Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

MENNTARÁÐ

Ár 2009, 13. maí var haldinn 98. fundur menntaráðs. Fundurinn var haldinn í Langholtsskóla og hófst kl. 09:30. Fundinn sátu Kjartan Magnússon formaður, Anna Margrét Ólafsdóttir, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Oddný Sturludóttir, Sigríður Pétursdóttir og Sigrún Elsa Smáradóttir. Auk þeirra sátu fundinn Ólafur Ögmundsson, varaáheyrnarfulltrúi F-lista, Bergþóra Valsdóttir, áheyrnarfulltrúi SAMFOKs, Hreiðar Sigtryggsson, áheyrnarfulltrúi Skólastjórafélags Reykjavíkur og Þorgerður L. Diðriksdóttir, áheyrnarfulltrúi Kennarafélags Reykjavíkur. Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson fræðslustjóri, Auður Árný Stefánsdóttir og Jón Ingi Einarsson.
Fundarritari var Jóhanna H. Marteinsdóttir.

Þetta gerðist:

1. Hreiðar Sigtryggsson skólastjóri Langholtsskóla kynnti skólann og svaraði fyrirspurnum. Í framhaldi veitti Hreiðar fundarmönnum leiðsögn um skólann. Að því loknu kynnti Hreiðar starf og stefnu skólans.

2. Hreiðar Sigtryggsson, skólastjóri kynnti umbótaáætlun í kjölfar heildarmats á starfi Langholtsskóla.
Bókun menntaráðs:
Menntaráð þakkar skólastjóra, starfsfólki og nemendum Langholtsskóla fyrir kynningu á skólanum. Menntaráð fagnar því metnaðarfulla skólastarfi sem sjá má í skólanum og fram kemur í umbótaáætlun hans, sem kynnt var á fundinum.

3. Lagt fram bréf fræðslustjóra, dags. 11. maí sl. um embættisafgreiðslu erindis sem borist hefur menntaráði, eitt mál.

4. Gunnar Kristinsson heilbrigðisfulltrúi og Rósa Magnúsdóttir deildarstjóri umhverfis-eftirlits umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar kynntu niðurstöður heilbrigðiseftirlits í grunnskólum Reykjavíkur fyrir árið 2008.
Bókun menntaráðs:
Menntaráð þakkar fyrir kynningu fulltrúa Umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar á heilbrigðiseftirliti í grunnskólum og skólasundlaugum árið 2008. Menntaráð ítrekar mikilvægi þessa málaflokks og telur afar brýnt að honum sé sinnt af kostgæfni.
Svohljóðandi tillaga samþykkt:
Menntaráð óskar eftir því að fræðslustjóri kanni hvernig megi auka upplýsingagjöf á slysatíðni í grunnskólum borgarinnar til Umhverfis- og samgöngusviðs. Fræðslustjóra er jafnframt falið að ræða við Framkvæmdasvið um að bæta eftirlit með öryggi á skólalóðum.

5. Hildur Björk Svavarsdóttir deildarstjóri tölfræði- og rannsóknarþjónustu Menntasviðs kynnti skýrsluna Niðurstöður Talnalykils í 3. bekk í grunnskólum Reykjavíkur haustið 2008 og svaraði fyrirspurnum.
Bókun menntaráðs:
Menntaráð þakkar fyrir kynningu á niðurstöðum Talnalykils í 3. bekk í grunnskólum Reykjavíkur haustið 2008. Ráðið telur þær upplýsingar, sem fram koma í niðurstöðum Talnalykils vera afar mikilvægar til að bæta enn frekar stærðfræðinám í grunnskólum Reykjavíkur. Menntaráð felur fræðslustjóra að fela skólastjórum að kynna niðurstöður Talnalykilsins fyrir foreldrum.
Svohljóðandi tillaga samþykkt:
Þátttaka í stærðfræðiskimun í Talnalykli 2008 var með besta móti en alls þáðu 29 almennir grunnskólar boðið af 33 sem hafa 3. bekk og þar af þrír í fyrsta skipti. Menntaráð mælist til þess að allir grunnskólar í borginni taki þátt í næstu stærðfræðiskimun. Upplýsingarnar sem fram koma eru afar mikilvægar, sérstaklega þar sem greina má hversu líklegt eða ólíklegt er að nemendur þurfi á sérstakri aðstoð í stærðfræði að halda. Það getur skipt sköpum fyrir nemendur að þeir fái sérstaka aðstoð snemma á sínum skólaferli.

6. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúa SAMFOKs sem frestað var á fundi menntaráðs 29. apríl sl.:
Hlutverk skólaráða grunnskóla samkvæmt nýjum grunnskólalögum varðar meðal annars fjárhagsáætlanir grunnskóla. Menntaráð beinir því til skólastjóra að hafa ávallt samráð við skólaráð í hverjum skóla um niðurskurð vegna endurskoðaðrar fjárhagsáætlunar.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram svohljóðandi t breytingartillögu:
Í stað „um niðurskurð vegna endurskoðaðrar fjárhagsáætlunar.“ í niðurlagi tillögunnar komi „um gerð árlegrar starfsáætlunar og rekstraráætlunar og breytinga vegna endurskoðaðrar fjárhagsáætlunar.“
Breytingartillagan samþykkt með fjórum atkvæðum gegn þremur.
Tillagan svo breytt samþykkt með fjórum samhljóða atkvæðum.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna óskuðu bókað:
Í kjölfar tillögu sem fulltrúar Samfylkingar, VG og áheyrnarfulltrúi Samfok‘s lögðu fram á síðasta fundi hefur nú verið fallist á að samráð skuli haft við skólaráð um endurskoðaða fjárhagsáætlun í einstökum skólum en fram til þessa hefur samráð við foreldra verið af skornum skammti þegar kemur að niðurskurði á fjárhagsáætlun skólanna á þessum erfiðu tímum. Það vekur furðu að meirihluti menntaráðs sér ástæðu til að breyta orðalagi í tillögu minnihlutans og fella þar út að samráð skuli haft um niðurskurð við endurskoðun fjárhagsáætlunar og kalla það ,,samráð um breytingar vegna endurskoðaðrar fjárhagsáætlunar.” Staðreyndin er sú að grunnskólar borgarinnar standa frammi fyrir miklum og alvarlegum niðurskurði sem kallar á aukið og nánara samráð m.a. við foreldra. Það er með ólíkindum að ekki megi nefna niðurskurðinn á nafn og er það til marks um þann Pollýönnu-leik sem meirihlutinn kýs að leika þegar kemur að alvarlegum niðurskurði í rekstri borgarinnar.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks óskuðu bókað:
Í grunnskólalögum nr. 91/2008 er kveðið á um skýra verkaskiptingu milli skólastjóra og skólaráða. Skólastjóri er forstöðumaður grunnskóla, stjórnar honum, veitir faglega forystu og ber ábyrgð á starfi skólans gagnvart sveitarstjórn. Skólaráð er samstarfsvettvangur skólastjóra og skólasamfélags um skólahald. Skólaráð skal fjalla um áætlanir skóla, m.a. árlega starfsáætlun og rekstraráætlun. Jafnframt segir að skólaráð skuli fá til umsagnar áætlanir um fyrirhugaðar meiri háttar breytingar á skólahaldi og starfsemi skóla áður en endanleg ákvörðun um þær er tekin. Umrædda breytingu á orðalagi tillögunnar má skýra með því viðhorfi meirihluta menntaráðs að sjálfsagt er að skólastjórar eigi ætíð sem best samráð við viðkomandi skólaráð, m.a. vegna breytinga á fjárhagsáætlun, óháð því hvort um er að ræða sparnað eða viðbót í fjárframlögum til viðkomandi skóla.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna óskuðu bókað:
Minnihlutanum er full kunnugt um lög varðandi samráð við skólaráð en ítrekar að við þessar sérstöku aðstæður og erfiðan efnahag borgarinnar er enn mikilvægara að vinna í nánu samráði við foreldra þegar kemur að fjárhagsáætlun grunnskóla.

- Kl. 12.33 vék Marta Guðjónsdóttir af fundi.

