Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

M E N N T A R Á Ð

Ár 2009, 11. nóvember var haldinn 108. fundur menntaráðs. Fundurinn var haldinn í fundarherbergi ráðsins að Fríkirkjuvegi 1 í Reykjavík og hófst kl. 10:06. Fundinn sátu Kjartan Magnússon formaður, Anna Margrét Ólafsdóttir, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Oddný Sturludóttir, Sigríður Pétursdóttir og Sigrún Elsa Smáradóttir.
Auk þeirra sátu fundinn Kjartan Eggertsson, áheyrnarfulltrúi F-lista, Ólafur Mathiesen, áheyrnarfulltrúi SAMFOK, Hreiðar Sigtryggsson, áheyrnarfulltrúi Skólastjórafélags Reykjavíkur og Þorgerður L. Diðriksdóttir, áheyrnarfulltrúi Kennarafélags Reykjavíkur. Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson fræðslustjóri, Auður Árný Stefánsdóttir, Jón Ingi Einarsson og Valgerður Janusdóttir. Fundarritari var Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir.

Þetta gerðist:

1. Dr. Gerður G. Óskarsdóttir kynnti niðurstöður rannsóknar sinnar Nám á mörkum skólastiga – skil grunnskóla og framhaldsskóla.
Bókun menntaráðs:
Menntaráð þakkar Gerði G. Óskarsdóttur, fyrrverandi fræðslustjóra í Reykjavík, fyrir fróðlega rannsókn og kynningu á námi á mörkum grunn- og framhaldsskóla.
Mikilvægt er að efla þekkingu á samfellu og sveigjanleika nemenda í námi á skilum grunn- og framhaldsskóla til að nám þeirra verði markvisst og hver og einn nemandi fái nám við hæfi. Rannsóknin er mikilvæg viðbót við þá þekkingu sem er til staðar um nám á skilum grunn- og framhaldsskóla og mun nýtast til stefnumótunar menntaráðs.

2. Lagt fram bréf frá íþrótta- og tómstundaráði, dags. 28. maí sl., þar sem vísað er til menntaráðs svohljóðandi tillögu sem flutt var á fundi fulltrúa Reykjavíkurráðs ungmenna og borgarfulltrúa 14. apríl sl.:
Mikilvægt er fyrir ungt fólk nú til dags að þekkja grunnhugtök fjármálaheimsins. Við þurfum að vita hvað skattkort er, hvernig yfirdráttur virkar og hvað það er að skrifa undir samning. Því viljum við leggja mikla áherslu á fjármálafræðslu inn í skólanum jafnvel í lífsleikni eða í stærðfræðitíma.

Á fundinn kom Jón Áskell Þorbjarnarson, ungmennaráði Vesturbæjar, sem var flutningsmaður tillögunnar og mælti fyrir henni. Með honum var Arnfríður Sólrún Valdimarsdóttir, verkefnisstjóri frá Íþrótta- og tómstundasviði.
Samþykkt menntaráðs:
Menntaráð þakkar fulltrúa Reykjavíkurráðs ungmenna, Jóni Áskeli Þorbjarnarsyni fyrir kynningu á tillögu um að fjármálafræðsla verði innleidd í grunnskóla Reykjavíkurborgar. Menntaráð felur fræðslustjóra að hvetja skólastjórnendur til að leggja aukna áherslu á fjármálafræðslu í grunnskólum Reykjavíkurborgar, til þess að auka fjármálalæsi. Jafnframt felur menntaráð fræðslustjóra að kanna hjá skólastjórum hvort eða hvernig skólarnir sinna fjármálafræðslu meðal nemenda. Fræðslustjóri skili greinargerð til menntaráðs um málið.

3. Lagðar fram ályktanir og umsagnir, sem borist hafa Menntasviði, um skýrslu nefndar vegna tillögu um safnskóla á unglingastigi í norðurhluta Grafarvogs.

- Kl. 12:18 viku Ólafur Mathiesen og Þorgerður L. Diðriksdóttir af fundi.

4. Samþykkt að skipa eftirfarandi aðila í starfshóp um námsmat í grunnskólum Reykjavíkur sem samþykktur var á 101. fundi menntaráðs.: Lilja Dögg Alfreðsdóttir formaður, Gísli Ragnarsson og Sigríður Pétursdóttir.

Fulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:
Fulltrúar Samfylkingarinnar óska eftir niðurstöðum könnunar sem Námsmatsstofnun gerði fyrir menntamálaráðuneytið þar sem kannað var hvort mismunur væri á útskriftareinkunnum nemenda í 10. bekk frá síðastliðnu vori, miðað við fimm ár þar á undan. Það er mikilvægt að menntaráð fái þær niðurstöður sem fyrst áður en starfshópur um námsmat tekur til starfa.

Áheyrnarfulltrúi Skólastjórafélags Reykjavíkur lagði fram svohljóðandi tillögu:
Fulltrúi skólastjóra leggur til að tveir fulltrúar, kennari og skólastjóri, taki sæti í starfshópi um námsmat í grunnskólum (sbr. samþykkt á fundi 101), til viðbótar við þá fulltrúa sem skipaðir hafa verið í hópinn.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu til að tillögunni yrði vísað frá.
Frávísunartillagan samþykkt með 4 atkvæðum gegn 3.

