Skóla- og frístundaráð
54. fundur
FRÆÐSLURÁÐ
Ár 1998, mánudaginn 20. apríl, kl 12.00, hélt fræðsluráð Reykjavíkur fund í Ráðhúsi Reykjavíkur og var þetta 54. fundur ráðsins. Fundinn sátu: Sigrún Magnúsdóttir formaður, Svanhildur Kaaber, Guðmundur Gunnarsson, Guðrún Pétursdóttir og Kristín Dýrfjörð. Auk þeirra sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Guðrún Sturlaugsdóttir og Hannes K. Þorsteinsson frá Kennarafélagi Reykjavíkur, Guðmundur Sighvatsson frá Skólastjórafélagi Reykjavíkur og Kristín Jónasdóttir frá Samfok. Einnig sátu fundinn Gerður G. Óskarsdóttir fræðslustjóri og Steinunn Stefánsdóttir upplýsingafulltrúi sem ritaði fundargerð.
1. Lagt fram erindi Péturs Blöndals, Ægis Dagssonar og Birgis Birgissonar, dags. 8. apríl sl., um að halda vímuefnalausa tónleika í Laugardalshöll eftir lok samræmdra prófa þann 28. apríl nk. Einnig kynnt niðurstaða lauslegrar könnunar á því hvort nemendum grunnskóla Reykjavíkur stæði eitthvað til boða á þessum degi og þá hvað það væri og hverjir stæðu fyrir því. Fræðslustjóra falið að ræða við forsvarsmenn ÍTR og skólastjórnendur um ofannefnt erindi.
2. Lagt fram bréf forstöðumanns fræðslu- og menningarsviðs Selfoss, dags. 15. apríl sl., þar sem greint er frá samþykkt bæjarstjórnar Selfoss um að samið verði við Reykjavíkurborg um skólagöngu drengs sem vistaður er á Suðurlandi á vegum Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu eftir að eftirfarandi yrði bókað: Við fögnum því að nokkur lausn hefur fengist á skólagöngu drengsins. Hins vegar teljum við 10 tíma skólagöngu á viku alls ófullnægjandi og ekki ásættanlega nema heilsa drengsins leyfi ekki lengri vist í skóla. Við leggjum áherslu á að þetta fyrirkomulag gildi aðeins til vors. Tryggt verði að frá hausti standi drengnum til boða sú skólavist sem hann á rétt á samkvæmt lögum. Fulltrúar Reykjavíkurlistans eru þakklátir bæjarstjórn Selfoss fyrir að hafa tekið á málefnum drengsins og taka jafnframt undir það sjónarnmið að öll börn sem tök hafa á eigi að njóta lögbundinnar skólagöngu.
3. Lögð fram beiðni um stuðning við rekstur Íslenska finnskuskólans, dags. 30. mars sl. Vísað til umfjöllunar í kennsludeild Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur.
4. Lögð fram til kynningar drög að viljayfirlýsingu milli Fræðslumiðstöðvar og ÍTR um aukið samstarf, ásamt drögum að samstarfssamningi milli sömu aðila varðandi Rimaskóla og félagsmiðstöðina Sigyn og Foldaskóla og félagsmiðstöðina Fjörgyn. Fræðsluráði líst vel á framkomnar hugmyndir um aukið samstarf en fulltrúar óska eftir að fá að lesa viljayfirlýsinguna og samstarfssamningana milli funda.
5. Lögð fram kostnaðar- og aðgerðaáætlun vegna Árs hafsins í grunn- og leikskólum borgarinnar. Guðrún Þórsdóttir kennsluráðgjafi kynnti áætlunina og samstarf við ýmsa aðila vegna Árs hafsins. Fræðsluráð styður mjög þær hugmyndir sem fram eru komnar varðandi verkefnið um Ár hafsins og hvetur framkvæmdanefnd til áframhaldandi vinnu á sömu braut.
Guðrún Þórsdóttir sat fund undir þessum lið.
6. Lagt fram bréf deildarstjóra starfsmannadeildar Fræðslumiðstöðvar, dags. í dag, þar sem greint er frá umsókn um stöðu skólastjóra Borgaskóla. Eini umsækjandi um stöðuna er Hilmar Hilmarsson kt. 250155-4179. Ekki er útilokað að fleiri umsóknir eigi eftir að berast með pósti.
7. Lagt fram yfirlit um kennaramál sem afgreidd hafa verið af starfsmannadeild Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur.
8. Formaður lagði fram eftirfarandi tillögu: Fræðsluráð samþykkir að beina því til borgarráðs að það veiti 5 m.kr. fjárveitingu til hönnunar nýs grunnskóla í Víkurhverfi, Víkurskóla. Samið verði við hönnuð tillögunnar sem hlaut þriðju verðlaun í samkepninni um Engjaskóla. Samþykkt.
9. Lagt fram erindi menningarmálanefndar Laugarnesskóla, ódagsett, varðandi fjárstuðning til að standa að grænlensku menningarkvöldi í skólanum. Synjað. Guðrún Pétursdóttir óskaði eftir að bókað væri að hún fagnaði þessu frumkvæði foreldra Laugarnesskóla þó ekki væri við þessar aðstæður hægt að styrkja verkefnið.
Fundi slitið kl. 14.15
Sigrún Magnúsdóttir
Svanhildur Kaaber Guðmundur Gunnarsson
Guðrún Pétursdóttir Kristín Dýrfjörð