No translated content text
Skóla- og frístundaráð
SKÓLA- OG FRÍSTUNDARÁÐ
Ár 2011, 21. desember, var haldinn 7. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn var haldinn í Hofi, Höfðatorgi í Reykjavík og hófst kl. 10.00. Fundinn sátu Oddný Sturludóttir formaður, Eva Einarsdóttir, Hilmar Sigurðsson, Ingibjörg Óðinsdóttir, Kjartan Magnússon, Líf Magneudóttir og Óttarr Ólafur Proppé. Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Helgi Eiríksson, stjórnendur frístundamiðstöðva; S. Ingibjörg Jósefsdóttir; skólastjórar í grunnskólum; Þorgerður L. Diðriksdóttir, kennarar í grunnskólum og Þórunn Gyða Björnsdóttir, skólastjórar í leikskólum. Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson sviðsstjóri, Guðrún Sigtryggsdóttir og Valgerður Janusdóttir.
Fundarritari var Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir.
Þetta gerðist:
Fundurinn hófst á því að formaður bauð Ingibjörgu Óðinsdóttur velkomna á sinn fyrsta fund í skóla- og frístundaráð.
1. Lögð fram drög að atvinnustefnu Reykjavíkurborgar auk bréfs, dags. 2. desember 2011, frá skrifstofu borgarstjóra þar sem óskað er umsagnar um drögin. Einnig lagt fram erindisbréf atvinnustefna og atvinnumál, dags. 14. júní 2011. SFS2011120036
Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingarinnar að umsögn skóla- og frístundaráðs:
Því er fagnað að nú sé komin fram atvinnustefna fyrir Reykjavík. Það er mikilvægt að unnið sé með skýr leiðarljós um þróun atvinnumála fyrir borgarbúa og að unnið sé skipulega að settum markmiðum með markvissum leiðum og aðgerðum. Skóla og frístundastarf er lykilþáttur í starfssemi Reykjavíkurborgar og óhætt að halda því fram að það einkenni allt starfið að horft sé til framtíðar. Umsögn skóla- og frístundaráðs tekur helst mið af kaflanum um Þekkingarborgina Reykjavík.
Í leiðarljósum þekkingarborgarinnar segir: Reykjavík verði eftirsóknarverður staður til náms og rannsókna og fyrir atvinnustarfsemi sem byggir á mannauði, þekkingar-sköpun, hátækni og nýsköpun.
Þá segir einnig: Reykjavík vill skapa sér sterkari samkeppnisstöðu á þeim vettvangi með því að hlúa sérstaklega að uppbyggingu og samstarfi á sviði menntunar, rannsóknarstarfsemi og nýsköpunar og skapa aðlaðandi umhverfi fyrir þekkingar-iðnað.
Umsögn:
Í þeim mannauð sem býr í skólum og frístundastarfi Reykjavíkurborgar felast ein mestu verðmæti borgarinnar. Með styrkingu samstarfs við önnur sveitarfélög, sem og aðrar þjóðir, gefast fjölmörg tækifæri til símenntunar og starfsþróunar fyrir starfsfólk borgarinnar. Borgaryfirvöld eiga líka að kappkosta að kynna reykvískt skóla- og frístundastarf fyrir öðrum sveitarfélögum, sem og alþjóðasamfélaginu. Ljóst er að aðrar þjóðir líta nú þegar til okkar framúrskarandi lausna í þjónustu við börn og ungmenni. Í því sambandi má t.d. nefna; frábært leikskólastarf, eftirtektarverðan árangur í forvörnum og velferðarmálum barna og ungmenna í skólum og frístund, sem og skóla- og frístundastarf sem byggir á langri list- og verkgreinahefð, jöfnuði og framsækni.
