Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

MENNTARÁÐ

Ár 2009, 28. október var haldinn 107. fundur menntaráðs. Fundurinn var haldinn í fundarherbergi ráðsins að Fríkirkjuvegi 1 í Reykjavík og hófst kl. 10.06. Fundinn sátu Kjartan Magnússon formaður, Anna Margrét Ólafsdóttir, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, Oddný Sturludóttir, Sif Sigfúsdóttir, Sigríður Pétursdóttir og Sigrún Elsa Smáradóttir. Auk þeirra sátu fundinn Kjartan Eggertsson, áheyrnarfulltrúi F-lista, Hreiðar Sigtryggsson, áheyrnarfulltrúi Skólastjórafélags Reykjavíkur og Þorgerður L. Diðriksdóttir, áheyrnarfulltrúi Kennarafélags Reykjavíkur. Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson fræðslustjóri, Auður Árný Stefánsdóttir, Jón Ingi Einarsson og Valgerður Janusdóttir.
Fundarritari var Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram skýrslan Listgreinakennsla í grunnskólum Reykjavíkur, dags. sept. 2009. Hildur Björk Svavarsdóttir, deildarstjóri tölfræði- og rannsóknaþjónustu kynnti helstu niðurstöður skýrslunnar.
Svohljóðandi tillaga samþykkt:
Menntaráð fagnar tillögum hópsins og felur fræðslustjóra að vinna að því að hrinda þeim í framkvæmd í samræmi við aðstæður hverju sinni.
Bókun menntaráðs:
Menntaráð þakkar starfshópi um listgreinakennslu í grunnskólum Reykjavíkur fyrir góða skýrslu um úttekt á kennslu í listgreinum. Hvað varðar tillögu um ráðningu sameiginlegs menningarfulltrúa, fagnar menntaráð því að nú þegar hefur verið sett af stað tilraunaverkefni sem Menntasvið, Leikskólasvið, ÍTR og Menningar- og ferðamálasvið standa að í samstarfi við Vinnumálastofnun. Um er að ræða verkefni þar sem sviðin fjögur vinna sameiginlega að því að efla listsköpun og menningarlæsi barna og unglinga. Unnið verður þverfaglega að lista- og menningartengdum verkefnum innan leikskóla, grunnskóla, frístundaheimila og félagsmiðstöðva með það að markmiði að auka fjölbreytta menningarupplifun barna og unglinga í borginni.

2. Lagt fram bréf frá sviðsstjórum Íþrótta- og tómstundasviðs, Menntasviðs, Leikskólasviðs og Menningar og ferðamálasviðs, dags. 14. okt. sl. þar sem kynnt er menningarverkefni sviðanna í samstarfi við Vinnumálastofnun. Arnfríður Sólrún Valdimarsdóttir, starfsmaður verkefnisins sagði frá undirbúningi og þeirri vinnu sem er framundan.
Bókun menntaráðs:
Menntaráð fagnar því að efnt hafi verið til frumkvöðla- og tilraunaverkefnis til eflingar listsköpunar og menningarlæsis barna og unglinga og telur mikla möguleika felast í auknu samstarfi ÍTR, Menntasviðs, Leikskólasviðs og Menningar- og ferðamálasviðs að þessu leyti.

3. Lögð fram viðbragðsáætlun skrifstofu Menntasviðs, dags. 26. okt. sl. vegna heimsfaraldurs inflúensu. Jafnframt lögð fram viðbragðsáætlun Austurbæjarskóla, dags. 31. ág. sl. sem sýnishorn af viðbragðsáætlun grunnskóla í Reykjavík.

4. Lagðar fram siðareglur fyrir kjörna fulltrúa hjá Reykjavíkurborg sem staðfestar voru á fundi borgarstjórnar 20. okt. sl. Jafnframt lagt fram bréf frá skrifstofu borgarstjórnar, dags. 21. okt. sl. þar sem óskað er eftir því að reglurnar séu lagðar fram í menntaráði og þær undirritaðar af kjörnum fulltrúum.

5. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Hinn 26. ágúst sl. samþykkti menntaráð Reykjavíkur fyrir sitt leyti umsókn ,,Menntaskólans” ehf. um stofnun sjálfstæðs rekins grunnskóla fyrir 5-10 ára börn. Ráðið setti nokkra fyrirvara fyrir samþykki sínu og var m.a. áskilið samþykki borgarráðs um fjárveitingar til skólans í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2010. Fram hefur komið að það sé skilningur menntamálaráðuneytisins á 43. grein laga um grunnskóla nr. 91/2008, að ekki sé unnt að setja slíkan fyrirvara um samþykki á fjárveitingum til viðkomandi skóla. Sem fyrr lítur menntaráð Reykjavíkur umsókn ,,Menntaskólans” jákvæðum augum og telur að skólahald á grunni hennar myndi auka fjölbreytni í skólastarfi borgarinnar og tryggja Reykvíkingum aukið val um nám barna sinna. Vegna framangreindrar afstöðu ráðuneytisins, og í ljósi þess hversu langt er liðið á yfirstandandi skólaár, þarf ráðið hins vegar lengri tíma til skoðunar málsins og telur sér ekki fært að samþykkja umsókn ,,Menntaskólans” ehf. að svo stöddu.
Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.
Áheyrnarfulltrúi F-lista óskaði bókað:
Þar sem búið var að samþykkja umsókn ,,Menntaskólans” ehf. telur fulltrúi F-listans nauðsynlegt að menntaráð setji dagsetningu á endurnýjað svar.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna óskuðu bókað:
Viðbrögð menntamálaráðuneytisins eru eðlileg og viðbúin, því að sjálfsögðu getur ráðuneytið ekki gefið út starfsleyfi á skóla sem sveitarfélagið Reykjavík hafði ,,kannski” samþykkt að fjármagna. Það blasti við frá upphafi að samþykkt meirihluta menntaráðs fyrir rekstri nýs einkaskóla í Reykjavík var villuljós og vekur spurningar um hversu vel er vandað til verka við ákvörðunartöku hjá meirihluta Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks. Fjárveiting til skólans lá aldrei fyrir og því var ákvörðun meirihlutans ekkert annað en ábyrgðarlaus einkaskólapólitík - án innistæðu. Vandræðagangurinn í málinu er þó sárastur fyrir þá foreldra og börn sem hugðu á nám í hinum nýja skóla. Eins og Samfylkingin og Vinstri græn hafa margbent á er það vond forgangsröðun að setja fjármagn í nýja einkaskóla á sama tíma og nemendum fækkar og borgarreknum skólum er gert að mæta verulegri hagræðingarkröfu. Samfylkingin og Vinstri græn hvetja hér eftir sem hingað til til sköpunar og fjölbreytni í öllum skólum borgarinnar og munu ekki skýla sér á bakvið úrskurð ráðuneytisins við atkvæðagreiðsluna eins og meirihlutinn gerir á hröðum flótta sínum frá eigin samþykkt. Því sitja fulltrúarnir hjá.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks óskuðu bókað:
Sá fjárhagslegi fyrirvari, sem menntaráð setti fyrir samþykki sínu vegna umsóknar ,,Menntaskólans” 26. ágúst sl., var eðlilegur enda eru fjárveitingar borgarinnar endanlega samþykktar í fjárhagsáætlun. Lagatúlkun menntamálaráðuneytisins vekur hins vegar upp spurningar og verður skoðuð frekar.

6. Svohljóðandi tillaga samþykkt.
Menntaráð samþykkir að efna til opinna íbúafunda í hverfum borgarinnar í samstarfi við Íþrótta- og tómstundasvið. Á fundunum verði kynning á íþrótta-, tómstunda- og menntamálum í viðkomandi hverfum og sérstök áhersla lögð á að kalla eftir viðhorfum íbúa til þeirra, sem og til nýrrar menntastefnu, sem nú er unnið að á vegum borgarinnar.

- Kl. 11.54 vék Sif Sigfúsdóttir af fundi.

7. Formaður sagði frá því að endurskinsvestum verði dreift til allra nemenda í 1. – 3. bekk í grunnskólum Reykjavíkur og endurskinsmerkjum til nemenda í 4. – 6. bekk. Afhending hefst í Álftamýrarskóla föstudaginn 30. okt. nk. kl. 9.00 að viðstöddum fulltrúum úr menntaráði, frá SAMFOK, Umferðarstofu og lögreglu.

Fundi slitið kl. 11.58

Kjartan Magnússon
Anna Margrét Ólafsdóttir Lilja D. Alfreðsdóttir
Oddný Sturludóttir Sigríður Pétursdóttir Sigrún Elsa Smáradóttir