Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

MENNTARÁÐ

Ár 2009, 6. apríl var haldinn 96. fundur menntaráðs. Fundurinn var haldinn að Fríkirkjuvegi 1 og hófst kl. 10.00. Fundinn sátu Kjartan Magnússon formaður, Anna Margrét Ólafsdóttir, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Oddný Sturludóttir, Sigríður Pétursdóttir og Sigrún Elsa Smáradóttir. Auk þeirra sátu fundinn Kjartan Eggertsson, áheyrnarfulltrúi F-lista, Bergþóra Valsdóttir, áheyrnarfulltrúi SAMFOKs, Hreiðar Sigtryggsson, áheyrnarfulltrúi Skólastjórafélags Reykjavíkur og Sigrún E. Ólafsdóttir, áheyrnarfulltrúi Kennarafélags Reykjavíkur. Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson fræðslustjóri og Hrund Logadóttir.
Fundarritari var Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir.

Þetta gerðist:

1. Hildur Björk Svavarsdóttir, deildarstjóri tölfræði- og rannsóknaþjónustu kynnti hluta af niðurstöðum úttektar á kennslu í listgreinum og öðrum verkefnum í listum og listfræðslu í grunnskólum Reykjavíkur. Úttektin var framkvæmd fyrir starfshóp menntaráðs um tónmennta- og listfræðslu í grunnskólum Reykjavíkur.

2. Lagt fram minnisblað um framkvæmd tillagna starfshóps um tilhögun og fyrirkomulag kennslu nemenda með félagslegar-, tilfinningalegar- og hegðunarraskanir, dags. 31. mars sl. Hrund Logadóttir, verkefnastjóri á grunnskólaskrifstofu og formaður starfshópsins gerði grein fyrir málinu og svaraði fyrirspurnum ásamt fræðslustjóra.
Bókun menntaráðs:
Menntaráð þakkar fyrir kynningu á innleiðingu á samþykktum tillögum um tilhögun og fyrirkomulag kennslu nemenda með félagslegar-, tilfinningalegar- og hegðunarraskanir. Menntaráð lýsir yfir stuðningi við þau áform innleiðingar sem fram koma í framlögðu minnisblaði.

3. Lagt fram minnisblað fræðslustjóra og framkvæmdastjóra íþrótta- og tómstundasviðs, dags. 30. mars sl. þar sem lagt er til að rekstur og starfsmannahald íþrótta- og æskulýðsmála á Kjalarnesi færist frá Íþrótta- og tómstundasviði til menntasviðs undir skólastjóra Klébergsskóla frá og með 1. ágúst 2009.
Samþykkt.
Bókun menntaráðs:
Menntaráð fagnar umræddum breytingum og leggur áherslu á aukna samþættingu skóla- og frístundastarfs. Fræðslustjóra er falið að meta samþættinguna í lok næsta skólaárs.

4. Fræðslustjóri kynnti samþykkt borgarráðs frá 2. apríl sl. að sameina upplýsingatækni-miðstöð Reykjavíkurborgar og upplýsingatækniþjónustu menntasviðs. Í sameinaðri einingu munu starfa 43 starfsmenn, 27 frá upplýsingatæknimiðstöð Reykjavíkurborgar og 16 frá upplýsingatækniþjónustu menntasviðs. Jafnframt var samþykkt að gera breytingu á skipuriti og var stöðu forstöðumanns upplýsingatækniþjónustu menntasviðs breytt í stöðu aðstoðarupplýsingatæknistjóra Reykjavíkurborgar. Starfsemi upplýsingatækniþjónustu menntasviðs verður flutt að Borgartúni 12–14. Sameiningin tekur gildi eigi síðar en 1. júní nk. með formlegum ábyrgðarskilum á milli menntasviðs og upplýsingatækni-miðstöðvar Reykjavíkurborgar.

5. Lagt fram að nýju erindi borgarráðs, dags. 20. feb. sl. þar sem óskað er eftir umsögn menntaráðs um niðurstöður starfshóps um stofnun jafnréttisskóla og umsögn fræðslustjóra þar um sem var frestað á fundi menntaráðs 25. mars sl.
Umsögn fræðslustjóra samþykkt með 4 atkvæðum gegn 3.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna óskuðu bókað:
Fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar í menntaráði ítreka þá afstöðu sem fram kemur í áliti minnihlutans um stofnun jafnréttisskóla og harma að meirihlutinn skuli ekki sýna meiri dug á sviði kynjajafnréttis er raun ber vitni. Nauðsynlegt er að efla jafnréttisfræðslu í leik- og grunnskólum með öllum tiltækum ráðum og gæti jafnréttisskólinn orðið góð og mikilvæg viðbót við það starf sem nú þegar er í boði.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks óskuðu bókað:
Reynslan í þátttöku í verkefninu jafnrétti í skólum sýnir svo ekki verði um villst að markmið jafnréttisfræðslu nást vel. Markmið verkefnisins er að efla jafnréttisfræðslu og auka samvinnu milli sveitarfélaga um jafnréttisfræðslu, auka upplýsingaflæði um fræðslu af þessum toga og búa til vettvang fyrir þá sem geta miðlað af reynslu sinni. Með áframhaldandi þátttöku í verkefninu jafnrétti í skólum er fyrirhuguð þátttaka í Evrópusamstarfi í Comenius Regio áætluninni sem er tvíhliða samstarf landa sem leiðir saman skóla og sveitarfélög. Reykjavíkurborg hefur nú þegar ýmis konar verkefni á þessu sviði, t.d. jafnréttisnám fyrir starfandi grunnskólakennara. Með þessar staðreyndir í huga telur meirihlutinn að jafnréttisfræðslu sé best fyrirkomið með verkefninu jafnrétti í skólum.

6. Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram svohljóðandi tillögu:
Menntaráð leggur til að skil grunn- og framhaldsskóla verði tekin til umræðu í Brúnni. Ræða skal hvernig skólakerfið getur eflt ráðgjöf til nemenda og foreldra með það að markmiði að sem flestir velji þá námsleið í framhaldsskóla þar sem styrkleikar og hæfileikar hvers og eins fá best notið sín.
Greinargerð fylgir.
Samþykkt.
Ákveðið hefur verið að næsti fundur Brúar muni fjalla um þetta efni.

7. Lögð fram fundargerð Brúar frá 6. mars sl.


Fundi slitið kl. 12.07

Kjartan Magnússon
Anna Margrét Ólafsdóttir Lilja Dögg Alfreðsdóttir
Marta Guðjónsdóttir Oddný Sturludóttir
Sigríður Pétursdóttir Sigrún Elsa Smáradóttir