Skóla- og frístundaráð
MENNTARÁÐ
Ár 2009, 27. maí var haldinn 99. fundur menntaráðs. Fundurinn var haldinn að Fríkirkjuvegi 1 og hófst kl. 10.12. Fundinn sátu Kjartan Magnússon formaður, Anna Margrét Ólafsdóttir, Dofri Hermannsson, Jóhanna Hreiðarsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Oddný Sturludóttir og Sigríður Pétursdóttir. Auk þeirra sátu fundinn Kjartan Eggertsson, áheyrnarfulltrúi F-lista, Hildur Björg Hafstein, áheyrnarfulltrúi SAMFOKs, Hreiðar Sigtryggsson, áheyrnarfulltrúi Skólastjórafélags Reykjavíkur og Þorgerður L. Diðriksdóttir, áheyrnarfulltrúi Kennarafélags Reykjavíkur. Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson fræðslustjóri, Auður Árný Stefánsdóttir, Jón Ingi Einarsson og Valgerður Janusdóttir.
Fundarritari var Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir.
Þetta gerðist:
Formaður bauð Hildi Björgu Hafstein velkomna á sinn fyrsta fund sem aðaláheyrnarfulltrúi SAMFOKs
1. Lögð fram umsókn frá Gretari L. Marinósyni og Halli Skúlasyni, dags. 17. maí sl. um heimild til stofnunar og reksturs tæknigrunnskóla í Reykjavík. Einnig lögð fram skipulagsskrá og skólanámskrá.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Menntaráð samþykkir umsókn Nýja skólakerfisins ehf. um stofnun sjálfstæðs rekins skóla fyrir börn á unglingastigi grunnskóla. Starfsemin skal vera í samræmi við grunnskólalög og fullnægja kröfum heilbrigðiseftirlits, eldvarnareftirlits og vinnuverndar.
Greinargerð fylgir.
Frestað.
Áheyrnarfulltrúi F-lista óskaði bókað:
Fulltrúi F-lista fagnar hugmyndum um stofnun tæknigrunnskóla, en leggur áherslu á að litið verði á rekstur hans sem tilraunaverkefni til þriggja ára með það að markmiði að nýta faglega reynslu af starfseminni fyrir nýjungar og breytingar í starfsemi almennra grunnskóla borgarinnar.
2. Lagt fram bréf frá borgarráði, dags. 18. apríl sl. þar sem vísað er til menntaráðs, frá fundi fulltrúa Reykjavíkurráðs ungmenna og borgarfulltrúa dags. 14. apríl sl., svohljóðandi tillögu:
Staðan í samfélaginu er sú að u.þ.b. 18.000 manns eru atvinnulausir og fjárhagsstaða fjölmargra heimila er ansi slæm. Því teljum við að það væri góð hugmynd að bjóða uppá frían og næringaríkan morgunmat í grunnskólum borgarinnar t.d. hafragraut.
Á fundinn kom Hrafnkell Ásgeirsson, ungmennaráði Laugardals, sem var flutningsmaður tillögunnar og mælti fyrir henni. Með honum var Arnfríður Sólrún Valdimarsdóttir verkefnisstjóri, frá skrifstofu tómstundamála á Íþrótta- og tómstundasviði.
Samþykkt menntaráðs:
Menntaráð þakkar Hrafnkeli Ásgeirssyni fulltrúa í Reykjavíkurráði ungmenna fyrir góða tillögu. Í nokkrum skólum borgarinnar er nú þegar boðið upp á hafragraut að morgni. Menntaráð hvetur skólastjóra til að skoða hvort hægt sé að koma þessu við í öllum skólum og vera í samvinnu við foreldra um málið. Fræðslustjóra er falið að fylgja málinu eftir.
3. Lagt fram minnisblað, dags. 25. maí sl., frá verkefnastjóra á grunnskólaskrifstofu og fulltrúa á tölfræði- og rannsóknarþjónustu um skóladagatöl í grunnskólum í Reykjavík fyrir skólaárið 2009-2010.
Samþykkt með fyrirvara um að skóladagatal Ölduselsskóla rúmist innan ramma kjarasamning.
Bókun menntaráðs:
Menntaráð beinir þeim tilmælum til skólastjóra grunnskóla að hafa náið samráð við leikskóla innan skólahverfisins þegar kemur að skipulagningu skóladagatals. Menntaráð ítrekar tillögu sína, sem samþykkt var 25. febrúar sl., og kveður á um samráð við leikskólastjóra.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:
Hver er afstaða meirihlutans til hugmynda sem ræddar hafa verið á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga um lagabreytingu til styttingar skólaársins í hagræðingarskyni? Skriflegt svar óskast.
