Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

MENNTARÁÐ

Ár 2009, 18. nóvember var haldinn 109. fundur menntaráðs. Fundurinn var haldinn í Foldaskóla, Logafold 1 í Reykjavík og hófst kl. 10:05. Fundinn sátu Kjartan Magnússon formaður, Anna Margrét Ólafsdóttir, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Oddný Sturludóttir, Sigrún Elsa Smáradóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir. Auk þeirra sátu fundinn Kjartan Eggertsson, áheyrnarfulltrúi F-lista, Brynhildur Ólafsdóttir, áheyrnarfulltrúi Skólastjórafélags Reykjavíkur, Ólafur Mathiesen, áheyrnarfulltrúi SAMFOK og Þorgerður L. Diðriksdóttir, áheyrnarfulltrúi Kennarafélags Reykjavíkur. Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson fræðslustjóri, Guðrún Edda Bentsdóttir, Jón Ingi Einarsson, Valgerður Janusdóttir og Jóhanna H. Marteinsdóttir.
Fundarritari var Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir.

Þetta gerðist:

Formaður bauð Brynhildi Ólafsdóttur velkomna á sinn fyrsta fund í menntaráði.

1. Kristinn Breiðfjörð skólastjóri Foldaskóla kynnti starfsemi skólans og veitti fundarmönnum leiðsögn um hann.
Bókun menntaráðs:
Menntaráð þakkar Kristni Breiðfjörð, skólastjóra Foldaskóla fyrir góðar móttökur og kynningu á skólanum. Menntaráð fagnar því metnaðarfulla starfi sem þar fer fram. Ánægjulegt er að heyra hversu mikil áhersla er lögð á lestrarkennslu og tónlist. Óskar menntaráð skólanum áframhaldandi góðs gengis í starfi sínu.

