Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

M E N N T A R Á Ð

Ár 2009, 26. ágúst var haldinn 103. fundur menntaráðs. Fundurinn var haldinn í fundarherbergi ráðsins að Fríkirkjuvegi 1 í Reykjavík og hófst kl. 10:08. Fundinn sátu Kjartan Magnússon formaður, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Oddný Sturludóttir, Sigrún Elsa Smáradóttir, Sigríður Pétursdóttir og Stefán Þór Björnsson. Auk þeirra sátu fundinn Kjartan Eggertsson, áheyrnarfulltrúi F-lista, Hildur Björg Hafstein, áheyrnarfulltrúi SAMFOKs, Hreiðar Sigtryggsson, áheyrnarfulltrúi Skólastjórafélags Reykjavíkur og Þorgerður L. Diðriksdóttir, áheyrnarfulltrúi Kennarafélags Reykjavíkur. Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson fræðslustjóri, Auður Árný Stefánsdóttir, Jón Ingi Einarsson og Valgerður Janusdóttir. Fundarritari var Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram skýrslan Niðurstöður lesskimunar í 2. bekk í grunnskólum Reykjavíkur vorið 2009, dags. ágúst 2009. Jafnframt lagt fram minnisblað um skýrslu unna af Félagsvísindastofnun fyrir menntamálaráðuneytið um stöðu lestrarkennslu í íslenskum grunnskólum, dags. 24. ágúst sl. Guðrún Edda Bentsdóttir, verkefnastjóri á grunnskóla-skrifstofu kynnti og svaraði fyrirspurnum þar að lútandi.

Bókun menntaráðs:
Menntaráð fagnar niðurstöðum úr lesskimunarprófi í 2. bekk grunnskólanna 2009. Í lesskimuninni kemur fram að 69#PR nemenda í öðrum bekk geta lesið sér til gagns en það er þremur prósentum meira en árið á undan. Greinilegt er að lestrarstefna menntaráðs Reykjavíkur hefur átt sinn þátt í þessum góða árangri enda sóttu í fyrra 150 kennarar í Reykjavík námskeið sem haldið var á vegum Menntasviðs um læsi og lesskilning. Menntaráð þakkar starfshópi um lestrarstefnu fyrir metnaðarfullt og árangursríkt starf í þágu aukins lesskilnings meðal grunnskólabarna.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Menntaráð Reykjavíkur leggur til að fræðslustjóri og starfshópur um lestrarstefnu leiti eftir samstarfi við Félag eldri borgara um að taka þátt í verkefninu: Lesum enn meira sem er sérstakt átak til að efla enn frekar lesskilning reykvískra grunnskólanema. Átakið verður tilraunaverkefni skólaárið 2009-2010. Markmiðið með verkefninu er að fá eldri borgara til að koma inn í grunnskólana til að lesa fyrir nemendur, hlusta á þá lesa og segja sögur til að auka áhuga þeirra á lestri og efla málvitund þeirra. Verkefnið yrði samstarfsverkefni Menntasviðs, grunnskóla í borginni og Félags eldri borgara.
Greinargerð fylgir.
Frestað.

2. Gestur Guðjónsson, varaformaður starfshóps vegna samningagerðar við sjálfstætt starfandi grunnskóla, kynnti stöðuna í vinnu starfshópsins og svaraði fyrirspurnum þar að lútandi. Sigríður Thorlacius, lögfræðingur Menntasviðs kynnti drög að reglugerð um viðurkenningu grunnskóla sem reknir eru af öðrum en sveitarfélögum.

3. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Menntaráð Reykjavíkur samþykkir umsókn Menntaskólans ehf. um stofnun sjálfstæðs rekins grunnskóla fyrir 5–10 ára gömul börn. Menntaráð setur eftirfarandi fyrirvara fyrir samþykki sínu:
Starfsemin skal vera í samræmi við grunnskólalög og aðalnámskrá grunnskóla. Starfsemi skólans skal fullnægja kröfum heilbrigðiseftirlits, eldvarnareftirlits og vinnuverndar.
Samþykki borgaráðs um fjárveitingar til skólans í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir 2010.
Greinargerð fylgir.
Samþykkt með 4 atkvæðum gegn 3.

