Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

26. fundur

FRÆÐSLURÁÐ

Ár 1997, mánudaginn 12. maí, kl. 12.00, hélt fræðsluráð Reykjavíkur fund í Ráðhúsi Reykjavíkur og var þetta 26. fundur ráðsins. Fundinn sátu: Sigrún Magnúsdóttir formaður, Árni Sigfússon, Guðmundur Gunnarsson, Kristín Dýrfjörð og Svanhildur Kaaber. Auk þeirra sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Guðrún Sturlaugsdóttir frá Kennarafélagi Reykjavíkur, Kristjana M. Kristjánsdóttir frá Skólastjórafélagi Reykjavíkur og Guðbjörg Björnsdóttir frá Samfok. Einnig sátu fundinn Ólafur Darri Andrason forstöðumaður rekstrarsviðs, Guðbjörg Andrea Jónsdóttir forstöðumaður þróunarsviðs og Steinunn Stefánsdóttir deildarstjóri almennrar skrifstofu, sem ritaði fundargerð.

1. Lagðar fram til kynningar fundargerðir bygginganefndar skóla og leikskóla frá 28. og 30. apríl sl.

2. Lagt fram til kynningar bréf skólastjóra í Reykjavík, dags. 25. apríl sl., varðandi kennslutíma nemenda í grunnskólum, ásamt svari Fræðslumiðstöðvar, dags. 5. maí sl.

3. Lögð fram eftirfarandi tillaga formanns um starfslok skóladagheimila og húsnæðismál heilsdagsskóla í þeim skólum sem skóladagheimilin hafa þjónað:
Samkvæmt starfsáætlun Fræðslumiðstöðvar 1997 er gert ráð fyrir að starfsemi síðustu fjögurra skóladagheimilanna í borginni verði hætt frá og með hausti 1997. Þessi heimili eru Hagakot, Hraunkot, Stakkakot og Völvukot.
Fræðsluráð felur Fræðslumiðstöð, í samvinnu við viðkomandi skólastjóra að vinna áfram að nauðsynlegum úrbótum sem þessum skipulagsbreytingum fylgja. Fræðsluráð leggur áherslu á að tryggja þeim börnum, sem nú njóta þjónustu skóladagheimila, þjónustu í lengdri viðveru sinna skóla þar til einsetning og lenging skóladagsins er í höfn. Þá verður grundvallarbreyting á lengdri viðveru skólabarna, sem miðast frekar að fjölbreyttu tómstundastarfi í kjölfar skóladagsins í 2-3 klukkustundir.
Breytingar og/eða lagfæringar á húsnæði skólanna verði skoðaðar í samvinnu við bygginganefnd skóla og leikskóla og byggingadeild borgarverkfræðings, samanber meðfylgjandi greinargerð.
Samþykkt samhljóða.

4. Lagt fram til kynningar bréf menntamálaráðuneytis, dags. 21. apríl sl., um prófdaga og prófgreinar í samræmdum prófum 1998.

5. Lagt fram til kynningar bréf skólastjóra Vogaskóla, dags. 30. apríl sl.

6. Lögð fram tillaga fræðslustjóra um að ráða Ingibjörgu Maríu Möller og Kristján Sigfússon aðstoðarskólastjóra í Hlíðaskóla.
Samþykkt samhljóða með þeim ráðningarskilyrðum að þar sem þau eru ráðin saman í stöðuna verði öll staðan laus til umsóknar, segi annað upp.

7. Lögð fram tillaga fræðslustjóra um að ráða Hilmar Hilmarsson skólastjóra í Ölduselsskóla til eins árs.
Samþykkt samhljóða.

8. Lagt fram til kynningar yfirlit starfsmannadeildar Fræðslumiðstöðvar um afgreiðslur kennaramála, dagsett 12. maí 1997.

9. Lögð fram að nýju Fimm ára áætlun um einsetningu grunnskóla Reykjavíkur.
Frestað.

10. Lögð fram eftirfarandi fyrirspurn frá áheyrnarfulltrúa foreldra í fræðsluráði.
Samkvæmt nýjum grunnskólalögum frá 1995 ber foreldraráðum skólanna að fá til umsagnar áætlanir um skólahald í sveitarfélaginu.
Hverjar eru fyrirætlanir fræðsluráðs Reykjavíkur um að kynna og senda foreldraráðum við grunnskóla borgarinnar áætlanir sveitarfélagsins um skólahald til umsagnar og hvernig verður unnið með slíkar umsagnir?
Hér er um að ræða áætlanir skólanefndar eins og t.d. um
· byggingamál og einsetningu
· skólatíma, kennslustundafjölda, kennsludaga (skóladagatal)
· úthlutun kennslukvóta
· fjölda barna í bekkjum

Fundi slitið kl. 14.10

Sigrún Magnúsdóttir
Árni Sigfússon Guðmundur Gunnarsson
Kristín Dýrfjörð Svanhildur Kaaber