No translated content text
Skóla- og frístundaráð
MENNTARÁÐ
Ár 2009, 24. júní var haldinn 101. fundur menntaráðs. Fundurinn var haldinn að Fríkirkjuvegi 1 og hófst kl. 10.08. Fundinn sátu Kjartan Magnússon formaður, Anna Margrét Ólafsdóttir, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Oddný Sturludóttir, Sigrún Elsa Smáradóttir og Sigríður Pétursdóttir. Auk þeirra sátu fundinn Ólafur Ögmundsson, áheyrnarfulltrúi F-lista, Hildur Björg Hafstein, áheyrnarfulltrúi SAMFOKs og Þorgerður L. Diðriksdóttir, áheyrnarfulltrúi Kennarafélags Reykjavíkur. Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson fræðslustjóri, Guðrún Edda Bentsdóttir, Hildur Sigurðardóttir og Jón Ingi Einarsson.
Fundarritari var Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir.
Þetta gerðist:
1. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. 3. júní sl., þar sem er tilkynnt að á fundi borgarstjórnar 2. júní sl. hafi verið samþykkt að Steinunn Þóra Árnadóttir taki sæti varamanns í menntaráði í stað Friðriks Dags Arnarsonar.
2. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að eftirfarandi breytingar verði gerðar á 3. og 7. gr. í reglum um þjónustusamninga Reykjavíkurborgar við tónlistarskóla:
3. gr. Skólinn skal leitast við að kenna hverjum nemanda í fullu námi 32 klukkustundir á ári í aðalnámsgrein, auk hliðargreina, en skal þó aldrei kenna færri en 30 klukkustundir á ári. Skólaári skal ljúka með prófum og opinberum tónleikum.
7. gr. Úthlutun miðast við að tónlistarskólanemandi í fullu námi fái að minnsta kosti 30 klukkustundir á ári í aðalnámsgrein, auk hliðargreina.
Greinargerð fylgir.
Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks óskuðu bókað:
Meirihluti menntaráðs óskar eftir því að tónlistaskólar leiti leiða til að lækkun framlags til skólanna hafi sem minnst áhrif á fjölda nemenda í tónlistarnámi og lýsir vilja til að tónlistarskólar fái nauðsynlegt svigrúm til að aðlaga sig breyttum aðstæðum. Þá er hvatt til að fulltrúar tónlistarskóla hafi reglulegt samráð við Menntasvið og er fræðslustjóra falið að koma með hugmyndir að slíku samstarfi.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna óskuðu bókað:
Samfylkingin og VG sitja hjá við afgreiðslu á breytingum á reglum tónlistarskóla. Það er inngrip í kjarasamninga tónlistarskólakennara að stýra niðurskurði til skólanna með þeim hætti að miða við 30 vikna úthlutun í stað 32 vikna áður og á sama tíma kveða á um að nemendafjöldi skuli vera sá sami. Það þýðir að kennarar eigi að kenna sama nemendafjölda fyrir lægri laun. Fagleg sjónarmið eru hér virt að vettugi sem kemur fyrst og síðast niður á gæðum þeirrar kennslu sem börn í Reykjavík fá. Það er til mikils að virða þá friðarskyldu sem samband íslenskra sveitarfélaga hefur kvittað upp á gagnvart stéttarfélögum. Hægt væri að fara aðra leið sem væri sú að gera ráð fyrir að úthlutun miðist áfram við 32 vikur en að skólastjórum og starfsfólki tónlistarskólanna yrði gert að hagræða og endurskipuleggja sitt faglega starf sem kostur er svo að nemendafækkun eigi sér ekki stað. Staða og gerð skólanna er ólík og því er vænlegra að slík hagræðing sé skipulögð af fagfólkinu í hverjum skóla. Samfylkingin og VG telja mikilvægara en nokkru sinni fyrr að menntaráð nýti næsta vetur vel í framtíðarstefnumótun fyrir tónlistarkennslu í Reykjavíkur-borg. Í efnahagsþrengingum geta skapast tækifæri til jákvæðra breytinga á fyrirkomulagi tónlistarkennslu og meiri samvinnu innbyrðis milli tónlistar-skóla og milli tónlistarskóla, grunnskóla og skólahljómsveita.
Fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:
Það er misskilningur hjá fulltrúum Samfylkingarinnar og Vinstri grænna að verið sé að stýra skólunum og grípa inn í kjarasamninga með fyrirliggjandi breytingu á reglum um þá. Það kemur skýrt fram í tillögum að breytingum um þjónustusamninga Reykjavíkurborgar við tónlistarskóla að þeir útfæri sjálfir 7#PR hagræðingu á fjárhagsárinu 2009. Tillagan felst í því að tónlistarskólar leitist við að kenna hverjum nemanda í fullu námi 32 klst. á ári en skuli þó aldrei kenna færri en 30 klst. á ári. Með þessu móti telur menntaráð að veita megi tónlistarskólum svigrúm til að mæta áætluðum niðurskurði án þess að skera niður nemendafjölda í tónlistarnámi. Sátt ríkir um tillöguna enda var hún unnin í nánu samstarfi við tónlistarskólana.
3. Lagt fram minnisblað um verkefnið Samkynhneigð og samfélag, dags. 16. júní sl. Guðrún Edda Bentsdóttir, verkefnastjóri á grunnskólaskrifstofu gerði grein fyrir málinu og svaraði fyrirspurnum.
Bókun menntaráðs:
Menntaráð Reykjavíkurborgar lýsir yfir ánægju með framgang verkefnisins samkynhneigð og samfélag sem er þriggja ára samstarfsverkefni Menntasviðs, Félags aðstandenda samkynhneigðra og Samtakanna ´78 sem mun ljúka nú á vordögum 2010. Menntaráð telur að verkefnið hafi leitt til þess að auka skilning og draga úr fordómum gagnvart samkynhneigð. Við hvetjum starfsfólk grunnskóla Reykjavíkurborgar til að nýta sér þá fræðslu sem í boði er með verkefninu.
4. Lögð fram skýrsla samstarfshóps um fræðslu- og kynningarfundi með skólaráðum borgarinnar skólaárið 2008–2009. Nanna K. Christiansen, verkefnastjóri á grunnskólaskrifstofu gerði grein fyrir málinu og svaraði fyrirspurnum.
Bókun menntaráðs:
Menntaráð þakkar starfshópnum fyrir gott fræðslu- og kynningarstarf við stofnun skólaráða grunnskóla Reykjavíkur.
5. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga fulltrúa Samfylkingarinnar um ritsmíðasamkeppni meðal barna og unglinga í Reykjavík, sem frestað var á fundi ráðsins 3. júní sl.
Menntaráð samþykki að blása til ritsmíðasamkeppni meðal barna og unglinga í Reykjavík, til heiðurs Guðrúnu Helgadóttur rithöfundi. Ritsmíðaverðlaun menntaráðs verði veitt árlega þeim reykvísku nemendum sem sýna leikni í skapandi skrifum. Fyrstu verðlaunin verði veitt á fyrstu Barnalistahátíð Reykjavíkur, sem fram fer vorið 2010. Starfshópur verði skipaður til að móta frekari umgjörð verðlaunanna og starfi hann í nánu samráði við verkefnastjórn Barnalistahátíðar í Reykjavík.
Greinargerð fylgir.
Samþykkt.
6. Lagt fram minnisblað, dags. 22. júní sl., frá verkefnastjóra á grunnskólaskrifstofu og fulltrúa á tölfræði- og rannsóknarþjónustu um skóladagatal Ölduselsskóla fyrir skólaárið 2009-2010.
Samþykkt.
7. Lagt fram svar, dags. 23. júní sl., við fyrirspurn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna frá fundi menntaráðs 27. maí sl. um afstöðu meirihlutans til hugmynda um lagabreytingu til styttingar skólaársins í hagræðingarskyni.
8. Sigríður Thorlacius, lögfræðingur Menntasviðs kynnti drög að breytingum á samþykkt fyrir menntaráð Reykjavíkur.
Vísað til borgarráðs.
- Kl. 11.26 vék Marta Guðjónsdóttir af fundi og Elínbjörg Magnúsdóttir tók þar sæti.
9. Lagt fram yfirlit yfir stöðu verkefna í júní í starfsáætlun Menntasviðs fyrir árið 2009. Fræðslustjóri svaraði fyrirspurnum.
Svohljóðandi tillaga formanns samþykkt samhljóða:
Menntaráð samþykkir að skipa starfshóp um námsmat í grunnskólum Reykjavíkur. Hópurinn skoði námsmatsaðferðir innan grunnskólans og við brautskráningu úr honum og komi með tillögur til úrbóta. Sérstaklega verði farið yfir þær breytingar sem nú standa yfir á samræmdum prófum með tilliti til hagsmuna nemenda.
Fundi slitið kl. 12.30
Kjartan Magnússon
Anna Margrét Ólafsdóttir Elínbjörg Magnúsdóttir
Lilja Dögg Alfreðsdóttir Oddný Sturludóttir
Sigrún Elsa Smáradóttir Sigríður Pétursdóttir