Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

MENNTARÁÐ

Ár 2010, 13. janúar var haldinn 113. fundur menntaráðs. Fundurinn var haldinn í fundarherbergi ráðsins að Fríkirkjuvegi 1 í Reykjavík og hófst kl. 10.06. Fundinn sátu Kjartan Magnússon formaður, Anna Margrét Ólafsdóttir, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Oddný Sturludóttir, Sigríður Pétursdóttir og Sigrún Elsa Smáradóttir. Auk þeirra sátu fundinn Kjartan Eggertsson, áheyrnarfulltrúi F-lista, Hildur Björg Hafstein, áheyrnarfulltrúi SAMFOK, Hreiðar Sigtryggsson, áheyrnarfulltrúi Skólastjórafélags Reykjavíkur og Þorgerður L. Diðriksdóttir, áheyrnarfulltrúi Kennarafélags Reykjavíkur. Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson, fræðslustjóri, Auður Árný Stefánsdóttir, Jón Ingi Einarsson og Valgerður Janusdóttir.
Fundarritari var Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir.

Þetta gerðist:

1. Sigríður Thorlacius lögfræðingur Menntasviðs kynnti reglugerð nr. 980/2009 um viðurkenningu grunnskóla sem reknir eru af öðrum en sveitarfélögum.
Svohljóðandi tillaga samþykkt:
Menntaráð felur fræðslustjóra að gera þjónustusamninga við sjálfstætt rekna grunnskóla á grundvelli reglugerðar nr. 980/2009 um viðurkenningu grunnskóla sem reknir eru af öðrum en sveitarfélögum. Samningarnir verði lagðir fyrir menntaráð fyrir 1. apríl nk.
Svohljóðandi tillaga samþykkt:
Menntaráð felur fræðslustjóra að semja verklagsreglur sem taka til undirbúnings Reykjavíkurborgar vegna umsókna um stofnun sjálfstætt rekins grunnskóla. Verklagsreglurnar taki mið af reglugerð nr. 980/2009 um viðurkenningu grunnskóla sem reknir eru af öðrum en sveitarfélögum. Verklagsreglurnar verði lagðar fyrir menntaráð fyrir 1. apríl nk.
Fulltrúi Vinstri grænna óskaði bókað:
Fulltrúi VG leggur áherslu á jafnan aðgang allra barna að grunnskólum borgarinnar óháð efnahag foreldra, fötlun eða sérþörfum.
Áheyrnarfulltrúi F-lista óskaði bókað:
Fulltrúi F-lista styður tillögur um þjónustusamninga við sjálfstætt rekna grunnskóla og um undirbúning að samningu verklagsreglna vegna umsókna um stofnun sjálfstætt rekinna grunnskóla.
Fulltrúar Samfylkingarinnar óskuðu bókað:
Fulltrúar Samfylkingarinnar fagna nýrri reglugerð um einkarekna grunnskóla. Hún eykur kröfur til einkaskóla, skýrir eftirlitsskyldu Reykjavíkurborgar og Menntasviðs til muna og tryggir betur réttindi barna í einkareknum skólum.

2. Lagt fram afrit af bréfi, dags. 16. des. sl., til leikskólaráðs varðandi skólamál á Kjalarnesi.
Svohljóðandi tillaga samþykkt:
Menntaráð felur fræðslustjóra að stofna starfshóp í samráði við sviðstjóra Leikskólasviðs á grundvelli samþykktar í leikskólaráði 16. desember 2009 um hugsanlegan samrekstur leik- og grunnskóla á Kjalarnesi. Starfshópinn skipi starfsmenn frá Leikskólasviði og Menntasviði, ásamt stjórnendum og fulltrúum foreldra beggja skólastiga. Meginverkefni hópsins er að móta tillögur um samrekstur, samvinnu og samstarf leikskóla og grunnskóla á Kjalarnesi. Starfsfólk, foreldrar, börn og ungmenni á báðum skólastigum taki virkan þátt í þessu verkefni.

3. Lagt fram bréf fræðslustjóra, dags. 11. jan. sl., um embættisafgreiðslu erindis sem borist hefur menntaráði, eitt mál.
Fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingarinnar og áheyrnarfulltrúi F-lista óskuðu bókað:
Fulltrúarnir leggja áherslu á að hjólreiðar séu hluti af samgöngukerfi borgarinnar hvort sem börn eða fullorðnir eiga hlut að máli. Það á ekki að banna börnum að hjóla, heldur á að gera umhverfið öruggara.

