Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

SKÓLA- OG FRÍSTUNDARÁÐ

Ár 2012, 4. janúar, var haldinn 8. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn var haldinn í Hofi, Höfðatorgi í Reykjavík og hófst kl. 10:05. Fundinn sátu Oddný Sturludóttir formaður, Erna Ástþórsdóttir, Eva Einarsdóttir, Hilmar Sigurðsson, Ingibjörg Óðinsdóttir, Kjartan Magnússon og Líf Magneudóttir. Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Helga Sigfúsdóttir, starfsmenn í leikskólum; Bryndís Jónsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum; Helgi Eiríksson, stjórnendur frístundamiðstöðva; Rósa Steingrímsdóttir, foreldrar barna í leikskólum; S. Ingibjörg Jósefsdóttir, skólastjórar í grunnskólum; Þorgerður L. Diðriksdóttir, kennarar í grunnskólum og Þórunn Gyða Björnsdóttir, skólastjórar í leikskólum. Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þor-steinsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Auður Árný Stefánsdóttir, Kolbrún Vigfúsdóttir, Kristín Egilsdóttir, Soffía Pálsdóttir og Valgerður Janusdóttir.
Fundarritari var Guðrún Sigtryggsdóttir.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram skýrsla um lestrarstefnu grunnskóla í Grafarvogi og á Kjalarnesi, dags. í júní 2011. Ásta K. Rafnsdóttir, Bára Jóhannsdóttir, Júlíana Hauksdóttir og Katrín Cýrusdóttir úr stýrihópi verkefnisins og Guðrún Edda Bentsdóttir, verkefnastjóri grunnskólaskrifstofu skóla og frístundasviðs, kynntu og svöruðu fyrirspurnum.
SFS2011120196

Skóla- og frístundaráð óskaði bókað:
Skóla- og frístundaráð þakkar góða kynningu á lestrarstefnu fyrir Grafarvog og Kjalarnes. Nú móta allir grunnskólar borgarinnar sér lestrarstefnu. Er það liður í markvissri lestrarkennslu og áherslu á mikilvægi lesturs í öllu námi barna. Sú leið sem grunnskólar í Grafarvogi og Kjalarnesi hafa valið, að móta lestrarstefnu í samvinnu fagfólks er lofsverð og til eftirbreytni. Öllum hlutaðeigandi er óskað til hamingju með metnaðarfulla lestrarstefnu.

Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra í skóla- og frístundaráði lagði fram svohljóðandi tillögu:
Fulltrúi leikskólastjóra í skóla- og frístundarráði gerir tillögu um að settur verði af stað starfshópur sem fær það verkefni að gera lestrarstefnu fyrir leikskóla Reykjavíkur. Í stefnunni væru skilgreindar námsáherslur fyrir hvern aldurshóp í leikskólanum, sem eru mikilvægar fyrir færni barna í lestri síðar meir.
Margt gott starf er verið að vinna í leikskólum borgarinnar í ritmáls- og lestrarörvun sem bæði er hluti af frjálsum leik barnanna og sem afmörkuð verkefni í formi leiks. Það er mjög þarft að móta stefnu í anda aðalnámskrár leikskóla sem væri leiðarvísir fyrir leikskóla, sem grunnur að lestrarnámi barna.
Frestað.

2. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar:
Skóla- og frístundaráð og íþrótta- og tómstundaráð samþykkja að setja á fót starfshóp til að meta hagkvæmni og fjárhagslegan ávinning þess að breyta rekstarfyrirkomulagi stærri íþróttahúsa við grunnskóla. Í hópnum verði tveir fulltrúar úr hvoru ráði auk tveggja starfsmanna frá hvoru sviði.
Vinna verði á ábyrgð sviðsstjóra sviðanna sem jafnframt skulu setja hópnum erindisbréf.
Niðurstöður hópsins verði lagðar fyrir ráðin eigi síðar en 1. mars n.k.
Greinargerð fylgdi.
Samþykkt.

Einnig samþykkt að fulltrúar skóla- og frístundaráðs í starfshópnum verði Kjartan Magnússon og Eva Einarsdóttir.

