Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

MENNTARÁÐ


Ár 2009, 11. mars var haldinn 94. fundur menntaráðs. Fundurinn var haldinn að Fríkirkjuvegi 1 og hófst kl. 10.06. Fundinn sátu Kjartan Magnússon formaður, Anna Margrét Ólafsdóttir, Elínbjörg Magnúsdóttir, Einar Örn Ævarsson, Oddný Sturludóttir og Sigríður Pétursdóttir. Auk þeirra sátu fundinn Kjartan Eggertsson, áheyrnarfulltrúi F-lista, Bergþóra Valsdóttir, áheyrnarfulltrúi SAMFOKs, Hreiðar Sigtryggsson, áheyrnarfulltrúi Skólastjórafélags Reykjavíkur og Þorgerður L. Diðriksdóttir, áheyrnarfulltrúi Kennara-félags Reykjavíkur. Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson fræðslustjóri, Auður Árný Stefánsdóttir, Jón Ingi Einarsson og Valgerður Janusdóttir.
Fundarritari var Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir.


Þetta gerðist:

1. Helena Óladóttir verkefnisstjóri Náttúruskóla Reykjavíkur kynnti starfsemi hans árið 2008. Hún lagði fram ársskýrslu skólans, rekstrarreikning ársins 2008 og stundatöflu fyrir vorið 2009. Helena gerði jafnframt grein fyrir niðurstöðum könnunar sem hún gerði um útikennslu í leik- og grunnskólum borgarinnar.
Bókun menntaráðs:
Menntaráð þakkar Helenu Óladóttur verkefnisstjóra Náttúrskóla Reykjavíkur fyrir góða kynningu. Vettvangsskólinn er samstarfsverkefni Umhverfis- og samgönguráðs, Menntasviðs, Leikskólasviðs, Landverndar og Skógræktarfélags Reykjavíkur. Verkefnið er afar metnaðarfullt og vel að því staðið af hálfu verkefnisstjóra. Menntaráð lítur á verkefnið sem mikilvægan þátt í að efla umhverfisvitund reykvískra skólabarna og hvetur skólastjóra grunnskólanna í að efla enn frekar útikennslu í skólastarfi.
Áheyrnarfulltrúi SAMFOKs óskaði bókað:
Fulltrúi foreldra í menntaráði þakkar greinargóða ársskýrslu Náttúruskóla Reykjavíkur. Verkefnisstjóri og samstarfsfólk hennar á hrós skilið fyrir mjög gott starf. Skólastjórnendur grunnskóla Reykjavíkur eru hvattir til að nýta sér þau tækifæri sem starf Náttúruskólans býður upp á til að auka fjölbreytni í kennsluháttum og efla umhverfisvitund grunnskólabarna í Reykjavík. Nauðsynlegt er að styrkja starf Náttúruskólans og efla það enn frekar.

