Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

40. fundur

FRÆÐSLURÁÐ

Ár 1997, mánudaginn 27. október, kl. 12.00, hélt fræðsluráð Reykjavíkur fund í Ráðhúsi Reykjavíkur og var þetta 40. fundur ráðsins. Fundinn sátu: Sigrún Magnúsdóttir formaður, Árni Sigfússon, Guðmundur Gunnarsson, Hulda Ólafsdóttir og Svanhildur Kaaber. Auk þeirra sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Guðrún Sturlaugsdóttir og María Norðdahl frá Kennarafélagi Reykjavíkur, Guðmundur Sighvatsson frá Skólastjórafélagi Reykjavíkur og Guðbjörg Björnsdóttir frá Samfok. Einnig sátu fundinn Gerður G. Óskarsdóttir fræðslustjóri og Steinunn Stefánsdóttir deildarstjóri almennrar skrifstofu, sem ritaði fundargerð.

1. Lögð fram fundargerð byggingarnefndar skóla og leikskóla frá 20. október sl.

2. Lagt fram erindi frá Græna lífseðlinum, átaksverkefni heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og Íþróttasambands Íslands, dags. 14. október sl. Markmið verkefnisins eru kynnt og óskað eftir samvinnu við íþróttakennara grunnskóla við að gefa 12 ára börnum bol og epli í samvinnu við Manneldisráð og Tóbaksvarnanefnd. Skólar í Reykjavík vinna með sömu markmið og Græni lífseðillinn þannig að átakið fellur vel að markmiðum skólanna. Fræðslumiðstöð falið að kanna verkefnið nánar og afgreiða erindið. Svanhildur Kaaber óskaði bókað að hún væri alfarið á móti öllum auglýsingum í skólum, þ.m.t. á bolum sem skólabörnum eru gefnir.

3. Fræðslustjóri sagði frá heimsóknum sínum á þrjár fræðsluskrifstofur og í nokkra skóla í Bandaríkjunum í maí og júní sl., auk viðtala við aðila sem stunda rannsóknir á sviði menntamála.

4. Lagt fram til kynningar yfirlit yfir málaflokka sem ræddir voru á hugarflugsfundum fræðslustjóra með fræðsluráði, skólastjórum, kennararáðum, foreldraráðum og starfsmönnum Fræðslumiðstöðvar. Á næsta fundi fræðsluráðs verður rætt um forgangsröðun fræðsluráðs vegna starfsáætlunar Fræðslumiðstöðvar fyrir árið 1998.

5. Lagðar fram ályktanir frá foreldrafélagi og foreldraráði Háteigsskóla dags. 3. október sl., Samfok, dags. 16. október sl., og foreldraráði og fulltrúaráði Foreldrafélags Ölduselsskóla, dags. 21. október sl. Allar ályktanirnar lýsa þungum áhyggjum vegna yfirstandandi kjaradeilu grunnskólakennara og sveitarfélaga.

6. Lagðar fram til kynningar starfsreglur fyrir Bjarkarhlíð – sérdeild við Réttarholtsskóla.

7. Lagt fram yfirlit yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa fræðsluráði, dags. 21. október sl.

8. Formaður spurðist fyrir um hvað liði vinnu í Fræðslumiðstöð við yfirlestur skólanámskráa vegna umsagnar fræðsluráðs. Fræðslustjóri greindi frá því að Ingvar Sigurgeirsson dósent við Kennaraháskóla Íslands hefði tekið að sér leiðsögn við kennsluráðgjafa á kennsludeild og umboðsmann foreldra og skóla við gerð viðmiða til að styðjast við þegar skólanámskrár eru skoðaðar. Þessi viðmið geta síðan orðið grunnur að leiðbeiningum við gerð skólanámskráa og kynningarrita fyrir foreldra.

Fundi slitið kl. 13.50

Sigrún Magnúsdóttir
Árni Sigfússon Guðmundur Gunnarsson
Hulda Ólafsdóttir Svanhildur Kaaber