Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

10. fundur

FRÆÐSLURÁÐ

Ár 1996, mánudaginn 14. nóvember, kl. 8.00, hélt fræðsluráð Reykjavíkur fund í Ráðhúsi Reykjavíkur og var þetta 10. fundur ráðsins. Fundinn sátu: Sigrún Magnúsdóttir, formaður, Árni Sigfússon, Hulda Ólafsdóttir, Inga Jóna Þórðardóttir og Svanhildur Kaaber. Auk þeirra sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir María Norðdal frá Kennarafélagi Reykjavíkur, Kristjana Kristjánsdóttir frá Félagi skólastjóra og Guðbjörg Björnsdóttir frá Samfok. Einnig sátu fundinn Gerður G. Óskarsdóttir, fræðslustjóri og Steinunn Stefánsdóttir, deildarstjóri almennrar skrifstofu Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur, sem ritaði fundargerð.

1. Lögð fram til afgreiðslu starfs- og fjárhagsáætlun Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur. Fulltrúar kennara lögðu fram eftirfarandi bókun: Við undirrituð áheyrnarfulltrúar kennara í fræðsluráði viljum koma eftirfarandi ábendingum á framfæri vegna starfsáætlunar Fræðslumiðstöðvar fyrir árið 1997 og óskum eftir að þær verði færðar til bókar. Í upphafi viljum við taka fram að athugasemdir okkar beinast nær eingöngu að því sem fram kemur á bls. 3-5 í þeim drögum að starfsáætlun sem send var til fulltrúa í ráðinu sl. mánudag. Í öllum meginatriðum eru drögin ásættanleg og margt þar að finna sem horfir til bóta í skólastarfinu.

a) Breytingar á rekstri til aukinnar hagræðingar og betri þjónustu. Hér viljum við koma þeirri tillögu á framfæri að þeir einkaskólar sem ekki standa í skilum með lögboðin gjöld til stéttarfélaga og annarra aðila verði sviptir öllum styrkjum af hálfu borgarinnar. Okkur líst vel á þá hugmynd að þeir skólar sem sparað geta í rekstrarkostnaði fái sparnaðinn til annarra nota í skólastarfinu og varðandi tómstunda- og félagsstarf í skólunum er það okkar álit að skólarnir eigi að fá meira í sinn hlut og axla þar með aukna ábyrgð á frítíma nemenda sinna. b) Nýmæli. Undir þessum lið eru tilgreind nokkur verkefni sem öll geta leitt til bóta í skólastarfi. Varðandi umboðsmanninn söknum við þess að kennara skuli hvergi getið. Einnig þarf að ætla skólunum fé og tíma til að sinna vímuvörnum í samræmi við áætlun hvers skóla fyrir sig og jafnframt þarf að skýra nánar á hvern hátt jafnréttisáætlanir eigi að koma inn í skólanámskrár. c) Æskileg verkefni. Við tökum heilshugar undir og fögnum flestu því sem fram kemur undir þessum lið, s.s. fjölgun námsráðgjafa, fjölgun skiptistunda, umsjón tölvuneta og tölvustofa, skólafærni-námskeið fyrir foreldra 6 ára barna og lengingu skóladags. Hins vegar bendum við á að ný viðmið vegna nemendafjölda og álag vegna þeirra brúar ekki að fullu bilið milli leikskólastigsins og grunnskólastigsins. Til þess þyrftu álagsstundirnar að koma strax með 9. nemandanum í 1. og 2. bekk. Að auki teljum við víst að í komandi kjarasamningum verði gengið frá einhverri reglu um hámarksfjölda nemenda í hverri bekkjardeild. Vegna fjölgunar uppeldisfulltrúa bendum við á að skv. reglugerð um sérkennslu er þeim eingöngu ætlað það hlutverk að annast mikið fatlaða nemendur, þannig að fjölgun uppeldisfulltrúa vegna nemenda með hegðunarvandamál er vafasöm aðgerð. Að minnsta kosti verður að gera þær kröfur að þarna verði ráðnir aðilar með uppeldismenntun (kennarar). Nafnið „sumarskóli” er mjög villandi nafngift á þeirri starfsemi sem þar fer fram og æskilegt að starfseminni verði fundið annað nafn.

Við söknum þess að sjá hvergi tillögu til að leysa vanda einsetinna skóla við að manna forföll og förum fram á að Fræðslumiðstöð sinni því. Til þess þarf fé en margar leiðir eru færar við útfærslu á slíkri „afleysingaþjónustu”. T.d. mætti yfirmanna hvern skóla eða ráða tiltekinn fjölda kennara til að sjá um forföll í einstökum hverfum borgarinnar. Að lokum viljum við ítreka bókun áheyrnarfulltrúa kennara frá fundi fræðsluráðs mánudaginn 21. október 1996.

Einnig lagði áheyrnarfulltrúi kennara fram eftirfarandi bókun: Áheyrnarfulltrúi KFR í fræðsluráði mótmælir öllum áformum um skerðingu á „ríkishluta” grunnskólans og telur það brot á samkomulagi því sem gert var við yfirfærslu grunnskólans.

Starfs- og fjárhagsáætlun vísað til afgreiðslu borgarráðs með öllum greiddum atkvæðum.

Fundi slitið kl. 10.10

Sigrún Magnúsdóttir
Árni Sigfússon Hulda Ólafsdóttir
Inga Jóna Þórðardóttir Svanhildur Kaaber