Áheyrnarfulltrúi F-lista óskaði bókað:
Fulltrúi F-listans styður fram komna tillögu um samþykki á umsókn Menntaskólans ehf. Um stofnun sjálfstæðs starfandi grunnskóla. F-listinn fagnar stofnun skóla sem bjóða Reykvíkingum valmöguleika á skólastarfi með breyttar áherslur, -skóla sem taka fulla ábyrgð á skólastarfinu og standa og falla með að tilætluðum árangri sé náð.

Fulltrúi Vinstri grænna óskaði bókað:
Fulltrúi VG áréttar þá stefnu flokksins að grunnþjónusta á borð við grunnskóla borgarinnar eigi að vera rekin á samfélagslegum grunni, svo öll börn fái notið sem bestrar menntunar óháð efnahag foreldra.
Í ljósi núverandi aðstæðna í efnahagslífinu, þar sem grunnskólar borgarinnar hafa fengið fyrirmæli um að skera niður ýmsa þætti í rekstri sínum og gæta ítrasta aðhalds, er óhugsandi og raunar óréttlætanlegt með öllu að borgaryfirvöld skuli áforma að leggja fé til reksturs nýs einkaskóla. Það fé sem færi úr borgarsjóði til skólans myndi að sama skapi skerða fjárframlög til grunnskóla borgarinnar. Við þessar kringumstæður, og einnig í ljósi þess að börnum fer fækkandi í grunnskólum borgarinnar, er það ekki góð nýting á skattfé almennings að greiða fyrir stofnun nýs skóla fyrir börn fólks sem hefur fé aflögu til að greiða skólagjöld. Nýr sjálfstætt starfandi skóli er ekki það sem fjölskyldurnar í borginni þurfa mest á að halda.
Talsvert vantar upp á að meðferð þessa máls geti talist ásættanleg. Það er unnið á allt of miklum hraða. Skólanámskrá er ekki fullunnin, t.d. liggja áfangamarkmið ekki fyrir auk þess sem ekki er gerð grein fyrir hvernig skólinn hyggst mæta þörfum nemenda með sérþarfir. Margt í stefnu skólans er áhugavert, en ekki virðist vera um að ræða nýjungar sem ekki eru þegar til staðar í opinberum grunnskólum. Ekki er verjandi að slá af faglegum kröfum til skólastarfs í borginni, þótt fyrirhugaðir rekstraraðilar geti haldið á lofti nafnalistum þjóðkunnra einstaklinga sem velunnara verkefnisins.

- Kl. 12:12 vék Lilja Dögg Alfreðsdóttir af fundi.

Fulltrúar Samfylkingarinnar óskuðu bókað:
Samfylkingin telur ótímabært að samþykkja umsókn Menntaskólans ehf. um stofnun grunnskóla. Fjárhagslegt umhverfi grunnskólanna næsta árið er ótryggt þótt þegar sé ljóst að verulega verði að þeim þrengt. Það er brýnt að standa vörð um almenna grunnskóla í borginni og varla verjandi að setja aukið fé í nýjan skóla þegar nemendum fækkar í Reykjavík og þrengt er að almennum grunnskólum borgarinnar. Ekki verður hægt að lesa annað úr tillögu meirihlutans en að samþykkið sé villuljós, skilaboð meirihlutans til foreldra og barna sem áhuga hafa á skólanum eru afar óljós og ljóst að undirbúningur og fjárveitingar eru ófrágengnar af hálfu meirihlutans. Á það skal bent að á næsta ári tekur til starfa grunnskóli í Úlfarsárdal þar sem sköpun verður rauður þráður í skólastarfinu og því ljóst að mikil sóknarfæri eru framundan fyrir áhugasamt skólafólk um sköpun í skólastarfi og sjaldan hefur verið brýnna að standa vörð um sköpun í skólastarfi í almennum grunnskólum.
Leiðarljós Samfylkingarinnar hafa verið eftirfarandi:
Að almennir hverfisskólar séu grunnstoðir samfélagsins.
Að grunnskólar innheimti ekki skólagjöld enda eigi allir skólar í borginni að standa öllum börnum til boða, óháð efnahag.
Að grunnskólar séu án vafa skólar án aðgreiningar og taki fagnandi á móti öllum börnum, óháð atgervi.
Samfylkingin telur brýnt að fá úr því skorið hið fyrsta hverjar séu skyldur sjálfstætt starfandi skóla og hver sinni eftirliti með þeim, enda eigi öll börn í borginni rétt á því að skólinn þeirra sé rekinn og honum sé stýrt á faglegum forsendum. Starfshópur um þjónustusamninga við sjálfstætt starfandi skóla lýkur senn störfum en beðið er reglugerðar frá menntamálaráðuneyti. Þegar hún liggur fyrir er brýnt að menntaráð taki afstöðu til eftirfarandi:
Hverjar séu skyldur og réttindi sjálfstætt starfandi skóla.
Hvert sé hlutverk Menntasviðs og menntaráðs þegar kemur að faglegu og fjárhagslegu eftirliti.
Í ljósi þessarar óvissu, bæði fjárhagslegrar stöðu borgarinnar, fækkunar nemenda, leiðarljósa Samfylkingarinnar, þess hve umsókn Menntaskólans barst seint og þeirri vinnu sem á eftir að ljúka í samningagerð við sjálfstætt starfandi skóla greiðir Samfylkingin atkvæði á móti tillögu meirihlutans.

