Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

23. fundur

FRÆÐSLURÁÐ

Ár 1997, mánudaginn 21. apríl, kl. 12.00, hélt fræðsluráð Reykjavíkur fund í Ráðhúsi Reykjavíkur og var þetta 23. fundur ráðsins. Fundinn sátu: Sigrún Magnúsdóttir formaður, Árni Sigfússon, Hulda Ólafsdóttir og Svanhildur Kaaber. Auk þeirra sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Finnbogi Sigurðsson og María Norðdahl frá Kennarafélagi Reykjavíkur, Kristjana M. Kristjánsdóttir frá Skólastjórafélagi Reykjavíkur og Guðbjörg Björnsdóttir frá Samfok. Einnig sátu fundinn Gerður G. Óskarsdóttir fræðslustjóri og Steinunn Stefánsdóttir deildarstjóri almennrar skrifstofu, sem ritaði fundargerð.

1. Lagt fram bréf fræðslustjóra, dags. 17. apríl s.l., um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa fræðsluráði.

2. Lagt fram að nýju svar Námsflokka Reykjavíkur við fyrirspurn Guðmundar Gunnarssonar frá 2. desember 1996 um starfsemi Námsflokka Reykjavíkur.

3. Lögð fram til kynningar að nýju skýrsla vinnuhóps um tengsl skóla og menningarstofnana. Elín G. Ólafsdóttir og Þorbjörg Br. Gunnarsdóttir kynntu skýrsluna. Formaður lagði fram eftirfarandi bókun: Fræðsluráð fagnar skýrslu starfshóps um tengsl skóla og menningarstofnana í Reykjavík og leggur áherslu á að fræðsluyfirvöld og menningarstofnanir borgarinnar móti skýra stefnu um samskipti sín. Fræðsluráð leggur áherslu á að skýrslan verði kynnt starfsfólki grunnskóla og foreldrafélögum. Einnig lögð fram tillaga með starfslýsingu kennsluráðgjafa í listum og menningu í framhaldi af fyrrnefndri skýrslu. Samþykkt. 4. Lögð fram skýrsla starfshóps um 6-7 stunda vinnudag nemenda. Fræðslustjóri gerði grein fyrir skýrslunni. Formaður lagði fram eftirfarandi bókun: Fræðsluráð Reykjavíkur þakkar starfshópnum, um vinnudag nemenda eftir einsetningu og lengdan skóladag, frábær störf og mikla vinnu að hugmyndabanka og framtíðarsýn að skipulagi vinnudags nemenda. Þá er það mjög mikilvægt að tengja þessa framtíðarsýn að endurskipulagningu skólahúsnæðis borgarinnar. Fræðsluráð gerir sér grein fyrir að skólabyggingar svo og hefðir og siðir innan skóla borgarinnar eru mismunandi, þess vegna er mikilvægt að skólunum verði gert kleift að móta skóladaginn hver á sínum stað í samráði Fræðslumiðstöð. Fræðsluráð beinir því þeirri áskorun til grunnskólanna í Reykjavík, einkum þeirra sem þegar eru einsetnir, að skoða gaumgæfilega þær hugmyndir sem settar eru fram í skýrslu starfshópsins og athuga hvort þeir geti hugsanlega breytt einhverju í starfsemi sinni innan núverandi fjárhagsramma til að undirbúa lengdan skóladag. Einnig eru foreldraráð grunnskóla borgarinnar hvött til að kynna sér efni skýrslunnar. Fræðsluráð mun fara vandlega yfir hugmyndirnar fram að næstu fjárhagsáætlunargerð og leggja þá fram tillögu til næstu þriggja ára um skipulag vinnudags nemenda í skólum borgarinnar.

5. Lögð fram drög að markmiðum Fræðslumiðstöðvar. Frekari umræðu frestað til næsta fundar.

6. Lögð fram til kynningar drög að samningi milli Reykjavíkurborgar, Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og Sambands íslenskra sveitarfélaga um rekstur sérskóla og sérdeilda sem áður voru reknir sem sérskólar ríkisins. Ólafur Darri Andrason gerði grein fyrir samningnum. Fræðsluráð gerir ekki athugasemd við samninginn fyrir sitt leyti.

7. Lagðar fram að nýju viðmiðunarreglur Fræðslumiðstöðvar um launalaus leyfi kennara og skólastjóra í grunnskólum Reykjavíkur. Frestað.

8. Skipulag skólastarfs næsta skólaár. Frestað.

9. Lagt fram til kynningar yfirlit starfsmannadeildar Fræðslumiðstöðvar um afgreiðslur kennaramála, dags. 19. apríl s.l.

10. Lögð fram til kynningar starfslýsing skólastjóra grunnskóla Reykjavíkurborgar. Fræðslustjóri kynnti starfslýsinguna.

11. Rætt um fjárupphæð barnabókaverðlauna fræðsluráðs. Vísað til afgreiðslu Fræðslumiðstöðvar í samráði við formann og Huldu Ólafsdóttur.

Fundi slitið kl. 14.05

Sigrún Magnúsdóttir
Árni Sigfússon Hulda Ólafsdóttir
Svanhildur Kaaber