7. Lagt fram svar við fyrirspurn fulltrúa Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúa SAMFOKs frá 29. apríl sl. um upplýsingar til skólastjóra um fjármál. Einnig lagt fram leiðbeiningabréf dags. 1. apríl sl. til skólastjóra frá fjármálastjóra Menntasviðs.
Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna óskuðu bókað:
Á fundi menntaráðs 29. apríl lögðu fulltrúar Samfylkingar, VG og SAMFOK fram fyrirspurn þar sem óskað var eftir upplýsingum um tilmæli meirihlutans til skólastjóra um hvernig niðurskurði skyldi háttað. Einnig var óskað eftir því að þau bréf sem skólastjórum hafði verið send yrðu kynnt menntaráði. Svör bárust fyrir fundinn og er þar um að ræða ítarlega greiningu á verklagi Menntasviðs við fjárhagsáætlunarvinnuna. Bréfi með tilmælum til skólastjóra sem óskað var eftir var ekki að finna í þeim svörum en það mátti hins vegar lesa í ítarlegri fréttaskýringu í Morgunblaðinu í dag. Bréfið er nú loks lagt fram í menntaráði eftir opinbera birtingu á á fréttavef RUV. Fulltrúar Samfylkingar og VG vilja árétta að þau tilmæli til skólastjóra sem þar er vísað til voru ekki sett fram í samvinnu eða með samþykki minnihlutans. Það er dapurlegt að traustið og samstarfið í borgarstjórn sé ekki meira en svo að fulltrúar minnihlutans þurfa að lesa um tilmæli til skólastjóra í fjölmiðlum þrátt fyrir að hafa óskað eftir upplýsingum á fundum menntaráðs.
Ljóst er að niðurskurðarhugmyndir meirihlutans eru margar sársaukafullar og því skal haldið til haga að minnihlutinn mótmælti því allan tímann að kennslumagn í 2. – 4. bekk yrði minnkað til muna, minnihlutinn lagði áherslu á að sérkennsla yrði varin og að staðinn yrði vörður um list- og verkgreinakennslu. Ljóst er að sumar niðurskurðarhugmyndir meirihlutans brjóta í bága við aðgerðaráætlun borgarráðs og kjarasamninga kennara, en í aðgerðaráætlun borgarráðs er kveðið á um að störf hjá borginni skulu varin. Nú er staðan hinsvegar sú að kennarar sem réðu sig til starfa í skólum síðasta haust og töldu sig vera að ráða sig í framtíðarstarf eins og kjarasamningar gera ráð fyrir, hefur mörgum verið tilkynnt að þeir fái ekki endurráðningu. Hér er algjörlega farið á svig við aðgerðaráætlun borgarráðs.
Það er kaldhæðnislegt að borgarstjóri gerir víðreist um borgina nú um mundir og talar fjálglega um stórkostlega samstöðu í borgarstjórn Reykjavíkur, náið samráð og þverpólitíska samstöðu um stór sem smá mál. Fulltrúar Samfylkingar og VG í menntaráði mótmæla því harðlega og eru nýjustu atburðir í menntaráði gott dæmi um það.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks óskuðu bókað:
Það bréf, sem fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna gera að umfjöllunarefni í bókun hér að framan, er á engan hátt með tilmælum meirihluta menntaráðs til skólastjóra eins og ranglega er fullyrt í bókuninni. Um er að ræða árlegt forsendu- og útskýringarbréf með fjárhagsáætlun frá fjármálastjóra Menntasviðs til skólastjóra þar sem farið er yfir forsendur fjárhagsáætlunar og leiðbeiningar til þeirra vegna rekstraráætlunar. Í bréfinu kemur m.a. fram að hver skóli hafi möguleika á að færa fjármagn á milli þátta innan heildarrammans eins og áður.
Harmað er að minnihlutinn skuli taka umrætt dæmi til marks um skort á samráði innan menntaráðs og Menntasviðs. Sannleikurinn er sá að aldrei fyrr hefur jafn víðtækt samráð verið haft um gerð fjárhagsáætlunar eins og gert hefur verið í aðdraganda fjárhagsáætlunar 2009. Þegar ljóst varð að hagræða þurfti verulega í rekstri grunnskóla í fyrsta sinn síðan Reykjavíkurborg tók við rekstri þeirra, setti menntaráð sér það markmið að það yrði að gera með víðtæku samráði. Við það fyrirheit hefur verið staðið þótt vafalaust megi finna dæmi um að samráð hefði getað verið enn betra. Meirihluti menntaráðs lýsir sig reiðubúinn til að auka slíkt samráð enn frekar og ræða frekar um einstök útfærsluatriði hagræðingarinnar og hvaða afleiðingar þær kunna að hafa í skólum borgarinnar. Í öllu þessu starfi hefur megináhersla verið lögð á að vinna eftir aðgerðaáætlun borgarráðs og borgarstjórnar. Í framlögðu svari við fyrirspurn Samfylkingar og Vinstri grænna kemur fram að víðtækt samráð var haft um fjárhagsáætlun ársins 2009 eins og meðfylgjandi upptalning ber með sér:
- Menntaráð ræddi fjárhagsáætlun á fjölmörgum föstum fundum og aukafundum með áheyrnarfulltrúum foreldra, kennara og skólastjóra; 22. október, 26. nóvember, 16. desember og 19. desember 2008, 14. janúar, 11. febrúar og 11. mars 2009.
- Sérstakir vinnufundir menntaráðs um fjárhagsáætlunargerð ásamt áheyrnarfulltrúum skólastjóra, kennara og foreldra voru haldnir 21. janúar, 4. febrúar og 18. febrúar 2009.
- Fundir með skólastjórum vegna hagræðingar voru haldnir 18. september, 20. nóvember 2008 og 22. janúar, 28. janúar og 19. mars 2009.
- Fundir með samráði skólastjóra um fjárhagsáætlun menntasviðs voru haldnir 2. október, 6. nóvember og 4. desember 2008 og 8. janúar, 13. febrúar og 5. mars 2009.
- Einkafundir með öllum skólastjórum grunnskólanna voru haldnir á tímabilinu 18. febrúar til 18. mars 2009. Á þessum fundum voru uppgjör skóla um áramót m.a. lögð fram og staðan greind, ráðgjöf veitt varðandi starfsmannamál og möguleikar til hagræðingar skoðaðir.
- Að auki hafa fulltrúar frá mannauðsdeild borgarinnar og Capacent átt fjölmarga fundi með einstökum skólastjórum vegna hagræðingaraðgerða.
- Þá hafa fjármálastjóri og starfsfólk Menntasviðs átt fjölmarga einkafundi með skólastjórum þar sem farið hefur verið yfir forsendur fjárhagsáætlunar og þeir aðstoðaðir við að útfæra hagræðingu fyrir sinn skóla. Að auki hefur starfsfólk Menntasviðs átt mikil samskipti við skólastjórnendur með símtölum og tölvupóstum.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna óskuðu bókað:
Það bréf sem um ræðir er annað og meira en árlegt forsendubréf því ekki hafa grunnskólar borgarinnar staðið frammi fyrir jafn alvarlegum niðurskurði síðan sveitarfélögin tóku við rekstri grunnskólanna fyrir um 15 árum. Því er gríðarlega mikilvægt að allt menntaráð auk áheyrnarfulltrúa séu með í ráðum þegar tilmæli um niðurskurð eru send til yfirstjórnenda í skólasamfélaginu. Minnihluti menntaráðs hefur varið miklum tíma á samráðsfundum með meirihluta menntaráðs og gefið sig heilshugar að vinnu við gerð fjárhagsáætlunar á erfiðum tímum. Einmitt vegna þeirrar staðreyndar er það harmað að mikilvæg tilmæli frá menntaráði eru ekki borin undir fulltrúa minnihlutans. Í þeim tilmælum koma fram nákvæmlega útfærðar niðurskurðartillögur meirihlutans sem ekki voru unnar í samvinnu við minnihluta menntaráðs. Þau tilmæli eru eitt mikilvægasta tækið sem kjörnir fulltrúar búa yfir til að koma í veg fyrir að yfirvofandi niðurskurður bitni ekki á þeim sem síst skyldi og að staðinn verði vörður um mikilvægustu þætti skólastarfs.
Samráð verður að vera á borði – ekki bara í orði. Minnihluti menntaráðs tekur undir með meirihlutanum um að mikilvægt er að skoða jafnt og þétt áhrif aðhaldsaðgerða á skólastarf og börn og ungmenni í grunnskólum Reykjavíkur.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks óskuðu bókað:
Ítrekað er að samráð vegna vinnu við fjárhagsáætlun Menntasviðs hefur aldrei verið meira en vegna gildandi áætlunar og það samstarf var jafnt á borði sem í orði. Meirihlutinn lýsir sig þó reiðubúinn til að auka það samstarf enn frekar.