4. Lagt fram svar, dags. 25. maí sl. við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Skólastjórafélags Reykjavíkur 13. maí sl. um framkvæmdir við grunnskóla Reykjavíkur árið 2009. Ámundi V. Brynjólfsson, skrifstofustjóri mannvirkjaskrifstofu Framkvæmda- og eignasviðs kynnti framkvæmdirnar og svaraði fyrirspurnum þar að lútandi.
Áheyrnarfulltrúi Skólastjórafélags Reykjavíkur óskaði bókað:
Þessa dagana er verið að leggja lokahönd á undirbúning næsta skólaárs. Afar erfitt er að vita ekki hvernig húsnæðismálum skólanna verður háttað og til hvaða ráðstafana þarf að grípa vegna framkvæmda. Nú er ljóst að ekki verður af endurbótum við ýmsa skóla sem gert var ráð fyrir samkvæmt fyrri áætlunum. Það er afar mikilvægt að haft sé reglulegt samráð við skólastjórnendur um breytingar á áætlunum vegna framkvæmda á skólahúsnæði sem hefur áhrif á skipulag alls skólastarfs.
5. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga fulltrúa Samfylkingarinnar sem frestað var á fundi menntaráðs 25. mars sl.:
Menntaráð samþykki að kjörnir fulltrúar í menntaráði hafi seturétt á fundum fræðslustjóra með skólastjórum. Þar fer fram lifandi umræða um skólamál og þau málefni líðandi stundar sem menntaráðsfulltrúum ber skylda til að vera vel heima í. Því er mikilvægt að kjörnir fulltrúar hafi aðgang að þeim faglega vettvangi.
Formaður lagði til að tillagan yrði samþykkt svo breytt:
Menntaráð samþykkir að kjörnir fulltrúar í menntaráði hafi seturétt á fundum fræðslustjóra með skólastjórum tvisvar á ári, á hausti og að vori með hliðsjón af efni fundanna. Þetta fyrirkomulag verði metið í ljósi reynslunnar að ári liðnu.
Samþykkt með fjórum samhljóða atkvæðum.
Fulltrúar Samfylkingarinnar óskuðu bókað:
Fulltrúar Samfylkingarinnar líta svo á að þessi afgreiðsla sé fyrsta skref að aðgengi kjörinna fulltrúa að fundum skólastjóra og verði metið með hliðsjón af reynslu að ári liðnu. Þeir áskilja sér rétt til þess að leggja síðar til við menntaráð að allir fundir skólastjóra séu opnir kjörnum fulltrúum.
6. Freyr Halldórsson, mannauðsráðgjafi, mannauðsskrifstofu Ráðhúss kynnti niðurstöður vinnustaðagreiningar Reykjavíkurborgar 2009 sem snýr að Menntasviði.
Bókun menntaráðs:
Menntaráð þakkar starfsfólki Menntasviðs og skólastjórnendum þann árangur sem lesa má úr niðurstöðu vinnustaðagreiningar Menntasviðs. Þar kemur fram að starfsánægja er að aukast, starfsmenn upplifa að frumkvæði þeirra fái notið sín og starfsmannavelta er að minnka. Þá er sérstaklega ánægjulegt að sjá aukningu á sveigjanleika í starfi. Skólastjórnendur eru hvattir til að vera áfram á varðbergi hvað varðar álag á starfsfólk.
7. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Vinstri grænna sem frestað var á fundi menntaráðs 13. maí sl.:
Fulltrúi Vinstri grænna í Menntaráði vekur athygli á að krefjandi verkefni bíða kennara í grunnskólum vegna breytinga á aðalnámskrá grunnskóla (þar sem námsmarkmið sem áður tilheyrðu framhaldsskólastigi munu líklega færast á grunnskólastig) og þar sem samræmdu námsmati við lok grunnskóla hefur verið breytt. Tryggja verður að vel verði staðið að þessum breytingum þrátt fyrir erfiðar aðstæður í samfélaginu og niðurskurð á fjármagni til skólastarfs. Menntaráð samþykkir að á Menntasviði verði skapaður vettvangur til samvinnu fyrir kennara úr öllum skólum í Reykjavík, þar sem áhugi er fyrir hendi. Samráð verði haft við áhugasama kennara um hvernig starfinu skuli háttað. Menntaráð felur fræðslustjóra að leita leiða til að gefa kennurum í grunnskólum Reykjavíkur tækifæri til að vinna að þessum verkefnum þannig að sómi sé að og þannig að breytingarnar verði til að efla skólastarf á grunn- og framhaldsskólastigi þegar til lengri tíma er litið.
