No translated content text
Skóla- og frístundaráð
Leikskólaráð
Ár 2009, 27. maí kl. 14.00 var haldinn 57. fundur leikskólaráðs í fundarherbergi ráðsins að Fríkirkjuvegi 1. Fundinn sátu: Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir formaður, Fanný Gunnarsdóttir, Helga Kristín Auðunsdóttir, Hallur Magnússon, Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir og Hermann Valsson. Auk þeirra sátu fundinn Kjartan F. Ólafsson, áheyrnarfulltrúi F- lista, Þórunn Gyða Björnsdóttir, áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra og Ólöf Kristjánsdóttir, áheyrnarfulltrúi samtakanna Börnin okkar. Jafnframt sátu fundinn Ragnhildur Erla Bjarnadóttir sviðsstjóri, Kristín Egilsdóttir, Ingunn Gísladóttir og Kolbrún Vigfúsdóttir.
Fundargerð ritaði Laura Bergs.
Þetta gerðist:
1. Sigrún Ásta Gunnlaugsdóttir, leikskólastjóri í Fellaborg og Hólmfríður Guðmundsdóttir tannlæknir kynntu verkefnið Tannvernd í leikskóla, sem unnið hefur verið í leikskólanum.
2. Lagt fram minnisblað frá mannauðsráðgjafa þar sem fram kemur að leikskólaráð hafi á fundi sínum 29. febrúar 2008 samþykkt tímabundinn forgang að leikskóla og frístundaheimilum fyrir börn starfsmanna þeirra stofnana. Jafnframt var ákveðið að hann yrði endurskoðaður í maí 2009.
Í ljósi góðrar stöðu starfsmannamála nú var samþykkt að veita ekki lengur þennan forgang þar sem þær forsendur sem lagðar voru til grundvallar honum eru brostnar.
Kl. 14.45 tók Oddný Sturludóttir sæti á fundinum.
3. Rósa Magnúsdóttir, deildarstjóri umhverfiseftirlits á umhverfis- og samgöngusviði og Bergrún Helga Gunnarsdóttir, heilbrigðisfulltrúi kynntu niðurstöður heilbrigðiseftirlits í leikskólum borgarinnar.
4. Svohljóðandi tillaga fulltrúa Samfylkingarinnar var lögð fram á fundi leikskólaráðs 13. maí sl:
Leikskólaráð samþykki að fela sviðsstjóra leikskólasviðs að leita eftir samstarfi við Lýðheilsustöð, Tannlæknafélag Íslands og Heilsugæsluna í Reykjavík um bætta tannheilsu leikskólabarna í Reykjavík. Sviðsstjóri leikskólasviðs skoði hvernig leikskólarnir geti lagt sín lóð á vogarskálarnar svo snúa megi við þeirri óheillaþróun sem orðið hefur á Íslandi og skipað hefur íslenskum skólabörnum í eitt af neðstu sætunum á lista OECD yfir tannheilsu skólabarna. Átaks er þörf og skoða þarf með opnum hug eftirfarandi þætti:
a) Hvernig markmiðum Lýðheilsustöðvar um tannhirðu getur betur verið mætt innan veggja leikskólans.
b) Hvernig starfsfólk leikskóla geti gert tannhirðu og fræðslu um tannhirðu að snarari þætti í skipulagi skóladagsins, jafnvel með reglulegri tannburstun eins og þegar hefur verið komið á í nokkrum leikskólum borgarinnar með frábærum árangri.
c) Hvaða kröfur þarf að uppfylla svo hægt sé að koma við skipulögðum skimunum innan leikskólans.
d) Hvaða ferlar eru virkir innan veggja leikskólans leiki grunur á alvarlegum tannskemmdum í börnum og hvernig samstarfi við Barnavernd og þjónustumiðstöðvar er háttað.
Sambærileg tillaga verður lögð fram í menntaráði og farsælast yrði að sviðin ynnu þetta í sameiningu.
Afgreiðslu tillögunnar var frestað.
