Skóla- og frístundaráð
SKÓLA- OG FRÍSTUNDARÁÐ
Ár 2016, 10. ágúst, var haldinn 102. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn var haldinn í Hofi á Höfðatorgi í Reykjavík og hófst kl. 11:05. Fundinn sátu Skúli Helgason (S) formaður, Eva Einarsdóttir (Æ), Jóna Björg Sætran (B), Kjartan Magnússon (D), Líf Magneudóttir (V), Sabine Leskopf (S) og Örn Þórðarson (D). Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Katla Hólm Þórhildardóttir (Þ); Atli Steinn Árnason, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Bryndís Jónsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum; Guðlaug Erla Gunnarsdóttir, skólastjórar í grunnskólum; Guðrún Gunnarsdóttir, skólastjórar í leikskólum og Rósa Ingvarsdóttir, kennarar í grunnskólum. Jafnframt sátu fundinn Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Guðlaug Sturlaugsdóttir, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Kristján Gunnarsson og Soffía Pálsdóttir.
Fundarritari var Guðrún Sigtryggsdóttir.
Þetta gerðist:
1. Lagt fram bréf frá borgarstjóranum í Reykjavík, dags. 8. júlí 2016, um tillögu að stefnu um frístundaþjónustu. Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi og formaður stýrihóps um frístundaþjónustu og félagsstarf og Sigrún Sveinbjörnsdóttir, verkefnastjóri á fagskrifstofu skóla- og frístundasviðs, kynna og svara fyrirspurnum. SFS2016070070
2. Lögð fram stöðuskýrsla vegna innleiðingar stefnu skóla- og frístundasviðs um fjölmenningarlegt skóla- og frístundastarf; Heimurinn er hér, dags. 11. maí 2016. Fríða Bjarney Jónsdóttir og Dagbjört Ásbjörnsdóttir, verkefnastjórar á fagskrifstofu skóla- og frístundasviðs og fulltrúar í fjölmenningarteymi skóla- og frístundasviðs, kynna og svara fyrirspurnum. SFS2016080008
3. Lagt fram bréf frá borgarstjóranum í Reykjavík, dags. 24. febrúar 2016, um tillögu um stuðningsnet jafnaldra fyrir börn og unglinga af erlendum uppruna í grunnskólum og minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 23. maí 2016, varðandi tillöguna. Jafnframt lagðar fram umsagnir velferðarráðs, dags. 1. júlí 2016 og mannréttindaráðs, dags. 23. júní 2016, um tillöguna. SFS2016040105
4. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina og Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 29. júní 2016:
Nú liggur fyrir áætlun um að leikskólarnir Hagaborg og Mýri verði sameinaðir undir eina stjórn frá og með 1. september 2016 og gildi til 30. júní 2017. Einnig liggur fyrir að eigi síðar en þegar sameiningarferlið hefst, þ.e. 1.9.2016, verði tekin lokaákvörðun um hvort leikskólastarf á Mýri verði alfarið lagt niður 30. júní 2017 sem er lokadagur sameiningarferlisins. Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina og fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í skóla- og frístundaráði leggja til að lokaákvörðun um lokun Mýrar verði seinkað frá 1. september 2016 fram til 1. nóvember 2016 til að öllum hlutaðeigandi gefist betra ráðrúm til að meta stöðu mála eftir að sameiningarferlið hefur staðið yfir í nokkurn tíma og reynsla þess farin að koma í ljós.
Samþykkt.
SFS2016050047
5. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina, sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 27. apríl 2016:
Að undanförnu hefur mikið verið rætt um aukinn og alvarlegan kvíða og einnig þunglyndi meðal barna og unglinga í grunnskólum. Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina telur brýnt að skóla- og frístundaráð bregðist nú þegar við og leggur því til að skóla- og frístundaráð leiti nú þegar leiða t.d. með breyttri forgangsröðun verkefna innan núverandi fjárramma til að rýmka megi það svigrúm sem skólastjórnendur hafa til að efla starf námsráðgjafa, umsjónarkennara eða annarra traustra og sérfróðra aðila með þeim nemendum sem þess óska eða álitið er að þurfi sérstaka aðstoð eða athygli hvað varðar mikinn kvíða og lítið sjálfstraust.
Jafnframt lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 8. ágúst 2016, varðandi tillöguna og umsögn velferðarsviðs, dags. 22. júní 2016, um kvíða og þunglyndi barna og unglinga. SFS2016040164
Lögð fram svohljóðandi málsmeðferðartillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúa Pírata:
Skóla- og frístundaráð samþykkir að vísa tillögu Framsóknar og flugvallarvina um námsráðgjafa og líðan nemenda til starfs- og fjárhagsáætlunargerðar skóla- og frístundasviðs 2017 og til umfjöllunar á velferðarsviði.
