Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

17. fundur

FRÆÐSLURÁÐ

Ár 1997, mánudaginn 17. febrúar, kl. 12.00, hélt fræðsluráð Reykjavíkur fund í Árbæjarskóla og var þetta 17. fundur ráðsins. Fundinn sátu: Sigrún Magnúsdóttir, formaður, Árni Sigfússon, Guðmundur Gunnarsson, Hulda Ólafsdóttir og Kristín Dýrfjörð. Auk þeirra sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Guðrún Sturlaugsdóttir frá Kennarafélagi Reykjavíkur, Kristjana M. Kristjánsdóttir frá Skólastjórafélagi Reykjavíkur og Kristín Jónasdóttir frá Samfok. Einnig sátu fundinn Þorsteinn Sæberg Sigurðsson skólastjóri Árbæjarskóla, Marinó Þ. Guðmundsson aðstoðarskólastjóri, Gerður G. Óskarsdóttir fræðslustjóri, Arthur Morthens forstöðumaður þjónustusviðs og Steinunn Stefánsdóttir deildarstjóri almennrar skrifstofu, sem ritaði fundargerð.

1. Skólastjóri bauð fundarmenn velkomna og sagði frá Árbæjarskóla í nokkrum orðum. Tveir nemendur úr 10. bekk skólans, María Rún Bjarnadóttir og Melkorka Ólafsdóttir, fluttu ljóð eftir þá síðarnefndu.

2. Lagt fram yfirlit yfir mál sem borist hafa fræðsluráði Reykjavíkur en hafa ekki verið lögð fyrir ráðið heldur eru til afgreiðslu hjá Fræðslumiðstöð.

3. Lagt fram yfirlit yfir erindi til fræðsluráðs Reykjavíkur í nóvember og desember 1996 og janúar 1997 og afgreiðslu þeirra.

4. Guðmundur Gunnarsson ítrekaði fyrirspurn sína frá 2. desember varðandi starfsemi Námsflokka Reykjavíkur. Svar hefur ekki borist frá Námsflokkunum. Fræðslustjóra falið að ýta eftir svari.

5. Lagt fram yfirlit yfir námskeið á árinu 1997 á vegum Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur og Kennaraháskólans. Forstöðumaður þjónustusviðs gerði grein fyrir tilurð námskeiðsáætlunar Fræðslumiðstöðvar sem hefur verið unnin í náinni samvinnu við skólana.

6. Fræðsluráð samþykkir að veita kennurum Grandaskóla og Hlíðaskóla kennsluafslátt vegna starfsleiknináms á næsta skólaári. Kennarar beggja skóla fái einnar stundar kennsluafslátt á viku.

Arthur Morthens vék af fundi eftir þennan lið.

7. Formaður lagði fram eftirfarandi fyrirspurn: Fræðsluráð óskar eftir að fá upplýsingar um framkvæmd 41. grein grunnskólalaganna í skólum borgarinnar svo og reglugerðar frá 26. júní 1996 um skólareglur og aga í grunnskólum. 1. Hafa allir skólar borgarinnar sett sér skólareglur? 2. Kemur alls staðar skýrt fram í reglunum hvernig skólinn bregst við brotum á þeim? 3. Hafa skólareglur verið birtar í skólanámsskrá skólanna og kynntar nemendum og foreldrum? 4. Hafa skólarnir í borginni samræmdar skólareglur? 5. Hversu oft hefur nemanda verið vikið úr skóla um stundarsakir þetta skólaár? Óskast sundurliðað á skóla. 6. Hversu mörgum nemendum hefur verið vikið úr skóla lengur en eina kennsluviku? Ef það hefur verið gert, þá úr hvaða skóla?

Fulltrúi foreldra óskaði jafnframt eftir því að svar fengist við spurningunni hvort skólareglur væru unnar í samráði við foreldraráð skóla.

8. Lögð fram eftirfarandi tillaga um aðbúnað í skólum: Fræðsluráð samþykkir að við útboð og val á búnaði í grunnskólum Reykjavíkur verði eftirfarandi haft að leiðarljósi: 1. Að búnaður hæfi stærð barnanna, þannig að annað hvort verði boðið upp á fjölbreytt úrval af mismunandi hæðum eða að búnaður sé stillanlegur og tryggi þannig góða og fjölbreytta líkamsbeitingu. Með búnaði er átt við borð og stóla í kennslustofum og búnað í verkemenntastofum m.a. hefilbekki. 2. Að búnaður tengdur vinnuaðstæðum kennara uppfylli kröfur um góðan aðbúnað (sbr. Leiðbeiningar Vinnueftirlits ríkisins). 3. Að allur búnaður taki mið af því að auðvelt sé að ræsta skólann. 4. Leitast verði við að velja íslenskt. Samþykkt og vísað til byggingarnefndar skóla og leikskóla.

9. Hulda Ólafsdóttir gerði grein fyrir ráðstefnu norrænna höfuðborga um fjölmenningarborgir, þ.e. borgir þar sem hópar fólks af erlendu bergi brotið á heima.

10. Fræðslustjóri kynnti störf starfshóps um 6-7 stunda vinnudag nemenda. Hópurinn hefur nú meðal annars safnað upplýsingum og hugmyndum um mannaflaþörf, máltíðir, vinnutíma kennara, búnað og lóðir. Hópurinn gerir ráð fyrir að ljúka störfum í mars.

11. Lagðar fram tillögur Fræðslumiðstöðvar, auk greinargerða, að úthlutun almennra styrkja á sviði menntamála. Tillögur ræddar. Eftirfarandi styrkir samþykktir: Tónlistarskólar: Nýi söngskólinn Hjartansmál 300þ Söngsmiðjan ehf. 1,300þ Nýi músikskólinn 700þ Tónlistarskólinn Do-Re-Mi 3,500þ Tónskóli Guðmundar frestað til hausts Aðrir skólar: Myndlistarskólinn í Reykjavík 3,000þ Tómstundaskólinn 1,200þ Landakotsskóli – vegna 100 ára afmælis 150þ Söfn: Þjóðminjasafn Íslands – heimsóknir gömlu jólasveinanna í desember 0 Þjóðminjasafn Íslands – safnakennari 0

Annað: Nýsköpunarkeppni grunnskóla 382þ Samfok 1,800þ Íþróttafélag fatlaðra 0 Þjónustumiðstöð fyrir náms- og starfsráðgjöf 0 Danskennsla í skólum 800þ Leikfélag Reykjavíkur og Íslenski dansflokkurinn 2,500þ Marteinn Sigurgeirsson vegna myndbands um Ármann Kr. Einarsson 150þ

12. Lögð fram eftirfarandi tillaga um ráðningamál kennara: Fræðsluráð samþykkir að Fræðslumiðstöð afgreiði ráðningar kennara, leyfisveitingar og stöðubreytingar fyrir hönd ráðsins í samráði við skólastjóra. Ráðningar kennara og stöðubreytingar skulu kynntar fræðsluráði. Samþykkt samhljóða.

Fundi slitið kl. 13.55

Sigrún Magnúsdóttir
Árni Sigfússon Guðmundur Gunnarsson
Hulda Ólafsdóttir Kristín Dýrfjörð