Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

MENNTARÁÐ

Ár 2009, 25. febrúar var haldinn 93. fundur menntaráðs. Fundurinn var haldinn að Fríkirkjuvegi 1 og hófst kl. 10.09. Fundinn sátu Lilja Dögg Alfreðsdóttir varaformaður, Eva Kamilla Einarsdóttir, Jóhanna Hreiðarsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Oddný Sturludóttir og Sigríður Pétursdóttir. Auk þeirra sátu fundinn Kjartan Eggertsson, áheyrnarfulltrúi F-lista, Bergþóra Valsdóttir, áheyrnarfulltrúi SAMFOKs og Þorgerður L. Diðriksdóttir, áheyrnarfulltrúi Kennarafélags Reykjavíkur. Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson fræðslustjóri, Auður Árný Stefánsdóttir, Jón Ingi Einarsson og Valgerður Janusdóttir.
Fundarritari var Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir.

Þetta gerðist:

1. Lagt fram bréf frá skrifstofu borgarstjórnar, dags. 12. feb. sl. þar sem kynnt er að borgarráð hefur skipað Kjartan Magnússon, Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur, Lilju Alfreðsdóttur, Oddnýju Sturludóttur og Sigríði Pétursdóttur í vinnuhóp til að móta nýja menntastefnu fyrir Reykjavík. Kjartan verður formaður hópsins. Bréfinu fylgdi einnig tillagan um vinnuhópinn og greinargerð.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna óskuðu bókað:
Fulltrúarnir lýsa sig reiðubúna að móta menntastefnu Reykjavíkur og fagna því að ábendingum Samfylkingarinnar um að samþætting frístunda- og skólamála verði veigamikill þáttur við gerð menntastefnunnar. Þeir ítreka þó að ekki er eftir neinu að bíða að nokkrir skólar hefji þegar næsta haust tilraunir með viðmiðunar-stundaskrá og samþættingu frístundastarfs og skólastarfs í yngstu bekkjum. Eins fagna þeir því að samþykkt hafi verið viðaukatillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar og Vinstri grænna um tengsl milli grunnskóla og framhaldsskóla og að haldið verði áfram þeirri vinnu sem hófst árið 2006 og miðaði að hugsanlegri yfirfærslu framhaldsskóla frá ríki til Reykjavíkurborgar.

2. Hildur Sigurðardóttir, mannauðsráðgjafi á menntasviði kynnti starfstengt íslenskunám hjá Reykjavíkurborg. Hildur og Iðunn Antonsdóttir forstöðumaður Námsflokka Reykjavíkur svöruðu fyrirspurnum.

- Kl. 10.26 tók Elínbjörg Magnúsdóttir sæti á fundinum.

Bókun menntaráðs:
Menntaráð þakkar fyrir góða kynningu á starfstengdu íslenskunámi fyrir erlenda starfsmenn á menntasviði. Menntaráð telur afar mikilvægt að starfsfólk grunnskóla af erlendum uppruna hafi kost á góðri kennslu í íslensku til að efla hæfni þeirra í að vinna með börnum og ungmennum.

3. Anna Kristinsdóttir, mannréttindastjóri Reykjavíkurborgar og Íris Björg Kristjánsdóttir, verkefnastjóri innflytjendamála mannréttindaskrifstofu kynntu skýrsluna Horft til framtíðar - Stefnumótun og aðgerðaráætlun í málefnum innflytjenda 2009-2012. Skýrslan var lögð fram á fundi menntaráðs 11. febrúar sl.

- Kl. 11.00 vék Jóhanna Hreiðarsdóttir af fundi og Anna Margrét Ólafsdóttir tók þar sæti.

Bókun menntaráðs:
Menntaráð þakkar góða kynningu á skýrslunni Horft til framtíðar – stefnumótun og aðgerðaráætlun í málefnum innflytjenda. Menntaráð samþykkir að vísa tillögunum til umsagnar til vinnuhóps um málefni barna af erlendum uppruna í grunnskólum Reykjavíkur.

4. Svohljóðandi tillaga samþykkt:
Aukið svigrúm og samvinna á milli skólastiga er í anda nýrra leik- og grunnskólalaga. Því vill menntaráð hvetja skólastjóra grunnskóla að við gerð skóladagatals hafi þeir samráð við leikskólastjóra í sínum hverfum um þrjá skipulagsdaga til að ná þessum markmiðum.
Greinargerð fylgir.

5. Varaformaður menntaráðs kynnti stöðu mála í aðgerðahópi PISA.

6. Lagt fram svar við fyrirspurnum fulltrúa Samfylkingar frá 16. desember sl. varðandi fjárhagsáætlunargerð menntasviðs.

7. Lagt fram svar við fyrirspurn fulltrúa Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúa F-lista frá 16. desember sl. varðandi yfirvinnu grunnskólakennara.

8. Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:
Í Laufásborg hófu börn grunnskólanám haustið 2007 án þess að menntaráð hafi samþykkt stofnun skólans. Sá gjörningur var kærður til ráðuneytis sem ekki hafði veitt skólanum starfsleyfi.
Þegar Barnaskóli Hjallastefnunnar hóf rekstur sinn í húsnæði Laufásborgar brutu forsvarsmenn hans ákvæði leigusamnings. Þar kvað á um að í húsnæði Laufásborgar skyldi einungis vera starfræktur leikskóli. Við þetta voru gerðar alvarlegar athugasemdir af hendi fulltrúa Samfylkingarinnar og Vinstri grænna.
Nú hefur Barnaskóli Hjallastefnunnar hafið starfsemi í öðru húsnæði sem reynist ekki hafa verið útbúið m.t.t. brunavarna. Það er þó klárlega á ábyrgð forsvarsmanna Barnaskólans en skv. 7. grein reglugerðar um hollustuhætti er það hlutverk sjálfstætt rekinna skóla að sækja um starfsleyfi til heilbrigðiseftirlits.
Ábyrgð menntaráðs nær til allra barna á grunnskólaaldri í Reykjavík. Ábyrgð menntaráðs og aðkoma að þessu máli ætti að vera að tilkynna menntamála-ráðuneytinu um óvönduð vinnubrögð, eða eins og segir í reglugerð nr. 320/2007 um viðurkenningu grunnskóla og lágmarksframlög úr sveitarsjóði til slíkra skóla: ,,Komi í ljós eða liggi fyrir rökstuddur grunur um að starfsemi grunnskóla sem hlotið hefur viðurkenningu, er ekki í samræmi við gildandi lög og reglur um grunnskóla tekur ráðuneytið slíkt til rannsóknar.”
Því er spurt:
1. Mun meirihluti menntaráðs áfram láta það viðgangast að sjálfstætt reknir skólar í Reykjavík komist upp með sleifarlag og að lúta ekki reglum og samþykktum sem gilda almennt um grunnskóla í borginni?
2. Mun meirihluti menntaráðs eða menntasvið tilkynna menntamálaráðuneytinu um ófullnægjandi leyfi, m.t.t. embættis byggingarfulltrúa, brunavarnareftirlits, heilbrigðiseftirlits og vinnueftirlits?
3. Hvernig er háttað íþrótta- og sundkennslu í nýjum grunnskóla Hjallastefnunnar við Suðurgötu? Er aðstaðan og tímafjöldi fullnægjandi miðað við gildandi aðalnámskrá?
4. Er aðstaða barnanna til leikja og afþreyingar í frímínútum fullnægjandi?
Bókun menntaráðs:
Menntaráð Reykjavíkur felur fræðslustjóra að ræða við skólastjóra Hjallastefnunnar og vekja athygli menntamálaráðuneytis á að starfsskilyrðum sé hugsanlega ábótavant við skóla Hjallastefnunnar í Suðurgötu.

9. Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram svohljóðandi fyrirspurn:
1. Hvernig er afleysingum kennara í grunnskólum Reykjavíkur háttað?
2. a) Hafa nemendur verið sendir heim í stað þess að fundin hafi verið afleysing f fyrir forfallaða kennara?
b) Ef svo er, hvaða reglur gilda þar um?
3. Hver er réttur nemenda til að fá kennslu þegar kennari er forfallaður?
4. Hver ber ábyrgð á nemendum sem sendir eru heim í stað þess að fá kennslu í forföllum?

10. Fulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:
Skólafólk í Norðlingaholti hefur útfært hugmyndir um samstarf leikskóla og grunnskóla við Norðlingaskóla þar sem hægt væri að taka við allt að 30 börnum á leikskólaaldri. Vegna góðrar stöðu starfsmannamála í Norðlingaskóla myndi ekki leiða af þessu nema óverulegur rekstrarkostnaður. Þó þyrfti að koma fyrir færanlegum kennslustofum til að auka við húsnæði Norðlingaskóla. Nú um mundir eru á milli 60-70 börn á biðlista eftir leikskólaplássi í Norðlingaholti.
Spurt er:
1. Á hverju strandar framkvæmd málsins?
2. Ef áhugi er fyrir hendi, hvenær væri hægt að taka við fyrstu börnum?

Fundi slitið kl. 12.06

Lilja Dögg Alfreðsdóttir
Anna Margrét Ólafsdóttir Elínbjörg Magnúsdóttir
Eva Kamilla Einarsdóttir Marta Guðjónsdóttir
Oddný Sturludóttir Sigríður Pétursdóttir