Skóla- og frístundaráð
M E N N T A R Á Ð
Ár 2009, 23. september var haldinn 105. fundur menntaráðs. Fundurinn var haldinn í fundarherbergi ráðsins að Fríkirkjuvegi 1 í Reykjavík og hófst kl. 10:06. Fundinn sátu Kjartan Magnússon formaður, Anna Margrét Ólafsdóttir, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Oddný Sturludóttir, Sigrún Elsa Smáradóttir og Sigríður Pétursdóttir. Auk þeirra sátu fundinn Sigurður Þórðarson, áheyrnarfulltrúi F-lista, Hildur Björg Hafstein, áheyrnarfulltrúi SAMFOKs, Hreiðar Sigtryggsson, áheyrnarfulltrúi Skólastjórafélags Reykjavíkur og Þorgerður L. Diðriksdóttir, áheyrnarfulltrúi Kennarafélags Reykjavíkur. Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson fræðslustjóri, Auður Árný Stefánsdóttir, Jón Ingi Einarsson og Valgerður Janusdóttir.
Fundarritari var Jóhanna H. Marteinsdóttir.
Þetta gerðist:
Formaður bauð Sigurð Þórðarson velkominn á sinn fyrsta fund í menntaráði.
1. Sölvi Sveinsson, verkefnastjóri í menntamálaráðuneytinu, kynnti stöðu mála við fjarkennslu fyrir grunnskólanema og svaraði fyrirspurnum þar að lútandi.
Bókun menntaráðs:
Menntaráð Reykjavíkur telur mikilvægt að nám á framhaldsskólastigi standi grunnskólanemum í Reykjavík áfram til boða og leggur ríka áherslu á að fjármagn til þess verði tryggt. Ný lög um öll skólastigin kveða á um sveigjanleika og að grunnskólanemendur hafi rétt á námi á framhaldsskólastigi á kostnað ríkisins. Menntaráð Reykjavíkur harmar að hugmyndir séu uppi um að kostnaður vegna þessa námstilboðs verði skorinn niður en með því yrði unnið gegn því markmiði laganna. Nærtækara væri að tryggja að framhaldsskólaeiningar sem grunnskólanemandi hefur unnið sér inn skili sér með þeim hætti að tími til stúdentsprófs styttist. Menntaráð hvetur grunnskóla Reykjavíkur til að halda áfram á þeirri braut að gefa nemendum kost á að læra námsefni framhaldsskólans í grunnskólanum þar til ný aðalnámskrá grunn- og framhaldsskóla tekur gildi haustið 2011.
2. Öðrum tölulið útsendrar dagskrár var frestað.
3. Lögð fram skýrslan Viðhorfskönnun foreldra barna í tónlistarskólum í Reykjavík sem gerð var í maí og júní 2009. Hildur Björk Svavarsdóttir, deildarstjóri tölfræði- og rannsókna-þjónustu kynnti niðurstöður og svaraði fyrirspurnum.
Bókun menntaráðs:
Menntaráð Reykjavíkur fagnar niðurstöðum viðhorfskönnunar foreldra barna í tónlistarskólum í Reykjavík. Um 90#PR svarenda eru mjög eða frekar ánægð með tónlistarskóla barnsins og þá kennslu sem þar fer fram. Jafnframt hvetur menntaráð tónlistarskóla og grunnskóla til að starfa saman í ríkara mæli svo fleiri börn og unglingar eigi kost á því að stunda tónlistarnám á skólatíma. Það er ánægjulegt að sjá hversu margir foreldrar telja mikilvægt að hafa foreldraviðtöl í tónlistarskóla barns síns og því hvetur menntaráð til þess að tónlistarskólarnir bryddi upp á því í ríkara mæli.
4. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að þjónustusamningar Menntasviðs við 18 tónlistarskóla verði samþykktir.
Greinargerð fylgir.
Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna óskuðu bókað:
Samfylking og Vinstri grænir óska eftir ítarlegri greinargerð frá forstöðumanni tónlistarmála um hvernig tónlistarskólar mæta niðurskurðarkröfum sem til þeirra eru gerðar. Það verður að taka undir þá gagnrýni að vinnubrögð meirihluta menntaráðs í samskiptum við skólastjórnendur tónlistarskóla hafa ekki verið til fyrirmyndar. Ljóst er að 16#PR niðurskurður á þessu skólaári verður tónlistarskólunum afar erfiður og brýnt að menntaráð og Menntasvið fylgist grannt með áhrifum hans á mikilvæga starfsemi tónlistarskólanna og reyni eftir fremsta megni að bæta þeim skaðann þegar betur árar. Samfylking og VG sitja hjá við afgreiðsluna.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks óskuðu bókað.
