Skóla- og frístundaráð
MENNTARÁÐ
Ár 2009, 23. nóvember var haldinn 110. fundur menntaráðs. Fundurinn var haldinn í fundarherbergi ráðsins að Fríkirkjuvergi 1 í Reykjavík og hófst kl. 8.18. Fundinn sátu Kjartan Magnússon formaður, Anna Margrét Ólafsdóttir, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, Oddný Sturludóttir, Sigríður Pétursdóttir og Sigrún Elsa Smáradóttir. Auk þeirra sátu fundinn Brynhildur Ólafsdóttir, áheyrnarfulltrúi Skólastjórafélags Reykjavíkur og Þorgerður L. Diðriksdóttir, áheyrnarfulltrúi Kennarafélags Reykjavíkur. Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson fræðslustjóri, Auður Árný Stefánsdóttir, Jón Ingi Einarsson og Valgerður Janusdóttir.
Fundarritari var Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir.
Þetta gerðist:
1. Fjallað um drög að starfs- og fjárhagsáætlun Menntasviðs 2010.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks óskuðu bókað:
Í hinni metnaðarfullu starfs- og fjárhagsáætlun Menntasviðs fyrir árið 2010, sem liggur fyrir fundinum, er kappkostað að viðhalda öflugri þjónustu sviðsins án þess að auka útgjöld. Sem fyrr er aðgerðaáætlun borgarstjórnar höfð að leiðarljósi, þ.e. að tryggja grunnþjónustu, verja störf fastráðinna starfsmanna og hækka ekki gjaldskrár. Meirihluti menntaráðs þakkar hinum fjölmörgu sem tekið hafa þátt í vinnu vegna gerðar starfs- og fjárhagsáætlunar Menntasviðs. Starfsáætlunin hefur verið unnin í miklu samráði við starfsmenn á skrifstofu sviðsins, skólastjóra og fulltrúa kennara, nemenda og foreldra. Í fjárhagsáætlun ársins 2010 verður áhersla lögð á hagræðingu ásamt hagkvæmri nýtingu og stýringu fjármuna. Hagræðing í kennslu verður útfærð í samræmi við möguleg tækifæri til aukins sveigjanleika í skólastarfi, sem viðræður standa yfir við menntamálaráðuneytið í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
Gripið verður til margvíslegra ráða til að tryggja gæði í skólastarfi þrátt fyrir óhjákvæmilega hagræðingu. Meðal annars með því að:
• notaðar verði lesskimanir, stærðfræðiskimanir og samræmd könnunarpróf.
• skólapúlsinn verður boðinn öllum skólum.
• símat og leiðsagnarmat verði innleitt í auknum mæli í skólum.
• sjálfsmat skóla og umbótaáætlanir á grundvelli þess eru mikilvægir þættir í að tryggja gæði skólastarfs.
• áfram verður unnið að þróun heildarmats á skólastarfi.
• aukin samvinna verður við foreldra um samþætt og fjölbreytt nám.
• áfram verður unnið að samþættingu skóla- og tómstundastarfs.
• leitað verður leiða við að hagræða í rekstri með breyttu vinnu fyrirkomulagi, almennu aðhaldi í rekstri, bættum innkaupum, orkusparnaði og fleiri þáttum sem m.a. komu fram í hópavinnu Menntasviðs með aðkomu Capacent sl. vetur.
Það skal tekið skýrt fram að ekki er gert ráð fyrir hagræðingu í sérkennslu og nýbúakennslu. Miðað er við að þjónustusamningar við tónlistarskóla standi óbreyttir yfirstandandi skólaár og Menntasvið nýti sér ekki endurskoðunar-ákvæði samninganna þrátt fyrir að forsendur fjárhagsáætlunar 2010 gefi fullt tilefni til þess. Framlög borgarinnar til tónlistarskóla gætu breyst í framhaldi af endurskoðun á kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga varðandi tónlistarskóla, enda er það er sameiginleg afstaða sveitarfélaganna að þau skuli ekki einhliða standa straum af kostnaði vegna tónlistarkennslu nemenda sem komnir eru af grunnskólaaldri.
- Kl. 8:46 tók Marta Guðjónsdóttir sæti á fundinum.
Fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingarinnar lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingarinnar leggja til að farið verði í hugmyndavinnu meðal fastráðinna kennara og fagfólks í grunnskólum borgarinnar. Markmiðið er að hagræðing náist í starfi skólanna eftir endurskipulagningu sem byggir á sterkum hliðum hvers skóla og því sem hópurinn telur jákvætt í skólamenningunni og vill varðveita. Áður en vinnan hefst verði hópurinn fullvissaður um eigið starfsöryggi hjá skólanum. Unnið verði samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla, grunnskólalögum, reglugerðum og kjarasamningum, en sveigjanleiki nýttur svo sem verða má og hentar aðstæðum á hverjum stað.
Frestað.
