á skólalóð, sem er nú þegar með hinum minnstu í borginni, áður en aðrir kostir eru kannaðir til þrautar. Ef sú leið yrði t.d. valin að koma tveimur færanlegum kennslustofum fyrir í götustæði Vesturvallagötu, þyrfti aðeins að koma einni stofu fyrir á sjálfri skólalóðinni. Þá er ljóst að leiguhúsnæði stendur til boða örskammt frá skólanum. Því miður voru áður nefndar leiðir ekki kannaðar til þrautar. Þar sem nú liggur fyrir að skerða á aðstöðu nemenda Vesturbæjarskóla til leikja og íþrótta með þessum hætti er rétt að skóla- og frístundaráð geri þá kröfu að til mótvægis verði battavöllur lagður á lóð skólans á næsta ári. Minnt skal á að samkvæmt samþykkt frá síðasta kjörtímabili er Vesturbæjarskóli efstur á forgangslista vegna lagningar battavalla í borginni.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins lagði fram svohljóðandi tillögu:
Skóla- og frístundaráð beinir þeim eindregnu tilmælum til framkvæmda- og eignasviðs að battavöllur verði lagður á skólalóð Vesturbæjarskóla á árinu 2012. Þar sem nú liggur fyrir að setja eigi þrjár færanlegar kennslustofur yfir malbikaðan íþróttavöll skólans, er brýnt að aðstaða nemenda til hreyfingar og íþrótta verði bætt.
Frestað.

- Kl. 12.38 vék Rúnar Gunnarsson af fundi.

11. Kynning á Biophilia verkefninu, sem miðar að því að efla samstarf grunnskólabarna, fræðimanna og kennara og kynna þeim tengsl tónlistar, vísinda og tækni í tónvísindasmiðjum. Arnfríður Sólrún Valdimarsdóttir, verkefnastjóri hjá Reykjavíkur-borg, gerði grein fyrir verkefninu og svaraði fyrirspurnum.

Kl. 12.50 tók Hjálmar Sveinsson sæti á fundinum og S. Björn Blöndal vék af honum.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Skóla- og frístundaráð felur sviðsstjóra að þróa símenntunar- og starfsþróunarverkefni fyrir kennara í grunnskólum Reykjavíkur í þeim tilgangi að geta boðið öllum grunnskólum í borginni að taka þátt í þverfaglegu þemaverkefni „Biophilia í skólum“ fyrir nemendur í 5. – 7. bekk. Verkefnið er byggt á tónvísindasmiðju sem er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar, Háskóla Íslands og Bjarkar Guðmundsdóttur. Markmið verkefnisins er að samþætta á nýstárlegan hátt tónlist, vísindi, tölvutækni, móðurmál og jafnvel fleiri námsgreinar. Með Biophiliu í skólum gefst grunnskólunum einstakt tækifæri til að þróa kennsluaðferðir á nýjum grunni.
Samþykkt.

12. Lagt fram bréf velferðarráðuneytis, um öryggi barna hjá dagforeldrum, framkvæmd reglugerðar um daggæslu barna í heimahúsum nr. 907/2005, dags. 1. nóvember 2011. Jafnframt lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 2. desember 2011, um framkvæmd og eftirfylgni eftirlits skóla- og frístundasviðs vegna daggæslu í heimahúsum. SFS2011110120.
Hildur Skarphéðinsdóttir, skrifstofustjóri leikskólaskrifstofu, kynnti og svaraði fyrirspurnum.

13. Lagt fram bréf umboðsmanns Alþingis um kvörtun vegna synjunar á leikskóladvöl í Reykjavík, dags. 29. nóvember 2011. SFS2011090085

14. Lögð fram ályktun frá starfsmönnum Ölduselsskóla, dags. 23. nóvember 2011, áskorun til fulltrúa skóla- og frístundaráðs að stíga fram og fjalla um vinnubrögð sem viðhöfð eru í grunnskólum borgarinnar í eineltismálum. SFS2011110322

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna óskuðu bókað:
Skóla – og frístundaráðfulltrúar Besta flokksins, Samfylkingar og Vinstri grænna þakkar starfsfólki Ölduselsskóla fyrir hvatninguna. Kjörnir fulltrúar hafa verið vel upplýstir um gang mála og viðbrögð skóla- og frístundasviðs. Sviðsstjóri skrifaði grein um málið þar sem áréttað var að viðbrögð starfsfólks Árbæjarskóla, sem og þjónustumiðstöðvar Árbæjar og Grafarholts voru rétt og í samræmi við það verklag sem borgin viðhefur í eineltismálum. Undir það taka fulltrúar í skóla- og frístundaráði. Enn fremur vill skóla- og frístundaráð árétta þann vilja sinn að skóla- og frístundasvið sé ávallt vakandi fyrir því að viðbrögð borgarinnar í eineltismálum séu fagleg og fumlaus, sem og að rík áhersla sé ávallt lögð á forvarnir og að skapa skólabrag í reykvískum skólum sem einkennist af vinsemd og virðingu.

