Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

16. fundur

FRÆÐSLURÁÐ

Ár 1997, mánudaginn 10. febrúar, kl. 12.00, hélt fræðsluráð Reykjavíkur fund í Fræðslumiðstöð Reykjavíkur og var þetta 16. fundur ráðsins. Fundinn sátu: Sigrún Magnúsdóttir, formaður, Árni Sigfússon, Hulda Ólafsdóttir og Svanhildur Kaaber. Auk þeirra sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Guðrún Sturlaugsdóttir frá Kennarafélagi Reykjavíkur, Kristjana M. Kristjánsdóttir frá Félagi skólastjóra og Guðbjörg Björnsdóttir frá Samfok. Einnig sátu fundinn Gerður G. Óskarsdóttir, fræðslustjóri, Arthur Morthens, forstöðumaður þjónustusviðs Fræðslumiðstöðvar, Ólafur Darri Andrason, forstöðumaður rekstrarsviðs og Steinunn Stefánsdóttir, deildarstjóri almennrar skrifstofu, sem ritaði fundargerð.

1. Í upphafi fundar bauð formaður fundarmenn sérstaklega velkomna til fyrsta fundar fræðsluráðs í nýju húsnæði Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur í gamla Miðbæjarskólanum.

2. Lagt fram bréf skólastjóra Réttarholtsskóla, dags. 29. ágúst 1996, um sérdeild í Bústaðaskóla fyrir nemendur með svo mikil hegðunarvandamál að þeir geta vart verið innan um aðra nemendur, ásamt minnisblaði frá deildarstjóra eignadeildar Fræðslumiðstöðvar um rekstrarkostnað vegna húsnæðis Bústaðaskóla, dags. 11. september 1996. Einnig lagt fram minnisblað forstöðumanns þjónustusviðs um sérdeild í Bústaðaskóla, dags. 9. febrúar 1997. Arthur Morthens gerði grein fyrir minnisblaði sínu og svaraði spurningum fræðsluráðs. Fræðsluráð samþykkir að taka frá húsnæði Bústaðaskóla frá og með næsta hausti, til að koma þar upp úrræði fyrir umræddan hóp unglinga.

3. Lagt fram bréf skólastjóra í hverfi 4 (Árbæ og Breiðholti), dags. 24. janúar 1997, varðandi ráðningu sálfræðinga beint að skólunum. Fræðsluráð telur þetta áhugaverða tillögu þegar til lengri tíma er litið en telur ekki tímabært að taka hana upp óbreytta að svo stöddu. Málinu vísað til Fræðslumiðstöðvar.

4. Lagðar aftur fram umsóknir um starfsleikninám fyrir veturinn 1997-1998. Ákvörðun frestað.

Arthur Morthens vék af fundi undir þessum lið.

5. Lögð fram greinargerð frá Jóni Björnssyni framkvæmdastjóra menningar-, uppeldis- og félagsmála, dags. 10. febrúar 1997, um samskipti einkaskóla og Reykjavíkurborgar, ásamt yfirliti yfir styrki ríkis og borgar til einkaskóla veturinn 1995-1996. Jón Björnsson kynnti greinargerð sína. Fræðslumiðstöð falið að kanna kostnað á nemanda í grunnskólum og einkaskólum út frá nokkrum mismunandi sjónarhornum. Frekari umfjöllun frestað.

6. Lögð fram, til kynningar, fundargerð bygginganefndar skóla og leikskóla frá 3. febrúar s.l.

7. Lagt fram bréf borgarverkfræðings, dags. 27. janúar 1997, um friðun Melaskóla. Fræðsluráð lýsir sig sammála friðun ytra borðs Melaskóla en telur brýnt að hugað sé að tengibyggingu milli gamla skólahússins og fyrirhugaðrar viðbyggingar við skólann.

8. Forstöðumaður rekstrarsviðs gerði grein fyrir rekstri Lýðskóla Námsflokka Reykjavíkur sem verður til húsa í Bústaðaskóla til vors.

9. Forstöðumaður rekstrarsviðs gerði grein fyrir stöðu mála varðandi Miðskólann. Borgin hefur tekið að sér að sjá nemendum skólans fyrir skólavist til vors. Samið hefur verið við eigendur að Skógarhlíð 10 um leigu á húsnæði skólans. Einnig hefur verið samið við kennara um kennslu út skólaárið.

Ólafur Darri Andrason vék af fundi eftir þennan lið.

10. Lögð fram áætlun um samstarfsverkefni gegn vímuefnaneyslu nemenda í grunnskólum Reykjavíkur og stofnun unglingamiðstöðvar sem á að hafa með höndum greiningu, ráðgjöf og meðferð. Deildarstjóri kennsludeildar gerði grein fyrir verkefninu og fjölmiðlaumræðu um það. Formaður lagði fram eftirfarandi bókun: Fræðsluráð fagnar því að Reykjavíkurborg, félagsmálaráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið, Reykjavíkurdeild Rauða kross Íslands og fleiri aðilar ætli að taka höndum saman um að reyna að draga úr vímuefnanotkun. Neysla barna á grunnskólaaldri á áfengi og öðrum vímuefnum er óásættanleg og því beinir fræðsluráð því til starfsfólks grunnskóla Reykjavíkur og Fræðslumiðstöðvar að það taki þátt í þessu samstarfi eftir því sem aðstæður leyfa. Fræðsluráð minnir á samþykkt ráðsins frá í haust um gerð vímuvarnaáætlana í skólum og fjölgun námsráðgjafa sem eiga að auðvelda skólum þessa vinnu. Fræðsluráð harmar ótímabæran og villandi fréttaflutning um þetta samstarfsverkefni og vonar að hann verði ekki til að spilla þessu mikilvæga samstarfsverkefni.

11. Lagt fram bréf skólastjóra Rimaskóla, dags. 24. janúar 1997, vegna lokunar síma í skólanum. Fræðslustjóri gerði grein fyrir að mistök hefðu átt sér stað hjá Pósti og síma.

12. Formaður lagði fram tillögur að umræðuefnum á fundum fræðsluráðs fram til vors.

Fundi slitið kl. 14.35

Sigrún Magnúsdóttir
Árni Sigfússon Hulda Ólafsdóttir
Svanhildur Kaaber