4. Lagt fram svar, dags. 11. jan. sl., við fyrirspurn fulltrúa Samfylkingarinnar frá fundi menntaráðs 11. nóvember sl. um hjólreiðar barna til skóla.

5. Lagt fram afrit af bréfi sviðsstjóra Velferðarsviðs og fræðslustjóra, dags. 15. desember sl. til borgarráðs með tillögum aðgerðateymis Velferðarsviðs og starfshópsins Barnanna í borginni um úrræði fyrir börn og unglinga. Ragnar Þorsteinsson fræðslustjóri gerði grein fyrir málinu.

6. Lagt fram svar, dags. 11. jan. sl., við fyrirspurn fulltrúa Samfylkingarinnar frá fundi menntaráðs 23. nóvember sl. um raunniðurskurð á skóla.

7. Rætt um rekstur grunnskóla.

8. Menntaráð samþykkti að skipa Þórdísi Kr. Pétursdóttur formann í valnefnd um barnabókaverðlaun menntaráðs.

9. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Áformað er að skólalóð Breiðholtsskóla verði endurgerð samhliða því að byggt verði við skólann. Þar sem viðbyggingunni hefur verið frestað, óskar menntaráð eftir því við Framkvæmda- og eignasvið að skoðað verði hvort unnt sé að vinna að lagfæringum á lóðinni á komandi sumri og hefja e.t.v. endurgerð á hluta hennar.
Frestað.

10. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Menntaráð óskar eftir því við Skipulags- og byggingarsvið og Framkvæmda- og eignasvið að skólalóð Melaskóla verði deiliskipulögð og þar verði m.a. gert ráð fyrir sparkvelli með gervigrasi. Rétt er að nemendum skólans og foreldrum þeirra, sem og starfsmönnum skólans og frístundaheimilisins, verði gefinn kostur á að taka þátt í þeirri vinnu.
Frestað.

11. Lagt fram yfirlit yfir fundi menntaráðs á vorönn 2010.

12. Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna lögðu fram svohljóðandi fyrirspurnir:
Vegna umfjöllunar í Fréttablaðinu um húsnæðiskostnað og furðulegra fullyrðinga Borgarstjóra og formanns borgarráðs í þeirri umfjöllun eru lagðar fram eftirfarandi fyrirspurnir:
1. Borgarstjóri fullyrðir í Fréttablaðinu í gær að „ítarlegar upplýsingar um húsnæðiskostnað hafa verið kynntar í fagráðum borgarinnar í tengslum við nýjar fjárfestingar”. Þetta kannast fulltrúar minnhlutans ekki við og spyrja því hvenær, ef einhvern tímann, kynning á áhrifum framkvæmda á innri leigu hafi farið fram í menntaráði í tengslum við ákvarðanir um nýjar fjárfestingar?

2. Óskað er skýringa á fullyrðingum formanns borgarráðs í Fréttablaðinu í gær, en þar segir hann um hærri húsnæðiskostnað, „…til dæmis eru gerðar auknar kröfur til húsnæðis en áður var gert, eins og hvað varðar fermetrafjölda á hvern nemanda í grunnskólum…” Því er spurt hvernig, ef eitthvað, hafa kröfur um fermetrafjölda á hvern nemenda breyst á kjörtímabilinu?

3. Einnig er af sama tilefni spurt hvort Menntasvið greiði einhverja innri leigu vegna stofnkostnaðar borgarinnar vegna framhaldsskóla og hvort reglur um stofnkostnað til framhaldsskóla hafi breyst á kjörtímabilinu?

Kl. 12.40 viku Sigrún Elsa Smáradóttir, Marta Guðjónsdóttir, Anna Margrét Ólafsdóttir og Hildur Björg Hafstein af fundi.

13. Lögð fram skýrsla atvinnumálahóps borgarráðs, frá 15. nóvember sl. um leiðbeinandi viðmið um forgangsröðun í atvinnumálum. Oddný Sturludóttir formaður atvinnumálahóps og Sigurður Snævarr borgarhagfræðingur kynntu skýrsluna.

Fundi slitið kl. 13.11

Kjartan Magnússon
Lilja Dögg Alfreðsdóttir Oddný Sturludóttir Sigríður Pétursdóttir