Skóla- og frístundaráð
27. fundur
FRÆÐSLURÁÐ
Ár 1997, þriðjudaginn 20. maí, kl. 12.00, hélt fræðsluráð Reykjavíkur fund í Ráðhúsi Reykjavíkur og var þetta 27. fundur ráðsins. Fundinn sátu: Sigrún Magnúsdóttir formaður, Árni Sigfússon, Guðmundur Gunnarsson, Hulda Ólafsdóttir og Svanhildur Kaaber. Auk þeirra sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir María Norðdahl frá Kennarafélagi Reykjavíkur, Kristjana M. Kristjánsdóttir frá Skólastjórafélagi Reykjavíkur, Guðbjörg Björnsdóttir frá Samfok og Guðmundur Pálmi Kristinsson og Rúnar Gunnarsson frá byggingadeild borgarverkfræðings. Einnig sátu fundinn Ólafur Darri Andrason forstöðumaður rekstrarsviðs, Guðbjörg Andrea Jónsdóttir forstöðumaður þróunarsviðs og Steinunn Stefánsdóttir deildarstjóri almennrar skrifstofu, sem ritaði fundargerð.
1. Lögð fram að nýju Fimm ára áætlun um einsetningu allra grunnskóla í Reykjavík. Formaður kynnti bókun fundar foreldraráða og stjórna foreldrafélaga Selás-, Ártúns- og Árbæjarskóla frá 15. maí sl., og lagði fram eftirfarandi tillögu: Fræðsluráð leggur til að fram fari vönduð forsögn um þörfina fyrir viðbyggingu og endurbætur á Árbæjarskóla þannig að bekkjardeildirnar í 1.-7. bekk verði aðskildar frá unglingadeildunum. Árbæjarskóli er afar vel staðsettur í hverfinu með tilliti til umferðar og umhverfis. Íþróttasvæði Fylkis, Árbæjarsundlaugin og félagsmiðstöðin Ársel er allt í nágrenni skólans þannig að ekki er yfir neina götu að fara. Fimm ára áætlunin samþykkt samhljóða og vísað til afgreiðslu borgarráðs.
Formaður óskaði eftirfarandi bókað: Fræðsluráð hefur samþykkt að vísa til borgarráðs metnaðarfullri áætlun um einsetningu allra grunnskóla borgarinnar til næstu fimm ára. Samkvæmt henni þarf um milljarð á ári til skólabygginga. Haustið 1997 eru 17 (18) af 29 skólum borgarinnar einsetnir. Brýnt og nauðsynlegt er að ítreka að áætlunin verður endurskoðuð á hverju ári við gerð fjárhagsáætlunar. Fræðsluráð vill nota tækifærið og þakka þeim fjölmörgu sem unnið hafa að áætluninni. Þessi vinna hefur staðið yfir meira og minna í tvö ár. Áætlunin tekur mið af niðurstöðum rýmisathugunar, sem unnin var á vegum byggingadeildar borgarverkfræðings og bygginganefndar skóla og leikskóla. Markmið áætlunarinnar eru að byggja nýja skóla og viðbyggingar við þá eldri og að taka mið af grunnskólaskólastarfi nýrrar aldar, þ.e.a.s. einsetningu og 6-7 stunda vinnudegi nemenda. Allir skólarnir eru metnir frá sömu forsendum og vönduð forsögn um Engjaskóla höfð til hliðsjónar. Þessi vinna hefur á undirbúningsstigi verið kynnt á fjölmörgum fundum með skólastjórnendum, foreldrum og á opnum hverfafundum. Í kjölfar þessarar samþykktar verða haldnir fundir með skólastjórnendum og foreldraráðum í hverjum skóla fyrir sig til að vinna að nánari forsögn að byggingaframkvæmdum.
Guðmundur Gunnarsson vék af fundi undir þessum lið, kl. 9.05.
2. Lögð fram til kynningar áætlun um kennslukvóta og fjölda bekkjardeilda skólaárið 1997-1998. Fræðsluráð gerir ekki athugasemdir fyrir sitt leyti við úthlutun kennslumagns fyrir næsta skólaár, enda er þar að öllu farið eftir forsendum starfsáætlunar Fræðslumiðstöðvar.
3. Lagt fram og dreift til fræðsluráðsfulltrúa rit Þjóðmálanefndar Þjóðkirkjunnar, Um sjálfsvíg, sem varaformaður tók á móti, fyrir hönd fræðsluráðs, á kynningarfundi Þjóðmálanefndar.
4. Lagt fram bréf, dags. 16. maí sl., um leyfi til að dreifa bókum um Robba rottu til nemenda í 4. bekk. Samþykkt.
5. Árni Sigfússon óskaði eftir upplýsingum til fræðsluráðs um niðurstöður samræmdra prófa í 4. og 6. bekk í Reykjavík.
Fundi slitið kl. 9.45
Sigrún Magnúsdóttir
Árni Sigfússon Hulda Ólafsdóttir
Svanhildur Kaaber