Samþykkt.
Áheyrnarfulltrúar skólastjóra, kennara og foreldra í grunnskólum leggja fram svohljóðandi bókun:
Áheyrnarfulltrúar kennara, skólastjórnenda og foreldra barna í grunnskólum fagna því að skóla- og frístundaráð ætli að endurskoða fjármagn til að efla starf náms- og starfsráðgjafa, umsjónarkennara og annarra aðila sem vinna með nemendum sem glíma við kvíða og lítið sjálfstraust. Mikilvægt er að forgangsraða fjármagni með velferð og líðan nemenda að leiðarljósi. Kennarar og stjórnendur finna fyrir auknum kvíða meðal nemenda og aukinni fjarveru vegna þessa og því mikilvægt að bregðast við til að snúa þeirri þróun við.
- Kl. 13.06 víkur Rósa Ingvarsdóttir af fundinum.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:
Þann 27. apríl 2016 lagði fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina til að skóla- og frístundaráð leitaði þegar leiða til að rýmka það svigrúm sem skólastjórnendur hafa til að efla starf námsráðgjafa, umsjónarkennara eða annarra traustra og sérfróðra aðila með þeim nemendum sem þess óska eða álitið er að þurfi sérstaka aðstoð eða athygli hvað varðar mikinn kvíða og lítið sjálfstraust. Í kjölfarið var kallað eftir upplýsingum velferðarráðs varðandi kvíða barna og unglinga, niðurstöður sem sýna mikla aukningu kvíða grunnskólanema og því má sjá hve mikilvægt er að setja aukið fé í þennan málaflokk. Nú hefur skóla- og frístundaráð samþykkt að vísa tillögu Framsóknar og flugvallarvina um námsráðgjafa og líðan nemenda til starfs- og fjárhagsáætlunargerðar skóla- og frístundasviðs 2017 og til umfjöllunar á velferðarsviði og er það vel. Hér er þó einkum litið til þess að efla starf námsráðgjafa en Framsókn og flugvallarvinir telja einnig brýnt að efla tækifæri umsjónarkennara til að vinna meira með mál sem tengjast kvíða og öðrum viðkvæmum vanda umsjónarnemenda sinna því umsjónarkennarinn gegnir oft lykilhlutverki í því að fylgjast með líðan eða vanlíðan nemenda sinna og er oft fyrsti aðilinn sem getur gert sér grein fyrir vanda þeirra.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Kvíði barna og ungmenna er vaxandi áhyggjuefni meðal skólafólks og starfsmanna þjónustumiðstöðva borgarinnar. Mikilvægt er að bregðast við og ein leið til þess er að auka áherslu á þjónustu námsráðgjafa sem hafa ásamt umsjónarkennurum og fleirum sinnt börnum með kvíða og þunglyndi í skólasamfélaginu. Vilji er til þess að auka vægi námsráðgjafar af þessum sökum en ekki síður til að leiðbeina nemendum um námsval og framvindu við hæfi hvers og eins. Tillögunni er því vísað til endurskoðunar úthlutunarlíkana og vinnu við gerð starfs- og fjárhagsáætlunar 2017.
6. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 8. ágúst 2016, varðandi starfsáætlanir og skóladagatöl grunnskóla í hverfinu Laugardal/Háaleiti. SFS2016010029
7. Lögð fram hugmynd af vefsvæðinu Betri Reykjavík, dags. 30. nóvember 2015, um forgang í leikskóla fyrir tvíbura. Jafnframt lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 2. ágúst 2016, um hugmyndina. Jafnframt lagðar fram umsagnir borgarlögmanns, dags. 26. apríl 2010, 20. janúar 2015 og 28. janúar 2015, um réttmæti systkinaforgangs í leikskólum. SFS2015120008
Samþykkt málsmeðferðartillaga um að tillögu af Betri Reykjavík um forgang í leikskóla fyrir tvíbura verði vísað til skoðunar við næstu endurskoðun á reglum um leikskólaþjónustu.
8. Lögð fram hugmynd af vefsvæðinu Betri Reykjavík, dags. 31. mars 2016, um sama verð frá 2ja ára aldri hvort sem barn er hjá dagforeldri eða í leikskóla. SFS2016040070
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:
Skóla- og frístundaráð samþykkir að vísa tillögu af samráðsvefnum Betri Reykjavík um sama verð fyrir dagvistun barns frá 2ja ára aldri hvort sem það er hjá dagforeldri eða í leikskóla til stýrihóps um að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla.
Samþykkt.
9. Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 5. ágúst 2016, þar sem lagt er til að sett verði viðmið um hámarksfjölda reykvískra nemenda sem greitt er framlag vegna í grunnskólann Framsýn í Hafnarfirði. Greinargerð fylgir. Jafnframt lagt fram bréf Menntamálastofnunar, dags. 14. apríl 2016, um viðurkenningu Framsýnar til að starfa sem grunnskóli í samræmi við lög er gilda um grunnskóla, reglugerðir settum á grundvelli þeirra og aðalnámskrá grunnskóla. SFS2016040020
Ákvörðun um viðmið er tímabundin til 1. júlí 2017, fyrir þann tíma verður tekin ákvörðun um framlengingu eða endurskoðun á fyrirkomulaginu.
Tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, í bréfi, dags. 5. ágúst 2016, um viðmið um hámarksfjölda reykvískra nemenda sem greitt er framlag vegna í Framsýn auk fyrirvara, samþykkt með fjórum atkvæðum Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og vísað til borgarráðs. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina telja æskilegt að grunnskólanemendur í Reykjavík hafi val um hvaða skóla þeir sæki, óháð rekstrarformi skóla eða sveitarfélagamörkum og styðja því ekki þá ógagnsæju kvótasetningu sem meirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna leggur til að viðhöfð verði í þessum efnum. Fulltrúar Framsóknar og flugvallarvina og Sjálfstæðisflokksins styðja því fyrirliggjandi umsóknir tveggja reykvískra grunnskólabarna um fjárveitingu vegna skólavistar þeirra í grunnskólann Framsýn.
10. Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 8. ágúst 2016, tillaga um að greitt verði húsnæðisframlag til Barnaheimilisins Óss frá ágúst 2016 til 30. júní 2017. Jafnframt lögð fram drög að viðauka við samning um framlag skóla- og frístundasviðs til leikskólans Óss. Enn fremur lagðar fram reglur um rekstrar- og húsnæðisframlag til sjálfstætt starfandi leikskóla með samning við skóla- og frístundasvið fyrir börn 18 mánaða til 6 ára, samningur um framlag til sjálfstætt starfandi leikskólans Óss fyrir börn frá 18 mánaða til 6 ára, dags. 19. maí 2010 og viðauka við samning um framlag til sjálfstætt starfandi leikskólans Óss fyrir börn frá 18 mánaða til 6 ára, dags. 23. febrúar 2015. SFS2016060176
Viðauki við samning um framlag skóla- og frístundasviðs til leikskólans Óss samþykktur og vísað til borgarráðs.
11. Lagðar fram til kynningar upplýsingar varðandi ráðningu leikskólastjóra við leikskólann Reynisholt.
a) Greinargerð skóla- og frístundasviðs, dags. 4. júlí 2016, vegna ráðningar í stöðu leikskólastjóra við leikskólann Reynisholt, trúnaðarmál.
b) Yfirlit yfir umsækjendur um stöðu leikskólastjóra við leikskólann Reynisholt, trúnaðarmál.
c) Auglýsing um stöðu leikskólastjóra við leikskólann Reynisholt
d) Viðmið vegna ráðninga skólastjóra leikskóla og grunnskóla.
Ein umsókn barst um stöðuna og var Aðalheiður Stefánsdóttir ráðin leikskólastjóri Reynisholts frá og með 1. ágúst 2016. SFS2016080009
Bókun skóla- og frístundaráðs:
Skóla- og frístundaráð óskar nýráðnum leikskólastjóra, Aðalheiði Stefánsdóttur, til hamingju með starfið og óskar henni velfarnaðar. Ráðið þakkar fráfarandi leikskólastjóra, Sigurlaugu Einarsdóttur, fyrir vel unnin störf í þágu Reynisholts.
12. Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík, dags. 29. júní 2016, um að Jódís Bjarnadóttir taki sæti Margrétar Norðdahl sem varamaður í skóla- og frístundaráði. SFS2016060095
13. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 3. ágúst 2016, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, frá 96. fundi skóla- og frístundaráðs, um kostnað við aðkeypta vinnu vegna ráðgjafar og sérverkefna á skrifstofu skóla- og frístundasviðs síðastliðin fjögur ár. SFS2016040036
14. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 4. júlí 2016, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina, frá 97. fundi skóla- og frístundaráðs, um skrá yfir kynningar og gjafir í skólum. SFS2016040169
15. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Óskað er eftir upplýsingum um stöðu ráðningarmála í leikskólum, grunnskólum og frístundaheimilum Reykjavíkurborgar fyrir komandi vetur.
SFS2016080037
Fundi slitið kl. 14:05
Skúli Helgason
Eva Einarsdóttir Jóna Björg Sætran
Kjartan Magnússon Líf Magneudóttir
Sabine Leskopf Örn Þórðarson