Samþykkt að vísa tillögunni til starfsáætlunargerðar Menntasviðs.
8. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Samfylkingarinnar og Vinstri grænna frá 13. maí sl. um bætta tannheilsu grunnskólabarna í Reykjavík (fskj. 8.1):
Menntaráð samþykki að fela fræðslustjóra að leita eftir samstarfi við Lýðheilsustöð, Tannlæknafélag Íslands og Heilsugæsluna í Reykjavík um bætta tannheilsu grunnskólabarna í Reykjavík. Fræðslustjóri skoði hvernig grunnskólarnir geti lagt sín lóð á vogarskálarnar svo snúa megi við þeirri óheillaþróun sem orðið hefur á Íslandi og skipað hefur íslenskum börnum í eitt af neðstu sætunum á lista OECD yfir tannheilsu skólabarna. Átaks er þörf og skoða þarf með opnum hug eftirfarandi þætti:
1. Hvernig markmiðum lýðheilsustöðvar um tannhirðu getur betur verið mætt innan veggja grunnskólans.
2. Hvernig starfsfólk grunnskóla geti, í samstarfi við skólahjúkrunarfræðinga, gert tannhirðu og fræðslu um tannhirðu að snarari þætti í skólastarfinu.
3. Hvaða kröfur þarf að uppfylla svo hægt sé að koma við skipulögðum skimunum innan grunnskólans.
4. Hvaða ferlar eru virkir innan veggja grunnskólans leiki grunur á alvarlegum tannskemmdum í börnum og unglingum og hvernig samstarfi við barnavernd og þjónustumiðstöðvar er háttað.
Sambærileg tillaga verður lögð fram í leikskólaráði og farsælast yrði að sviðin ynnu þetta í sameiningu.
Samþykkt.
9. Lagt fram svar, dags. 25. maí sl, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Skólastjórafélags Reykjavíkur frá 13. maí sl. um launamál skólastjóra og aðstoðarskólastjóra.
Áheyrnarfulltrúi Skólastjórafélags Reykjavíkur óskaði bókað:
Fulltrúi skólastjóra mótmælir hugmyndum í fjárhagsáætlun borgarinnar um að lækka laun skólastjóra og aðstoðarskólastjóra við grunnskóla Reykjavíkur-borgar. Skólastjórar og aðstoðarskólastjórar eru á fastlaunasamningi og taka laun samkvæmt launaröðun í kjarasamningi Skólastjórafélags Íslands og Launanefndar sveitarfélaganna. Breytingar á kjarasamningi verða ekki gerðar nema með nýjum samningi milli viðkomandi aðila. Ekki verður séð að núverandi ástand í þjóðfélaginu minnki vinnuálag á skólastjóra og aðstoðarskólastjóra í grunnskólum né dragi úr þeirri ómældu yfirvinnu sem skólastjórnendur inna nú af hendi innan ramma fastlaunasamnings. Á sama tíma er dregið úr viðbótarstjórnunarkvóta skólanna. Lækkun grunnlauna sem um leið eru hámarkslaun skólastjóra og aðstoðarskólastjóra eru óraunhæfar og því er eðlileg krafa að fjárúthlutun til grunnskólanna verði leiðrétt í samræmi við raunkostnað vegna starfa skólastjóra og aðstoðarskólastjóra.
10. Lagt fram efirfarandi svar við fyrirspurn fulltrúa Samfylkingarinnar og Vinstri grænna frá 29. apríl sl. varðandi bókun fimm.
1. Já. Eins og fram kemur í stefnu og starfsáætlun Menntasviðs er eitt helsta stefnumál meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að grunnskólar í Reykjavík séu í fararbroddi í skólastarfi, sem einkennist af fjölbreytni, gæðum og fagmennsku. Það felur m.a. í sér að stuðlað verði að frekari tilraunaverkefnum, m.a. varðandi vinnutímaskipulag kennara, sem haft gæti í för með sér ávinning fyrir alla aðila; nemendur, kennara og Reykjavíkurborg. Bókun 5 er gerð á grundvelli samkomulags milli Launanefndar sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands. Meirihlutinn er opinn fyrir því að taka slíkt eða svipað vinnutímaskipulag upp í fleiri skólum en brýnt er að það sé gert í góðri samvinnu allra aðila.