3. Lögð fram á ný svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi ráðsins 7. desember sl.:
Skóla- og frístundaráð beinir þeim eindregnu tilmælum til framkvæmda- og eignasviðs að battavöllur verði lagður á skólalóð Vesturbæjarskóla á árinu 2012. Þar sem nú liggur fyrir að setja eigi þrjár færanlegar kennslustofur yfir malbikaðan íþróttavöll skólans, er brýnt að aðstaða nemenda til hreyfingar og íþrótta verði bætt.
Samþykkt.

4. Staða mála í stofnun skóla- og frístundasviðs. Hrönn Pétursdóttir, breytingarstjóri skóla- og frístundasviðs kynnti og svaraði fyrirspurnum.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar óskuðu bókað:
Skóla- og frístundaráðsfulltrúarnir þakka Hrönn Pétursdóttur, breytingarstjóra á skóla- og frístundasviði fyrir frábærlega vel unnin störf við stofnun sviðsins. Hún hefur ásamt stýrihóp staðið faglega og skipulega að þeirri miklu skipulagsvinnu sem unnin hefur verið á fyrstu mánuðum nýs sviðs.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins óskuðu bókað:
Fulltrúar Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks geta vissulega þakkað Hrönn Pétursdóttur fyrir góða vinnu en ítreka það að til hennar hefði ekki þurft að koma nema vegna ákvarðana meirihlutans að sameina ýmsar menntastofnanir. Nú sem áður geta fulltrúarnir ekki samþykkt það breytingarferli sem fór af stað og stendur enn yfir.

5. Staða mála í sameiningum á skóla- og frístundasviði. Lögð fram yfirlit, dags. í desember 2011, yfir stöðu sameiningarmála í leikskólunum Björtuhlíð, Borg, Dvergasteini/ Drafnarborg, Foldaborg/Foldkakoti/Funaborg, Furuskógi, Hálsakógi, Hlíð, Langholti, Laugasól, Miðborg og Sunnuási. Einnig lögð fram yfirlit, dags. í desember 2011, yfir stöðu samþættingar skóla- og frístundastarfs í Norðlingaholti og Ártúnsholti, stöðu sameiningar skóla og frístundastarfs í Ártúnsholti, stöðu nýs safnskóla fyrir unglinga og yfirlit yfir stöðu sameininga grunnskólanna Álftamýrarskóla og Hvassaleitisskóla, Korpuskóla og Víkurskóla og Borgaskóla og Engjaskóla. SFS2011120167
Soffía Pálsdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu tómstundamála skóla- og frístundasviðs kynnti og svaraði fyrirspurnum varðandi frístundastarf.
- Kl. 12:00 vék Kjartan Magnússon af fundi og Rúna Malmquist tók þar sæti.
- Hlé gert á fundinum frá kl. 12:00 til 12:30.
Auður Árný Stefánsdóttir skrifstjóri grunnskólaskrifstofu skóla- og frístundasviðs kynnti og svaraði fyrirspurnum varðandi sameiningu grunnskóla.
- Kl. 12:30 vék Rúna Malmquist af fundi við umfjöllun um Álftamýrarskóla og Hvassaleitisskóla.
- Kl. 12:40 tók Rúna Malmquist sæti á fundinum.
Umfjöllun um sameiningu leikskóla frestað til næsta fundar skóla- og frístundaráðs.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Vinstri grænna óskaði bókað:
Í upphafi ákvað meirihluti Besta flokks og Samfylkingar að sameina menntastofnanir til að spara pening. Ekki hefur hann enn sýnt fram á að hafa náð markmiðum sínum um sparnað og eflingu faglegs starfs með sameiningunum. Lítil sem engin gögn liggja fyrir um hagræðið sem fæst eða þá eru þau misvísandi. Fulltrúi Vinstri grænna veltir fyrir sér hvort meirihlutinn viti yfirhöfuð hvert hann stefni í menntamálum og hvað hann setji í forgang varðandi menntun barna. Eftir góðar kynningar um stöðu sameinaðra eininga kemur í ljós að ýmsum grundvallarspurningum um inntak náms, skólabrag og menningu skólanna er enn ósvarað. Fulltrúi Vinstri grænna vill brýna fyrir meirihlutanum að standa nú við stóru orðin og hlífa menntastofnunum í Reykjavík við frekari vitleysu, niðurskurði og óvissu.