2. Svohljóðandi tillaga samþykkt:
Menntaráð leggur til við framkvæmda- og eignaráð Reykjavíkurborgar að samrekinn leikskóli og grunnskóli fyrir 1. - 4. bekk ásamt frístundaheimili taki til starfa í Úlfarsárdal í ágúst 2010. Í því felst spennandi tækifæri í sveigjanleika á milli skólastiga og samþættingu skóla- og frístundastarfs. Í því skyni verði sem fyrst hafin bygging húsnæðis við Úlfarsbraut 118-120 sem hugsuð var sem framtíðarhúsnæði leikskóla í hverfinu. Byggingin er hönnuð sem 5-6 deilda leikskóli á 5360 m2 lóð og hentar því einnig vel fyrir starfsemi yngstu bekkja grunnskóla. Á fyrsta starfsári skólans er reiknað með 40-50 börnum á leikskólaaldri og svipuðum fjölda grunnskólabarna í 1. - 4. bekk. Gert er ráð fyrir því að skólinn „eldist” með börnunum, þ.e. árlega bætist við bekkur í skólann, jafnhliða því sem börnin verða eldri. Sambærileg tillaga verður lögð fram í leikskólaráði og íþrótta- og tómstundaráði.
Greinargerð fylgir.
Áheyrnarfulltrúi F-lista óskaði bókað:
Fulltrúinn fagnar tillögu um samrekinn leikskóla og grunnskóla fyrir 1. - 4. bekk sem taki til starfa í Úlfarsárdal í ágúst 2010 og leggur áherslu á að ef samningar nást við framkvæmda- og eignaráð að staðið verði við tillöguna í ljósi fyrirheita um viðbyggingar við Rimaskóla og Korpuskóla sem búið er að fresta ítrekað.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna óskuðu bókað:
Fulltrúarnir fagna því að leiðarljós samþættingar skóla- og frístundastarfs verði í heiðri haft í nýjum leik- og grunnskóla í Úlfarsárdal. Minnt er á skólastefnu fyrir nýja skóla í Úlfarsárdal sem samþykkt var í menntaráði 11. febrúar árið 2008, þar sem sköpun var rauður þráður skólastarfs. Eins fagna fulltrúarnir því að orðið hafi verið við tillögu þeirra um náið samráð við foreldra við undirbúning málsins. Fulltrúarnir ítreka þó þá skoðun sína að leita hefði átt allra leiða til að skólahald hefði geta hafist haustið 2009 í bráðabirgðahúsnæði. Það er mikilvægt fyrir uppbyggingu hverfisins og félagsauð þess að skólinn taki sem fyrst til starfa, enda skólinn hjarta hvers samfélags. Eins vilja fulltrúarnir leggja áherslu á að hugað verði að félagslegum aðstæðum þeirra grunnskólanemenda sem búsettir verða í Úlfarsárdal og þurfa að sækja skóla í öðru hverfi. Skólayfirvöld og ÍTR eru hvött til að vinna í nánu samstarfi við foreldra til að svo megi verða.

3. Lögð fram tillaga úthlutunarnefndar um almenna styrki menntaráðs um að eftirtaldir aðilar hljóti styrki ráðsins árið 2008:

Styrkumsóknir til menntaráðs 2009
Nr. Umsækjandi Tengiliður Verkefni Tillaga 2009:
1. Ad Astra ehf Brynja Björg Halldórsdóttir Markmið AD Astra er að veita bráðgerum og námsfúsum börnum í 6. - 10. bekkjum grunnskóla verkefni við hæfi sem eru sniðin að þörfum þeirra og áhuga. Starfsemi Ad Astra felst í tómstundastarfi í formi margvíslegra námskeiða þar sem börnum stendur til boða að læra undirstöðuatriði ákveðinnar námsgreinar í skapandi umhverfi undir handleiðslu háskólakennara ásamt öðrum börnum sem deila sama áhuga. Þetta fyrirkomulag er að miklu leyti byggð á samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar, Háskóla Íslands og Landssamtakanna Heimilis og skóla, „Bráðger börn - verkefni við hæfi“ á árunum 2001-2004 sem Meyvant Þórólfsson hafði yfirumsjón með. 300.000
2. Alþjóðahús í Breiðholti Kamilla Ingibergsdóttir Verkefnið er heimanámsaðstoð fyrir 10. bekkinga í grunnskólum í efra Breiðholti. Vinnuheitið er „Lesíukaffi“ og er samstarfsverkefni Alþjóðahúss í Breiðholti, Borgarbókasafns og Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands og mun starfsmaður frá hverjum samstarfsaðila sitja í verkefnastjórn. Megináhersla verkefnisins er heimanámsaðstoð með áherslu á skapandi unglingastarf sem miðar að því að opna augu ungmennanna fyrir möguleikunum sem eru fyrir hendi hvað framtíð þeirra varðar og styrkja sjálfsmynd þeirra. Einnig er markmiðið að draga úr brottfalli nemenda af erlendum uppruna sem er í framhaldsskólum og stuðla að uppbyggingu betri nemenda sem eru í stakk búnir að takast á við áskoranir framhaldsskólans. 100.000
3. Endurmenntun Háskóla Íslands Ragna Haraldsdóttir Verkefnið er samstarfsverkefni Endurmenntunar Háskóla Íslands, Vísindavefsins og Orkuveitu Reykjavíkur. Markmiðið er að reyna að höfða til ungs fólks með óvenjulegum og líflegum námskeiðum um leið og vekja með þeim áhuga á vísindum og fræðum. Námskeiðin hafa gengið undir heitinu Undur Vísindanna: Vísindi á verði bíóferðar, en með því viljum við hvetja foreldra og forráðamenn til að eyða laugardagseftirmiðdegi með börnum sínum og fá innsýn í heim vísindanna. 200.000
4. Erlingur Jóhannsson Kristján Þór Magnússon Rannsókn til að kanna líkamsástand barna í 2. bekk grunnskóla og finna út hvort sértækar íhlutunaraðgerðir sem stuðla að bættu mataræði og aukinni hreyfingu hafi áhrif á holdafar, þrek, beinþéttni, mataræði og blóðgildi hjá börnunum eftir tveggja ára rannsóknartímabil. 300.000
5. Fjölbrautaskólinn í Breiðholti Eiríkur Jensson Stærðfræðikeppni grunnskólanema í Breiðholti. Markmiðið er að efla og viðhalda áhuga grunnskólanemenda í Breiðholti á stærðfræði. Einnig að skapa vettvang fyrir þá sem áhuga hafa á að glíma við stærðfræði og bera færni sína saman við færni annarra eins og t.d. Í íþróttum. Í mars verður haldin keppni fyrir nemendur í 8., 9. og 10. bekk í grunnskólunum 5 í Breiðholti. 100.000
6. Fríða Vala Ásbjörnsdóttir f.h. LBVRN Sigrún Böðvarsdóttir Unga fólkið og heimabyggðin. Markmið verkefnisins er að stuðla að sátt og samstarfi borgar og byggða með jákvæðum og uppbyggilegum hætti, svo og að stuðla að aukinni sjálfsvirðingu unga fólksins í landinu, auka áhuga þess á heimabyggðinni og fá það til að líta á hana jákvæðari augum ásamt því að efla tilfinningu þess fyrir því að það geti sjálft haft eitthvað til málanna að leggja og leyst vandamál saman á lýðræðislegan hátt. Í fyrri hluta verkefnisins er lögð áhersla á frumkvæði einstalingsins og í síðari hlutanum, sem er hópvinna, reynir á aðra þætti, t.d. að geta unnið saman í hóp. 100.000
7. Icefitness ehf/Skólahreysti Andrés Guðmundsson Þakkaður er stuðningur við Skólahreysti 2008. Fyrsta skólahreystimótið fór fram vorið 2005 og tóku sex skólar þátt í að hvetja börn til að taka þátt í alhliða íþróttaupplifun sem byggð væri á grunnforsendum almennrar íþróttakennslu þar sem keppendur væru að vinna að mestu leyti með eigin líkama í þrautunum. Síðasta keppnisár Skólahreysti var það stærsta frá upphafi en 133 skólar fengu boð um þátttöku og 106 svöruðu kallinu. Með áframhaldandi fjárstuðningi er hægt að gera Skólahreysti enn öflugra og ná til fleiri barna og unglinga með því markmiði að vekja hjá þeim áhuga á skemmtilegri hreyfingu og heilbrigðum lífsstíl. 200.000
8. Jóhann Guðmundur Breiðfjörð Jóhann Guðmundur Breiðfjörð Nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda. Markmið verkefnisins er að auka þátttöku grunnskólanema í Reykjavík enn frekar með því að bjóða upp á kynningu á keppninni í öllum 6., 7. og 8. bekkjum. Þessar kynningar taka 1 klst. í hverjum bekk og skila sér yfirleitt á þann veg að hver nemandi sendir a.m.k. eina tillögu í keppnina. 200.000
9. Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna Sigurlaug Indriðadóttir Markmiðið er að fræða nemendur 3ja bekkjar grunnskóla um eld, hegðun elds, eldvarnir, öryggi heimilisins, umgengni við eld og eldfæri og viðbrögð við eldi svo og 112. Einkum er hugað að nánasta umhverfi barnanna þ.e. heimili og skóla og sérstök áhersla er lögð á varúð við fikti með eld. Börnunum er gefinn kostur á að taka þátt í Eldvarnagetrauninni. 100.000
10. Ólympíustærðfræði fyrir grunnskóla - Berglind Gísladóttir Chien Tai Shill Markmið verkefnisins er að glæða áhuga grunnskólanema á stærðfræði með því að vinna með þrautir í formi keppna. Nemendur nota stærðfræði sem þeir hafa lært í skólanum til að leysa þrautir. Með aukinni færni í þrautalausnum eflast þeir að sjálfstrausti og áræði. Verkefnið er til þess fallið að vekja og örva áhuga almennra nemenda á stærðfræði en er jafnframt það krefjandi að bráðgerir nemendur fá tækifæri til að reyna á og bæta við færni sína. 200.000
11. Vitinn - verkefnastofa /Nýsköpunarkeppni grunnskóla-nemenda Ólafur Sveinn Jóhannesson Markmið keppninnar er að gera einstaklingnum grein fyrir sköpunargáfu sinni og þroska hana í gegnum vinnu með eigin hugmyndir. Efla og þroska frumkvæði nemandans og styrkja þannig sjálfsmynd hans. Efla nýsköpunarstarf í grunnskólum og vekja athygli á hugviti barna. 200.000
Alls: 2.000.000