Í kjölfar ofangreindrar tillögu var eftirfarandi tillaga samþykkt samhljóða:
Leikskólaráð samþykkir að fela sviðsstjóra Leikskólasviðs að kalla saman vinnuhóp sem hefur það hlutverk að marka stefnu og koma með hugmyndir að aðkomu leikskóla Reykjavíkur í átaki að bættri tannheilsu leikskólabarna. Áhersla verður lögð á samstarf og samvinnu milli foreldra og leikskóla, forvarnir, beina þjálfun barna í tannhirðu og eftirlit með ástandi tanna hjá börnum að svo miklu leyti sem unnt er að koma því við innan veggja leikskólanna. Sérstaklega verður horft til reynslu þeirra leikskóla sem unnið hafa að verkefnum sem tengjast tannheilsu barna. Sviðsstjóra er einnig falið að kanna með hvaða hætti leikskólar í nágrannalöndum okkar koma að tannvernd leikskólabarna. Leitað verður eftir samstarfi við Lýðheilsustöð, Heilsugæslu Reykjavíkur og Tannlæknafélag Íslands. Athuga þarf sérstaklega hvernig leikskólar Reykjavíkur geta unnið að markmiðum Lýðheilsustöðvar hvað varðar tannhirðu og tannheilsu barna og einnig hvernig leikskólum ber að bregðast við ef tannheilsu barns er verulega ábótavant. Stefna skal að því að hægt verði að leggja niðurstöður og hugmyndir vinnuhópsins fyrir leikskólaráð í ágúst. Í framhaldinu fari verkefnið af stað í leikskólum Reykjavíkur að undangenginni góðri kynningu meðal skólastjórnenda, starfsfólks leikskóla og foreldra (foreldraráð).
Greinargerð fylgir tillögunni.
Tillagan var samþykkt samhljóða.
5. Lagt fram þriggja mánaða uppgjör leikskólasviðs. Fjármálastjóri gerði nánar grein fyrir málinu.
6. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Í framhaldi af samþykkt borgarstjórnar frá 6. janúar 2009 um fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2009 samþykkir leikskólaráð að lækka framlag leikskólasviðs Reykjavíkurborgar vegna vistunar barna umfram 8 klst. á dag. Lækkunin gildir vegna vistunar barna í leikskólum borgarinnar, sjálfstætt starfandi leikskólum og hjá dagforeldrum. Gjald fyrir leikskólavistun umfram 8 klukkustundir á dag verður hækkað frá 1. ágúst 2009 og ákveðið sem hlutfall af raunkostnaði. Gjald fyrir fyrsta hálftímann eftir 8 klst. vistun (þ.e. 8,5 stundir) verður 21-50#PR af meðal raunkostnaði, gjald fyrir vistun umfram 8,5 klst. vistun verður 41-100#PR af meðal raunkostnaði. Hlutfall viðbótarframlaga til einstæðra foreldra, öryrkja og námsmanna er óbreytt. Gjaldskrárbreytingin hefur sambærileg áhrif á niðurgreiðslur til sjálfstætt starfandi leikskóla og dagforeldra. Breytingar þessar taka gildi 1. ágúst 2009 og foreldrar geta því aðlagað sig að nýrri gjaldskrá næstu tvo mánuði.
Greinargerð fylgir.
Tillagan var samþykkt með 4 atkvæðum gegn 3.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Vinstri grænna í leikskólaráði hafnar nýju greiðslufyrirkomulagi fyrir níundu stundina í leikskólum, enda um beina hækkun á leikskólagjöldum að ræða. Þessi ráðstöfun er ekki í samræmi við aðgerðaráætlun borgarinnar, þar sem kveðið er á um að gjaldskrár vegna þjónustu borgarinnar verði ekki hækkaðar. Hækkun af þessu tagi mun helst koma niður á láglaunahópum og einstæðum foreldrum sem alla jafna vinna mikla yfirvinnu til að ná endum saman. Jafnframt má ætla að gjaldskrárhækkunin geti haft kynbundin áhrif, þar sem líklegt er að það foreldri sem lægri hefur tekjurnar minnki frekar við sig vinnu til að draga úr útgjöldunum. Vinstri græn telja sanngjarnara að fullnýta heimildir borgarinnar til útsvarshækkana í stað þess að láta efnahagsástandið bitna á afmörkuðum hópum, í þessu tilviki foreldrum leikskólabarna.
Fulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram svohljóðandi bókun:
Hækkun gjaldskrár leikskóla gengur þvert á þverpólitískt markmið borgarstjórnar um að verja störf og grunnþjónustu og hækka ekki gjaldskrár. Foreldrar 40#PR barna í leikskólum borgarinnar kaupa meira en 8 tíma vistun fyrir börn sín og má gera ráð fyrir svipuðu hlutfalli hjá dagforeldrum og í einkareknum leikskólum. Auk þess sem hækkun á gjaldskrá mun hafa áhrif á vísitölu neysluverðs til hækkunar sem leiðir af sér hækkun á verðtryggðum lánum til alls almennings. Það verða því mjög margar fjölskyldur fyrir barðinu á þessari hækkun og byrðar fjölskyldna með smábörn eru þegar orðnar allt of þungar á Íslandi í dag. Fulltrúar Samfylkingarinnar greiða því atkvæði gegn tillögu meirihlutans.