Áheyrnarfulltrúar Skólastjórafélags Reykjavíkur og Kennarafélags Reykjavíkur óskuðu bókað:
Almennir grunnskólar Reykjavíkurborgar vinna innihaldsríkt og skapandi starf með nemendum sínum og eru fullfærir um að sinna skólagöngu allra barna í borginni án sérstakrar gjaldtöku. Á tímum niðurskurðar og fækkunar nemenda er því hvorki þörf né forsenda fyrir stofnun nýs grunnskóla í Reykjavík.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks óskuðu bókað:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fagna stofnun nýs sjálfstæðs starfandi grunnskóla fyrir 5-10 ára gömul börn og binda vonir við að hann muni auka fjölbreytni í skólastarfi í Reykjavík. Með fjölgun sjálfstætt starfandi grunnskóla í borginni er tryggt að Reykvíkingar öðlast aukið val um nám barna sinna.

4. Jón Ingi Einarsson, fjármálastjóri kynnti sex mánaða fjárhagsuppgjör Menntasviðs.

- Kl. 12:23 vék Stefán Þór Björnsson af fundi.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram svohljóðandi fyrirspurn:
1. Er tryggt að öll börn sem skráð hafa verið í mataráskrift fái mat, og að ekkert barn sitji svangt þó svo að foreldrar hafi ekki greitt upp fyrri reikninga?
2. Hvaða fyrirmæli hafa farið frá Menntasviði til skólastjóra varðandi mataráskrift á þessu ári?

5. Lögð fram skýrslan TALIS 2009 - Staða og viðhorf kennara og skólastjórnenda. Alþjóðleg samanburðarrannsókn unnin af Námsmatsstofnun í samvinnu við OECD fyrir menntamálaráðuneytið. Auður Árný Stefánsdóttir, skrifstofustjóri grunnskólaskrifstofu kynnti niðurstöður skýrslunnar.

6. Samkvæmt 9. lið fundargerðar 102. fundar menntaráðs voru tveir fulltrúar úr menntaráði og einn fulltrúi úr menningar- og ferðamálaráði skipaðir í sameiginlegan starfshóp ráðanna vegna listsköpunarverðlauna ungmenna og ritsmíðasamkeppni barna og unglinga í Reykjavík. Fulltrúar menntaráðs verða Marta Guðjónsdóttir og Oddný Sturludóttir en menningar- og ferðamálaráð á eftir að tilnefna einn fulltrúa í hópinn og leiðréttist það hér með.

Fundi slitið kl. 13:06

Kjartan Magnússon
Marta Guðjónsdóttir Oddný Sturludóttir
Sigrún Elsa Smáradóttir Sigríður Pétursdóttir