Skóla- og frístundaráð
Leikskólaráð
Ár 2009, 11. mars kl. 14:00 var haldinn 53. fundur leikskólaráðs í fundarherbergi ráðsins að Fríkirkjuvegi 1. Fundinn sátu: Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir formaður, Fanný Gunnarsdóttir,
Einar Örn Ægisson, Ragnar Sær Ragnarsson, Oddný Sturludóttir, Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir og Hermann Valsson. Auk þeirra sátu fundinn Helga Þórðardóttir, áheyrnarfulltrúi F- lista, Þórunn Gyða Björnsdóttir, áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra, Halldóra Guðmundsdóttir, áheyrnarfulltrúi starfsmanna í leikskólum og Ólöf Kristjánsdóttir, áheyrnarfulltrúi samtakanna Börnin okkar. Jafnframt sátu fundinn Ragnhildur Erla Bjarnadóttir sviðsstjóri, Kolbrún Vigfúsdóttir og Ingunn Gísladóttir.
Fundargerð ritaði Laura Bergs.
Þetta gerðist:
1. Gunnar Eydal, sérfræðingur í Ráðhúsi Reykjavíkur kom á fundinn og fór yfir fundarreglur og fundarsköp fagráða Reykjavíkurborgar.
2. Ragnar Þorsteinsson, fræðslustjóri og formaður viðbragðsteymisins Börnin í borginni gerði kynnti starf þess og afhenti 3. tbl. af fréttabréfi teymisins.
3. Ársskýrsla Náttúruskólans 2008 var lögð fram og Helena Óladóttir, verkefnastjóri kynnti starfsemi skólans árið 2008. Hún gerði jafnframt grein fyrir niðurstöðum könnunar sem hún gerði um útikennslu í leik- og grunnskólum borgarinnar.
4. Embættisafgreiðslur leikskólaráðs, eitt mál. Ekki voru gerðar athugasemdir við afgreiðsluna en óskað var nánari upplýsinga.
5. Lagt fram svar sviðsstjóra við fyrirspurn fulltrúa Samfylkingarinnar á fundi leikskólaráðs 15. desember sl. varðandi fjárhagsáætlunargerð Leikskólasviðs.
6. Lagt fram svar sviðsstjóra við fyrirspurn Samfylkingarinnar frá síðasta fundi um skólahald í Norðlingaholti.
7. Lagt fram yfirlit yfir nýtingu leikskóla dags. 1. mars sl.
8. Endurskoðun fjárhagsáætlunar Leikskólasviðs 2009 lögð fram sem trúnaðarmál.
Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu og svaraði fyrirspurnum.
Bókun leikskólaráðs:
Leikskólaráð þakkar starfsfólki leikskólanna og starfsfólki á aðalskrifstofu Leikskólasviðs fyrir víðtækt samráð og mikla vinnu sem lögð var af mörkum við endurskoðun fjárhagsáætlunar 2009.
9. Svohljóðandi tillaga um skólahald í Úlfarsárdal samþykkt samhljóða:
Leikskólaráð leggur til við framkvæmda- og eignaráð Reykjavíkurborgar að samrekinn leikskóli og grunnskóli fyrir 1. - 4. bekk ásamt frístundaheimili taki til starfa í Úlfarsárdal í ágúst 2010. Í því felst spennandi tækifæri í sveigjanleika á milli skólastiga og samþættingu skóla- og frístundastarfs. Í því skyni verði sem fyrst hafin bygging húsnæðis við Úlfarsbraut 118-120 sem hugsuð var sem framtíðarhúsnæði leikskóla í hverfinu. Byggingin er hönnuð sem 5-6 deilda leikskóli á 5360 m2 lóð og hentar því einnig vel fyrir starfsemi yngstu bekkja grunnskóla.
Á fyrsta starfsári skólans er reiknað með 40-50 börnum á leikskólaaldri og svipuðum fjölda grunnskólabarna í 1. – 4. bekk. Gert er ráð fyrir því að skólinn „eldist” með börnunum, þ.e. árlega bætist við bekkur í skólann, jafnhliða því sem börnin verða eldri.
Sambærileg tillaga verður lögð fram í menntaráði og íþrótta- og tómstundaráði.
Greinargerð fylgdi tillögunni.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna óskuðu bókað:
Fulltrúarnir fagna því að leiðarljós samþættingar skóla- og frístundastarfs og náið samstarf skólastiga verði í heiðri haft í nýjum leik- og grunnskóla í Úlfarsárdal. Eins fagna fulltrúarnir því að orðið hafi verið við tillögu þeirra um náið samráð við foreldra við undirbúnings málsins. Fulltrúarnir ítreka þó þá skoðun sína að leita hefði átt allra leiða til að skólahald hefði geta hafist haustið 2009 í bráðabirgðahúsnæði. Það er mikilvægt fyrir uppbyggingu hverfisins og félagsauð þess að leik- og grunnskóli taki sem fyrst til starfa, enda skólinn hjarta hvers samfélags.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks óskuðu bókað:
Meirihluti leikskólaráðs fagnar mjög þessari samþykkt og telur að með henni nýtist fjármagn til varanlegrar uppbyggingar. Leikskólinn fer strax í endanlegt húsnæði og starfsemi grunnskólans verður á sama svæði og fyrirhugaður grunnskóli og íþróttasvæði. Jafnframt gefst spennandi tækifæri til samreksturs leikskóla, grunnskóla og frístundaheimilis í Reykjavík sem er í samræmi við áherslur Reykjavíkurborgar í menntamálum og ný lög um leik- og grunnskóla. Fjármögnun vegna þessa er innan „gildandi” 3ja ára áætlunar vegna leikskóla og grunnskóla í Úlfarsárdal.
10. Lagt fram yfirlit yfir næstu fundi leikskólaráðs.
11. Formaður minnti fundarmenn á fund Brúar – samráðsvettvangs um skólamál – sem haldinn verður í sal Miðbæjarskólans á morgun, fimmtudag 12. mars kl. 16:00.
Fundi slitið kl. 16:15
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir
Fanný Gunnarsdóttir Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir
Einar Örn Ægisson Hermann Valsson
Ragnar Sær Ragnarsson Oddný Sturludóttir