Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

MENNTARÁÐ

Ár 2009, 29. apríl var haldinn 97. fundur menntaráðs. Fundurinn var haldinn að Fríkirkjuvegi 1 og hófst kl. 10.05. Fundinn sátu Kjartan Magnússon formaður, Anna Margrét Ólafsdóttir, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Oddný Sturludóttir, Sigríður Pétursdóttir og Sigrún Elsa Smáradóttir. Auk þeirra sátu fundinn Ólafur Ögmundsson, varaáheyrnarfulltrúi F-lista, Bergþóra Valsdóttir, áheyrnarfulltrúi SAMFOKs, Hreiðar Sigtryggsson, áheyrnarfulltrúi Skólastjórafélags Reykjavíkur og Þorgerður L. Diðriksdóttir, áheyrnarfulltrúi Kennarafélags Reykjavíkur. Jafnframt sátu fundinn Valgerður Janusdóttir, staðgengill fræðslustjóra, Auður Árný Stefánsdóttir og Jón Ingi Einarsson.
Fundarritari var Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir.

Þetta gerðist:

1. Lagt fram bréf fræðslustjóra, dags. 8. apríl sl. um embættisafgreiðslu erindis sem borist hefur menntaráði, eitt mál.

2. Lögð fram skýrslan Tillögur starfshóps um leiðir til að kynna iðn- og starfsnám í leik- og grunnskólum Reykjavíkur, dags. í febrúar 2009. Steinunn Ármannsdóttir, verkefnastjóri á grunnskólaskrifstofu Menntasviðs og formaður starfshópsins og Anton Már Gylfason, áfangastjóri í Borgarholtsskóla og fulltrúi í hópnum kynntu skýrsluna og svöruðu fyrirspurnum.
Bókun menntaráðs:
Menntaráð þakkar starfshópi um tillögur um leiðir til að kynna iðn- og starfsnám í leik- og grunnskólum Reykjavíkur fyrir mjög gott starf. Fram eru settar metnaðarfullar tillögur og með framkvæmd þeirra mun höfuðborgin án efa verða í fremstu röð varðandi kynningu fyrir börn og unglinga á iðn- og starfsnámi. Menntaráð telur afar brýnt að grunn- og leikskólanemar hafi greinargóðan skilning á iðn- og starfsnámi og átti sig á þeim valmöguleikum sem felast í slíku námi.
Svohljóðandi tillaga samþykkt:
Menntaráð felur fræðslustjóra í samstarfi við sviðsstjóra Leikskólasviðs að vinna framkvæmdaáætlun, út frá hugmyndum skýrslunnar, um kynningu á iðn- og starfsnámi í leik- og grunnskólum Reykjavíkurborgar. Í framkvæmdaáætluninni komi fram hvernig kynningunni verði háttað á hvoru skólastigi og hvenær hún komi til framkvæmda. Hugmyndin er að sambærileg kynning geti verið á ólíkum skólastigum með samfellu skólastiga í huga. Mikilvægt er að huga að því að kynningin verði markviss og samfelld og taki til hinna mismunandi aldurshópa og tengist markmiðum aðalnámsskrár eins og kostur er. Stefnt skal að því að markviss kynning á iðn- og starfsnámi hefjist í leik- og grunnskólum borgarinnar þegar á næsta skólaári með því að sett verði upp sértæk aðstaða fyrir grunnskólanemendur innan framhaldsskólans. Einnig að útbúnar verði þrjár verkfærakistur fyrir leikskóla og yngstu stig grunnskóla sem verði innleiddar næsta vetur. Mikilvægt er að samráð verði haft við hagsmunafélög sem gætu lagt þessu verkefni lið.
Sambærileg tillaga verður lögð fram í leikskólaráði.
Greinargerð fylgir.
Samþykkt.

3. Lagt fram minnisblað, dags. 27. apríl frá aðgerðahópi Pisa þar sem gerð er grein fyrir starfsemi hópsins veturinn 2008-2009.
Bókun menntaráðs:
Nú er fyrsta áfanga aðgerðahóps Pisa lokið og þakkar menntaráð hópnum fyrir vel unnin störf. Ljóst er að mikið kynningarstarf hefur átt sér stað meðal nemenda, grunnskólakennara og foreldra. Menntaráð vonast til að þessi kynning hafi hvatt nemendur til að gera sitt besta. Menntaráð væntir þess að haldið verði áfram á þessari braut og felur hópnum að vinna áfram að málinu.

4. Kristín Harðardóttir, verkefnastjóri frá Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands kynnti niðurstöður Félagsvísindastofnunar vegna úttektar á bókun fimm í Norðlingaskóla. Kristín og Sif Vígþórsdóttir, skólastjóri Norðlingaskóla svöruðu fyrirspurnum.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og áheyrnarfulltrúi F-lista óskuðu bókað:

Menntaráð þakkar fyrir kynningu á mati á tilraun í Norðlingaskóla er felst í því að vinnutímaskipulag kennara byggist á bókun fimm í kjarasamningi Launanefndar sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands. Menntaráð fagnar þeim niðurstöðum sem fram koma í matinu, þ.e. að almenn ánægja sé með starfið sem unnið er í skólanum meðal kennara og foreldra. Menntaráð hvetur fleiri skólastjórnendur í Reykjavík til að skoða kosti þess að nýta sér bókun fimm í starfi sínu.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna lögðu fram svohljóðandi fyrirspurnir:
Tilraunaverkefni um bókun fimm í Norðlingaskóla, sem sett var af stað í tíð Reykjavíkurlistans, hefur gefist vel og er ástæða til að óska starfsfólki skólans til hamingju. Allt þetta kjörtímabil hefur sitjandi meirihluti boðað sveigjanleika á öllum sviðum skólastarfs en það hefur ekki sýnt sig í fjölgun skóla í Reykjavík sem taka þátt í tilraunaverkefni af þessu tagi, þó einhverjar deildir hafi gert tilraunir. Einungis einn skóli hefur bæst við á þessu kjörtímabili í verkefni um ,,bókun fimm”, og var það gert í tíð ,,hundraðdagameirihlutans.”
1) Hefur meirihluti menntaráðs áhuga á því að stuðla að frekari tilraunaverkefnum varðandi vinnutímaskipulag kennara?
2) Af hverju hefur skólum sem gera tilraunir með vinnutímaskipulag ekki fjölgað í valdatíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks?
3) Eru orð meirihlutans tóm þegar kemur að sveigjanleika og nýbreytni í skólastarfi?

5. Lögð fram skýrslan Niðurstöður Talnalykils í 3. bekk í grunnskólum Reykjavíkur haustið 2008, dags. í apríl 2009, ásamt minnisblaði um niðurstöðurnar dags. 21. apríl 2009 frá Hildi Björk Svavarsdóttur, deildarstjóra tölfræði- og rannsóknaþjónustu Menntasviðs. Kynningu frestað.

6. Lagt fram svar við fyrirspurn fulltrúa Vinstri grænna frá 14. jan. sl. varðandi eftirlitsmyndavélar.
Fulltrúi Vinstri grænna óskaði bókað:
Fulltrúi Vinstri grænna vekur athygli á að upptökur úr eftirlitsmyndavélum eru sáralítið notaðar, einkum innanhúss og hefur efasemdir um að þær skapi eftirsóknarvert andrúmsloft í grunnskólum.

7. Ráðning skólastjóra við Hagaskóla.
Lögð fram:
a) Auglýsing um stöðu skólastjóra við Hagaskóla.
b) Viðmið menntaráðs við val á milli umsækjenda um skólastjórastöður í grunnskólum Reykjavíkurborgar.
c) Yfirlit yfir umsækjendur.
d) Greinargerð fræðslustjóra vegna ráðningar í stöðu skólastjóra við Hagaskóla.
Fimm umsóknir bárust um stöðuna.
Lagt er til að Sesselja Ingibjörg Jósefsdóttir verði ráðin í stöðu skólastjóra Hagaskóla.
Samþykkt.

- Kl. 12:00 véku Lilja Dögg Alfreðsdóttir og Oddný Sturludóttir af fundi.

8. Lagður fram ársreikningur Menntasviðs 2008. Fjármálastjóri Menntasviðs gerði grein fyrir málinu og svaraði fyrirspurnum.

9. Kynningu Hreiðars Sigtryggssonar, skólastjóra Langholtsskóla, á umbótaáætlun Langholtsskóla í kjölfar heildarmats á skólastarfinu frestað.

10. Lögð fram dagskrá Brúarfundar um skil grunn- og framhaldsskóla í ljósi nýrra laga. Fundurinn verður haldinn í Laugalækjarskóla 29. apríl kl. 15:30-17:30.

11. Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi SAMFOKs lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:
1) Hafa skólastjórar grunnskóla fengið fyrirmæli eða leiðbeiningar um hvernig haga skuli niðurskurði miðað við endurskoðaða fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar?
2) Hvernig er skólastjórum greint frá umfangi niðurskurðar?
Óskað er eftir að fyrirmæli, leiðbeiningar og/eða upplýsingar um meðhöndlun og umfang niðurskurðar sent skólastjórum í grunnskólum verði lögð fyrir menntaráð.

12. Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi SAMFOKs lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Hlutverk skólaráða grunnskóla samkvæmt nýjum grunnskólalögum varðar meðal annars fjárhagsáætlanir grunnskóla. Menntaráð beinir því til skólastjóra að hafa ávallt samráð við skólaráð í hverjum skóla um niðurskurð vegna endurskoðaðrar fjárhagsáætlunar.
Frestað.

13. Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:
Nýverið var skólastjórum tónlistarskóla tilkynnt að 12#PR niðurskurður á framlögum til þeirra gilti frá 1. janúar síðastliðnum, ekki frá og með næsta hausti. Það er sameiginlegur skilningur allra skólastjóranna og minnihlutans að niðurskurður á framlögum til þeirra gilti fyrir næsta skólaár, enda fer framlag borgarinnar til launa tónlistarskólakennara og því bundið bæði kjarasamningum og ráðningarsamningum. Með tilliti til þess er erfitt að sjá hvernig niðurskurðurinn geti virkað afturvirkt.
Því er spurt:
1) Ætlar meirihluti menntaráðs að sitja fastur við sinn keip og láta niðurskurð til tónlistarskólanna gilda frá 1. janúar síðastliðnum?
2) Hefur meirihluti menntaráðs reiknað út hversu margir kennarar tónlistarskólanna missa störf sín og hversu margir nemendur hverfa frá námi, verði þessi afturvirki niðurskurður að veruleika?

Fundi slitið kl. 12.30

Kjartan Magnússon
Anna Margrét Ólafsdóttir Marta Guðjónsdóttir
Sigríður Pétursdóttir Sigrún Elsa Smáradóttir