- Kl. 12:47 vék Lilja Dögg Alfreðsdóttir af fundi.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks óskuðu bókað:
Meirihluti menntaráðs lítur svo á að hópur um námsmat sé vel skipaður fagfólki og ítrekar að náið samstarf verður m.a. haft við kennara, skólastjórnendur, nemendur og foreldra grunnskólabarna.

Fulltrúi Vinstri grænna óskaði bókað:
Fulltrúi Vinstri grænna telur að mikilvægt sé að raddir kennara og skólastjóra heyrist í starfi starfshóps um námsmat.

Fulltrúar Samfylkingarinnar óskuðu bókað:
Fulltrúar Samfylkingarinnar styðja tillögu fulltrúa Skólastjórafélags Reykjavíkur og undrast að meirihlutinn vísi henni frá. Það er full ástæða til að fulltrúar kennara og skólastjóra grunnskóla Reykjavíkur sitji í starfshópi um námsmat með pólitískt skipuðum fulltrúum.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks óskuðu bókað:
Áhyggjur fulltrúa Skólastjórafélags Reykjavíkur, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna um aðkomu hagsmunaaðila eru óþarfar. Í hópnum er fólk með víðtæka reynslu af kennslu á grunn- og framhaldsskólastigi auk þess sem kallað verður eftir skoðunum fjölmargra hagsmunaaðila, m.a. nemenda, foreldra, kennara, skólastjóra og fræðimanna í menntamálum.

5. Lagt fram minnisblað, dags. 9. nóv. sl. vegna skóladagatals Barnaskóla Hjallastefnunnar í Reykjavík.
Samþykkt.

6. Eftirfarandi tímasetningar samþykktar fyrir opna íbúafundi í hverfum borgarinnar, sbr. samþykkt menntaráðs þar um frá 107. fundi ráðsins.

Fimmtudagur 15. október Grafarholt – Úlfarsárdalur. Sæmundarskóli.
Þriðjudagur 17. nóvember. Austurbær – Hlíðar. Hlíðarendi.
Miðvikudagur 18. nóvember. Vesturbær – Miðbær. Frostaskjól.
Mánudagur 23. nóvember. Laugardalur – Háaleiti. Þróttarheimilið.
Miðvikudagur 25. nóvember. Grafarvogur. Dalhús.
Mánudagur 30. nóvember. Breiðholt. Leiknishúsið Austurbergi.
Miðvikudagur 2. desember. Fossvogur, Smáíbúða og Bústaðahverfi. Víkin.
Þriðjudagur 27. janúar. Kjalarnes. Klébergsskóli.
Fimmtudagur 29. janúar. Árbæjarhverfi og Norðlingaholt. Fylkishöllin.

7. Aukafundur menntaráðs vegna starfs- og fjárhagsáætlunar Menntasviðs 2010 verður haldinn miðvikudaginn 18. nóv. kl. 10:00.

8. Áheyrnarfulltrúi Kennarafélags Reykjavíkur lagði fram svohljóðandi fyrirspurnir:
1. Hversu margir kennarar voru lausráðnir til starfa við grunnskóla Reykjavíkur síðasta haust (skólaárið 2008-2009).
2. Hversu margir kennarar sem ekki voru fastráðnir í fyrra (skólaárið 2008-2009) skrifuðu undir fastráðningasamning þetta haustið (skólaárið 2009-2010).

9. Fulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram svohljóðandi fyrirspurnir:

Nokkrir skólar í borginni hafa sett það í sínar skólareglur að meina börnum í yngstu bekkjum að koma á hjóli í skólann á þeim forsendum að umferðaröryggi barnanna sé ógnað við skólann. Af því tilefni er spurt:
1. Er skólastjóra heimilt samkvæmt lögum að banna einn samgöngumáta umfram annan til að komast til og frá skóla?
2. Ef svo er, samræmist það stefnu borgarinnar um vistvæna borg og markmiðum um lýðheilsu?
3. Ef umferðaröryggi barna er ógnað við skóla, er ekki réttara að laga umhverfið en að minnka möguleika barnanna á hreyfingu?
Samfylkingin leggur til að fræðslustjóra verði falið að fara yfir þessi mál með fulltrúum Framkvæmda- og eignasviðs og skili greinargerð til menntaráðs. Í kjölfarið marki menntaráð stefnu borgarinnar um hjólreiðar barna til og frá skóla.

10. Fulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram svohljóðandi tillögu:

Fulltrúar Samfylkingarinnar leggja til að fræðslustjóri með fulltingi verkefnisstjóra sérkennslu á Menntasviði undirbúi greinargerð um stöðu mála einhverfra barna í grunnskólum Reykjavíkur fyrir næsta fund menntaráðs – og að málefni einhverfra barna verði til umræðu sem sérstakur liður á fundi ráðsins svo fljótt sem unnt er.

Samþykkt.


Fundi slitið kl. 12:57


Kjartan Magnússon
Anna Margrét Ólafsdóttir Marta Guðjónsdóttir
Oddný Sturludóttir Sigríður Pétursdóttir
Sigrún Elsa Smáradóttir