2. Svohljóðandi tillaga samþykkt:
Menntaráð Reykjavíkur samþykkti á 78. fundi sínum 18. júní 2008 að láta kanna fýsileika þess að gera einn af grunnskólum í norðurhluta Grafarvogs að safnskóla fyrir unglingastig. Á grundvelli samþykktarinnar var starfshópur skipaður, sem haft hefur málið til skoðunar og mælt með því í skilaskýrslu sinni að Engjaskóli verði gerður að safnskóla. Að vel athuguðu máli og eftir að hafa kynnt sér ýtarlega álit íbúa og annarra hagsmunaaðila skólastarfs í Grafarvogi, fellst menntaráð ekki á tillögu starfshópsins um stofnun safnskóla í hverfinu. Menntaráð felur fræðslustjóra í samráði við skólastjóra grunnskóla í Grafarvogi að vinna að auknu samstarfi á milli skólanna í hverfinu. Vinnan miði m.a. að því að efla sveigjanleika í skólastarfi og styrkja námsval nemenda á unglingastigi sem og kennslu í einstökum faggreinum. Hugmyndirnar skal leggja fyrir menntaráð til kynningar.
Bókun menntaráðs:
Menntaráð þakkar starfshópi um safnskóla, starfsfólki menntasviðs og hinum fjölmörgu sem tóku þátt í umræðum umhugmyndir um stofnun safnskóla í norðanverðum Grafarvogi. Fyrr á kjörtímabilinu samþykkti menntaráð einróma að skoða fýsileika slíkra hugmynda og skipaði starfshóp í því skyni. Eftir að starfshópurinn skilaði tillögu sinni fyrr á þessu ári, var ákveðið að setja umrædda hugmynd í víðtækt og gagnsætt kynningarferli meðal íbúa og skólafólks í Grafarvogi. Efnt var til fjögurra opinna kynningarfunda um málið auk fundar með fulltrúum skólaráða í hverfinu. Meirihluti menntaráðs fagnar því hve fjölsóttir fundirnir voru og að þar áttu sér stað opinskáar umræður um umrædda hugmynd en einnig um skólahald í Grafarvogi almennt. Í kjölfar fundanna bárust athugasemdir frá fjölmörgum vegna málsins þar sem mikill meirihluti lagðist gegn fyrirliggjandi hugmyndum um stofnun safnskóla í hverfinu. Niðurstaða málsins sýnir að menntaráð er óhrætt við að taka til skoðunar róttækar hugmyndir um breytingar í skólastarfi en einnig að ríkur vilji er til þess að hlusta á raddir íbúa og fara eftir vilja þeirra.
Áheyrnarfulltrúi F-lista óskaði bókað:
Fulltrúi F-lista er sammála framkominni tillögu varðandi skólahald í Grafarvogi. Fulltrúi F-listans bendir á að Grafarvogshverfi er skipulagt með það í huga að hver grunnskóli hýsi alla árganga grunnskólanema. Í kjölfar þeirrar niðurstöðu sem hér er náð er skorað á menntaráð að beita sér fyrir því að staðið verði við fyrri loforð og yfirlýsingar um viðbyggingar við Korpuskóla og Rimaskóla og að í fjárhagsáætlun næsta árs verði gert ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á því ári.
Fulltrúar Samfylkingarinnar óskuðu bókað:
Meirihluti menntaráðs hefur enn á ný komist í ævintýraleg vandræði með stefnu sína í menntamálum. Málið var vanhugsað af meirihlutanum og framganga hans engan veginn til þess fallin að skapa þá sátt sem svo mikilvægt er þegar um viðkvæma og mikilvæga starfsemi grunnskóla er að ræða. Eins verður að átelja það að skilaboð frá formanni menntaráðs á vettvangi voru tvíbent. Samfylkingin samþykkir þessa tillögu enda brýnt að fá botn í málið sem fyrst.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks óskuðu bókað:
Meirihluti menntaráðs vísar gagnrýni minnihlutans alfarið á bug. Minnt skal á að menntaráð samþykkti einróma að taka umrædda hugmynd til athugunar. Niðurstaða starfshópsins var kynnt með ýtarlegum hætti fyrir íbúum og hagsmunaðilum. Skilaboð formanns menntaráðs á umræddum kynningarfundum voru skýr; hlustað yrði á sjónarmið íbúa í málinu og vilji þeirra látinn ráða sem nú hefur orðið raunin. Bókun Samfylkingar um að öðruvísi hefði átt að standa að málum, vekur upp spurningar um hvort þessi flokkur hafi viljað ráðast í stofnun umrædds safnskóla gegn vilja íbúa.
Fulltrúar Samfylkingarinnar óskuðu bókað:
Ávirðing af þessu tagi er ómerkileg og varla málinu til framdráttar. Margt hefði betur mátt fara í ferlinu öllu en hæst stendur þó að meirihlutanum gjörsamlega mistókst að skapa sátt í málinu við íbúa.
Fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:
Mikilvægast í þessu máli öllu er að meirihluti menntaráðs hefur virt vilja íbúa og má því segja að þarna sé íbúalýðræðið að virka í reynd sinni.

3. Kynnt drög að starfs- og fjárhagsáætlun Menntasviðs 2010.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:
Óskað er eftir pólitískum áherslum meirihluta menntaráðs á boðaðan niðurskurð á aukafundi um fjárhagsáætlun.

4. Ákveðið að menntaráð haldi aukafund mánudaginn 23. nóvember kl. 9:00

5. Áheyrnarfulltrúi Kennarafélags Reykjavíkur lagði fram svohljóðandi fyrirspurnir:
1. Ætlar menntaráð að leggja það til að samræmd próf við lok grunnskóla verði tekin upp aftur?
2. Ætlar menntaráð að leggja það til að samræmd próf sem inntökupróf í framhaldskóla verði tekin upp aftur?
3. Ætlar menntaráð að vinna að því að framhaldskólum verði fjölgað í borginni?

4. Fulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Fulltrúar Samfylkingarinnar leggja til að málefni táknmálssviðs í Hlíðaskóla verði til umræðu á næsta reglulega fundi ráðsins. Sérstaklega er beðið um að fræðslustjóri reifi stöðu mála í framfylgd stefnumótunar um táknmálssviðið sem kynnt var í menntaráði þann 25. mars síðastliðinn.
Samþykkt.

Fundi slitið kl. 13.06
Kjartan Magnússon
Anna Margrét Ólafsdóttir Lilja Dögg Alfreðsdóttir
Marta Guðjónsdóttir Oddný Sturludóttir
Sigrún Elsa Smáradóttir Steinunn Þóra Árnadóttir