Samþykkt.

4. Ragnar Þorsteinsson fræðslustjóri sem jafnframt er formaður viðbragðsteymisins Börnin í borginni kynnti starf þess og afhenti 3. tbl. af fréttabréfi teymisins.

5. Endurskoðun fjárhagsáætlunar Menntasviðs 2009 lögð fram sem trúnaðarmál. Jón Ingi Einarsson, fjármálastjóri gerði grein fyrir málinu og svaraði fyrirspurnum ásamt Ragnari Þorsteinssyni fræðslustjóra og Valgerði Janusdóttur mannauðsstjóra.
Áheyrnarfulltrúi F-lista lagði fram svohljóðandi fyrirspurn:
1. Hvar er að finna upplýsingar um nýtingu fjár við rekstur hvers grunnskóla?
2. Hefur einhver annar aðili en menntaráð eftirlit með nýtingu fjár við rekstur grunnskóla og hvar er þær skýrslur að finna?

- Kl. 12.16 vék Einar Örn Ævarsson af fundi.

Bókun menntaráðs:
Menntaráð þakkar starfsmönnum Menntasviðs, kennurum, skólastjórum og öðrum starfsmönnum skóla fyrir víðtækt samráð og mikla vinnu sem lögð hefur verið af mörkum við endurskoðun fjárhagsáætlunar 2009.
Fulltrúi Samfylkingarinnar óskaði bókað:
Fulltrúi Samfylkingarinnar í menntaráði efast um að þverpólitísk leiðarljós aðgerðarhóps um að verja störfin geti staðist, verði viðbótarstund í 2. - 4. bekk felld út. Kennarar eiga rétt á tveimur tímum í yfirvinnu sem kennarar í yngstu bekkjum hafa að miklu leyti nýtt til kennslu viðbótarstunda. Kennslumagn tengt viðbótarstund samsvarar allt að 70 stöðugildum, mestmegnis unnin í yfirvinnu. Á það skal bent að aðgerðarhópur borgarráðs hefur enn ekki tekið viðbótarstund til umræðu og undrast fulltrúi Samfylkingar þá forgangsröðun formanns aðgerðarhóps. Fulltrúar Samfylkingarinnar hafa margoft bent á tækifæri til frekari samþættingar frístunda- og skólastarfs sem myndi gera skóladag yngstu barnanna innihaldsríkari og hefur jákvæð hagræn áhrif í för með sér. Fulltrúinn kallar eftir skýrari pólitískri sýn meirihlutans og stærri skrefum í þá átt af hálfu meirihlutans í borgarstjórn.

