Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

53. fundur

FRÆÐSLURÁÐ

Ár 1998, mánudaginn 30. mars, kl 12.00, hélt fræðsluráð Reykjavíkur fund í Ráðhúsi Reykjavíkur og var þetta 53. fundur ráðsins. Fundinn sátu: Sigrún Magnúsdóttir formaður, Guðmundur Gunnarsson, Guðrún Pétursdóttir, Hulda Ólafsdóttir og Kristín Dýrfjörð. Auk þeirra sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Hannes K. Þorsteinsson frá Kennarafélagi Reykjavíkur og Guðbjörg Björnsdóttir frá Samfok. Einnig sátu fundinn Ólafur Darri Andrason forstöðumaður fjármálasviðs og Steinunn Stefánsdóttir upplýsingafulltrúi sem ritaði fundargerð.

1. Lagðar fram, til kynningar, reglur um úthlutun ferðastyrkja til kennara við grunnskóla Reykjavíkur.

2. Lagt fram bréf foreldraráðs Melaskóla, dags. 23. mars sl., ásamt umsögn um skólastarf í skólans.

3. Lagt fram bréf skólastjóra Hólabrekkuskóla, dags. 20. mars sl., ásamt ljósmyndum sem sýna bágt ástand skólabyggingarinnar.
Vísað til byggingadeildar borgarverkfræðings.

4. Lagt fram bréf verðlaunanefndar um barnabókaverðlaun fræðsluráðs Reykjavíkur, dags. í dag, um veitingu verðlauna ársins 1998.

5. Lögð fram, til kynningar, fundargerð bygginganefndar skóla og leikskóla frá 13. mars sl.

6. Lagt fram bréf fræðslustjóra frá 24. mars sl. um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa fræðsluráði.

7. Lögð fram greinargerð forstöðumanns fjármálasviðs, dags. í dag, varðandi ákvörðun um úthlutun kennslumagns fyrir skólaárið 1998-1999.
Fræðsluráð samþykkir að fela Fræðslumiðstöð að úthluta kennslumagni (vikulegum kennslustundafjölda) fyrir skólaárið 1998-1999 samvæmt forsendum í greinargerð Ólafs Darra Andrasonar til fræðsluráðs dags. 27.03.1998. Úthlutunin er unnin samkvæmt stefnu fræðslu- og borgaryfirvalda sem mörkuð er í Starfsáætlun Fræðslumiðstöðvar og fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir árið 1998.

Fulltrúar meirihluta óskuðu eftir að eftirfarandi yrði bókað:
Fræðsluyfirvöld hafa stigið stórt skref á síðustu tveimur árum að auka faglegt sjálfstæði skóla með úthlutun á viðbótarkennslustundum til sveigjanlegs skólastarfs. Við höfum meira en tvöfaldað viðbótarstundir (skiptistundir) frá árinu 1996. Þessi aukning jafngildir um 75 nýjum kennarastöðum.
Með þessu erum við að búa skólana betur undir að mæta mismunandi þörfum nemenda og stuðla að sveigjanleika í skólastarfinu. Jafnframt að auðvelda skólum að skipta fjölmennum bekkjum í ákveðnum greinum.
Þá úthlutar fræðsluráð fjórum kennslustundum umfram ákvæði grunnskólalaga í lífsleikni í 7. og 8. bekk („Að ná tökum á tilverunni”).
Stuðningsfulltrúum fyrir yngstu nemendur hefur verið fjölgað um tæp 30 stöðugildi á síðustu tveimur árum og námsráðgjafar eru nú starfandi við alla grunnskóla með unglingastig og fjölmennustu unglingaskólarnir hafa námsráðgjafa í fullu starfi (14 stöðugildi alls frá næsta hausti). Þetta er mikil breyting á skömmum tíma.
Stöðugildum hefur því verið fjölgað sem svarar þremur til fjórum á hvern skóla til jafnaðar.
Gífurlegar framfarir hafa átt sér stað á síðustu árum í Reykjavík í þá átt að gera góðan skóla að betri skóla.

8. Kynnt teikning og líkan að Víkurskóla í Grafarvogi.
Sigurður Gústafsson arkitekt kynnti teikningarnar.

Guðmundur Pálmi Kristinsson og Sigurður Gústafsson sátu fund undir þessum lið.

9. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram eftirfarandi tillögu:
Leitað verði leiða til að nýta reynslu og þekkingu Herdísar Egilsdóttur við skipulagningu og framkvæmd kennslu í lífsleikni í grunnskólum Reykjavíkur.
Frestað

10. Kynnt starf verkefnisstjórnar um tónlistarskóla og skólahljómsveitir.
Sigrún Magnúsdóttir, formaður verkefnisstjórnarinnar, kynnti helstu hugmyndir um breytingar á fyrirkomulagi tónlistarfræðslu í Reykjavík.

11. Guðbjörg Björnsdóttir og Hannes K. Þorsteinsson lögðu fram eftirfarandi fyrirspurn:
Þegar ljóst var, sl. haust, að fjárhagsáætlun Fræðslumiðstöðvar 1997 stóðst ekki og stefndi í að útgjöld yrðu 1-2% hærri en áætlunin gerði ráð fyrir var gripið til sparnaðarráðstafana. Hverjum skóla var gert að draga úr kostnaði, þannig að upphaflegum markmiðum yrði náð.
Áheyrnarfulltrúar kennara og foreldra í fræðsluráði óska svara við eftirfarandi spurningum:
1. Hve háa upphæð var hverjum skóla gert að spara?
2. Hvaða sparnaður náðist í hverjum skóla og með hvaða ráðum náði skólinn þeim árangri?

12. Guðbjörg Björnsdóttir spurðist fyrir um málefni barns með lögheimili í Reykjavík sem vistast í öðru sveitarfélagi á vegum Félagsmálastofnunar Reykjavíkur og hefur ekki fengið þar skólavist.
Forstöðumaður fjármálasviðs upplýsti að ekki væri enn búið að leiða umrætt mál til lykta.

Fundi slitið kl. 14.10

Sigrún Magnúsdóttir
Guðmundur Gunnarsson Guðrún Pétursdóttir
Hulda Ólafsdóttir Kristín Dýrfjörð