Fulltrúar Samfylkingarinnar óskuðu bókað:
Fulltrúar Samfylkingarinnar í menntaráði þakka sviðsstjóra, fjármálastjóra og öðru starfsfólki sviðsins fyrir mikla vinnu við mótun starfs- og fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar fyrir árið 2010. Ljóst er að Menntasviði er gert að hagræða um 1.210 milljónir króna á árinu 2010 að teknu tilliti til hækkunar verðlags eða 6,51#PR. Þegar búið er að taka fasta liði s.s. innri leigu til hliðar samsvarar niðurskurðurinn 8,54#PR af þeirri fjárhagsáætlun sem mögulegt er að hafa áhrif á. Samfylkingin óskar eftir samanburði við önnur sveitarfélög hvað varðar niðurskurð til grunnskólamála.
Brýnast er að forgangsraða fjármunum í þágu barna og sjálfu skólastarfinu verður að hlífa sem kostur er. Það er stórt áhyggjuefni hversu óútfærð og óljós fjárhagsáætlun Menntasviðs er, en samkvæmt áætlunardrögum á að mæta niðurskurði að stærstu leyti með lækkun fjármagns til kennslu, stjórnunar, veikindaafleysinga og félagsstarfs nemenda. Gert er ráð fyrir að um þriðjungur hagræðingarkröfunnar komi fram í minnkun kennslumagns. Af því leiða óhjákvæmilegar uppsagnir fastráðinna kennara sem gengur í berhögg við leiðarljós borgarstjórnar. Samfylkingin fagnar fyrirheitum um að staðinn verður vörður um sérkennslu og kennslu barna með annað móðurmál en íslensku en telur einsýnt að verði kennslumagnið lækkað eins og drögin segja til um að herða verður vaktina með því að ekki verði skorið niður fjármagn í kennslu þeirra barna sem standa höllum fæti. Í fjárhagsáætlunarferlinu öllu hefur skort á yfirsýn. Forgangsröðun milli sviða er gríðarlega mikilvæg við slíkar aðstæður í efnahagsmálum. Samfylkingin átelur að ekki sé tekin miðlæg ákvörðun um að endurskoða reiknilíkan varðandi þá leigu sem grunnskólum ber að greiða til Eignasjóðs. Fyrir liggur að nemendum fækkar og grunnskólar fullnýta ekki húsnæði sitt. Þó ber þeim að greiða fastan, óbreytanlegan kostnað sem hefur veruleg áhrif á rekstrartölur sviðsins og gerir það að verkum að grimmilegar er gengið fram í niðurskurði í sjálfu skólastarfinu. Horfast verður í augu við að afleiðingar þessa niðurskurðar verða alvarlegar á skólastarf. Gangi áform meirihlutans óbreytt fram má efast um að markmið aðgerðaráætlunar borgarstjórnar nái fram þar sem augljóst er að störfum mun fækka og gengið verði á grunnþjónustu. Fulltrúar Samfylkingarinnar geta ekki stutt framlagða starfs- og fjárhagsáætlun og spyrja enn og aftur hverjar séu pólitískar áherslur meirihluta menntaráðs og hvernig boðaður niðurskurður verði útfærður á næsta skólaári.
Fulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:
Samfylkingin óskar eftir útreikningi á því hvað raunniðurskurður er mikill á hvern skóla, í krónum talið með og án innri leigu.
Áheyrnarfulltrúar Kennarafélags Reykjavíkur og Skólastjórafélags Reykjavíkur óskuðu bókað:
Borgin hefur lofað að standa eigi vörð um störfin og grunnþjónustu borgarinnar. Fulltrúar skólastjóra og kennara lýsa þungum áhyggjum af því að með niðurskurði til grunnskóla borgarinnar verði ekki hægt að standa við þessi markmið né grunnskólalög og aðalnámsskrá.
- Kl. 9:16 vék Ragnar Þorsteinsson af fundi.