Áheyrnarfulltrúar skólastjóra í grunnskólum, kennara í grunnskólum og skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins óskuðu bókað:
Fulltrúar skólastjórnenda og grunnskólakennara og skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins taka undir ályktun frá starfsfólki Ölduselsskóla. Mikilvægt er að skóla- og frístundasvið standi með virkum hætti, þétt við bakið á þeim skólum sem lenda í kastljósi fjölmiðla vegna viðkvæmra mála er varða nemendur og vinnu skólanna og starfsmanna þeirra í því sambandi. Mikilvægt er að skóla- og frístundasvið, í samráði við skólastjórnendur, setji sér skýrar vinnureglur um hvernig brugðist skuli við í slíkum tilfellum, með það að leiðarljósi að standa vörð um skólastarf í borginni.

Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum óskaði bókað:
Fulltrúi foreldra telur mikilvægt að stjórnendur skóla- og menntamála sýni ákveðna auðmýkt þegar kemur að umfjöllun um eineltismál. Í eineltismálum má alltaf gera betur og eðlilegra er að umræðan sé á þeim nótum frekar en fullyrðingar um að rétt hafi verið staðið að málum þegar upp koma erfið tilfelli. Það að standa vörð um starfsheiður einstakra starfsmanna eða skóla má aldrei koma framar því að standa vörð um hagsmuni einstakra barna.

15. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 2. desember 2011, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna, frá fundi skóla- og frístundaráðs 2. nóvember sl., um iPad-spjaldtölvur. SFS201110330.

16. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 5. desember 2011, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa skólastjóra í leikskólum, frá fundi skóla- og frístundaráðs 28. september sl., um ónýtt pláss í leikskólum Reykjavíkurborgar. SFS2011100139

17. Lagt fram bréf frá skrifstofu borgarstjórnar, dags. 30. nóvember 2011, um niðurfellingu yfirvinnugreiðslna til Félags leikskólakennara í áföngum sem samþykkt var í borgarstjórn 30. nóvember sl. SFS2011120010.

Áheyrnarfulltrúi skólastjóra í leikskólum óskaði bókað:
Stjórn Reykjavíkurdeildar FSL lýsir undrun á ákvörðun borgarráðs þann 24. nóvember sl. að afnema neysluhlé hjá leikskólakennurum í leikskólum Reykjavíkurborgar. Í fjárhagsáætlunargerð 2009 og 2010 var farið í hagræðingaraðgerðir m.a. með minnkun/fækkun á afleysingum í leikskólunum og sameiningum leikskóla. Þessar aðgerðir voru réttlættar á sínum tíma svo hægt væri að standa vörð um neysluhlé starfsmanna. Einnig var talað um að þeir fjármunir sem spöruðust með sameiningu leikskóla ættu að fara aftur inn í leikskólann. Með því að afnema neysluhlé hjá leikskólakennurum er hætta á að einhverjir leikskólakennarar hverfi af vettvangi, en slíkt mundi leiða af sér mikla blóðtöku fyrir leikskólastarf í Reykjavík, þar sem leikskólakennarar eru máttarstólpar hvers leikskóla. Vert er að benda á að í Reykjavík er eitt lægsta hlutfall leikskólakennara á stór Reykjavíkursvæðinu eða um 32#PR. Stjórn FSL fer fram á að ákvörðunin um afnám neysluhlés hjá leikskólakennurum verði endurskoðuð og að leikskólakennarar sitji við sama borð og aðrir starfsmenn í leikskólum Reykjavíkur.

Fundi slitið kl. 14:08
Óttarr Ólafur Proppé
Eva Einarsdóttir Hilmar Sigurðsson
Hjálmar Sveinsson Kjartan Magnússon
Sigríður Pétursdóttir