Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

M E N N T A R Á Ð


Ár 2008, 19. desember var haldinn 89. fundur menntaráðs. Fundurinn var haldinn að Fríkirkjuvegi 1 og hófst kl. 14.10. Fundinn sátu Kjartan Magnússon formaður, Anna Margrét Ólafsdóttir, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Oddný Sturludóttir og Sigríður Pétursdóttir. Auk þeirra sátu fundinn Ásta Þorleifsdóttir, áheyrnarfulltrúi F-lista, Bergþóra Valsdóttir, áheyrnarfulltrúi SAMFOKs, Hreiðar Sigtryggsson, áheyrnarfulltrúi Skólastjórafélags Reykjavíkur og Þorgerður L. Diðriksdóttir, áheyrnarfulltrúi Kennara-félags Reykjavíkur. Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson fræðslustjóri, Auður Árný Stefánsdóttir, Jón Ingi Einarsson og Laufey Ólafsdóttir.
Fundarritari var Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir.


Þetta gerðist:

1. Drög að starfs- og fjárhagsáætlun menntasviðs 2009 og fjárfestingaráætlun framkvæmda- og eignasviðs sem snertir menntasvið lögð fram. Ámundi Brynjólfsson skrifstofustjóri og Þorkell Jónsson, deildarstjóri mannvirkjaskrifstofu Framkvæmda- og eignasviðs Reykjavíkur komu á fundinn. Ámundi gerði grein fyrir fjárfestingar-áætluninni og svaraði fyrirspurnum þar að lútandi.
Fulltrúi Samfylkingar óskaði bókað:
Fulltrúi Samfylkingar ítrekar mikilvægi samráðs við grenndarsamfélagið, foreldra, nemendur, kennara og skólastjórnendur, þegar kemur að framtíðarlausn nemenda á unglingastigi í Staðahverfi.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks óskuðu bókað:
Meirihluti menntaráðs hefur verið í góðu samstarfi við foreldra og skólastjórnendur Korpuskóla vegna húsnæðismála skólans og mun vera það áfram.
Áheyrnarfulltrúi Kennarafélags Reykjavíkur óskaði bókað:
Fulltrúi kennara í menntaráði varar við niðurskurði til menntamála. Grunnskólinn er eina lögboðna stofnunin sem allir Íslendingar eru skyldugir að sækja. Grunnskólalög eru samkomulag þjóðar um grunnmenntun barna og ungmenna. Niðurskurður til menntamála má ekki skerða það samkomulag sem þjóðin hefur gert um framtíð landsins. Fulltrúi kennara leggur áherslu á að fjármagn til menntunar eigi að vera forgangsmál samfélagsins.
Áheyrnarfulltrúi Skólastjórafélags Reykjavíkur óskaði bókað:
Fulltrúi skólastjóra í menntaráði telur framkomnar hugmyndir um skerðingu á yfirvinnu kennara algerlega óraunhæfar. Skerðing á yfirvinnu kennara leiðir ekki til sparnaðar og er óframkvæmanleg vegna lögbundinnar viðmiðunarstundarkrár og einnig vegna gildandi kjarasamninga kennara. Bent er á að kostnaður vegna hverrar yfirvinnustundar er nánast sá sami og ef um heilsársráðningu væri að ræða við sömu kennslu. Fulltrúi skólastjóra bendir á að um leið og krafist er mikils niðurskurðar í grunnskólum eru gerðar auknar kröfur til skólanna um þjónustu og félagslegan stuðning við börn og foreldra vegna efnahagsástandsins. Mikilvægt er á tímum óvissu í þjóðfélaginu að börn og ungmenni upplifi skólann sem griðarstað þar sem jákvæðum gildum er haldið á lofti. Það er því aldrei mikilvægara en nú að standa við samþykktir borgarstjórnar um að verja grunnþjónustu borgarinnar og störf þeirra sem hjá borginni starfa.

Menntaráð samþykkti að vísa drögum að starfs- og fjárhagsáætlun Menntasviðs 2009 til borgarráðs.
Fulltrúi Samfylkingar óskaði bókað:
Því er fagnað að fæðisgjald í grunnskólum lækki og systkinaafsláttur verði tekinn upp eins og Samfylkingin benti á í bókun síðasta menntaráðsfundar. Því er fagnað að harðorð mótmæli Samfylkingar úr mennaráði varðandi niðurskurð til tónlistarskóla hafi verið tekin til greina. Eins er því fagnað að harðorð mótmæli Samfylkingar úr menntaráði varðandi það að skera alfarið niður framlög til Nýsköpunarsjóðs námsmanna hafi verið tekin til greina og þess í stað framlög til hans aukin. Samfylkingin ítrekar fyrirvara sína á raunhæfni á stórfelldum flötum niðurskurði og stórfelldri skerðingu á yfirvinnu í jafn mikilvægum málaflokki.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks óskuðu bókað:
Drög að fjárhagsáætlun eru í eðli sínu lifandi plagg sem tekur stöðugum breytingum. Eins og tíðkast í fjárhagsáætlunarvinnu hafa ýmsar breytingar og betrumbætur verið gerðar á fyrirliggjandi drögum. Ótrúlegt er að um leið og menntaráð vísar drögunum einróma til borgarráðs, skuli einn flokkur, Samfylkingin, reyna að eigna sér ákveðnar breytingar sbr. ofangreinda bókun. Fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks þakka fulltrúum allra flokka í menntaráði fyrir gott samstarf við vinnu að fjárhagsáætlun, áheyrnarfulltrúum, sem og hinum fjölmörgu starfsmönnum menntasviðs sem hafa tekið þátt í vinnunni með einum eða öðrum hætti. Að öðru leyti er vísað til bókunar fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á 88. fundi menntaráðs.
Fulltrúi Samfylkingar óskaði bókað:
Fulltrúum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks var fullfrjálst að taka undir athugasemdir Samfylkingar um einstök mál á síðasta fundi menntaráðs, eins og raunin hefur orðið í öðrum fagráðum þar sem þverpólitísk samstaða hefur náðst um ýmis atriði frumvarpsins.

Formaður óskaði fundarmönnum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári og þakkaði fyrir samstarfið á árinu sem er að líða.


Fundi slitið kl. 15.22

Kjartan Magnússon
Anna Margrét Ólafsdóttir Lilja D. Alfreðsdóttir
Marta Guðjónsdóttir Oddný Sturludóttir
Sigríður Pétursdóttir