Fulltrúi Vinstri grænna óskaði bókað:
Fulltrúi Vinstri grænna í menntaráði getur ekki fallist á þær forsendur sem gefnar hafa verið við gerð fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar fyrir árið 2010. Ber þar hæst óbreytt útsvarsprósenta þrátt fyrir aukinn rekstrarkostnað og minni tekjur borgarinnar. Tilgangur útsvars er að fjármagna sameiginlegan rekstur borgarbúa og því eðlilegt að þegar harðnar í ári dreifist kostnaðurinn með sanngjörnum hætti á borgarbúa. Fullnýtt útsvarsprósenta gæti skapað borginni 630 – 700 milljónir króna í tekjur árið 2010. Niðurskurðurinn er því enn meiri en nauðsyn krefur að mati Vinstri grænna. Þess má geta að ef sveitarfélög fengju aukna heimild til að hækka útsvarsprósentu t.d. um 1#PR til viðbótar myndi það gjörbreyta rekstrarforsendum borgarinnar, en myndi aðeins hækka útsvar um 6.250 krónur á mánuði hjá manni með 500 þúsund kr. í laun á mánuði. Úthlutun ramma ber lítil merki um nýjar áherslur í forgangsröðun. Skorið er niður með tiltölulega flötum hætti, þó krafan sé meiri á svið sem snerta skipulag og framkvæmdir en hin sem lúta að menntun og velferð. Fulltrúi Vinstri grænna hefði viljað sjá skýrari áherslumun en þann sem hér birtist. Ljóst er að niðurskurður á Menntasviði 2010 er allt of mikill á meðan hægt væri að draga enn frekar saman á sviði framkvæmda eða skipulags. Niðurskurður á kostnað barna eða velferðar mun reynast kostnaðarsamur til framtíðar og er með öllu óásættanlegur. Að skera niður um milljarð á Menntasviði Reykjavíkur er óhugsandi að mati fulltrúa Vinstri grænna. Vinnulag til lækkunar fjárframlaga til grunnskóla þarf að fara í annan farveg en fjárhagsumræðan sem hér er lögð fram gerir ráð fyrir. Ekki á að ganga út frá fyrirframgefinni krónutölu í niðurskurð á hvern skóla heldur þeim möguleikum sem skólastarfið í hverjum skóla gefur til hagræðingar. Grunnskólar Reykjavíkurborgar eru hjarta hvers hverfis, þar sem stór hluti af lífi hvers barns og ungmennis fer fram. Nemendur þurfa að eiga skjól og finna til öryggis í skólanum. Skólamenning og starfshættir í skólum borgarinnar eru fjölbreytilegir svo og mannauðurinn í hverjum skóla. Það verður að virða og jafnframt nýta til góðra verka. Svo fljótt sem auðið er á að kalla kennara og annað fagfólk til samráðs um sterkar hliðar hvers skóla og hvernig má nýta þau tækifæri sem felast í skólagerðinni, starfsháttum og mannauði í skólanum. Fagfólk þarf að ræða hvaða þætti í skólanum það telur mikilvægt að standa vörð um innan ramma aðalnámskrár, laga, reglugerða og kjarasamninga. Út frá þeim niðurstöðum þarf að ræða hvaða möguleikar eru til hagræðingar í rekstri skólans. Með sveigjanleika í skólastarfi að leiðarljósi má vafalaust finna góðar lausnir. Gera má ráð fyrir að þessi leið hafi betri áhrif á starfsanda og skólabrag en einhliða niðurskurður ofan frá. Ef vel er að verki staðið er mögulegt að skólar deili með sér hugmyndum. Sé það vilji meirihluta menntaráðs og borgarstjórnar að skera niður í skólum borgarinnar þannig að gengið verði á svig við kjarasamninga, lög og reglugerðir þarf það að koma skýrt fram í umræðunni nú. Meirihlutinn verður að axla pólitíska ábyrgð á svo miklum niðurskurði og vinnubrögðunum sem valin verða við framkvæmdina.
Fulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:
Í ljósi umræðu um framlög til menntamála á Íslandi samanborið við önnur lönd er óskað eftir samanburði á upphæð meðaltals fjárveitingar á hvern grunnskólanemanda í Reykjavík samanborið við upphæð meðalframlags á hvern nemanda vegna grunnskólagöngu í nokkrum borgum nágrannalandanna (Danmörk, Svíþjóð, Noregur og Finnland).
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks óskuðu bókað:
Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafnar algjörlega gagnrýni minnihlutans á fjárhagsáætlun Menntasviðs 2010. Í fyrsta lagi, er látið liggja að því að störf fastráðinna starfsmanna séu í hættu vegna þeirrar hagræðingar sem liggur fyrir. Þessi framsetning minnihlutans er sett fram á óábyrgan hátt. Leiðarljós Reykjavíkurborgar er skýrt í þessum efnum: Fastráðnir starfsmenn missa ekki vinnuna. Í öðru lagi er sagt að það skorti samráð. Meirihlutinn hafnar því einnig. Mikið samráð hefur verið við alla helstu hagsmunaaðila sem koma að skólastarfi. Í raun hefur samráðið verið svo mikið hjá Reykjavíkurborg við gerð fjárhagsáætlunar að nú hefur sú vinna verið tilnefnd til verðlauna hjá Eurocities, samtökum evrópskra borga. Í þriðja lagi, er forgangsröðun skýr í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar, þ.e. hagræðingarkrafa á ákveðna málaflokka s.s. menntun og velferðarmál er mun lægri en á aðra. Auk þess er engin hagræðingarkrafa á sérkennslu og nýbúakennslu. Að lokum, allra leiða er leitað til að tryggja gæði skólastarfs með les- og stærðfræðiskimun, samræmdum könnunarprófum, sjálfsmati skóla og frekari þróun heildarmats á skólastarfi.
Drögum að starfs- og fjárhagsáætlun Menntasviðs 2010 vísað til borgarráðs.
Fundi slitið kl. 9.38
Kjartan Magnússon
Anna Margrét Ólafsdóttir Lilja Dögg Alfreðsdóttir
Marta Guðjónsdóttir Oddný Sturludóttir Sigríður Pétursdóttir Sigrún Elsa Smáradóttir