Til áherslu og ábendingar:
Því er fagnað að lögð sé áhersla á eflingu list, verk- og tæknimenntunar í atvinnustefnu og hlutverk grunnskólans þar. Á það er bent að hlutverk leikskólans og frístundaheimila er einnig mikilvægt í að efla skapandi hugsun barna. Sérstaklega má draga fram það gróskumikla starf sem tengist tónlist og öðrum listgreinum og fer fram með unglingum á vettvangi frístundamiðstöðva, félagsmiðstöðva og Hins Hússins. Þar geta aðrar þjóðir lært af okkur. Áhugavert getur verið að skoða grundvöll alþjóðlegra skóla á leik- og grunnskólastigi. Raunhæft verður að ætla að slík starfsemi ætti heima í samþættingu við skóla sem þegar eru til staðar í Reykjavík. Á skóla- og frístundasviði starfa 4500 starfsmenn á fjölmörgum starfsstöðvum. Á nýstofnuðu sviði er verið að þróa þverfaglegt samstarf sérfræðinga sem er verðmætt fyrir Reykjavíkurborg til atvinnusköpunar, bæði innan borgar og í erlendu samstarfi. Þennan styrk má nýta enn betur öllu borgarsamfélaginu til hagsbóta. Skóla- og frístundasvið er reiðubúið að axla sína ábyrgð með þátttöku í átaksverkefnum fyrir fólk í atvinnuleit. Í því geta legið heilmikil tækifæri að vekja áhuga fólks, sérstaklega ungs fólks, á mikilvægum störfum með börnum og ungmennum. Draga þarf fram vægi frístundamiðstöðva í stuðningi við ungt fólk í atvinnuleit, það er ekki nægilega ávarpað í atvinnustefnu. Ýta má undir að haldnar verði alþjóðlegar ráðstefnur í Reykjavík þar sem leikskólar, grunnskólar og frístundir eru í brennidepli. Mikilvægt er að háskólar sem bjóða upp á nám í menntavísindum starfi með borginni að undirbúningi slíkra ráðstefna. Á skóla- og frístundasviði býr víðtæk þekking í fjármálum, rekstri, stjórnun og ýmsum öðrum þáttum sem atvinnulífið í Reykjavíkurborg getur tekið sér til fyrirmyndar og mikilvægt að þróa tækifæri til samstarfs á báða bóga.
Samþykkt með 4 atkvæðum.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskuðu bókað:
Drög að atvinnustefnu Reykjavíkur eru lögð fram án nokkurs samráðs við hinn almenna borgarbúa eða kjörna fulltrúa í borgarstjórn. Aðeins einn borgarfulltrúi hefur komið að meginhluta þessa verks, sem endurspeglar því aðeins hluta þeirra sjónarmiða sem ættu að ráða för í svo mikilvægri stefnumótun. Á sínum tíma samþykkti borgarstjórn að stefna þessi skyldi unnin af þverpólitískum hópi borgarfulltrúa, en án heimildar borgarstjórnar setti núverandi meirihluti þessa vinnu í þann farveg að hún hefur einungis verið í höndum eins kjörins fulltrúa, Dags B. Eggertssonar. Þau drög að atvinnustefnu sem nú eru til umræðu, eru því hvorki fullunnin né vel unnin. Að auki er með ólíkindum að meirihlutinn skuli einungis bjóða fagráðunum að koma með umsögn um fyrirliggjandi drög í stað þess að kalla þau til ráðgjafar og raunverulegs samráðs á fyrstu stigum þessarar vinnu. Fulltrúar minnihlutans lögðu fram tillögu í borgarstjórn um að borgarfulltrúar allra flokka myndu í sameiningu setjast yfir þau drög sem fyrir liggja og koma þeim í þann búning sem málefninu og borgarstjórn sæmir, svo náðst gæti góð sátt um verkefnið Þá tillögu felldi meirihlutinn sem verður því einn og óstuddur að bera ábyrgð á svo óvönduðum og ólýðræðislegum vinnubrögðum. Í hinu ýtarlega plaggi, sem hér liggur fyrir, er vissulega að finna ágæta umfjöllun um margvísleg atriði, er varða atvinnumál í borginni og taldir eru upp margir sjálfsagðir hlutir, sem sjálfsagt er að taka undir. Hins vegar er augljóst að í drögin vantar umfjöllun um mörg mikilvæg atriði. Lítið sem ekkert er t.a.m. fjallað um hlutverk Reykjavíkurborgar sem vinnuveitanda átta þúsund borgarstarfsmanna og þann ávinning, sem símenntun og markviss starfsþróunarstefna innan borgarkerfisins getur skilað starfsmönnum og borgarbúum. Á sama tíma og núverandi meirihluti skerðir möguleika leikskóla á að ráða sérhæft starfsfólk til starfa með afnámi svokallaðs neysluhlés er hins vegar rætt fjálglega um þá hugmynd í textanum að veita þurfi svokölluðum erlendum sérfræðingum sérréttindi og ívilnanir í skattamálum, húsnæðismálum og skólamálum svo þeir verði viljugri en ella til að flytjast hingað til lands. Þá er rétt að fram komi að afar lítið er fjallað um þá möguleika, sem liggja í atvinnusköpun á sviði íþrótta- og tómstundamála, t.d. með aukinni samþættingu skóla og íþrótta- og tómstundastarfsemi. Fjallað er í löngu máli um margvíslega möguleika á frekari atvinnusköpun í lista- og menningarlífi en lítið sem ekkert fjallað um sambærilega möguleika á sviði íþrótta- og tómstundastarfsemi. T.d. er ekki minnst á þann möguleika að efla megi frekar hátíðir og mót í tengslum við starfsemi íþróttahreyfingarinnar í borginni þrátt fyrir að ýmsir viðburðir á því sviði hafi heppnast vel, t.d. Reykjavíkurmaraþon, Alþjóðlegu Reykjavíkurleikarnir (Reykjavík International Games) og ReyCup. Óskað er eftir því að stefnudrögin verði endurskoðuð með tilliti til þessara ábendinga og nýjum texta bætt við eftir því sem þörf er á.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Vinstri grænna óskaði bókað:
Atvinnustefnu meirihlutans vantar margt til þess að geta með góðu móti talist atvinnustefna Reykjavíkurborgar. Hún miðar mikið til að því að skapa hér ýmis tækifæri sem eru í rauninni ekki á valdi borgarinnar og ríkið hefur forræði yfir. Sem dæmi er vandséð hvernig hugmynd meirihlutans um að fá hingað erlenda sérfræðinga til starfa og búsetu gangi snurðulaust fyrir sig þegar breyta þarf skattkerfi og löggjöf svo umhverfið „verði aðlaðandi“ fyrir þá. Þá ber að hafa í huga að á meðan hér eru gjaldeyrishöft þá er það afar ólíklegt að hingað streymi útlendingar sem eru tilbúnir til að setjast hér að og fylla heilu alþjóðlegu leikskólana eða grunnskóla sem meirihlutinn hefur hugsað sér að koma á fót. Sá hluti stefnunnar sem nefnist Þekkingarborgin er sá hluti sem fellur til umsagnar skóla- og frístundaráðs. Er hann ósköp rýr og er lítið í honum að finna sem beinlínis snertir núverandi starfsfólk eða starfsumhverfi þeirra sem heyra undir skóla- og frístundasvið. Í honum stendur að Reykjavíkurborg muni taka virkan þátt í eflingu símenntunar fyrir atvinnulífið. Ekki er nægilega ljóst við hvað er átt. Í mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar er skýrt tekið fram að starfsmönnum eigi að standa til boða símenntun og starfsþróun. Það er því ekki að merkja að hér sé einhver nýlunda á ferð. Hins vegar mætti Reykjavíkurborg stórefla símenntunarframboð sitt og hafa meira frumkvæði að því að bjóða starfsfólki sínu upp á margvísleg námskeið, allt árið í kring, sem eflir það í starfi og gerir starfsumhverfi þess líflegra og betra. Í þessum drögum að atvinnustefnu er sjónum mikið beint að því að fá hingað erlenda stúdenta og sérfræðinga. Er það í sjálfu sér ágætt að Reykjavíkurborg verði suðupunktur fyrir hvers kyns alþjóðlegt starf og eftirsóttur staður fyrir erlenda starfsmenn. Hins vegar er sú forgangsröðun beinlínis röng þegar umtalsvert vantar upp á að haldið sé vel utan um starfsfólk leik- og grunnskóla og frístundaheimila. Markvissar aðgerðir skortir til að auka eftirsókn og endurnýjun í störf sem snúa að börnum og ungmennum. Ekki hafa nýlegar uppsagnir meirihlutans í þeim málaflokki sýnt að hann líti svo á að um „alvöru atvinnuveg“ sé um að ræða. Það ber að árétta það hér – og alls staðar annars staðar – að umönnunar-, uppeldis- og kennslustörf eru líka atvinnuvegur sem þarf að hefja til vegs og virðingar. Sá atvinnuvegur fer nánast með veggjum í þessum drögum að atvinnustefnu meirihlutans. Úr því þarf að bæta. Það ætti að vera óþarfi að taka það fram, að sé menntakerfi og aðstæður fyrir fólk til fyrirmyndar, munu útlendingar sækjast eftir því að búa hér án þess að vera tældir til þess með gylliboðum.
Áheyrnarfulltrúar skólastjóra í grunnskólum, kennara í grunnskólum, skólastjóra í leikskólum og stjórnenda frístundamiðstöðva óskuðu bókað:
Fulltrúarnir taka undir umsögn skóla og frístundararáðs um drög að atvinnustefnu Reykjavíkurborgar en hefðu kosið að á sama tíma hefði verið fjallað um starfsskilyrði og starfskjör núverandi starfsmanna Reykjavíkurborgar í skólum og frístundastarfi.
2. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:
Óskað er eftir upplýsingum um fjölda þeirra starfsmanna, sem sagt hefur verið upp störfum í skólakerfi Reykjavíkurborgar á yfirstandandi kjörtímabili, þ.e. á skóla- og frístundasviði, áður menntasviði og leikskólasviði og íþrótta- og tómstundasviði að hluta. Óskað er eftir sundurliðun eftir starfsheitum og vinnustöðum. Einnig er óskað eftir sambærilegum upplýsingum um starfsmenn sem tekið hafa á sig skert starfshlutfall.
Fundi slitið kl. 10.58
Oddný Sturludóttir
Eva Einarsdóttir Hilmar Sigurðsson
Ingibjörg Óðinsdóttir Kjartan Magnússon
Líf Magneudóttir Óttarr Ólafur Proppé