Í samskiptum Menntasviðs við skólastjórnendur tónlistarskóla vegna hagræðingar á árinu 2009 hefur áhersla verið lögð á ýtarlegt samráð og er ætlunin að auka það enn frekar. Vel verður því fylgst með áhrifum hagræðingar á mikilvæga starfsemi tónlistarskólanna. Því er fagnað sérstaklega að tónlistarskólarnir hafa orðið við þeim óskum menntaráðs að halda nemendafjölda því sem næst óbreyttum frá síðasta skólaári þrátt fyrir lægra fjárframlag.
5. Lögð fram á ný svohljóðandi tillaga fulltrúa Vinstri grænna sem frestað var á fundi menntaráðs 9. ágúst sl.:
Menntaráð samþykkir að faglegar úttektir skuli gerðar á starfi allra sjálfstætt rekinna grunnskóla sem fá fjárframlög úr borgarsjóði eins fljótt og auðið verður. Fræðslustjóra verði falið að setja mat á þessum skólum í forgang en þó þannig að þeir fái eðlilega aðlögun að nýju lagaumhverfi.
Greinargerð fylgir.
Felld með 4 atkvæðum gegn 3.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Menntaráð samþykkir að faglegar úttektir skuli gerðar á starfi allra sjálfstætt rekinna grunnskóla sem fá fjárframlög úr borgarsjóði.
Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.
- Kl. 11:33 vék Marta Guðjónsdóttir af fundi og Elínbjörg Magnúsdóttir tók þar sæti.
Fulltrúi Vinstri grænna óskaði bókað:
Fulltrúi VG telur mikilvægt að úttekt verði gerð á öllum sjálfstætt reknum skólum sem fá fjárveitingar frá Reykjavíkurborg. Nauðsynlegt er að sem fyrst verði gengið úr skugga um að farið sé að grunnskólalögum í öllum tilvikum, m.a. að því er lýtur að skóla án aðgreiningar.
6. Lagt fram svar, dags. 21. september sl. við fyrirspurn fulltrúa Samfylkingarinnar frá menntaráðsfundi 9. september sl. um fjárhagsáætlunargerð Reykjavíkurborgar og ramma Menntasviðs.
7. Lögð fram dagskrá Brúarfundar sem verður haldinn í Álftamýrarskóla miðvikudaginn 30. sept. nk. kl. 16:00-18:00. Fundarefnið er: Læsi á öllum skólastigum.
8. Farið yfir stöðu og verklag við gerð starfs- og fjárhagsáætlunar Menntasviðs 2010. Ákveðið að menntaráð haldi samráðsfundi 30. september og 7. október nk. vegna þessa.
9. Fulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:
Nýlega kom fram í máli formanns hagsmunafélags aðstandenda barna með tal- og málhömlun að Reykjavíkurborg standi verr en önnur sveitarfélög að þjónustu og greiningu barna með tal- og málhömlun. Því er beðið um minnisblað frá verkefnisstjóra sérkennslu á Menntasviði, þar sem þjónusta við þessi börn í skólum borgarinnar er tíunduð og þar sem fram kemur fjöldi barna sem þiggja þá þjónustu.
10. Áheyrnarfulltrúi SAMFOKs lagði fram svohljóðandi fyrirspurn:
Hvernig miðar starfi Menntasviðs og ÍTR um samþættingu grunnskóla og frístundastarfs?
11. Lagt fram bréf frá Sambandi foreldra grunnskólabarna í Reykjavík/SAMFOK, dags. 3. september sl. með upplýsingum um nýja stjórnarskipan SAMFOK ásamt fylgiskjölum: Skýrslu stjórnar 2008-2009, fundargerð aðalfundar 2009 og yfirlit yfir stjórnarmenn SAMFOK.
Fundi slitið kl. 12:40
Kjartan Magnússon
Anna Margrét Ólafsdóttir Elínbjörg Magnúsdóttir
Lilja Dögg Alfreðsdóttir Oddný Sturludóttir
Sigrún Elsa Smáradóttir Sigríður Pétursdóttir