Fulltrúi Vinstri grænna óskaði bókað:
Það vekur undrun fulltrúa Vinstri grænna í menntaráði að lögð skuli fram tillaga um niðurfellingu viðbótarstundar fyrir börn í 2.-4. bekk grunnskólans, enda er skýrt kveðið á um að standa skuli vörð um grunnþjónustuna í aðgerðaráætlun borgarinnar. Þó viðbótarstundin hafi verið hugsuð fyrir heimanám og eflingu list- og verkgreina í upphafi er ljóst að hún hefur í flestum tilfellum verið notuð til almennrar kennslu og nýst hreint ágætlega. Því verður að líta svo á að hér sé um grunnþjónustu að ræða, sem börn í grunnskólum Reykjavíkur hafa notið um árabil. Þá er rétt að geta þess að niðurskurður um fimm kennslustundir á viku í þrjú ár samsvarar 540 kennslustundum hjá hverju barni (bekk/námshóp) sem er a.m.k. 15-16 vikna skólastarf í heildina. Þannig koma börnin til með að njóta minni kennslu, verði af ákvörðuninni, auk þess sem um félagslega mismunun er að ræða fyrir þau börn sem notið hafa heimanámsaðstoðarinnar. Á viðsjárverðum tímum sem þessum er varasamt að gera svo viðamiklar breytingar á högum barna, enda mikilvægt að þau upplifi öryggi og festu, í skólanum sem annars staðar. Auk þess er ljóst að hagræðingin kemur til með að leiða til þess að ráðið verði í færri stöðugildi í grunnskólum borgarinnar næsta skólaár sem er í algjöru ósamræmi við markmið aðgerðaráætlunar borgarinnar um að standa vörð um störf á hennar vegum.
Fulltrúi Vinstri grænna er andvígur niðurskurði á viðbótarstund í 2.- 4. bekk með öllu og bendir á að á meðan útsvarsprósentan er ekki fullnýtt er fráleitt að fara þessa leið til sparnaðar.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks óskuðu bókað:
Tekið skal undir að margvísleg tækifæri felast í aukinni samþættingu skóla- og frístundastarfs og eru þau til skoðunar á vettvangi ráðsins og í sérstökum starfshópi um samstarf Íþrótta- og tómstundasviðs og Menntasviðs um rekstur frístundaheimila. Rétt er að árétta að svokölluð viðbótarstund er ekki lögbundin og hefur hingað til verið skilgreind sem viðbótarþjónusta en ekki grunnþjónusta, m.a. skv. skilgreiningu Sambands íslenskra sveitarfélaga. Skólastjórnendur og starfsfólk Menntasviðs mun hér eftir sem hingað til leggja mikla áherslu á að tryggja nemendum öryggi og festu samhliða óhjákvæmilegum breytingum á skólastarfi.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram svohljóðandi fyrirspurn:
Hvernig var viðbótarstund í 2. - 4. bekk nýtt í grunnskólum borgarinnar haustið 2008?

6. Lagt fram svar við fyrirspurn fulltrúa Samfylkingarinnar frá 25. febrúar sl. varðandi skólahald í Norðlingaholti.

7. Formaður greindi frá samráðsfundi sem haldinn var með skólastjórum tónlistarskóla í Reykjavík 10. mars sl.

8. Fundir menntaráðs í apríl verða mánudaginn 6. apríl kl. 10.00-12.00 og miðvikudaginn 29. apríl kl. 10.00-12.00.

9. Áheyrnarfulltrúi Kennarafélags Reykjavíkur lagði fram svohljóðandi fyrirspurn:
Er gerður árlegur samningur við ÍTR um afnot af sundlaugum Reykjavíkur vegna skólasunds reykvískra skólabarna? Hvað felst í honum?



Fundi slitið kl. 12.30

Kjartan Magnússon
Anna Margrét Ólafsdóttir Elínbjörg Magnúsdóttir
Oddný Sturludóttir Sigríður Pétursdóttir