Skóla og frístundaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar óskuðu bókað:
Rangt er að ekki hafi verið sýnt fram á sparnað. Mikilvægur sparnaður hefur náðst með aðgerðum síðastliðins árs, þegar allt er talið verður hann um 160 m.kr. árið 2012 og stefnir í enn frekari hagræðingu eftir því sem biðlaunarétti stjórnenda sleppir. Eins hefur frábær nýting skóla- og frístundahúsnæðis komið til móts við stóra árganga leikskólabarna og minnkað rekstrarkostnað skólanna sem er mikilvægt til að hægt sé að setja meira fjármagn í innra starfið. Sannarlega er staðið við stóru orðin, enda má sjá afrakstur hagræðingaraðgerða síðastliðins árs birtast í auknu fjármagni til t.a.m. starfsþróunar.
- Kl. 13:05 vék Rúna Malmquist af fundinum.

6. Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 28. desember 2011, um embættisafgreiðslu erindis sem borist hefur skóla- og frístundaráði, eitt mál. SFS2011100054

- Kl. 13:10 tók Rúna Malmquist sæti á fundinum.

7. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 28. desember 2011, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, frá fundi menntaráðs 12. janúar sl., um fjölda nemenda í fjarnámi á framhaldsskólastigi í grunnskólum borgarinnar. SFS2011120166

8. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 23. desember 2011, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, frá fundi menntaráðs 14. september sl., um flutninga grunnskólabarna. SFS2011120165

9. Lögð fram bókun frá hverfisráði Árbæjar, dags. 16. nóvember sl., þar sem farið er fram á að öryggi starfsmanna og barna verði tryggt í og við Norðlingaskóla og Ævintýrahól, leikskóladeild Rauðhóls, sem samnýta leiksvæði Norðlingaskóla á meðan framkvæmdum stendur. SFS2011120080

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar óskuðu bókað:
Frá því í nóvember hefur verið unnið í lóðinni eftir því sem veður og aðstæður hafa leyft, búið er að flytja burtu allar færanlegar stofur nema þær stofur sem leikskólinn er starfræktur í og vinnusvæðið er allt afgirt. Náið samráð hefur verið haft við stjórnendur skólans og fundir hafa verið haldnir með foreldrafélagi skólans og íbúasamtökunum.

10. Lögð fram bókun, dags. 5. desember sl., frá hverfisráði Laugardals um íþróttaaðstöðu í Laugardal. SFS2011120080

- Kl. 13:15 tók Jón Ingi Einarsson sæti á fundinum.

11. Lagður fram samningur Reykjavíkurborgar við Innanríkisráðuneytið vegna Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og Samband íslenskra sveitarfélaga, dags. 12. september 2011, um kennslu langveikra barna á grunnskólaaldri á sjúkrahúsum í Reykjavík. Auk þess lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 29. desember 2011, bréf Innanríkisráðuneytisins til menntasviðs, dags. 5. janúar 2011 og 3. mars 2011.
Samþykkt og vísað til borgarráðs.

12. Niðurfelling yfirvinnugreiðslna til Félags leikskólakennara í áföngum sem samþykkt var í borgarstjórn 30. nóvember sl. SFS2011120010

