Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

MENNTARÁÐ


Ár 2009, 3. júní var haldinn 100. fundur menntaráðs. Fundurinn var haldinn í Stöðvarstjóra-húsinu við Rafstöðvarveg í Elliðaárdal og hófst kl. 13.13. Fundinn sátu Kjartan Magnússon formaður, Anna Margrét Ólafsdóttir, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, Ingunn Björk Vilhjálmsdóttir, Oddný Sturludóttir og Sigríður Pétursdóttir. Auk þeirra sátu fundinn Hildur Björg Hafstein, áheyrnarfulltrúi SAMFOKs, Hreiðar Sigtryggsson, áheyrnarfulltrúi Skólastjórafélags Reykjavíkur og Þorgerður L. Diðriksdóttir, áheyrnarfulltrúi Kennarafélags Reykjavíkur. Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson fræðslustjóri, Auður Árný Stefánsdóttir, Hildur Björk Svavarsdóttir, Jóhanna H. Marteinsdóttir, Jón Ingi Einarsson og Valgerður Janusdóttir.
Fundarritari var Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir.


Þetta gerðist:

1. Lagt fram minnisblað, dags. 2. júní sl. frá fræðslustjóra þar sem gerð er grein fyrir því að Sæmundarskóli verði heimaskóli nemenda úr Úlfarsárdal, þar til skólahald hefst í Úlfarsárdal, en jafnframt geti foreldrar valið aðra skóla fyrir börn sín kjósi þeir svo. Fræðslustjóri gerði grein fyrir málinu og svaraði fyrirspurnum.

- Kl. 13.25 tók Sigrún Elsa Smáradóttir sæti á fundinum.

2. Svohljóðandi tillaga samþykkt samhljóða:
Menntaráð Reykjavíkur samþykkir að efna til umferðaröryggisátaks í grunnskólum borgarinnar á hausti komanda. Í tengslum við átakið verði fræðsla um umferðaröryggi efld og leitast við að efla þennan þátt í skólastarfi eftir því sem kostur er. Leitað verði eftir samstarfi við lögregluna, Umferðarstofu og SAMFOK um framkvæmd átaksins.
Bókun menntaráðs:
Menntaráð beinir því til framkvæmda- og eignaráðs að settar verði upp hjólagrindur við þá grunnskóla borgarinnar þar sem þær eru ekki nú þegar.

- Kl. 13.32 vék Ingunn Björk Vilhjálmsdóttir af fundi og Marta Guðjónsdóttir tók þar sæti.

3. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem frestað var á fundi menntaráðs 27. maí sl.:
Menntaráð samþykkir umsókn Nýja skólakerfisins ehf. um stofnun sjálfstæðs rekins skóla fyrir börn á unglingastigi grunnskóla. Starfsemin skal vera í samræmi við grunnskólalög og fullnægja kröfum heilbrigðiseftirlits, eldvarnareftirlits og vinnuverndar.
Greinargerð fylgir.
Samþykkt með 4 atkvæðum gegn 1.
Fulltrúar Samfylkingarinnar óskuðu bókað:
Í ljósi erfiðrar fjárhagsstöðu borgarinnar og niðurskurðar í starfsemi almennra grunnskóla er stofnun nýs grunnskóla ekki forgangsmál að mati fulltrúa Samfylkingarinnar. Brýnna er að standa vörð um verk- og tæknimenntun í almennum grunnskólum. Samfylkingin leggst þó ekki gegn umsókn Nýja skólakerfisins ehf. um stofnun tæknigrunnskóla enda á stefnuskrá Samfylkingarinnar að efla verk- og tækninám á öllum skólastigum. Sú afstaða er þó með fyrirvara um að öll lagaleg skilyrði fyrir stofnun grunnskóla séu uppfyllt. Samfylkingin ítrekar þó andstöðu sína við skólagjöld í grunnskólum og hvetur þess í stað til náins samstarfs við verkalýðsfélög og Samtök Iðnaðarins um stofnun skólans. Því sitja fulltrúar Samfylkingarinnar hjá og árétta þá sýn sína að:
1) öll börn eigi að sitja við sama borð, óháð efnahag.
2) þótt sjálfstætt reknir skólar geti aukið á fjölbreytileika innan skólakerfisins koma þeir ekki í staðinn fyrir borgarrekna hverfisskóla.
3) stærstur hluti skóla eigi að vera í húsnæði í eigu borgarinnar, til að tryggja stöðugleika í rekstri og góða meðferð fjármuna.
Samfylkingin mun beita sér fyrir því að þessum sjónarmiðum verði mætt í yfirstandandi þjónustusamningagerð við sjálfstætt rekna skóla.
Fulltrúi Vinstri grænna óskaði bókað:
Fulltrúi Vinstri grænna telur þær áherslur sem fram koma í skólanámskrá Tæknigrunnskólans áhugaverðar og líklegt að þær henti þörfum margra grunnskólanema. Vinstri græn telja mjög mikilvægt að nýbreytni í skipulagi verk- og tæknigreina verði aukin til muna í grunnskólum borgarinnar en það getur þó ekki talist réttlætanlegt að auka styrki til einkaskóla nú þegar niðurskurður á sér stað í borgarreknum skólum. Vinstri græn telja alla möguleika opna til að fela einhverjum starfandi grunnskóla í borginni að flétta áherslur skólanámskrár Tæknigrunnskólans inn í starfsemi sína á sama hátt og gert hefur verið á mismunandi hátt á ýmsum sviðum, t.d. með áherslu á nýbúafræðslu í Austurbæjarskóla, á táknmálssviði í Hlíðaskóla og útikennslu í Norðlingaskóla.
Því leggur fulltrúi Vinstri grænna til að umsækjendum verði boðið að innleiða hugmyndafræðina í einhverjum af þeim grunnskólum sem nú þegar eru starfandi, enda er sérstaklega tekið fram að umsækjendur séu tilbúnir til að gera rekstur skólans að tilraunaverkefni fyrstu þrjú árin í samstarfi við aðila sem borgin tilnefnir. Með þeim hætti væri tryggt að nemendum stæði verkefnið til boða óháð efnahag foreldra.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks óskuðu bókað:
Fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks fagna stofnun nýs sjálfstæðs rekins tæknigrunnskóla í Reykjavík. Hinn nýi skóli mun auka fjölbreytileika á skólastarfi í Reykjavík og stórefla iðnfræðslu og tæknimenntun á grunnskólastigi. Með starfrækslu skólans opnast nýr möguleiki fyrir grunnskólanemendur sem vilja leggja sérstaka áherslu á að efla með sér verklega og tæknilega þekkingu ásamt frumkvöðlahugsun sem undirbýr þá fyrir skapandi starfsferil. Markmið skólans styður vel við stefnu Reykjavíkurborgar um einstaklingsmiðað nám þar sem fjölbreyttir starfshættir og námsleiðir taka mið af styrkleikum nemenda. Með áherslum á iðn- og verkgreinar markar skólinn sér sérstöðu meðal grunnskóla borgarinnar.
Fulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:
Óskað er eftir að lagt verði fram yfirlit yfir þróun fjárframlaga til sjálfstætt rekinna grunnskóla og þróun skólagjalda frá því sveitarfélög tóku við málefnum grunnskóla frá ríkinu.

4. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að 50 m.kr. viðbótarfjármagn verði veitt til tónlistarskóla frá áður samþykktri fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2009.
Greinargerð fylgir.
Samþykkt að vísa til borgarráðs með 4 samhljóða atkvæðum.
Bókun menntaráðs:
Menntaráð fagnar því að nú hafi óvissu verið eytt í málefnum tónlistarskóla. Mikilvægt er að viðhafa náið samráð við skólastjóra tónlistarskóla um framhaldið svo þeir geti skipulagt sitt góða starf, tónlistarnemendum í Reykjavík til hagsbóta.

5. Fulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Menntaráð samþykki að blása til ritsmíðasamkeppni meðal barna og unglinga í Reykjavík, til heiðurs Guðrúnu Helgadóttur rithöfundi. Ritsmíðaverðlaun menntaráðs verði veitt árlega þeim reykvísku nemendum sem sýna leikni í skapandi skrifum. Fyrstu verðlaunin verði veitt á fyrstu Barnalistahátíð Reykjavíkur, sem fram fer vorið 2010. Starfshópur verði skipaður til að móta frekari umgjörð verðlaunanna og starfi hann í nánu samráði við verkefnastjórn Barnalistahátíðar í Reykjavík.
Greinargerð fylgir.
Frestað.

6. Formaður sagði frá að í framhaldi af 100. fundi menntaráðs tæki við starfsdagur ráðsins.


Fundi slitið kl. 14.32

Kjartan Magnússon
Anna Margrét Ólafsdóttir Lilja Dögg Alfreðsdóttir
Marta Guðjónsdóttir Oddný Sturludóttir
Sigrún Elsa Smáradóttir Sigríður Pétursdóttir