Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

Leikskólaráð

Ár 2009, 11. febrúar kl. 14.00 var haldinn 51. fundur leikskólaráðs í fundarherbergi ráðsins að Fríkirkjuvegi 1. Fundinn sátu: Fanný Gunnarsdóttir varaformaður, Einar Örn Ægisson, Helga Kristín Auðunsdóttir, Ragnar Sær Ragnarsson, Oddný Sturludóttir, Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir og Hermann Valsson. Auk þeirra sátu fundinn Helga Þórðardóttir, áheyrnarfulltrúi F- lista, Þórunn Gyða Björnsdóttir, áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra, Halldóra Guðmundsdóttir, áheyrnarfulltrúi starfsmanna í leikskólum og Sigrún Helga Lund, varaáheyrnarfulltrúi samtakanna Börnin okkar. Jafnframt sátu fundinn Ragnhildur Erla Bjarnadóttir sviðsstjóri, Kolbrún Vigfúsdóttir, Ingunn Gísladóttir og Kristín Egilsdóttir.
Fundargerð ritaði Laura Bergs.

Þetta gerðist:

1. Kynning á verkefninu Jafnréttisfræðsla í leik- og grunnskólum.
a) Anna Kristinsdóttir, mannréttindastjóri Reykjavíkurborgar gerði grein fyrir aðdraganda verkefnisins og hvernig það snýr að Leikskólasviði.
b) Rebekka Jónsdóttir, leikskólastjóri og Hörður Svavarsson, aðstoðarleikskólastjóri Múlaborgar sögðu frá því hvernig verkefnið er unnið í leikskólanum.
Bókun leikskólaráðs:
Leikskólaráð þakkar þeim Önnu, Rebekku og Herði fyrir afar fróðlega kynningu og óskar þeim velgengni í áframhaldandi vinnu við verkefnið.

2. Erindi formanns leikskólaráðs til menntamálaráðuneytis þar sem óskað er eftir því að leikskólarnir Sólborg og Múlaborg fái styrk til þess að veita þjónustu og ráðgjöf á landsvísu. Lagt fram svar menntamálaráðuneytisins dags. 23. janúar sl.
Samþykkt leikskólaráðs:
Lagt er til að sviðsstjóra, í samráði við leikskólastjóra Sólborgar og Múlaborgar, verði falið að útfæra hvernig styrk menntamálaráðuneytisins til leikskólanna verði best varið og senda ráðuneytinu greinargerð um ráðstöfun fjárins að verkefninu loknu.

3. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks:
Lagt er til að framvegis verði skipulagsdagar í leikskólum Reykjavíkurborgar fimm talsins í stað fjögurra. Með slíkri ráðstöfun fækkar starfsmannafundum leikskóla utan hefðbundins vinnutíma. Þrír skipulagsdagar verði á sama tíma og starfsdagar starfsfólks eða frídagar nemenda í grunnskólum en með sameiginlegum starfsdögum í skólahverfum gefst aukið svigrúm til samstarfs og samvinnu í anda nýrra laga um leik- og grunnskóla. Tveir skipulagsdagar geta ýmist verið hálfir dagar eða heilir. Miðað er við að skipulagsdagarnir dreifist jafnt á skólaárið, verði þrír á haustönn og tveir á vorönn eða öfugt.
Samþykkt samhljóða.

4. Reglur um umsókn, innritun, gjaldtöku og innheimtu leikskóla lagðar fram að nýju vegna breytinga.
Reglurnar samþykktar með fjórum samhljóða atkvæðum að teknu tilliti til þeirra ábendinga sem fram komu.

5. Lagt fram minnisblað verkefnisstjóra sérkennslu um vinnu starfshóps um flutning barna með sérþarfir eða fatlanir á milli skólastiga.

6. Áheyrnarfulltrúi samtakanna Börnin okkar vakti athygli á því að aðalfundur samtakanna verður haldinn í Norræna húsinu fimmtudaginn 19. febrúar, kl. 20:00.
Fundurinn er opinn öllum.

7. Greint var frá því að næsti fundur leikskólaráðs verður haldinn fimmtudaginn 26. febrúar kl. 14.30 – 16.30. Að honum loknum eða kl. 17.00 verða styrkir leikskólaráðs afhentir í Ráðhúsi Reykjavíkur.

Fundi slitið kl. 16.00

Fanný Gunnarsdóttir

Einar Örn Ægisson Helga Kristín Auðunsdóttir
Ragnar Sær Ragnarsson Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir
Hermann Valsson Oddný Sturludóttir