2. Síðastliðið haust bættist Brúarskóli í hóp þeirra skóla sem eru að gera tilraunir með sveigjanlegt vinnutímaskipulag í anda bókunar 5. Fullyrðingar, sem fram koma í bókun og fyrirspurn Samfylkingar og Vinstri grænna á 97. fundi, um að slíkt hafi gerst í tíð ,,100 daga meirihlutans” eru því beinlínis rangar og eru fyrirspyrjendur hvattir til að kynna sér mál betur áður en slíkar rangfærslur eru settar fram í opinbera fundargerð.
3. Meirihlutinn hefur á kjörtímabilinu lagt mikla áherslu á nýbreytni og sveigjanleika í skólastarfi, ekki síst sveigjanleika milli skólastiga og samþættingu skóla og frístundastarfs. Nokkur dæmi skulu nefnd því til áréttingar en hér er þó engan veginn um tæmandi upptalningu að ræða:
• Grunnskóla Hjallastefnunnar veitt starfsleyfi í Reykjavík.
• Undirbúningur stendur yfir vegna stofnunar tækni-grunnskóla í Reykjavík.
• Byggingaframkvæmdir hefjast brátt við samrekinn leikskóla og grunnskóla fyrir 1.-4. bekk í Úlfarsárdal ásamt frístundaheimili.
• Metnaðarfullar tillögur, um markvissa kynningu á iðn- og starfsnámi í leik- og grunnskólum borgarinnar, mótaðar og samþykktar.
• Sveigjanleg skólaskil milli grunn- og framhaldsskóla. Ráðgjöf efld til nemenda og foreldra og samstarfi komið á milli grunnskóla og framhaldsskóla sem fjölmargir nemendur nýta sér.
• Aukið samráð milli grunnskóla og leikskóla um skipulagsdaga.
• Starfshópi falið að meta kosti og galla stofnunar safnskóla fyrir unglingastig í norðanverðum Grafarvogi.
• Víðtækt átak í lestrarkennslu hleypt af stokkunum í samvinnu við Háskólann á Akureyri.
• Unnið er að færslu á rekstri og starfsmannahalds frístundaheimilis, íþróttahúss og sundlaugar á Kjalarnesi frá íþrótta- og tómstundasviði til menntasviðs, undir skólastjóra Klébergsskóla.
• Nýjar starfsaðferðir þróaðar vegna heildarmats á skólastarfi og samvinna hafin við Mentor um sjálfsmatstæki fyrir skóla.
• Aukin áhersla lögð á samþættingu skóla og frístundastarfs í nánu samstarfi menntasviðs- og íþrótta- og tómstundasviðs.
• Stóraukin áhersla lögð á að nýta niðurstöður Pisa könnunar til að bæta skólastarf í Reykjavík.
• Samþykktir innleiddar um bætta tilhögun og fyrirkomulag kennslu nemenda með félagslega, tilfinningalega og hegðunarröskun.
• Unnið að stefnumótun við Táknmálssvið Hlíðaskóla þar sem samþykkt var að Hlíðaskóli verði þróunar- og ráðgjafarskóli í menntun heyrnarlausra og heyrnarskertra barna.
• Tilboð um náms- og starfsþjálfun þróuð og mótuð fyrir 16-18 ára unglinga.
• Þátttaka í fjölmörgum verkefnum við utanaðkomandi aðila, sem miða að því að auka nýbreytni og sveigjanleika í skólastarfi; t.d. verkefnið Jafnrétti í skólum og Comenius Regio verkefnið.
• Fjöldi sérhæfðra námskeiða haldinn fyrir kennara grunnskóla þar sem nýbreytni og sveigjanleiki í skólastarfi skipa mikilvægan sess.
• Fjölmargir styrkir veittir til grunnskóla, tónlistarskóla og einkaaðila í þágu þróunarverkefna og nýmæla í reykvískum skólum.
• Stórefld þjónusta og ráðgjöf við grunnskóla í fjármálastjórnun og rekstrarmálum.
• Stórefld þjónusta og ráðgjöf við grunnskóla í starfsmannamálum.
• Hafin vinna við heildstæða stefnumótun í menntamálum
• Markviss vinna og eftirlit með velferð barnanna í borginni í ljósi erfiðleika í efnahags- og atvinnumálum.
11. Lagður fram kynningarbæklingur skólahljómsveita Reykjavíkur, Skemmtilegt í skólahljómsveit.
12. Hvatninga- og nemendaverðlaun menntaráðs verða afhent 14. júní kl. 15:00 í Ingunnarskóla.
13. Menntaráð fundar 3. júní og 24. júní.
Fundi slitið kl. 12.48
Kjartan Magnússon
Anna Margrét Ólafsdóttir Dofri Hermannsson
Jóhanna Hreiðarsdóttir Marta Guðjónsdóttir
Oddný Sturludóttir Sigríður Pétursdóttir