Skóla- og frístundaráð
55. fundur
FRÆÐSLURÁÐ
Ár 1998, mánudaginn 11. maí, kl 12.00, hélt fræðsluráð Reykjavíkur fund í Ráðhúsi Reykjavíkur og var þetta 55. fundur ráðsins. Fundinn sátu: Sigrún Magnúsdóttir formaður, Hulda Ólafsdóttir, Svanhildur Kaaber, Guðmundur Gunnarsson og Guðrún Pétursdóttir. Auk þeirra sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Guðrún Sturlaugsdóttir og Hannes K. Þorsteinsson frá Kennarafélagi Reykjavíkur, Guðmundur Sighvatsson frá Skólastjórafélagi Reykjavíkur og Guðbjörg Björnsdóttir frá Samfok. Einnig sátu fundinn Gerður G. Óskarsdóttir fræðslustjóri, Ólafur Darri Andrason forstöðumaður fjármálasviðs, Arthur Morthens forstöðumaður þjónustusviðs, Guðbjörg Andrea Jónsdóttir forstöðumaður þróunarsviðs og Steinunn Stefánsdóttir upplýsingafulltrúi sem ritaði fundargerð.
1. Lagt fram bréf fræðslustjóra frá 7. maí sl. um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa fræðsluráði.
2. Formaður gerði grein fyrir stöðu mála í Vogaskóla í kjölfar fráfalls skólastjóra skólans.
3. Lagðar fram til kynningar fundargerðir byggingarnenefndar skóla og leikskóla frá 27. mars og 24. apríl sl.
4. Lagt fram svar Fræðslumiðstöðvar við spurningum áheyrnarfulltrúa kennara og foreldra frá 30. mars sl. um sparnaðaraðgerðir í skólum haustið 1997. Fyrirspyrjendur óska eftir að fá yfirlit yfir það til hvaða aðgerða var gripið, sundurliðað á skóla, sérstaklega óskuðu þeir eftir upplýsingum um hvort felld hefði verið niður kennsla vegna aðhaldsaðgerðanna.
5. Lagt fram yfirlit deildarstjóra kennsludeildar yfir stöðu skólanámskrárgerðar í grunnskólum Reykjavíkur, dags. í dag. Fræðsluráð lýsir ánægju með þá vinnu sem unnin hefur verið við skólanámskrárgerð í skólum og við mat á þeim á kennsludeild Fræðslumiðstöðvar. Þess er vænst að sú vinna sem nú hefur verið unnin, m.a. við gerð gátlista við skoðun skólanámskráa, muni leiða til þess að yfirlit yfir mat á skólanámskrám liggi í framtíðinni fyrir í upphafi skólaárs.
6. Lagt fram yfirlit Fræðslumiðstöðvar, dags. í dag, um nemendafjölda í grunnskólum Reykjavíkur næsta skólaár.
7. Lagðar fram tillögur sem uppi eru í verkefnisstjórn um rekstur tónlistarskóla og skólahljómsveita í Reykjavík, dags. í dag. Fræðsluráð Reykjavíkur samþykkir samhljóða að fela Fræðslumiðstöð, í samráði við verkefnisstjórn um rekstur tónlistarskóla og skólahljómsveita, að undirbúa gerð þjónustusamninga við tónlistarskóla í Reykjavík. Samningarnir verði gerðir til eins skólaárs og gildi fyrir skólaárið 1998-1999. Samningarnir taki til alls fjárhagsstuðnings við tónlistarskólana að öðru leyti en því að búinn verði til forfallasjóður til að mæta verulegum forföllum í minni skólunum.
8. Lagt fram minnisblað varðandi umsóknir um styrki úr þróunarsjóði grunnskóla Reykjavíkur, dags. 8. maí sl., ásamt yfirliti yfir umsóknir og tillögum að afgreiðslu þeirra. Afgreiðslu frestað.
9. Lagt fram minnisblað varðandi umsóknir um styrki úr ferðasjóði grunnskóla Reykjavíkur, dags. 8. maí sl., ásamt yfirliti yfir umsóknir og tillögum að afgreiðslu þeirra. Afgreiðslu frestað.
10. Lögð fram viljayfirlýsing milli Íþrótta og tómstundaráðs og Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur um að auka formlegt samstarf um þjónustu fyrir börn og unglinga í hverfum borgarinnar og í skólum. Samþykkt.
11. Lagt fram álit fræðslustjóra vegna ráðningar í stöðu skólastjóra við Borgaskóla. Frestað.
12. Lagt fram álit fræðslustjóra vegna ráðningar í stöðu skólastjóra Einholtsskóla til afleysinga í eitt ár. Samþykkt að mæla með því við borgarráð að Jóhanna Gestsdóttir, kt. 220953-4169, verði ráðin í starfið.
13. Lagt fram svar Fræðslumiðstöðvar við ósk fræðsluráðs frá fundi 9. mars sl. um upplýsingar um fjárveitingar til Tónskóla grunnskólanna í Grafarvogi á þessu skólaári og sl. ári.
14. Lagt fram yfirlit um kennaramál sem afgreidd hafa verið af starfsmannadeild Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur.
15. Áheyrnarfulltrúi foreldra lagði fram eftirfarandi fyrirspurn: Í hvaða skólum er felld niður kennsla á prófdögum? Upplýsingarnar óskast sundurgreindar eftir skólum, árgöngum þeirra og hvort um er að ræða miðsvetrarpróf, samræmd próf eða vorpróf.
Fundi slitið kl. 14.45
Sigrún Magnúsdóttir
Svanhildur Kaaber Guðmundur Gunnarsson
Guðrún Pétursdóttir Hulda Ólafsdóttir