Áheyrnarfulltrúi starfsmanna í leikskólum í skóla- og frístundaráði óskaði bókað:
Áheyrnarfulltrúi starfsfólks leikskóla fagnar ákvörðun meirihluta Besta flokksins og Samfylkingarinnar að halda áfram yfirvinnugreiðslum til starfsfólks leikskóla sem eru félagsmenn í Eflingu. Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar og Þroskaþjálfarafélagi Íslands. Áheyrnarfulltrúi starfsfólks leikskóla mómælir hinsvegar harðlega þeirri ákvörðun meirihlutans að undanskilja einn hóp með því að fella niður yfirvinnugreiðslur til starfsmanna sem eru félagsmenn í Félagi leikskólakennara. Það er mat áheyrnarfulltrúa að þessi ákvörðun hljóti að brjóta í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Áheyrnarfulltrúi óttast að þessi ákvörðun muni hafa slæm áhrif á starf leikskólanna. Leikskólakennarar eru orðnir langþreyttir á yfirgangi og skilningsleysi borgarinnar gagnvart störfum þeirra og hætt er við að þessi ákvörðun leiði til flótta úr röðum leikskólakennara sem starfa hjá Reykjavíkurborg.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar óskuðu bókað:
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar vilja ítreka að í Reykjavík var staðinn vörður um umframgreiðslur til leikskólakennara í gegnum erfiðar fjárhagsáætlanir á meðan önnur sveitarfélög höfðu afnumið þær. Í aðdraganda kjarasamninga við FL kom skýrt fram að leikskólakennarar vildu gjarnan sjá að reykvísku umframgreiðslurnar skiluðu sér inn í launatöflu, í Reykjavík sem og annars staðar á landinu. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar fagna nýgerðum kjarasamningum við leikskólakennara og telja að forgangsröðun meirihlutans um að verja umframgreiðslurnar við knappan fjárhag borgarinnar hafi stuðlað að þeirri góðu niðurstöðu sem nú liggur fyrir. Í ljósi þess að kjarabætur til annarra starfsmanna leikskólanna, aðallega Eflingarstarfsfólks, voru ekki jafn miklar verður ekki hreyft við umframgreiðslum til þeirra.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Vinstri grænna óskaði bókað:
Meirihluti Besta flokks og Samfylkingar hefur ekki linnt látum
gagnvart leikskólakennurum sem hafa þurft að þola afar erfiða tíma
allt frá því ný borgarstjórn var kosin vorið 2010. Afnám neysluhlés er eitt dæmi þess sem fulltrúar allra flokka hafa staðið vörð um gegnum afar erfiða tíma og rökstutt með sannfærandi sanngirnissjónarmiðum. Ekki er hægt að fallast á rökstuðning meirihlutans vegna málsins, þar sem talið er að umframhækkanir sem Félag leikskólakennara náði gegnum kjarasamninga vegi upp á móti greiðslum vegna neysluhlés. Þar er um eftiráskýringu að ræða sem byggir á afar veikum grunni, enda hafa ákvæði um matar- og kaffihlé ekki tekið neinum breytingum í kjarasamningnum frá því sem áður var. Umframhækkanirnar eru til komnar til að leiðrétta stöðu leikskólakennara gagnvart grunnskólakennurum,
sem höfðu um tíma verið á betri kjörum en þeir fyrrnefndu og lítur út fyrir að það markmið náist við lok samningstímabilsins. Þá skal áréttað að grunnskólakennarar fá greitt fyrir að matast með börnum en leikskólakennarar ekki með þessum aðgerðum. Matartímar leikskólanna eru hluti af daglegu starfi og fara varla fram án leikskólakennara sem inna af hendi mikilvæga vinnu. Fyrir þá vinnu eiga kennararnir að fá greitt, rétt eins og grunnskólakennarar og annað starfsfólk leikskólanna. Það er brýnt að fram fari endurskoðun á
yfirvinnugreiðslum Reykjavíkurborgar, en afar ósanngjarnt að ein kvennastétt sem ekki er ofalin af launum sínum sé tekin fyrir sérstaklega. Nú þegar hagur borgarinnar er að vænkast og versti hjallinn yfirstaðinn í kjölfar efnahagshrunsins er með öllu óásættanlegt að neysluhlé hafi verið afnumið. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Vinstri grænna mótmælir þessum aðgerðum harðlega nú sem endranær.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar óskuðu bókað:
Reykjavíkurborg fer eftir kjarasamningum um greiðslur fyrir matartíma, hér eftir sem hingað til.

Fundi slitið kl. 13:45

Oddný Sturludóttir
Erna Ástþórsdóttir Eva Einarsdóttir
Hilmar Sigurðsson Ingibjörg Óðinsdóttir
Líf Magneudóttir Rúna Malmquist