Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

MENNTARÁÐ

Ár 2010, 27. janúar var haldinn 114. fundur menntaráðs. Fundurinn var haldinn í fundarherbergi ráðsins að Fríkirkjuvegi 1 í Reykjavík og hófst kl. 10.10. Fundinn sátu Anna Margrét Ólafsdóttir, Oddný Sturludóttir, Sigríður Pétursdóttir, Sigrún Elsa Smáradóttir og Stefán Þór Björnsson. Auk þeirra sátu fundinn Guðrún Valdimarsdóttir, áheyrnarfulltrúi SAMFOK, Hreiðar Sigtryggsson, áheyrnarfulltrúi Skólastjórafélags Reykjavíkur og Þorgerður L. Diðriksdóttir, áheyrnarfulltrúi Kennarafélags Reykjavíkur. Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson, fræðslustjóri, Auður Árný Stefánsdóttir, Jón Ingi Einarsson og Valgerður Janusdóttir.
Fundarritari var Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir.


Þetta gerðist:

1. Lögð fram drög að skýrslu starfshóps um bætta tannheilsu leik- og grunnskólabarna. Guðrún Edda Bentsdóttir, verkefnastjóri á grunnskólaskrifstofu, gerði grein fyrir málinu.

- Kl. 10.34 tók Marta Guðjónsdóttir sæti á fundinum.

Svohljóðandi tillaga samþykkt:
Menntaráð felur fræðslustjóra að fylgja eftir tillögum starfshóps um bætta tannheilsu grunnskólabarna. Jafnframt hvetur menntaráð grunnskólana í Reykjavík til að taka þátt í tannverndarviku Lýðheilsustöðvar sem verður haldin 1. – 5. febrúar nk.

2. Birna Sigurjónsdóttir, verkefnastjóri á skrifstofu fræðslustjóra, kynnti niðurstöður heildarmats í Korpuskóla og Melaskóla.
Bókun menntaráðs:
Menntaráð þakkar fyrir kynningu á mati á skólastarfi í Korpuskóla og Melaskóla. Framlagðar skýrslur veita dýrmætar upplýsingar um styrk og veikleika skólanna og munu án efa nýtast vel til að efla og bæta starf þeirra. Menntaráð beinir því til skólastjóra umræddra skóla að kynna viðkomandi matsskýrslur fyrir foreldrum nemenda og gefa kost á umræðum um þær.

3. Lögð fram svohljóðandi tillaga Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks:
Lagt er til að stofnaður verði skóli í Úlfarsárdal sem sameinar í eina stofnun leikskóla og grunnskóla ásamt frístundastarfi fyrir börn frá eins árs aldri til tólf ára. Skólinn heyri undir Menntasvið en gerður verði þjónustusamningur við Leikskólasvið og Íþrótta- og tómstundasvið. Lagt er til að skólinn starfi eftir bókun 5 í kjarasamningi Kennarasambands Íslands og Launanefndar sveitarfélaga vegna grunnskóla. Framtíðarskipulag skólastarfs í Úlfarsárdal verði unnið í ljósi reynslunnar af þessum skóla. Sambærileg tillaga er lögð fyrir leikskólaráð og íþrótta- og tómstundaráð.
Greinargerð fylgir.
Samþykkt með 5 samhljóða atkvæðum.
Sigrún Elsa Smáradóttir, fulltrúi Samfylkingarinnar óskaði bókað:
Með tillögunni er brugðist við því ástandi að hverfið í Úlfarsárdal er ekki að byggjast upp með eðlilegum hætti. Mikil óvissa er um það hvað þetta fyrirkomulag verði lengi, þ.e. að börnum verði boðið að vera í sama skóla frá eins árs aldri að táningsárum. Og hve lengi börn eldri en 12 ára verði að sækja þjónustu í önnur hverfi. Það veldur áhyggjum hve skammur tími er fyrir stjórnendur til að skipuleggja skólastarf í samræmi við tillögu menntaráðs. Því sit ég hjá. Athygli vekur að formaður menntaráðs mætir ekki á fundinn þegar tillaga um nýjan skóla í Úlfarsárdal er samþykkt og hefur ekki boðað varamann.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks óskuðu bókað:
Stefnumótun er vel á veg komin og meirihluti menntaráðs treystir vel þeim faghópi sem unnið hefur að henni. Haldinn hefur verið fundur með foreldrum þar sem fram kom að þeir sýni áhuga á þátttöku í útfærslu á stefnumótuninni.

4. Fjórða til og með áttunda tölulið útsendrar dagskrár var frestað.

5. Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram svohljóðandi tillögu:
Fulltrúi VG leggur til að teknar verði upp viðræður við forsvarsmenn Tæknigrunnskólans með það að markmiði að finna lausn á húsnæðismálum skólans, gjarnan í samvinnu við einhvern grunnskóla borgarinnar. Þær áherslur í skólastarfi sem fram komu í umsókn Tæknigrunnskólans eru mjög áhugaverðar og líklegt er að þær höfði til margra nemenda sem ekki hafa náð tökum á námi í þeim skólum sem fyrir eru í borginni.
Frestað.


Fundi slitið kl. 11.52

Marta Guðjónsdóttir
Anna Margrét Ólafsdóttir Oddný Sturludóttir
Sigríður Pétursdóttir Sigrún Elsa Smáradóttir
Stefán Þór Björnsson