8. Lögð fram fundargerð Brúar frá 29. apríl sl.

9. Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram svohljóðandi tillögu:
Fulltrúi Vinstri grænna í Menntaráði vekur athygli á að krefjandi verkefni bíða kennara í grunnskólum vegna breytinga á aðalnámskrá grunnskóla (þar sem námsmarkmið sem áður tilheyrðu framhaldsskólastigi munu færast á grunnskólastig) og þar sem samræmdu námsmati við lok grunnskóla hefur verið breytt. Tryggja verður að vel verði staðið að þessum breytingum þrátt fyrir erfiðar aðstæður í samfélaginu og niðurskurð á fjármagni til skólastarfs.
Menntaráð samþykkir að á Menntasviði verði skapaður vettvangur til samvinnu fyrir kennara úr öllum skólum í Reykjavík, þar sem áhugi er fyrir hendi. Samráð verði haft við áhugasama kennara um hvernig starfinu skuli háttað.
Menntaráð felur fræðslustjóra að leita leiða til að gefa kennurum í grunnskólum Reykjavíkur tækifæri til að vinna að þessum verkefnum þannig að sómi sé að og þannig að breytingarnar verði til að efla skólastarf á grunn- og framhaldsskólastigi þegar til lengri tíma er litið.
Frestað.

10. Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Menntaráð samþykki að fela fræðslustjóra að leita eftir samstarfi við Lýðheilsustöð, Tannlæknafélag Íslands og Heilsugæsluna í Reykjavík um bætta tannheilsu grunnskólabarna í Reykjavík. Fræðslustjóri skoði hvernig grunnskólarnir geti lagt sín lóð á vogarskálarnar svo snúa megi við þeirri óheillaþróun sem orðið hefur á Íslandi og skipað hefur íslenskum börnum í eitt af neðstu sætunum á lista OECD yfir tannheilsu skólabarna. Átaks er þörf og skoða þarf með opnum hug eftirfarandi þætti:
1. Hvernig markmiðum lýðheilsustöðvar um tannhirðu getur betur verið mætt innan veggja grunnskólans.
2. Hvernig starfsfólk grunnskóla geti, í samstarfi við skólahjúkrunarfræðinga, gert tannhirðu og fræðslu um tannhirðu að snarari þætti í skólastarfinu.
3. Hvaða kröfur þarf að uppfylla svo hægt sé að koma við skipulögðum skimunum innan grunnskólans.
4. Hvaða ferlar eru virkir innan veggja grunnskólans leiki grunur á alvarlegum tannskemmdum í börnum og unglingum og hvernig samstarfi við barnavernd og þjónustumiðstöðvar er háttað.
Sambærileg tillaga verður lögð fram í leikskólaráði og farsælast yrði að sviðin ynnu þetta í sameiningu.
Frestað.

11. Áheyrnarfulltrúi Skólastjórafélags Reykjavíkur lagði fram svohljóðandi fyrirspurnir:
A. Í fjárhagsáætlun borgarinnar árið 2009 er gert ráð fyrir framkvæmdum við grunnskóla fyrir 1.480.000.000 kr.
1. Hafa þessar framkvæmdir verið boðnar út?
2. Ef ekki, hvað veldur þeirri seinkun?
3. Hefur þeim aðilum sem málið varðar, skólastjórum og skólaráðum verið tilkynnt um breytingar varðandi framkvæmdir við grunnskóla borgarinnar á þessu ári?
B. Í fjárhagsáætlun grunnskóla borgarinnar fyrir árið 2009 er gert ráð fyrir launalækkun hjá skólastjórum og aðstoðarskólastjórum. Slíkt vekur furðu þar sem laun skólastjóra og aðstoðarskólastjóra eru taxtalaun samkvæmt kjarasamningi. Mun menntaráð Reykjavíkurborgar leiðrétta úthlutun til grunnskólanna í samræmi við samningsbundin laun skólastjóra og aðstoðarskólastjóra?

12. Bókun menntaráðs:
Menntaráð þakkar fulltrúa SAMFOK‘s, Bergþóru Valsdóttur fyrir vel unnin störf í menntaráði síðustu 7 árin. Innlegg hennar hefur verið afar mikilvægt við stefnumótun í menntaráði.

Fundi slitið kl. 13.33

Kjartan Magnússon
Anna Margrét Ólafsdóttir Lilja Dögg Alfreðsdóttir
Oddný Sturludóttir Sigríður Pétursdóttir
Sigrún Elsa Smáradóttir