Áheyrnarfulltrúi F- lista lagði fram svohljóðandi bókun:
Áheyrnarfulltrúi F-lista í leikskólaráði leggst eindregið gegn fyrirhuguðum hækkunum á leikskólagjöldum sem og hvers konar hækkunum á gjaldtöku vegna þjónustu við börn í borginni. Það er skýr forgangsröðun F-listans að spara fremur milljarðaútgjöld í dýrum og umdeildum framkvæmdum, eins og t.d. framkvæmdum við Tónlistar- og ráðstefnuhúsið við höfnina, en að auka gjaldtöku og þar með óréttlæti gagnvart þeim sem síst skyldi á samdráttartímum.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins lögðu fram svohljóðandi bókun:
Gjaldskrá leikskóla Reykjavíkurborgar fyrir grunnþjónustu, 8 stunda vistun, mun haldast óbreytt og verða þannig gjöld fyrir grunnþjónustu leikskóla áfram lægst í Reykjavík. Áfram verður veittur 100#PR systkinaafsláttur en Reykjavíkurborg er eina sveitarfélagið sem veitir slíkan afslátt fyrir foreldra sem eru með fleiri en eitt barn í leikskóla. Allir aðrir afslættir fyrir einstæða foreldra, námsmenn og öryrkja haldast óbreyttir. Fæðisgjald er einnig óbreytt. Samstaða var í borgarstjórn um aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar þar sem markmiðið var trygging grunnþjónustu í Reykjavík. Það leiðarljós var virt í allri hagræðingarvinnu sem farið hefur fram og ein þeirra tillagna sem sett var fram er lægri niðurgreiðsla borgarinnar til viðbótarstundar í leikskólum, þ.e. fyrir tímann sem börn dvelja umfram 8 klukkustundir á dag. Framlag borgarinnar til niðurgreiðslu leikskólaplássa er nú 87-95#PR og kostnaðarhlutdeild foreldra frá 5-13#PR. Þessi hlutföll verða áfram þau sömu í gjaldskrá fyrir 8 stundir eða minna. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur munu áfram standa vörð um grunnþjónustuna.
7. Lagðar fram reglur um leikskólaþjónustu.
Reglurnar voru samþykktar með 4 samhljóða atkvæðum með fyrirvara um samþykki borgarlögmanns. Jafnframt var lögð fram tillaga að gjaldskrá fyrir börn sem eru íslenskir ríkisborgarar en hafa lögheimili erlendis.
Tillagan var samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna lögðu fram svohljóðandi bókun:
Við núverandi efnahagsástand er mikilvægt að foreldrum sem ekki geta staðið í skilum með leikskólagjöld verði sýndur aukinn skilningur.
8. Formaður starfshóps um málefni dagforeldra gerði grein fyrir vinnu starfshópsins og lagði fram gögn sem tengjast vinnu hópsins.
9. Lagt fram yfirlit yfir stöðu markmiða í starfsáætlun leikskólasviðs 2009.
10. Lögð fram drög að ársskýrslu leikskólasviðs 2009.
11. Starfsmannastjóri sagði frá niðurstöðum viðhorfskönnunar meðal starfsmanna Reykjavíkurborgar sem gerð var af mannauðsskrifstofu Ráðhúss Reykjavíkur.
Bókun leikskólaráðs:
Leikskólaráð fagnar sérlega flottum niðurstöðum leikskólasviðs í viðhorfskönnun meðal starfsmanna Reykjavíkurborgar 2009. Þar kemur fram að leikskólasvið er í langflestum mælingum með hæstu niðurstöður varðandi ánægju í starfi, markmið, stjórnun og stefnu vinnustaðar. Leikskólaráð þakkar stjórnendum sérstaklega fyrir vel unnin störf og sendir hamingjuóskir til allra stjórnenda og starfsmanna Leikskólasviðs.
12. Formaður greindi frá því að hvatningarverðlaun leikskólaráðs verða afhent Ráðhúsi Reykjavíkur fimmtudaginn 28. maí kl. 17.15.
Fundi slitið kl. 16.45
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir
Fanný Gunnarsdóttir Hermann Valsson
Helga Kristín Auðunsdóttir Oddný Sturludóttir
Hallur Magnússon Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir