Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

45. fundur

FRÆÐSLURÁÐ

Ár 1998, mánudaginn 19. janúar, kl. 12.00, hélt fræðsluráð Reykjavíkur fund í Ráðhúsi Reykjavíkur og var þetta 45. fundur ráðsins. Fundinn sátu: Sigrún Magnúsdóttir formaður, Árni Sigfússon, Svanhildur Kaaber, Guðmundur Gunnarsson og Hulda Ólafsdóttir. Auk þeirra sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Hannes K. Þorsteinsson frá Kennarafélagi Reykjavíkur, Guðmundur Sighvatsson frá Skólastjórafélagi Reykjavíkur og Guðbjörg Björnsdóttir frá Samfok. Einnig sátu fundinn Gerður G. Óskarsdóttir fræðslustjóri, Ólafur Darri Andrason forstöðumaður rekstrarsviðs, Guðbjörg Andrea Jónsdóttir forstöðumaður þróunarsviðs og Steinunn Stefánsdóttir deildarstjóri almennrar skrifstofu, sem ritaði fundargerð.

1. Formaður setti fund, óskaði fræðsluráði gleðilegs árs og þakkaði samstarfið á liðnu ári.

2. Lagt fram bréf Kennarafélags Reykjavíkur, dags. 12 janúar sl., þar sem tilkynnt er að Hannes K. Þorsteinsson hafi verið skipaður áheyrnarfulltrúi í fræðsluráði í stað Maríu Norðdahl.

3. Lögð fram fundargerð bygginganefndar skóla frá 12. janúar sl.

4. Lagt fram til kynningar bréf borgarstjóra, dags. 24 desember 1997, þar sem greint er frá erindi foreldraráðs Selásskóla varðandi röðun skólans í einsetningaráætlun sem kynnt er í Starfsáætlun Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur.

5. Lagt fram til kynningar bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags 13. janúar sl., ásamt ályktunartillögu borgarfulltrúa Reykjavíkurlistans, sem samþykkt var í borgarstjórn 18. desember sl., um að verja 55 m.kr. af búnaðarlið til að gera stórátak í tölvuvæðingu grunnskólanna

6. Lagt fram til kynningar bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. 13. janúar sl., ásamt ályktunartillögu borgarfulltrúa Reykjavíkurlistans, sem samþykkt var í borgarstjórn 18. desember sl., um að veita 36 m.kr. til sérstakra verkefna til að bæta innra starf grunnskóla Reykjavíkur.

7. Lagt fram til kynningar bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. 13. janúar sl., ásamt ályktunartillögu borgarfulltrúa Reykjavíkurlistans, sem samþykkt var í borgarstjórn 18. desember sl., um að verja 1 m.kr. til eflingar tengsla skóla og menningarstofnana.

Formaður greindi frá bókagjöf sem Eiríkur Þorláksson forstöðumaður Listasafns Reykjavíkur hefur afhent öllum grunnskólum borgarinnar. Fræðsluráð þakkar þessa höfðinglegu gjöf Listasafns Reykjavíkur.

8. Lagt fram til kynningar bréf hagdeildar borgarinnar, dags. 9. jan. sl., varðandi breytingar á frumvarpstölum sem heyra undir fræðslumál.

9. Forstöðumaður rekstrarsviðs Fræðslumiðstöðvar lagði fram eftirfarandi tillögu um rekstrarfyrirkomulag Ísaksskóla: Fræðsluráð felur Fræðslumiðstöð Reykjavíkur að móta tillögur um framtíðarfyrirkomulag á styrkveitingum til Skóla Ísaks Jónssonar. Tillögurnar verði gerðar að höfðu samráði við skólanefnd og skólastjórnendur skólans. Tillögurnar verði lagðar fyrir fræðsluráð. Greinargerð fylgir tillögunni. Samþykkt samhljóða.

Svanhildur Kaaber óskaði bókað að hún ítrekaði fyrri afstöðu sína til einkaskóla.

10. Lagt fram minnisblað fræðslustjóra, dags. 16. janúar sl., varðandi erindi frá Ártúnsskóla um leigu á tölvubúnaði. Guðmundur Gunnarsson óskaði bókað að honum þætti of skammt gengið í erindinu. Hann teldi bæði skilvirkara og ódýrara að bjóða út kennslu á tölvur, auk þess að leigja tölvubúnað. Svanhildur Kaaber óskaði bókað að hún ítrekaði fyrri afstöðu sína til þátttöku foreldra í kostnaði vegna skólagöngu barna. Frestað.

11. Lagt fram til kynningar minnisblað deildarstjóra kennsludeildar, dags. 16. janúar sl., varðandi málefni drengs sem vistaður er á heimili á Suðurlandi og yfirlit yfir þá vinnu sem farið hefur fram á Fræðslumiðstöð vegna hans. Tekið saman í tilefni fjölmiðlaumræðu um málið. Fræðslustjóra falið að fylgja eftir tillögum til úrbóta sem settar eru fram á minnisblaðinu.

12. Lagt fram minnisblað, dags. í dag, frá Meyvant Þórólfssyni kennsluráðgjafa á Fræðslumiðstöð um stöðu mála í raungreinaátaki. Einnig sagði Pétur Orri Þórðarson skólastjóri Hvassaleitisskóla frá tengslum sínum við skóla í Singapúr og sýndi námsbækur í stærðfræði þaðan.

Meyvant Þórólfsson og Pétur Ori Þórðarson sátu fund undir þessum lið.

Anna Kristín Sigurðardóttir sat fund undir 9. og 10. lið.

13. Lögð fram eftirfarandi fyrirspurn frá fulltrúum Sjálfstæðisflokks: Á síðast liðnum vetri hættu 5 kennarar í Vogaskóla vegna samstarfsörðugleika milli þeirra og nýs skólastjóra og fleiri kvörtuðu undan samstarfsörðugleikum. Í fræðsluráði var kynnt að sérstaklega væri unnið að því að bæta samstarf yfirstjórnar og kennara, en í framhaldi af því yrði að meta næstu skref. Óskað er upplýsinga um stöðu þessa máls, hvernig hefur verið að málinu unnið og hver er árangur þess.

14. Lagðar fram umsóknir um almenna styrki til menntamála og tillögur Fræðslumiðstöðvar um afgreiðslu þeirra. Frestað.

Fundi slitið kl. 14.10

Sigrún Magnúsdóttir
Árni Sigfússon Guðmundur Gunnarsson
Hulda Ólafsdóttir Svanhildur Kaaber